All Posts By

Stefán Pálsson

Kertafleyting 9.ágúst í Reykjavík og á Akureyri

By Uncategorized

kertafleyting1

Kertafleyting verður við Tjörnina í Reykjavík og við Minjasafnstjörnina á Akureyri fimmtudaginn 9.ágúst næstkomandi kl. 22:30.

Athöfnin er í minningu fórnarlamba kjarnorkuárásanna á japönsku borgirnar Hírósíma og Nagasakí og lögð er áhersla á kröfuna um friðsaman og kjarnorkuvopnalausan heim.

Nú eru liðin sextíu og tvö ár frá kjarnorkuárásunum á Hírósíma og Nagasakí en þær voru 6. og 9.ágúst 1945. Þetta er í tuttugasta og þriðja skiptið sem kertum er fleytt á Tjörninni í Reykjavík af þessu tilefni.

Í Reykjavík verður safnast við Suðvesturbakka Tjarnarinnar (við Skothúsveg) klukkan 22:30 en þar mun Gunnar Hersveinn heimspekingur flytja stutt ávarp áður en kertunum verður fleytt. Fundarstjóri verður Heiða Eiríksdóttir tónlistarmaður.

Á Akureyri verður safnast saman við Minjasafnstjörnina kl 22:30. Ávarp flytur Inga Þöll Þórgnýsdóttir, bæjarlögmaður.

Að venju verða flotkerti og friðarmerki seld á staðnum.

Samstarfshópur friðarhreyfinga skipuleggur kertafleytinguna í Reykjavík. Að honum standa:

Félag leikskólakennara.
Friðar og mannréttindahópur BSRB
Friðar og mannréttindanefnd Æskulýðssambands þjóðkirkjunnar
Menningar og friðarsamtök íslenskra kvenna
Samtök hernaðarandstæðinga
SGI á Íslandi (Friðarhópur búddista)

Ísland úr NATÓ strax!

By Uncategorized

eftir Rúnar Sveinbjörnsson

Samkvæmt mínum upplýsingum eru 13 Íslendingar nú að störfum hjá Nató í Afganistan. Landinn er að sjálfsögðu undir vopnum eins og komið hefur fram. En skyldu menn hafa hugsað út í afleiðingar þátttöku í stríði? Getur verið að Íslendingar hugsi sem svo, að við séum svo smá og svo notaleg og góð að það taki því ekki að hugsa illa til okkar? Ekki einu sinni af hálfu Afgana; fólks sem lítur á Nató sem innrásarher í land sitt.

Hvað skyldi það nú annars þýða í alþjóðlegu samhengi að senda 13 hermenn inn í Afganistan? Bandaríkjamenn eru eitt þúsund sinnum fjölmennari en við. Ef við yfirfærðum okkar framlag í mannafla– drengina okkar 13 – yfir á bandarískar stærðargráður næmi herafli Íslands í Afganstan hvorki meira né minna en 13.000 soldátum!

Stríðið í Afganistan er eitt viðbjóðslegasta stríð sem um getur og er af nógu að taka. Inn í þetta stríð erum við óumdeilanlega komin; stríð sem hvorki getur sigrast né tapast. Nýjustu fréttir herma að Talibanar, sem studdir voru hér á árum áður af bandamönnum ,,okkar”, séu um þessar mundir að murka lífið úr einum og einum gísl – þeir munu vera frá Kóreu að því er ég best veit. Og ástæðan? Nató-leppstjórnin í Afganistan getur ekki hugsað sér að sleppa nokkrum skæruliðum Talibana úr fangelsi í skiptum fyrir gíslana. Heldur skulu saklausir gíslar drepnir en að nokkrum föngum sé sleppt! Hervaldið má ekki sýna veikleika!

Nú kemur spurningin: Hvað ef þetta væru Íslendingar? Hver yrði afstaða ríkisstjórnar Samfylkingar og Íhaldsins? Myndi hún láta drepa Íslendingana? Myndum við hverfa á brott frá Afagnistan með landana okkar 13 ef það yrði til þess að frelsa gísla í haldi Talibana?

