Ávarp á kertafleytingu á Akureyri

By 09/08/2009 Uncategorized

Á kertafleytingu á Akureyri, 6. ágúst 2009, flutti Brynhildur Þórarinsdóttir rithöfundur eftirfarandi ávarp:

Kæru vinir,

akur fleyt IÍ dag eru 64 ár liðin frá kjarnorkuárásinni á japönsku borgina Hiroshima. Þennan dag árið 1945 var gríðarlegum fjölda óbreyttra borgara fórnað til að binda endi á stríð sem þegar var á enda. Nærri tífaldur íbúafjöldi Akureyrar lést samstundis en um 80.000 dóu síðar af völdum sára eða sjúkdóma vegna geislunar frá sprengjunni. Þremur dögum síðar var sams konar sprengju varpað á borgina Nagasaki með þeim afleiðingum að 80.000 manns dóu strax, og létust tugir þúsunda létust síðar af völdum geislunar. Enn glímir fólk á þessum slóðum við afleiðingar geilsunarinnar.

Vígbúnaðarkapphlaupið hefur haft skelfileg áhrif á veröldina. Sífellt fleiri ríki reyna að koma sér upp kjarnorkuvopnum og eldri kjarnorkuveldi þverskallast við að eyða birgðum sínum. Þau sem fyrst komu sér upp slíkum gereyðingarvopnum telja sig þar með hafa öðlast einkarétt á þeim. Hverslags vitleysa er þetta, auðvitað á að eyða þessum vopnum, hvaða ríki sem á þau, hvort sem það er Íran, Norður-Kórea, Indland, Pakistan, Kína, Ísrael, Rússland, Frakkland, Bretland eða Bandaríkin.

akur fleyt III 02En ábyrgðin hvílir að miklu leyti á Bandaríkjamönnum sem einir hafa beitt kjarnorkuvopnum í hernaði. Nýr forseti Bandaríkjanna flytur því von um betri heim þegar hann talar fyrir kjarnorkuafvopnun – svo fremi hans þjóð sé tilbúin að taka þátt í slíkri afvopnun.

Eyðingarmáttur kjarnorkuvopnanna er svo óhugnanlegur að mann setur hljóðan yfir því að til séu leiðtogar sem ekki vilja losan heiminn undan þessari ógn.

Mannfallið í Hiroshima og Nagasaki minnir okkur ekki síður á hversu berskjaldaðir óbreyttir borgarar eru í stríðsleik leiðtoganna – manna sem aldrei horfast sjálfir í augu við börnin sem þeir skipa að skuli deyja. 64 árum síðar eru óbreyttir borgarar enn helstu skotmörkin í stríði, fólk eins og við sem ekkert hefur til saka unnið annað en að fæðast og lifa í röngu landi.

Ekki sér til dæmis fyrir endann á átökunum í Afganistan sem verða sífellt blóðugri. Í sumar hafa borist ótal fréttir af mannfalli í herliði Nató, fjöldi Breskra, danskra, þýskra og spænskra hermanna hefur fallið frá innrás andaríkjamanna 2001. Sumir þeirra varla komnir af unglingsaldri, 18 ára krakkar sem með réttu ættu enn að vera í skóla en eru í stað þess látnir bera byssur.

akur fleyt IVFréttirnar af vestrænu krökkunum eru meira áberandi en fréttirnar af afgönsku krökkunum sem dáið hafa langt fyrir aldur fram. Alls staðar þar sem er barist eru það nefnilega börnin og unglingarnir sem líða mest, þau eru svipt æskunni, sakleysinu og þar með framtíðinni. Sum átök virðast hreinlega endlaus og setja mark sitt á kynslóð eftir kynslóð, – bara í byrjun þessarar viku misstu 19 palenstínsk börn heimili sitt þegar ísraelski herinn bar fjölskyldur þeirra út.

Við stóðum hér á sama tíma í fyrra, í blússandi góðæri, og fleyttum kertum í þágu friðar og kjarnorkuafvopnunar í heiminum. Margt hefur gengið á síðan og sumir eiga vafalaust erfitt með að hugsa út fyrir landsteinana þegar erfiðleikar steðja að íslenskum heimilum. Við búum sem betur fer ekki við stríðsástand hérna, Ísland er herlaust land og á að vera það áfram. Við getum þakkað fyrir að okkar börn eiga ekki yfir höfði sér herskyldu við 18 ára aldur, við getum þakkað fyrir að þau sem eru auralaus neyðast ekki til að ganga í herinn til að fá skólagjöld greidd.

akur fleyt IISamt sem áður mun dynur frá herþotum rjúfa kyrrðina í firðinum okkar næstu dagana. Það er með ólíkindum ógeðfellt að horfa upp á þessar heræfingar á sama tíma og minnst er fórnarlamba loftárásanna á Hiroshima og Nagasaki.

Grimmdarlegir stálfuglarnir minna okkur þó á það sem á þessari stundu er mikilvægast. Að venjulegt fólk hefur ekkert að gera við herþotur og á aldrei skilið að lenda í loftárásum. Hiroshima og Nagasaki hefðu allt eins getað verið Hafnarfjörður og Neskaupsstaður eða Houston og New York. Alls staðar býr fólk eins og við sem þráir frið og fyrirlítur hernað og þá viðbjóðslegu slátrun barna, kvenna og karla sem kjarnorkuvopnin hafa í för með sér.

Við hugsum því með hryllingi 64 ár til baka þegar við segjum: Aldrei aftur Hiroshima, aldrei aftur Nagasaki.