All Posts By

Stefán Pálsson

Hverju svara stjórnmálaflokkarnir? – II. hluti, Ísland og NATO

By Uncategorized

no natoÍ aðdraganda Alþingiskosninga 2007 sendi miðnefnd SHA spurningalista til íslensku stjórnmálaflokkanna, þar sem þeir voru inntir eftir afstöðu sinni til öryggis- og friðarmála. Ekki bárust svör frá Sjálfstæðisflokki og Frjálslyndum.

1. Spurning
Hver er afstaða framboðsins til veru Íslands í Nató eða öðrum hernaðarbandalögum? Er framboðið hlynnt eða andvígt úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu?

Svar Framsóknarflokksins (Sæunn Stefánsdóttir, ritari Framsóknar, svaraði fyrir hönd flokksins):

Framsóknarflokkurinn er hlynntur veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu. Bandalagið hefur stækkað ört á síðustu árum og tekið að sér verkefni sem stuðla að friði og öryggi. Framsóknarflokkurinn vill efla þátttöku Íslands í borgaralegum verkefnum á vegum bandalagsins, sem eru síst viðaminni en þau hernaðarlegu.

Svar Íslandshreyfingarinnar:
Íslandshreyfingin – lifandi land er andvígt úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu. Aðild að alþjóðasamtökum sem tryggja frið og öryggi fyrir aðildarlönd er nauðsynleg smáríkjum. Aðild að Atlantshafsbandalaginu tryggir líkt og varnarsamningurinn við Bandaríkin öryggi landsins og gerir Íslandi kleyft að hafa rödd í varnarsamstarfi þjóða við norðanvert Atlantshaf. Þó er nauðsynlegt að Ísland sem aðildarríki sé í fararbroddi þeirra ríkja innan NATO sem vilja fara varlega í friðargæslu bandalagsins utan Evrópu og má þar nefna friðargæslu þess í Afganistan sem gæti reynst því skeinuhætt.

Svar Samfylkingarinnar:

Við erum hlynnt veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu.

Svar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs:

Vinstrihreyfingin – grænt framboð er eindregið fylgjandi úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu (NATO) og hefur það á stefnuskrá sinni að Íslandi standi utan hvers kyns hernaðarbandalaga. Það er grundvallaratriði í hugmyndafræði Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs að hernaðarbandalög ýti frekar undir ófrið og átök en að sporna gegn slíku. Mannkynssagan er vörðuð dæmum um slík bandalög sem mögnuðu upp spennu, leiddu til baráttu um áhrif utan bandalagsríkjanna sjálfra og ýttu undir vígbúnaðarkapphlaup af einhverjum toga. Þær kröfur sem NATO gerir nú til nýrra aðildarríkja í Mið- og Austur-Evrópu um útgjöld til vígvæðingar eru áhyggjuefni, bæði vegna áhrifanna á alþjóðastjórnmál og lífskjör íbúanna, sem glíma í sívaxandi mæli við fátækt og hafa víða ekki aðgang að grundvallarþjónustu í heilbrigðismálum.

Þá verður ekki litið framhjá þeirri óheillavænlegu breytingu sem orðið hefur á eðli NATO frá því á dögum ógnarjafnvægisins sem ríkti fram um 1990. Það hefur í seinni tíð gengið fram sem árásargjarnt hernaðarbandalag, fyrst á Balkanskaga og síðan í Afganistan, þar sem það tók beinlínis við ábyrgð á hernaðinum af Bandaríkjastjórn.

Hitt hefur því miður ekki breyst að NATO áskilur sér enn þann dag í dag rétt til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði í átökum, og sýnir það kannski betur en flest annað hversu úrelt, óþarft og beinlínis hættulegt þetta hernaðarbandalag er – bæði sjálfu sér og öðrum.

Rússar og NATO í nýtt kalt stríð?