Þetta er raunveruleg spurning. Hvert yrði svarið? Þarf ekki ríki sem vill komast í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að geta svarað einfaldri spurningu eins og þessari?
Væri ekki við hæfi að flokkur utanríkisráherrans, Samfylkingin, byrjaði á því að svara þessari spurningu? Hvers vegna spyr enginn fjölmiðill? Hvað finnst íslenskum utanríkisráðherra um nýjustu gíslatöku og kröfu um að Kóreumenn dragi sig frá Afganistan? Taka íslensk stjórnvöld afstöðu með Bush og Suður-Kóreustjórn eða með gíslunum?

Hvar eru annars gömlu samherjarnir mínir sem kusu að fara í Samfylkinguna; þeir sem gengu með mér frá Keflavík, stóðu fyrir framan bandaríska sendiráðið og börðust fyrir friði? Hvaða fána halda þeir nú á lofti? Fána baráttu fyrir réttlæti – ekki trúi ég öðru en þeir vilji hafa þann fána í hönd. En er sá fáni nú uppi í okkar nafni í Írak og í Afganistan? Getur verið að nokkur maður trúi því að sá fáni hafi verið dreginn að húni þar sem innrásarherir Nató hafa farið um? Því trúir enginn maður – allra síst held ég að gamlir baráttufélagar mínir sem gengu til liðs við Samfylkinguna séu á þessari skoðun – alla vega ekki innst inni. Ég ætla að leyfa mér að hvetja allt baráttufólk hvar í flokki sem það stendur að taka höndum saman og andæfa glórulausri árásarstefnu Bnadaríkjanna og hernaðarbandalagsins Nató, sem Bush virðist hafa í bandi og leiða að eigin vild.

Krafa okkar á að vera afdráttarlaus: Ísland úr Nató strax!

Rúnar Sveinbjörnsson

P.s. Ef Gömlu félagar mínir hafa gefist upp er það minnsta sem þeir geta gert, að gefa gömlu Keflavíkurskóna sína til Afganistan, þeir þurfa ekki að vera par, stakir duga, þökk sé Nató.
RS

„Varnarstefna“ ríkisstjórnarinnar og spurningar Þorsteins Pálssonar

By Uncategorized

Eftirfarandi grein birtist á vefriti Ögmundar Jónassonar, ogmundur.is, 30. júlí

Fram hefur komið í fréttum að ríkisstjórnin hafi samþykkt að orustuþotur Nató muni koma hingað til lands til æfinga og eftirlits ársfjórðungslega. Íslendingar muni bera allan kostnað af herliðinu auk kostnaðar af ratsjárstöðvunum fjórum. Þær upphæðir sem hér er um að tefla eru gríðarháar eða á annan milljarð króna, talsvert meira en allur rekstrarkostanður menntastofnunar á borð við Háskólann á Akureyri! Haft er eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, að kostnaður við þessa áætlun hafi ekki verið tekinn saman en hann sé lægri en hann hefði getað orðið (Fréttablaðið 29.júlí)!
Það er nefnilega það!!

En hefði ekki þótt eðlilegt að ræða það við Alþingi ef setja hefði átt á laggirnar stóra háskólastofnun á kostnað skattborgarans? Hví þá ekki tilkostnað við NATÓ?

Áður hefur utanríkisráðherra sagt að kostnaðurinn muni birtast á hausti komanda í fjárlögum fyrir næsta ár. Af því tilefni sagði ritstjóri Fréttablaðsins, Þorsteinn Pálsson í leiðara 27.júlí, að þetta veki “þá spurningu hvort fjárlögin eru réttur vettvangur til þess að birta í fyrsta sinn þá stefnu sem Ísland ætlar að framfylgja varðandi einstök verkefni og umsvif í varnarviðbúnaði. Þarf ekki stefnumótun þar um að liggja fyrir með rökstuddu mati á nauðsynlegri starfsemi? Er ekki eðlilegt að sjálfstæð umræða fari fram um þá stefnumótun?… Meðan varnarmálin voru alfarið á herðum Bandaríkjamanna lutu efnislegar umræður um þau fyrst og fremst að milliríkjasamningum þar að lútandi. Kostnaðurinn var ekki áhyggjuefni. Nú eru þessi mál í okkar höndum. Það kallar á opna opinbera umræðu um einstök viðfangsefni, stefnumótandi ákvarðanir og kostnaðarmat.”

