All Posts By

Stefán Pálsson

Og þá voru eftir sjö…

By Uncategorized

Skjaldarmerki GardsÁ dögunum bárust þær gleðilegu fregnir að sveitarstjórnin í Garði hafi samþykkt friðlýsingu sveitarfélagsins fyrir kjarnorkuvopnum. Garðurinn er þar með fyrsta sveitarfélagið á Suðurnesjum sem stígur þetta skref.

Hin fjögur sveitarfélögin á Reykjanesskaga: Grindavík, Reykjanesbær, Sandgerði og Vogar hafa enn ekki séð ástæðu til slíkrar samþykktar. Auk þeirra eru Garðabær, Skútustaðahreppur & Grímsnes- og Grafningshreppur á móti.

Því verður illa trúað að afstaða sveitarstjórnarmanna á þessum sjö stöðum sé í samræmi við vilja íbúanna og er óskandi að þeir sjái að sér og endurskoði afstöðu sína hið fyrsta. Markmiðið er að hvert einasta sveitarfélag á Íslandi hafi gert samþykktir af þessu tagi.

Fróðleg mynd

By Uncategorized

terrorister03Anarkistabókasafnið Andspyrna og SHA standa fyrir kvikmyndasýningum á þriðjudögum í marsmánuði. Sýndar verða vandaðar heimildarmyndir um þjóðfélagsleg málefni og hefjast sýningar kl. 18.

Í tengslum við myndasýningarnar býður Andspyrnu-fólk upp á grænmetisrétti gegn vægu verði, en tekjurnar renna m.a. til að greiða lögfræðikostnað danskra anarkista sem mótmælt hafa lokum Ungdomshuset í Kaupmannahöfn.

Myndin á þriðjudagskvöldið er Terrorister – en film om dom dömda. Hún er sænsk, með enskum texta og fjallar um ungmenni sem handtekin voru og hlutu dóma eftir fræg and-hnattvæðingarmótmæli í Gautaborg fyrir nokkrum árum. Rætt er við mótmælendur og rakið hvernig stjórnmálaþátttaka þeirra byrjaði.

* * *

Meðan á sýningu myndarinnar stendur, geta vinnufúsar hendur varið hluta orku sinnar í að líma á Dagfara, fréttabréf SHA, sem sendur verður út til félagsmanna í kjölfarið.

Rétt er því að minna félagsmenn sem flutt hafa búferlum á að tilkynna breytt aðsetur, t.d. með því að senda póst á sha@fridur.is

Göngugarpar í röðum félagsmanna eru sömuleiðis hvattir til að gera sér ferð í Friðarhús á þriðjudagskvöldið og sækja Dagfara til útburðar í sínu hverfi. Póstburðargjöld eru svívirðilega há og íþyngjandi fyrir starfsemi félagsins. Það munar því um hvert blað sem ekki þarf að senda með póstinum.

Alþjóðasamtök herstöðvaandstæðinga stofnuð

By Uncategorized

nobases Á ráðstefnu í Quito í Ekvador 5.-9. mars var stofnað alþjóðlegt bandalag til baráttu gegn erlendum herstöðvum. Á ensku heitir þetta bandalag fullum stöfum International Network for the Abolition of Foreign Military Bases en í daglegu tali verður það nefnt No Bases Network. Á íslensku mætti einfaldlega kalla það Alþjóðasamtök herstöðvaandstæðinga. Hugmyndin að þessum samtökum varð til í kjölfar innrásarinnar í Írak fyrir fjórum árum og fyrst sett fram á ráðstefnu friðarhreyfinga í Djakarta í Indónesíu í maí 2003. Þá var settur upp póstlisti á netinu sem Samtök herstöðvaandstæðinga hafa átt aðild að og í reynd hafa þessi samtök verið að mótast síðan. Á ráðstefnunni í Quito voru um 1000 manns frá 30 löndum. SHA gátu því miður ekki sent fulltrúa en sendu kveðju á ráðstefnuna og munu starfa með þessu alþjóðlega bandalagi gegn erlendum herstöðvum hvarvetna í heiminum.