By Uncategorized

natoexpansion Rússar og NATO í nýtt kalt stríð? Þetta er fyrirsögn á fréttasíðum Textavarps Ríkisútvarpsins í dag. Tilefnið er að Rússlandsstjórn sagðist í dag ekki ætla að tilkynna aðildarríkjum NATO né öðrum ríkjum um herflutninga innan eigin landamæra, eins og kveðið er á um í afvopnunarsamningi um hefðbundinn herafla í Evrópu frá 1990, og Pútin, forseti Rússlands, hefur tilkynnt að afvopnunarsamningurinn sé úr gildi fallinn.

Þetta er svar við ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að koma fyrir gagnflaugakerfi í Tékklandi og Póllandi. Pútín segir flaugarnar vera beina ógn við þjóðaröryggi Rússlands en Bandaríkjastjórn segir tilganginn að verjast hryðjuverkamönnum og ríkjum eins og Íran.

Þetta gerist á sama tíma og Rússar gagnrýna eistnesk stjórnvöld harðlega og hafa stöðvað útflutning á olíu og kolum til Eistlands umdeilds vegna flutnings á minnismerki í Tallín um sovéska hermenn í seinni heimstyrjöldinni.

Rússum ögrað
Það er auðvitað stóralvarlegt mál ef Rússar tilkynna það að afvopnunarsamningurinn frá 1990 sé fallin úr gildi. En eins og fram kemur í frétt RÚV hefur þetta sinn aðdraganda. Í rauninni hafa Rússar mátt sætt sig við ótrúlega ögrun af hendi Bandaríkjanna og NATO undanfarinn áratug. NATO hefur stækkað til austurs, frá því 1999 hafa tíu fyrrverandi austantjaldslönd gengið í NATO, þar á meðal þrjú fyrrverandi Sovétlýðveldi, og þrjú eru í inngönguferli. Tvö fyrrum Sovétlýðveldi, Úkraína og Georgía, eru í ferli sem miðar að inngöngu í NATO, þótt ekki sé enn um beinar aðildarviðræður að ræða, og önnur fjögur, Aserbaídsjan, Armenía, Kasakstan og Móldóva, hafa samstarf við NATO sem er þróað áfram með formlegum hætti.

Þá hafa Bandaríkin margvíslegt hernaðarlegt samstarf við þessi ríki, þar á meðal herstöðvar eða aðra hernaðarlega aðstöðu. Hér er auðvitað gífurleg breyting frá tímum kalda stríðsins þegar öll Austur-Evrópa var milli NATO og Sovétríkjanna. Nú er NATO komið upp að landamærum Rússlands norðan við Hvíta-Rússland og með náið samstarf við nágrannaríki Rússlands þar fyrir sunnan og austan, í sumum tilvikum með stefnu þeirra á aðild. Rússland hefur dregið allt herlið sitt út úr gömlu austantjaldsríkjunum og mörgum fyrrum Sovétlýðveldum og er að draga það út úr öðrum, en um leið og jafnvel áður koma NATO og Bandaríkin með sitt herlið eða hernðarráðgjafa í staðinn.

Árið 2002 sögðu Bandaríkin einhliða upp ABM-samningnum frá 1972 um takmörkun gagnflaugakerfa, samning sem þótti mjög mikilvægur í afvopnunarviðleitninni, og síðan hafa Bandaríkin verið að byggja upp gagnflaugakerfi í samráði við NATO og eru m.a. að koma upp aðstöðu fyrir gagnflaugar í Póllandi og Tékklandi.

En það er ekki nóg með að NATO hafi stækkað upp að landamærum Rússlands, NATO er líka farið að starfa utan síns svæðis, sem það gerði ekki á tímum kalda stríðsins, fyrst á Balkanskaganum á tíunda áratugnum, gerði síðan innrás í Júgóslavíu gegn vilja Rússa 1999 og stendur svo í hernaði í Afganistan og Írak auk ýmiskonar annarrar starfsemi.