Undir þetta skal tekið. Einnig vangaveltur ritstjórans almennt um framtíðarskipan ratsjáreftirlits við Ísland og þá ekki síður um stefnu okkar í öryggis- og hernaðarmálum almennt. Þannig er eðlilegt að spyrja hvar skilin eigi að vera á milli borgaralegrar öryggisgæslu og hernaðarumsvifa? Þessi umræða hefur aldrei farið fram á Alþingi þannig að stefna hafi þar verið mótuð í ljósi nýrra aðstæðna eftir brottför Bandaríkjahers. Hins vegar eru okkur að birtast ákvarðanir rétt eins og að fyrir liggi skýr stefna hvað þetta snertir. Allt tal forsvarsmanna Samfylkingarinnar um samráð og vandaða og breiða umræðu um varnarþörf Íslands og fyrirkomulag til frambúðar eru orðin tóm. Samfylkingin er þannig beint framhald Framsóknar en ekki verður sagt að risið á henni í utanríkismálum hafi verið hátt.

Augljóst er að þegar Alþingi kemur saman í haust mun fara fram rækileg umræða um varnir og öryggi Íslands, skuldbindingar okkar og markalínur á milli borgaralegra og hernaðarlegra þátta. Ekki verður betur séð en að með samningum sínum við NATÓ, skilgreiningu á hernaðarsvæði á Keflavíkurflogvelli og fjármögnun okkar á komu orustuflugvéla NATÓ sé verið að fella þá múra sem hafa verið á milli borgaralegrar starfsemi annars vegar og hernaðarlegrar hins vegar, án þess að nokkurn tíma hafi verið tekin ákvörðun um að hervæða Ísland.

Hneykslanlegur viðskilnaður Dana við Írak

By Uncategorized

Eftir Jan Öberg framkvæmdastjóra Transnational Foundation for Peace and Future Reasearch, Lundi

31. júlí 2007

1. Það rignir yfir okkur skýrslum um það hörmulega ástand sem íraska þjóðin býr við – í Írak og í vaxandi mæli utan Íraks. Viðskiptabann okkar kostaði um milljón Íraka lífið, stríðið meira en hálfa milljón. Landið er eyðilagt, tvær kynslóðir hafa ekki fengið tækifæri til heilbrigðis, menntunar og annarrar þróunar.

Hvar er það GÓÐA sem átti að leiða af þeim kostnaði sem Danmörk og fleiri hafa lagt í þetta og dagblaðið Politiken spyr lesendur sína um í dag?

2. Hvernig er hægt að draga sig til baka ÁN ÞESS AÐ leiða hugann að því hvort við eigum að hjálpa Írak að koma undir sig fótunum á ný? Hvar er afsökun Danmerkur? Hvað leggjum við fram til enduruppbyggingar, sátta, friðar, til að koma aftur á eðlilegu ástandi? Skaðabætur vegna viðskiptabannsins og stríðsins?

Þetta er forkastanlegt siðferðilega og skammarlegt út frá sjónarhóli skynseminnar – einsog ég sagði í bók minni frá 2004, „Fyrirsjáanlegar hrakfarir. Um ófriðinn við Írak og Danmörku sem hernámsveldi“.

Það er gott að Danmörk skuli draga sig út úr Írak, en varla var hægt að gera það af meira hugsunar- og tillitsleysi!

Meira hér:
http://www.transnational.org/Area_Index_MiddleEast.htm

Hætt við lágflug í tengslum við heræfingar

By Uncategorized

Samkvæmt fréttum Stöðvar tvö nú undir kvöldið hefur verið hætt við að fara fram á heimild til lágflugs í tengslum við fyrirhugaðar heræfingar NATO. „Aðstoðarmaður utanríkisráðherra vill koma því á framfæri að ekki verði farið fram á varaheimild til lágflugs yfir landinu í tengslum við heræfingar á landinu um miðjan ágúst, og að lágflug verði því ekki hluti æfinganna. Samkvæmt heimildum fréttastofu var búið að fara fram á slíka heimild, svo breyting hefur orðið þar á.“ Sjá nánar visir.is.