Nánari fréttir frá ráðstefnunni og stofnun samtakanna munu birtast innan tíðar hér á Friðarvefnum.

Sjá nánar: www.no-bases.org og Inter Press Service

8. mars, alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Munið fundinn í Ráðhúsi Reykjavíkur klukkan fimm

By Uncategorized

clarazetkin Alþjóðlegur baráttudagur kvenna var fyrst haldinn hátíðlegur meðal sósíalískra kvenna í Danmörku, Þýskalandi, Austurríki og Sviss þann 19. mars árið 1911. Hugmyndina að sérstökum baráttudegi kvenna átti Clara Zetkin, þýsk kvenréttindakona og sósíalisti, sem bar hana fyrst upp á fundi Alþjóðasamtaka sósíalískra kvenna sem haldinn var í Kaupmannahöfn árið 1910.

Fundurinn mun hafa verið haldin í því húsi sem seinast var kallað Ungdomshuset og var frægt nú á dögunum og svo rifið til grunna.

Nánari upplýsingar um sögu dagsins má finna á vef Kvennasögusafnsins.

Dagskrá fundarins

Róttæklingabíó á þriðjudegi

By Uncategorized

Alla þriðjudaga í febrúar standa SHA og bókasafnið Andspyrna fyrir sýningum á heimildarmyndum í Friðarhúsi. Um er að ræða myndir sem fjalla um stjórnmálabaráttu í ýmsum löndum.

Þriðjudagsbíó róttæklingsins

By Uncategorized

Næstu þriðjudaga munu SHA og róttæka bókasafnið Andspyrna standa fyrir kvikmyndasýningum í Friðarhúsi á þriðjudögum.

Þriðjudaginn 6.mars kl. 18 verður sýnd heimildarmyndin “Kókoshnetubyltingin”, sem segir frá hópi íbúa Papúa Nýju Gíneu, sem reis upp gegn ofríki erlends stórfyrirtækis, Rio Tinto og unnu frægan sigur. Allir velkomnir.

8. mars: fundur í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur kl. 17

By Uncategorized

8mars 01 Alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti.

Opinn fundur fimmtudaginn 8.mars 2007 kl.17
í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur.

Virkjum kraft kvenna.

Fundarstjóri: Halldóra Friðjónsdóttir, formaður BHM

Harpa Njálsdóttir, félagsfræðingur
Hvað þarf til að rétta hlut fátækra kvenna?

Ezter Toth, í stjórn Samtaka kvenna af erlendum uppruna
Friður og jafnrétti á heimilum.

Halldóra Malín Pétursdóttir, leikkona – atriði úr einleiknum “Power of Love”.

Guðríður Ólafsdóttir, félagsmálafulltrúi Öryrkjabandalags Íslands
Jöfnun tækifæra.

Gunnar Hersveinn, heimspekingur
Friðarmenning.

Tónlist:
Áshildur Haraldsdóttir, flautuleikari

María Kristjánsdóttir, leikstjóri
Frelsi til að vera fátækur.

Pálína Björk Matthíasdóttir
Starf Grameen bankans í þágu fátækra kvenna.

Ljóðalestur:
Guðrún Hannesdóttir, handhafi Ljóðstafs Jóns úr Vör 2007.

María S. Gunnarsdóttir, form. Menningar- og friðarsamtaka MFÍK
Jöfnuður – jafnrétti – jafnræði.

Harpa Stefánsdóttir og Ármann Hákon Gunnarsson sýna ljósmyndir í salnum.

Menningar- og friðarsamtökin MFÍK, Amnesty International, Bandalag háskólamanna, BSRB, Félag ísl.hjúkrunarfræðinga, Kennarasamband Íslands, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennahreyfing Öryrkjabandalags Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Samtök hernaðarandstæðinga, Samtök kvenna af erlendum uppruna, Samtök um kvennaathvarf, SFR – Stéttarfélag í almannaþjónustu, Sjúkraliðafélag Íslands, STRV – Starfsmannafélag Reykajvíkurborgar, Stéttarfélag ísl. félgasráðgjafa, Upplýsing – fél. bókasafns- og upplýsingafræðinga, Þroskaþjálfafélag Íslands.