Rússum er boðið upp á ýmiskonar samstarf og samráð, svo sem gegnum Samstarf í þágu friðar (Partnership for Peace – PfP) og fleira, og hafa þegið það. En allt er þetta á forsendum NATO og Bandaríkjanna. Samstarf í þágu friðar þröngvar sér inn á vettvang Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) en í stað þess að allir koma jafnir og á samskonar forsendum að ÖSE er PfP algerlega á forsendum Bandaríkjanna og NATO. Auðvitað er öllum sjálfstæðum ríkjum frjálst að ganga í NATO ef NATO vill taka við þeim. En það breytir því ekki að Rússum er ekki aðeins ögrað heldur eru þeir niðurlægðir og sáttfýsi þeirra og vilja til samvinnu er mætt með útþenslu NATO og auknum vígbúnaði í vestri. Þannig má segja að Bandaríkin og NATO hafi allt frá lokum kalda stríðins verið að búa í haginn fyrir nýtt kalt stríð.

Einar Ólafsson
Mynd: http://germanhistorydocs.ghi-dc.org/map.cfm?map_id=603

Hverju svara stjórnmálaflokkarnir – I.hluti, varnarsamningur Íslands og BNA

By Uncategorized

kosningarÍ aðdraganda Alþingiskosninga 2007 sendi miðnefnd SHA spurningalista til íslensku stjórnmálaflokkanna, þar sem þeir voru inntir eftir afstöðu sinni til öryggis- og friðarmála.

Svör bárust frá fjórum framboðum. Frjálslyndi flokkurinn benti á stefnuskrá sína en sagðist ekki hafa tíma til að svara spurningunum. Engin viðbrögð bárust frá Sjálfstæðisflokki þrátt fyrir ítrekanir. Svörin við spurningalistanum hafa þegar birst í Dagfara, en verða sömuleiðis sett hér á Friðarvefinn á næstu dögum.

1. Spurning
Hver er afstaða framboðsins til varnarsamnings Íslands og BNA? Er framboðið hlynnt því eða andvígt að samningnum verði sagt upp?


Svar Framsóknarflokksins (Sæunn Stefánsdóttir, ritari Framsóknar, svaraði fyrir hönd flokksins):

Framsóknarflokkurinn er andvígur því að varnarsamningi Íslands og
Bandaríkjanna frá árinu 1951 verði sagt upp. Varnarsamningurinn við Bandaríkin hefur þjónað tilgangi sínum í áranna rás og eru varnarskuldbindingar Bandaríkjanna, sem í samningnum felast, sérstaklega mikilvægar herlausri þjóð. Það er frumskylda stjórnvalda að gera ráðstafanir svo verja megi land og borgara þess gegn utanaðkomandi vá. Varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna gegnir þar veigamiklu hlutverki og með undirritun varnarsamkomulags milli ríkjanna í október á síðasta ári var gildi hans enn áréttað.

Svar Íslandshreyfingarinnar:

Íslandshreyfingin Lifandi land er andvíg því að segja upp varnarsamningnum við Bandaríkin. Varnarsamningurinn hefur frá 1951 verið trygging fyrir öryggi Íslands á viðsjárverðum tímum og sannaði gildi sitt með öflugu eftirliti Bandaríkjamanna í lofthelgi Íslands á dögum kalda stríðsins. Gildi varnarsamningsins hefur ekki minnkað þótt að þörfin fyrir veru bandarískra herflugvéla hér á landi hafi lokið eftir fall Sovétríkjanna og lok kalda stríðsins og herstöðinni í Keflavík hafi verið lokað. Það er skylda íslenskra stjórnvalda að tryggja öryggi landsmanna og þótt að í augnablikinu séu ekki til staðar neinar áþreifanlegar ógnir frá hendi annars ríkis þá geta veður skipast fljótt á lofti.

Svar Samfylkingarinnar:

Við höfum ekki lagt til uppsögn varnarsamningsins.

Svar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs:

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafði það frá upphafi á stefnuskrá sinni að Ísland yrði herlaust land og engar herstöðvar skyldu leyfðar í landinu. Nú hefur það góðu heilli gerst að Bandaríkjaher er horfinn af landi brott. Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur rétt að kasta fyrir róða öllum leifum þess úrelta ástands sem grundvallaðist á svokölluðum „varnarsamningi” við Bandaríkin, og þá ekki síst plagginu sjálfu.

