Kæru vinir, kæra fólk.
Það er slagveður úti og viðvaranir vegna veðurs. En hér erum við samt. Á meðan við getum valið að leita skjóls, þá eru milljónir manna um heim allan sem hafa ekki þann möguleika.
Fyrsta friðargangan var gengin á Þorláksmessu árið 1980.
Í dag, 45 árum síðar, stöndum við frammi fyrir grimmum veruleika: yfir 120 milljónir manna um alla veröld hafa neyðst til að flýja heimili sín.
Þetta eru ekki tölur á blaði — þetta er fólk. Fjölskyldur. Börn. Líf sem hafa verið rifin úr rótum sínum og svipt sínum helgasta rétti.
Fólk á flótta eru helstu þolendur hernaðarhyggju, ofbeldis og óréttlætis í heiminum.
Þegar stríð er réttlætt, þegar virði mannslífa er vegið og metið eftir uppruna eða stöðu, þá er það alltaf fólkið sem hafði enga aðkomu að hernaðarbröltinu, sem ber þyngstu byrðina.
Að ganga hér saman í dag er ekki aðeins krafa um frið — það er yfirlýsing.
Yfirlýsing um að við neitum að sætta okkur við heim þar sem ofbeldi og harðstjórn er álitin styrkur og samkennd er gerð að veikleika.
Samstaða með fólki á flótta er samstaða með friði.
Og samstaða með friði er samstaða með réttlæti fyrir alla.
Við munum halda áfram að berjast fyrir friði.
Með orðum, með verkum og samstöðu.
Fyrir öll þau sem berjast fyrir friði, hér og annars staðar.
Og fyrir öll þau sem vita, innst inni og af heilum hug,
að engin manneskja er ólögleg.
Mannúð, heimsfriður og frelsi er fyrir okkur öll!!!
Askur Hrafn Hannesson