Utanríkisráðuneytið virðist hafa metið það svo að slík andstaða yrði við lágflug orrustuþotanna að betur væri heima setið. En betur má ef duga skal til að heræfingarnar verði slegnar af. SHA mun halda áfram sem fyrr að andæfa heræfingum hér, bæði þeim sem fyrirhugaðar eru um miðja ágúst sem og þeim sem síðar verða. Skv. áætlunum fastaráðs Atlantshafsbandalagsins um eftirlit bandalagsins með lofthelgi Íslands er gert ráð fyrir heræfingum fjórum sinnum á ári. SHA munu af alefli berjast gegn slíkum æfingum.

Morgunblaðið spyr utanríkisráðherra

By Uncategorized


Það er ekki oft sem Friðarvefurinn eða Samtök hernaðarandstæðinga sjá ástæðu til að taka undir með Morgunblaðinu. En í leiðara blaðsins í dag eru vangaveltur og spurningar sem full ástæða er til að taka undir. Í þeirri von að Morgunblaðið taki það ekki óstinnt upp leyfum við okkur að birta leiðarann hér:

Mánudaginn 30. júlí, 2007 – Ritstjórnargreinar
Nató og Afganistan

Atlantshafsbandalagið er með 35 þúsund hermenn í Afganistan. Sjálfsagt eru flestir þeirra bandarískir þótt önnur aðildarríki bandalagsins komi þar einnig við sögu. Að auki eru Bandaríkjamenn með 8.000 hermenn í landinu til viðbótar undir eigin herstjórn. Samtals eru því Atlantshafsbandalagið og Bandaríkin með 43 þúsund hermenn í Afganistan.
Reglulega berast fréttir frá Afganistan sem benda til þess að hersveitir Atlantshafsbandalagsins eigi fremur í vök að verjast og lendi í því aftur og aftur að valda dauða almennra borgara í landinu.

Í gær bárust fréttir um að hersveitir bandalagsins væru að breyta um baráttuaðferðir. Ef hætta er á því að almennir borgarar deyi í aðgerðum bandalagsins er frekar beðið með slíkar aðgerðir en að taka þá áhættu að mikið manntjón verði meðal almennra borgara. Þetta er skiljanlegt vegna þess að manntjón meðal borgara í Afganistan dregur úr stuðningi við aðgerðir Atlantshafsbandalagsins.

Jafnframt var frá því skýrt að hersveitir bandalagsins mundu nota minni sprengjur en þær hafa gert til þessa. Hins vegar er ljóst að skæruliðar Talibana leggja nú áherzlu á að leynast meðal almennra borgara, m.a. til þess að framkalla sem mest manntjón í röðum þeirra.

Framvinda mála í Afganistan kemur okkur Íslendingum beint við af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi berum við ábyrgð á veru hersveita Atlantshafsbandalagsins í Afganistan vegna þess að við sem eitt af aðildarríkjum bandalagsins tókum þátt í þeirri örlagaríku ákvörðun að senda hersveitir undir merkjum bandalagsins þangað.

Í öðru lagi skiptir þróunin í Afganistan okkur máli vegna þess að Íslendingar eru þar á ferð, ekki til þess að berjast undir fánum bandalagsins en í margvíslegum hliðarstörfum. Ástandið í landinu versnar stöðugt og þar með aukast líkurnar á því að Íslendingarnir snúi ekki allir heim heilu og höldnu.

Margt bendir til þess að Atlantshafsbandalagið eigi eftir að dragast dýpra og dýpra inn í átökin í Afganistan á sama tíma og Bandaríkjamenn ráða augljóslega ekki við ástandið í Írak og vaxandi hætta er á upplausn í Pakistan þar sem fylgismenn bin Laden njóta verndar einhverra aðila í Pakistan.

Hver er afstaða Íslands til þess sem er að gerast í Afganistan? Hver er afstaða ríkisstjórnar Íslands til þess ef fyrirsjáanlegt er að viðvera hersveita Atlantshafsbandalagsins verður lengri en skemmri í landinu? Hefur ríkisstjórnin skoðun á því? Á hún ekki að hafa skoðun á því?