Vera hersins á Íslandi jók aldrei á öryggi þess, heldur var hann þvert á móti skotmark, hvort heldur litið er til tímabilsins fyrir eða eftir 1990. Tilraunir ríkisstjórna síðustu 15 ára til að halda í herstöðina á Miðnesheiði og lengja lífdaga áðurnefnds samnings, voru Íslandi ekki til framdráttar og leiddu á endanum til eins dapurlegasta atburðar sem orðið hefur í utanríkismálum landsins frá lýðveldisstofnun, þ.e. stuðnings ríkisstjórnarinnar við innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak.

1. maí kaffi SHA

By Uncategorized

kaffibolliMunið 1. maí kaffi Samtaka hernaðarandstæðinga í Friðarhúsi frá kl. 11. Setið verður að spjalli fram að kröfugöngu, sem leggur af stað frá Hlemmi kl. 13:30.

Kröfuspjaldasmiðja Friðarhúsi mánudagskvöld kl. 8

By Uncategorized

raudurfani Samtök herstöðvaandstæðinga, nú hernaðarandstæðinga (SHA), hafa löngum verið áberandi með boðskap sinn fyrir friði og gegn heimsvaldastefnu á baráttudegi verkalýðsins, 1. maí. Það hefur farið í taugarnar ýsmum, en við látum okkur það í léttu rúmi liggja enda er augljóst að hernaður og heimsvaldastefna koma fyrst og fremst niður á hinni vinnandi alþýðu og auk þess veit það hver sá sem hefur eitthvað kynnt sér sögu verkalýðshreyfingarinnar á heimsvísu að barátta fyrir friði hefur alltaf verið hluti af baráttu hennar, þó svo hún hafi stundum þurft að taka upp vopn til að verjast.

fridarfani2 Þessi barátta er ekki síður brýn nú en fyrr. Þess vegna stefnum við að því að gera hana áberandi 1. maí. Þöggun þessa málefnis nú í aðdraganda kosninganna kallar enn frekar á að við minnum á okkur nú rétt fyrir kosningar.

Þess vegna er ætlunin að koma saman í Friðarhúsinu á horni Njálsgötu og Snorrabrautar mánudagskvöldið 30. apríl kl. 8 og útbúa kröfuspjöld til að bera í kröfugönginni í Reykjavík 1. maí. Félagar í SHA og aðrir áhugasamir eru hvattir til að koma og leggja hönd á plóginn. Málning verður á staðnum en ekki væri verra ef menn gripu með sér pensil.

Svo minnum við á hið hefðbundna morgunkaffi SHA 1. maí. Það verður að sjálfsögðu í Friðarhúsinu, húsið verður opnað kl. 10:30, samkoman hefst formlega kl. 11 en húsið verður auðvitað opið og kaffi á könnunni framundir það að fylkt verður liði undir rauðum fánum og kröfum um bætt kjör og frið í heimi.

Hvert er verkefni NATO-fundarins í Osló?

By Uncategorized

folkvord erling2 Eftir Erling Folkvord borgarfulltrúa Rauða kosningabandalagsins í Osló

Aths. þýðanda: Eftirfarandi grein birtist í norska dagblaðinu Dagbladet 26. apríl 2007 í tilefni af utanríkisráðherrafundi NATO, sem var haldinn þar dagana 26.-27. apríl. Af þessari grein Folkvords sést berlega hversu nauðsynlegt er að segja skilið við NATO. Jafnvel þótt hér verði mynduð rauðgræn ríkisstjórn eftir kosningar, þá verður hún samábyrg vegna stríðsaðgerða og glæpaverka NATO svo lengi sem hún gengst ekki fyrir úrsögn Íslands úr NATO.

Þegar rauðgrænu utanríkis- og varnarmálaráðherrarnir okkar hitta nú sína stríðandi kollega í Osló eru liðin átta ár síðan NATO fór fyrst í stríð sem NATO.

