Ávarp á kertafleytingu

By 07/08/2014 August 15th, 2014 Uncategorized

Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur flutti meðfylgjandi ávarp á kertafleytingunni á Tjörninni þann 6. ágúst.

Þegar manneskja deyr hverfur með henni heill heimur. Það hverfur ákveðið göngulag sem er ekki alveg eins hjá neinum öðrum, einhver sérstök handarhreyfing, viss svipbrigði, sérstakur hugsunarháttur, ákveðið orðalag, einhver sérviska, kækir, þetta ákveðna bros; sérstök þjáning hverfur og sérstök hamingja; þegar manneskja deyr hljóðnar um leið sérstakur hlátur í veröldinni eða grátur, sérstök atvik, eitthvert samhengi og eftir sitja aðeins minningar samferðafólks, því að þegar manneskja deyr raknar um leið upp flókið net samskipta við annað fólk, vonir og væntingar og kenndir til þeirra hverfa,tilgangur bundinn þeim. Það er ekki til of mikils mælst á þessari gnægtajörð að allar þær sérstöku manneskjur sem í heiminn koma fái notið tiltekinna lágmarksréttinda til jafns við aðra: hafi í sig og á og njóti verka sinna, geti athafnað sig í boðlegum kringumstæðum, fái að elska eins og eðlið býður hverjum og trúa á þann guð sem maður skynjar – eða trúa engu, eigi kost á því að geta orðið besta hugsanlega útgáfan af sér, – það er ekki til of mikils mælst að manneskja sem kemur í þennan heim fái að lifa, því að rétturinn til lífsins er öðrum rétti æðri, rétturinn til að fá að lifa eins og manni hefur verið mældur tími til og deyja svo þegar það er orðið tímabært.

Sá sem brýtur gegn þeim rétti annarra, að fá að fara á sinni mældu dauðastund, ryðst óboðinn inn í örlög annarra, verður réttindalaus gerandi í lífi ótal fólks og gerir sig sekan um dauðasynd, brot gegn helgasta rétti tilverunnar, og gildir þá einu hvort hann hefur líf einnar manneskju á samviskunni eða líf hundraða, jafnvel þúsunda – og gildir líka einu þó að svo illa sé komið fyrir viðkomandi morðingjum að þeir telji það nauðsynlegan part af rétti sínum til sjálfsvarnar einsog það er kallað, að drepa fjögur hundruð börn, eins og nú síðast gerðist á Gasa.

Við minnumst hér hinna látnu. Við heiðrum minningu þeirra,hvers og eins; við óskum þess að þau hvíli í friði, hvert og eitt, en við munum aldrei sætta okkur við það hvernig dauða þeirra bar að höndum; það var rangt og það má aldrei endurtaka sig og það á að berjast gegn þeim öflum í heiminum sem þrífast á stríði og ala á stríðsátökum og það á að gera þá fortakslausu kröfu til samfélags þjóðanna að koma í veg fyrir fjöldamorð af því tagi sem 20. öldin var svo full af og ekkert lát er á enn.

Þessi stund er helguð því fólki sem var hrifið á brott vegna fáránlegra og kaldrifjaðra stríðsaðgerða þar sem ruðst var inn í örlög þess.Við minnumst fórnarlamba hryðjuverka Bandaríkjanna í Hiroshima og Nagasaki með virðingu og sorg yfir því að þau skyldu ekki fá að lifa því lífi sem þeim var ætlað að lifa þegar þau komu í heiminn heldur var ljós þeirra slökkt fyrirvaralaust af myrkrahöfðingjunum. Við minnumst þeirra sem myrt voru á Gasa nú nýlega og eru enn í fersku minni okkar. Við minnumst þeirra sem myrt eru í Sýrlandi og Súdan. Við minnumst allra þeirra sem myrt hafa verið í nafni hugmynda og hugsjóna en í krafti haturs og heimsku, græðgi, yfirgangs, rasisma og morðæðis og við áminnum okkur um að standa alltaf og alls staðar vörð um þau gildi og verðmæti sem hvetja til skilnings en ekki vanþekkingar, umburðarlyndis en ekki dómhörku, samræðu en ekki valdbeitingar, samúðar en ekki andúðar, kærleika en ekki haturs.

Við komum hér saman til að minnast allra ljósanna sem slökkt voru fyrirvaralaust, af grimmd og skammsýni stríðsherra sem misbeittu valdi sínu til að fremja ólýsanlega glæpi gagnvart óumræðilegum fjölda fólks, sem allt átti sér nafn og sögu, allt átti sér líf í heiminum og var allt, hvert með sínum hætti, ljós heimsins. Við tendrum ljósin hér og ýtum þeim á flot í vatninu. Hverju ljósi fylgir hugsun og í hverri hugsun býr ljós. Ljósin á á tjörninni slokkna eitt og eitt en hugsjónir okkar um réttlæti og frið manna á milli loga áfram og eru ljós heimsins