Hvað segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra um það?

Sjá einnig: Ísland með 13 hermenn í Afganistan

Eftirlit NATO – nei takk!

By Uncategorized

Frá því Ísland gerðist aðili að NATO 30. mars 1949 hefur nokkur breyting orðið á stöðu Íslands gagnvart NATO. Eins og Vigfús Geirdal hefur rakið í grein sem má finna annars staðar hér á Friðarvefnum („Hugleiðing um sérstöðu Íslands í Nato og 5. grein Atlantshafssáttmálans“) hafði Ísland í upphafi sérstöðu meðal aðildarríkja NATO sem endurspeglast í orðum Bjarna Benediktssonar þáverandi utanríkisráðherra Íslands í ávarpi sem hann flutti við undirritun Atlatnshafssáttmálans í Washington 4. apríl 1949: „Ísland hefir aldrei farið með hernað gegn nokkru landi, og sem vopnlaust land hvorki getum við nje munum segja nokkurri þjóð stríð á hendur, svo sem við lýstum yfir, er við gerðumst ein af sameinuðu þjóðunum.“

„Nánast eina skuldbinding Íslendinga við Nató“ segir Vigfús í þessari grein „er að leggja til land (sér að kostnaðarlausu) undir hernaðaraðstöðu með svipuðum hætti og gert var í seinni heimstyrjöld“ og „og það mundi algerlega á valdi Íslands sjálfs hvenær sú aðstaða yrði látin í té.“

Árið 1951 gerði íslenska ríksstjórnin samning við Bandaríkin um herstöðvar hér landi. Þær herstöðvar hafa nú verið lagðar niður án þess þó að herstöðvasamningnum hafi verið sagt upp. Ísland lagði sem sagt til land undir hernaðaraðstöðu en að öðru leyti voru Íslendingar nánast óvirkir í hernaðarstarfsemi NATO þar til 1984 að fulltrúi var skipaður í hermálanefnd NATO. Síðan átti Ísland aðild að ákvörðun um hernað NATO í Bosníu 1994 til 1995 og innrásina í Júgóslavíu 1999. Jafnframt hefur Ísland lagt til mannskap í hersveitir NATO í Bosníu, Kósovó, Afganistan og Írak undir yfirskini friðargæslu.

Nú er bandaríski herinn farinn án þess þó að herstöðvasamningnum hafi verið sagt upp. Hvenær verður að gert? En burtséð frá því, þá stöndum við enn á tímamótum: ætla Íslendingar nú að fara að reka hernaðarmaskínu? Hvað með íslenska ratsjárkerfið sem verður samkvæmt ákvörðun Norður-Atlantshafsráðsins sl. fimmtudag tengt við sameiginlegt loftvarnarkerfi NATO, NATINADS (NATO’s Integrated Air Defence)? Á íslenska ratsjárkerfið að verða í framtíðinni hernaðarlegt loftvarnarkerfi? Verður Ísland nú enn virkari þátttakandi í hernaðarstarfi NATO með þessari áætlun sem nú hefur verið ákveðin – eða að hvaða leyti breytist aðkoma Íslands nú að NATO? Erum við nú komin með aðra aðkomu að NATO? Þarf ekki að ræða það? Er yfirleitt þörf á þessu eftirliti sem ákveðið var sl. fimmtudag? Væri kannski nær að leggja áherslu á eitthvað annað, setja peningana í landhelgisgæsluna og björgunarsveitir – er ekki óblíð náttúran meiri ógn við okkur en ímynduð árás utan að? Er besta vörnin kannski í því fólgin að vera utan við þessa hernaðarmaskínu og óháð þeim heimsvaldahagsmunum sem að baki henni liggja? Er ekki bara löngu tímabært að segja skilið við NATO, þetta hernaðarbandalag sem hefur orðið æ árásargjarnara og uppivöðslusamara allar götur frá því kalda stríðinu lauk og hlutverki þess, hversu sáttur sem maður var við það, hefði átt að vera lokið?