NATO-ráðið, sem nú er samankomið á Oslo Plaza, kom saman vorið 1999 meðan sprengjurnar eyðilögðu Radio Belgrad. Á þeim fundi samþykkti það nýja hernaðaráætlun sem markaði endalok NATO sem varnarbandalags. Í 24. grein samþykktarinnar segir að ekki aðeins „hryðjuverk, skemmdarverk og skipulagðir glæpir“ geti ógnað NATO-löndunum heldur einnig „stöðvun mikilvægra forðaflutninga“. Ráðherrarnir hafa ekki sagt opinberlega hverskonar forðaflutningar geti orðið til þess að NATO fari í stríð.

Árið 1999 tók NATO sér stöðu sem hernaðarleg heimslögga. Samkvæmt hernaðaráætluninni á NATO að geta brugðist hernðarlega við slíkum ógnunum ekki bara „í og kringum Evró-Atlantshafssvæðið“ heldur líka „á öðrum heimssvæðum“.

Í 59. grein segir að NATO eigi að vera til þess fært að hefja hernaðaraðgerðir á svæðum „þar sem búast megi við litlum eða engum stuðningi frá heimamönnum“. Herliðið þurfi að „geta varið sérhvert svæði, sem er ógnað, og sett upp fjölþjóðlegt lið þegar og þar sem það er nauðsynlegt“. Með venjulegu orðalagi: Norskir hermenn eiga að taka þátt í árásarstríði og hernámi. Þeir sem á fimmta áratug síðustu aldar stóðu að slíkum aðgerðum í Noregi kölluðu sig Wehrmacht, varnarafl. Þrátt fyrir þetta fína orð höfðu þeir „lítinn eða engan stuðning frá heimamönnum“.

Stuttu eftir að NATO og Noregur unnu stríð gegn Júgóslavíu árið 1999 lagði ríkisstjórn Kjell Bondeviks fram skýrslu til Stórþingsins, „Aðlögun norska hersins að þátttöku í alþjóðlegum aðgerðum“. Skýrsla til Stórþingsins nr. 38 (1998-99) var lögð fram af ríkisstjórn Bondeviks 4. júní 1999. Skilaboðin voru skýr: Noregur skyldi búa sig undir að taka þátt í fleiri stríðsaðgerðum utan gamla NATO-svæðisins. Jens Stoltenberg, sem varð forsætisráðherra áður en Stórþingið tók þessa skýrslu til umræðu, studdi þessar stríðsáætlanir. (Jens Stoltenberg er formaður Norska verkamannaflokksins, sem hefur verið í ríkisstjórn með Sósíalíska vinstriflokknum og Miðflokknum síðan í september 2005, en ríkti sem minnihlutastjórn frá mars 2000 til október 2001 – aths. þýð.)

Þegar NATO-ráðið ákvað í október 2001 að styðja árás Bandaríkjanna á Afganistan, sem stríddi gegn þjóðarrétti, sagði forsætisráðherrann:

„Þetta er söguleg ákvörðun sem undirstrikar hinn sterka samhug í NATO. (…) Í fyrsta sinn tekur NATO ákvörðun á grundvelli þess sem er sjálfur kjarninn í bandalaginu, að líta skuli á árás á eitt land sem árás á þau öll.“ (Yfirlýsing Stoltenbergs í fréttatilkynningu 182/2001 frá skrifstofu forsætisráðherra 4. október 2001.

Hvorki Bondevik né Stoltenberg hafa getað andmælt með rökum hinni hárréttu fullyrðingu Ståle Eskelands lagaprófessors um að „það lá ekki fyrir nein heimild frá Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um árásina á Afganistan“. (Fyrirlestur Ståle Eskelands í Oslo Militære Samfund 6. október 2003). Norskir ráðherrar eru ekki uppteknir af því hvort formsatriðum Sameinuðu þjóðanna er fullnægt áður eða eftir að þeir fara í stríð. Þeir fylgja stríðsáætlunum NATO og hinir rauðgrænu senda norskar sérsveitir til þess sem Kristin Halvorsen (fjármálaráðherra og formaður Sósíalíska vinstriflokksins – aths. þýð.) kallar „vörn Kabúl“.