Hvað sem öllu þessu líður, þá hefði í það minnsta verið eðlilegt að ræða þessi mál ítarlega á víðtækum og þverpólitískum vettvangi, svo sem þeim samráðsvettvangi stjórnmálaflokkanna um öryggismál sem boðaður var í stjórnarsáttmálanum, áður en við fengum þær fréttir nú um helgina að Norður-Atlantshafsráðið hefði samþykkt áætlun um reglubundið eftirlit með lofthelgi Íslands. Þetta er nefnilega meira en bara tæknileg ákvörðun.

Einar Ólafsson

Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla fyrirhuguðum heræfingum

By Uncategorized

Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla fyrirhuguðum heræfingum NATO-ríkjanna Noregs, Danmerkur, Bandaríkjanna, Lettlands og Íslands sem ætlunin er að halda dagana 13. til 16. ágúst næstkomandi. Ekkert réttlætir misnotkun á íslensku landi og íslenskri land- og lofthelgi til æfinga í meðferð drápstóla. Ekkert réttlætir heldur misnotkun á íslensku almannafé – 45 milljónum króna – til að borga undir slíkt.

Ísland, sem menn vilja á tyllidögum kalla herlaust land, ætti að sjá sóma sinn í því að hafna hvers kyns hernaðarbrölti. Því er það grátlegt að Ísland skuli þess í stað ýta undir það með því að bjóða hingað til æfinga herjum erlendra ríkja, þar á meðal Bandaríkjaher sem er blóðugur upp fyrir axlir vegna þátttöku sinnar í hverju siðlausu stríðinu á fætur öðru.

Æfingar af þessum toga eru ekki aðeins aðferð herveldanna til að þjálfa herlið sitt heldur einnig til að staðfesta áhrifasvæði sitt, berast á gagnvart hugsanlegum andstæðingum og jafnvel ögra þeim. Þeim fylgir mengun, ónæði og hætta. Þær staðfesta hlutverk Íslands sem lítils NATO-peðs sem Bandaríkjamenn geta treyst á að styðji allt hernaðarbrölt
sem þeir taka sér fyrir hendur.

Tengsl Alcan við hergagnaframleiðslu og botnlaus sakaskrá Rio Tinto

By Uncategorized

Frá Saving Iceland, 24. 7. 2007

TENGSL ALCAN VIÐ HERGAGNAFRAMLEIÐSLU
Málmur frá Rio Tinto-ALCAN er seldur til margvíslegra nota í stríðsrekstri. ALCAN framleiðir t.d. ál fyrir EADS (European Aerospace and Defense and Space), sem framleiðir herþyrlur, orrustuþoturnar Euorofighter Tycoon, Mirage F1, EF18 Hornet og aðrar þotur. EADS er einnig leiðandi framleiðandi flugskeyta. Samningar milli EADS og ALCAN eru kynntir sem samningar milli Airbus og ALCAN, til þess að hylma yfir aðild ALCAN að stríðsrekstri, en það er þekkt leið álfyrirtækja að fela hergagnaframleiðslu sína undir heitinu eldflaugaframleiðsla. Á sama tíma verður að markaðssetja hergögnin og þess vegna eru myndir af orrustuflugvélum birtar á eldflaugahluta heimasíðu ALCAN.

EADS fullyrðir á heimasíðu sinni að vörur fyrirtækisins séu seldar til landa þar sem „sala á hátækni flughernaðartólum fer fram á ábyrgan hátt“. Fyrirtækið byggi á „áratuga reynslu í herflugvélaiðnaði“. En er fyrirtæki trúverðugt sem er svo siðblint að það birtir á sömu heimasíðu myndir frá Þýskalandi á tímum nasismans, þar sem bæði fyrri heimastyrjöldin og flugvélar nasista eru lofaðar hástöfum?

RIO TINTO-ALCAN: ÁL TIL ÍRAKS
ALCAN sér Boeing fyrir „úrvals, afkastamiklum álafurðum“. Boeing framleiðir herþyrlurnar Apache og Chinook sem eru notaðar í Írak, en einnig minna þekktar vörur t.d. „Small Diameter Bomb“ og „Joint Direct Attack Munition“. Einnig eru samningar milli Alcan og Dassault, fransks hergagnaframleiðanda, sem framleiðir margskonar orrustuflugvélar úr áli. Þar að auki hefur ALCAN lagt sig sérstaklega fram við að kynna fyrirtækið fyrir sjóhernaðarstofnunum.