Statoil (norska olíufyrirtækið sem er að mestu í ríkiseigu, stærsta fyrirtæki Noregs – aths. þýð.) hefur fjárfest mikið í „lífsnauðsynlegum auðlindum“ í Aserbaídsjan. Gróðinn er himinhár. Svo lengi sem hin spillta Alijev-ætt hefur völdin í landinu gengur allt vel hjá Statoil og Noregi. En svo spillt ríkisstjórn er ekki örugg í svo fátæku landi.

Að því gæti komið að völdin í Aserbaídsjan falli í hendur ríkisstjórnar sem vill byggja upp sitt eigið land í staðinn fyrir gróða vestrænna olíufélaga. Gerist það, þá gæti ein af næstu stríðsaðgerðum NATO falist í að hindra „stöðvun mikilvægra forðaflutninga“ frá olíulindum Statoil og BP undir Kaspíahafinu.

Einar Ólafsson þýddi

Fréttatilkynning utanríkisráðuneytisins vegna undirritunar samkomulags við Dani og Norðmenn um samstarf á sviði öryggismála

By Uncategorized

Undirritun við Dani og Norðmenn um samstarf á sviði öryggismála
26.4.2007

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 056

Af vefsíðu utanríkisráðuneytisins

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra og Jonas Gahr Støre utanríkisráðherra Noregs, undirrituðu fyrr í dag í Osló tvíhliða rammasamkomulag Íslands og Noregs um samstarf á sviði öryggismála, varnarmála, viðbúnaðar og leitar og björgunar. Þá undirritaði utanríkisráðherra og Per Stig Møller utanríkisráðherra Danmerkur nú síðdegis yfirlýsingu um samstarf um öryggis- og varnarmál og almannavarnir.

Í samkomulaginu og yfirlýsingunni er vísað til aðildar Íslands og Noregs og Danmerkur að Atlantshafsbandalaginu og þeirra skuldbindinga sem af því leiða, og áhersla lögð á þá viðleitni Íslands, Danmerkur og Noregs að stuðla að auknu öryggi og stöðugleika á Norður-Atlantshafi.

Tilgangur samkomulagsins og yfirlýsingarinnar er að staðfesta að til staðar séu sameiginlegir hagsmunir og framtíðarsýn ríkjanna varðandi öryggismál á Norður-Atlantshafi, sem gætu orðið grundvöllur frekara samráðs, samhæfingar og samstarfs sem skilaði meiri samlegð í viðbúnaði.

Stefnt er að því að efla samstarf ríkjanna, meðal annars með reglubundnum fundum embættismanna og sérfræðinga, og ákvörðun boðleiða á milli ráðuneyta og stofnana. Lögð er áhersla á menntun og þjálfun starfsliðs, aukið samstarf varðandi leit og björgun og á sviði almannavarna, og skipti á trúnaðarupplýsingum. Þá er stefnt að því að auka heimsóknir og æfingar flugvéla, skipa og sérsveita.

Gert er ráð fyrir því að á grundvelli rammasamkomulagsins og yfirlýsingarinnar verði unnið að frekari samvinnu um einstök atriði.

Samkomulagið og yfirlýsingin fela ekki í sér fjárhagslegar skuldbindingar Íslands gagnvart Noregi og Danmörku, enda ekki þjóðarréttarlega skuldbindandi, en gert er ráð fyrir að íslensk stjórnvöld beri kostnað vegna nauðsynlegs stuðnings viðtökuríkis sem samið er um fyrirfram hverju sinni.

Samkomulagið og yfirlýsingin varða ekki tvíhliða varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna.

Samkomulagið og yfirlýsingin fylgja hjálagt.

Yfirlýsing Íslands og Danmerkur

MOU – undirritun

Bókun Steingríms J. Sigfússonar á 1229. fundi utanríkismálanefndar, 24. apríl 2007, um öryggismál á Norður-Atlantshafi

By Uncategorized

Undirritaður, fulltrúi þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í utanríkismálanefnd, er því að sjálfsögðu fylgjandi að við ræktum gott samband við frænd- og grannþjóðir okkar Norðmenn og Dani eins og hinar vestnorrænu og norrænu þjóðirnar. Náin og góð samvinna á stjórnmálasviðinu eins og sú sem fram fer á vettvangi Norðurlandaráðs og norræna Ráðherraráðsins er sjálfsögð og sama gildir um samstarf á sviði björgunarmála og þvíumlíkt. Öðru máli gegnir um margt það sem boðað er í fyrirhuguðu samkomulagi við Noreg á sviði öryggismála, varnarmála og viðbúnaðar og yfirlýsingu um svipaða hluti með Dönum.

Undirritaður gerir í fyrsta lagi alvarlegar athugasemdir við og hefur fyrirvara á um öll vilyrði sem gefin eru um aukinn kostnað sem Ísland komi til með að bera í væntanlegu samkomulagi við Norðmenn annars vegar og samstarfsyfirlýsingu við Dani hins vegar. Ekkert liggur fyrir um að réttlætanlegt sé, né að það þjóni hagsmunum Íslendinga, að fara að halda uppi erlendum herjum eða aðilum við óþarfar og jafnvel varhugaverðar heræfingar á íslensku yfirráðasvæði og bera af því umtalsverðan kostnað. Við blasir að spyrja hvort slíkum fjármunum væri ekki betur varið í að efla okkar eigin borgaralegu gæslu- og björgunarstarfsemi.

Aukið samkrull borgaralegra og hernaðarlegra þátta, sem greinilega er verið að boða, er afar varhugavert. Því má undir engum kringumstæðum gleyma að Landhelgisgæslan íslenska er ekki her heldur borgaralegur gæslu-, eftirlits- og björgunaraðili.

Þá gerir undirritaður alvarlegar athugasemdir við heimildir sem virðist standa til að veita nágrönnum okkar, einkum Norðmönnum, til umsvifa hér á landi og í lögsögu Íslands með vísan til þess að þeir eru ekki aðeins nágrannar og samstarfsaðilar heldur einnig keppinautar okkar og gagnaðilar í deilum. Við slíkar aðstæður hafa Norðmenn oft reynst býsna harðdrægir í sinni hagsmunagæslu, jafnt þó Íslendingar ættu í hlut sem aðrir. Norðmenn munu örugglega hér eftir sem hingað til reyna að færa út og styrkja áhrifasvæði sitt í norðurhöfum og má benda á reynslu af samskiptum við þá hvað varðar alþjóðleg hafsvæði eða smugur, Svalbarða og Jan Mayen sem dæmi.

Jafnframt lýsir undirritaður áhyggjum yfir, og setur skýran fyrirvara við, ef þessi gjörningur leiðir til þess að innlend starfsemi, einkum Landhelgisgæsla, lögregla og björgunarsveitir, verði síður efld að fjárveitingum, mannafla og tækjakosti en ella yrði.

Loks lýsir undirritaður sig algerlega andvígan hvers kyns heræfingarbrölti á Íslandi og á íslensku yfirráðasvæði hvort sem Norðmenn, Danir eða aðrir eiga í hlut. Það er sjálfsögð stefna af okkar hálfu að halda öllu slíku og tilheyrandi ónæði, mengun og mengunarhættu eins fjarri Íslandi, lofthelgi okkar og efnahagslögsögu og kostur er. Allt slíkt brölt samrýmist illa friðar- og vopnleysisarfleifð þjóðarinnar.

Það er mjög miður að nú skuli rokið til og stafir settir undir slíkt samkomulag eða yfirlýsingar, jafnvel þó ekki sé um þjóðréttarskuldbindingar að ræða, án undangenginnar umræðu í þjóðfélaginu, stefnumótunar og meiri aðkomu Alþingis og vandaðri undirbúnings almennt. Eins má spyrja hvort eðlilegt sé að ráðherra eða ríkisstjórn sem er á síðustu embættisdögum sínum fyrir kosningar sé að ganga frá slíkum málum í stað þess að þau verði til lykta leitt í krafti nýs þingmeirihluta að loknum kosningum.

Alþingi 24. apríl 2007

Steingrímur J. Sigfússon