RIO TINTO-ALCAN: PLÖN FYRIR AFRÍKU
Rio Tinto-ALCAN hefur skrifað undir samning við Ríkisstjórn Kamerún um að stækka Alucam álverið um 150.000 tonn á ári, auk þess að reisa nýtt 150.000 tonna álver. Lom Pangar stíflan, sem er við það að verða reist, mun sjá um orkuframleiðslu fyrir álverin. Alcan er með mörg önnur verkefni á teikniborðinu í Afríku – „Greenfield“ verkefnið þeirra inniheldur Kamerún, Ghana, Guinea, Madagascar og Suður-Afríku. „Greenfield“ stendur fyrir það þegar ósnert náttúra er eyðilögð fyrir námugröft, grunngerð, álbræðslur og stíflur.

AÐSKILNAÐARSTEFNAN Í SUÐUR AFRÍKU, ESKOM OG LANDSVIRKJUN
ALCAN var virkur þáttakandi hinni illræmdu aðskilnaðarstefnu í Suður Afríku á árunum 1949-1986. Nú vill fyrirtækið snúa aftur og reisa álver á nærri því skattfrjálsu svæði, „Coega Development Zone“, nálægt Port Elizabeth. Álverið verður keyrt áfram á kolum og kjarnorku frá Eskom, en fyrirtækið er eitt stærsta raforkufyrirtæki í heiminum. „30% fátækra samfélaga í Suður Afríku hafa ekki aðgang að rafmagni, en samt sem áður er til nóg rafmagn til að reka álver“ segir Lerato Maragele, aðgerðasinni frá Suður Afríku sem heimsótti Ísland á vegum Saving Iceland .

Elkom er „systurfyrirtæki“ Landsvirkjunnar, en Landsvirkjun stefnir á að taka þátt í álversframkvæmdunum í Suður Afríku og færa svo út kvíarnar í Afríku. Því er líklegt að Landsvirkjun muni reyna að selja sérfræðikunnáttu sína til ýmisa verkefna tengdum vatnsafls
raforkuframleiðslu Eskom í Mósambík, Úganda og Kongó. Einnig er líklegt að fyrirtækið muni reyna að vinna að gerð stíflu í Kongó ánni, en hún verður tvisvar sinnum stærri en Three Gorges stíflan í Kína, og mun leggja regnskóga Mið Afríku í rúst.

BOTNLAUS SAKASKRÁ RIO TINTO
Við getum auðveldlega sýnt fram á að ALCAN tekur virkan þátt í hergagnaframleiðslu og stefnir á innrás í Afríku, jafnt sem á Íslandi. Núna hefur fyrirtækið verið keypt af Rio Tinto, sem er stærsta einkarekna námufyrirtæki í heiminum, og hefur „lengi verið gagnrýnt fyrir gróf mannréttindabrot sem ná aftur til þáttöku þeirra í aðskilnaðarstefnunni í Suður Afríku.“

Nokkur dæmi um mannréttindabrot Rio Tinto.
Rio Tinto hefur vitandi neytt starfsmenn sína til að starfa í banvænum gullnámum sínum í Brasilíu, og njósnað um og rekið meðlimi verkalýðsfélaga. Einnig eru dæmi um að fátækir heimamenn í leit að gulli í námum Rio Tinto hafi verið skotnir af öryggisvörðum Rio Tinto .

Rio Tinto hefur haft aðild að málaliðahneykslum. Ríkisstjórn Papúa Nýju Guineu réði í samstarfi við ALCAN, fyrirtækið Sandline International, sem er einkarekinn, óháður málaliðaher, til að berjast gegn íbúum eyjunnar Bougainville. Herinn er mest megnis skipaður fyrrum breskum og suður afrískum sérsveitarmönnum, en herinn hafði aðild að borgarastyrjöldunum í Angóla og Sierra Leone. Íbúar Bougainville höfðu lokað námu vegna hrikalegra umhverfisskemmda og hafa nú farið í mál gegn Rio Tinto fyrir skemmdirnar og stríðsglæpina sem málaliðaherinn fyrirtækisins framdi. Í ágúst 2006 hafnaði áfrýjunnardómstóll Bandaríkjanna beiðni Rio Tinto um að málinu yrði vísað frá.

————————————————————————–


– S. Das & F. Padel, “Double Death – Aluminium’s Links with Genocide”, Economic and Political Weekly, Des. 2005, sjá einnig á http://www.savingiceland.org/doubledeath
– Chandra Siddan, “Blood and Bauxite”, Montreal Mirror, Nov 20-26, 2003, Vol. 19 No. 23.
– “Smelter Expansion on Landfill?”, Iceland Review, June 20th 2007.
– RUV News, 26-02-2007, http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item145391/. Athugið að RUV hafa ruglað saman Alcoa og Alcan.
– EADS vefsíða, http://www.eads.com/1024/en/businet/defence/mas/combat_aircraft/combat_aircraft.html
– EADS auglýsingamynd, “A Brief Glance at EADS”, http://www.eads.com/xml/content/OF00000000400004/1/10/41434101.mov
– AFX News, 13 júní, 2007, http://www.abcmoney.co.uk/news/13200786914.htm
– Alcan Press Release, “Company To Provide Critical Aluminum Materials For Full Range Of Aircraft Including A380”, 13. Júní, 2007, http://www.decisionplus.com/fr/fintools/stock_news.asp?Market=TSE&Symbol=AL&NewsID=20070613/021501
http://www.alcanaerospace.com/Aerospace/aerospace.nsf/html/FWFGHOME?Open&LG=1, dd. 22-7-2007.
– EADS auglýsingamynd, “90 years of aircraft history in Augsburg”, http://www.eads.com/1024/en/businet/defence/mas/mas.html and http://www.eads.com/xml/content/OF00000000400004/0/64/41488640.asx
– US Geological Survey, “Minerals Yearbook 2005,” September 2006, p. 5.2.
– Boeing Website Image Gallery of Small Diameter Bomb: http://www.boeing.com/companyoffices/gallery/images/missiles/sdb/sdb.html
– Boeing Image Gallery: http://www.boeing.com/companyoffices/gallery/images/missiles/sdb/sdb.html
– Alcan Press Release, “Alcan Contributes to Success of Eighth Ariane 5 ECA Launch,” Dec 13th, 2006.
http://www.dassault-aviation.com/
– “Pacific 2004, International Naval and Maritime Exposition for the Southern Pacific,” Aerospace Maritime and Defence Conference, http://www.ideea.com/pacific2004/embassy/smithbriefing.pdf
– US Geological Survey, “Minerals Yearbook 2005,” September 2006, p. 5.5.
– Alcan Press Release, “Alcan to Explore Development of Bauxite Mine and Alumina Refinery in Madagascar,” September 11th 2006.
– Alcan’t website, http://www.alcant.co.za/history.html
– Grapevine, Issue 10, July 13, 2007. Viðtal einnig á http://www.savingiceland.org/node/870
– RUV News, 26-02-2007, http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item145391/. Note that RUV has Alcoa and Alcan confused.
– International Rivers Network & EarthLife Africa, “Eskom’s Expanding Empire The Social and Ecological Footprint of Africa’s Largest Power Utility,” June 2003, http://www.irn.org/programs/safrica/index.php?id=030601eskomfactsheet.html
– Asia-Pacific Human Rights Network, “Rio Tinto’s Record and the Global Compact,” July 13th 2001, http://www.corpwatch.org/article.php?id=623.
– SBS Australia’s television program Dateline in a report on Rio Tinto, August 2000.
– Wikipedia Germany (22-7-2007), http://de.wikipedia.org/wiki/Sandline-Affäre
– Contract between PNG Government and Sandline: http://coombs.anu.edu.au/SpecialProj/PNG/htmls/Sandline.html.
– Sarei v Rio Tinto, 456 F.3d 1069 (9th Cir. 2006), USA