All Posts By

Stefán Pálsson

Málsverður í Friðarhúsi

By Uncategorized

Systa eldarFjáröflunarmálsverðurinn í Friðarhúsi, föstudagskvöldið 30. nóvember er glæsilegt jólahlaðborð, en matseðillinn er á þessa leið:

Heimalöguð sænsk jólaskinka með karöflusalti, gulrótar appelsínusalati og sinnepssósu

Heimagerð lifrakæfa (verður borin fram heit) og heimagert rúgbrauð

Karrýsíld

Tómatsalsasíld.

Fyrir þá sem ekki borða kjöt verður hnetusteik.

Kaffi og konfekt

Guðrún V. Bóasdóttir(Systa) sér um matseld.

Verð kr 1500. Húsið verður opnað kl. 19.

Ályktun IV – tilmæli til fréttastofu RÚV

By Uncategorized

Eftirfarandi tilmæli til fréttastofu Ríkisútvarpsins voru samþykkt á landsfundi SHA um helgina. (Öðrum fjölmiðlum er að sjálfsögðu heimilt að tileinka sér efni þeirra.)

Tilmæli til fréttastofu Ríkisútvarpsins

Í áratugi hafa áróðursheitin varnarsvæði, varnarlið, varnarbúnaður o.s.frv. tíðkast í umræðu um umsvif og aðstöðu bandaríska hersins á Íslandi. Nú þegar herinn er farinn og blekkingarnar um varnargildi hans öllum ljósar þjóna þessi gömlu áróðursheiti ekki hagsmunum neinna lengur (annarra en þeirra sem falsa vilja söguna). Landsfundur SHA, haldinn 24. nóvember 2007, fer því þess á leit við fréttastofu RÚV að hún leggi þessa málnotkun af og noti í staðinn hlutlaus orð s.s. setulið, herstöðvar og herstöðvasvæði um þessi fyrirbrigði en tengi það hvorki vörnum né öryggi.

Ályktun III – um almannavarnir og heræfingar

By Uncategorized

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á landsfundi SHA í Friðarhúsi, laugardaginn 24. nóvember 2007:

Um almannavarnir og heræfingar

Landsfundur SHA haldinn laugardaginn 24. nóvember 2007 varar sterklega við þeirri tilhneigingu sem orðið hefur vart á síðustu misserum að spyrða saman borgaralegar öryggisstofnanir samfélagsins, svo sem almannavarnir, landhelgisgæslu, lögreglu og björgunarsveitir við hernaðarlega starfsemi – eins og gert hefur verið m.a. í tengslum við heræfingar. Til dæmis hafa heræfingar erlendra sveita hér við land verið réttlættar með vísan til slysavarna, viðbragða við mengunarslysum og annars álíka – sem augljóslega er þó á verksviði borgaralegra aðila.

Ályktun II – um hernaðinn í Írak

By Uncategorized

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á landsfundi SHA í Friðarhúsi, laugardaginn 24. nóvember 2007:

Um stríðið í Írak

Samtök hernaðarandstæðinga lýsa yfir ánægju sinni með þá ákvörðun utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, að kalla heim liðsmann Íslands í hernámsliðinu í Írak. Jafnframt minna SHA á að stuðningur Íslands við Íraksstríðið – sem samkvæmt rannsóknum hefur kostað hundruð þúsunda og jafnvel yfir milljón mannslífa – hefur enn ekki verið afturkallaður. Var það þó á meðal kosningaloforða núverandi utanríkisráðherra fyrir síðustu þingkosningar að afturkalla þennan stuðning.

SHA skora á utanríkisráðherra og ríkisstjórnina að bæta úr þessu þegar í stað og lýsa því yfir á alþjóðavettvangi að stuðningur Íslands við innrásina í Írak 2003 sé dreginn til baka og að beðist sé afsökunar á honum. Ákvörðunin um þennan stuðning – sem var réttnefnd stríðsyfirlýsing – er ein sú alversta í gervallri sögu íslenskrar utanríkisstefnu og henni má ekki sópa undir teppið.

Ályktun I – um öryggismál Íslands

By Uncategorized

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á landsfundi SHA í Friðarhúsi, laugardaginn 24. nóvember 2007:

Um öryggismál Íslands

Ýmsar goðsagnir hafa gufað upp á undanförnum misserum í kjölfar brotthvarfs bandaríska setuliðsins frá Miðnesheiði. Í fyrsta lagi hefur komið í ljós að öryggi Íslendinga er þrátt fyrir allt ekki bundið við veru hers eða tiltekins fjölda orrustuflugvéla á landinu – eins og SHA hafa raunar alla tíð bent á. Þau stjórnmálaöfl sem fullyrtu þetta fyrir örfáum misserum eru nú í óða önn við að búa til álíka óskeikular skilgreiningar á “varnarþörf” Íslands.

Samtök hernaðarandstæðinga hvetja til þess að íslensk stjórnvöld leggist allsstaðar og ævinlega gegn beitingu vopnavalds við lausn á deilumálum. Við minnum á að NATO í nýju hlutverki ástundar hernám og stríðsrekstur í fjarlægum heimshlutum auk þess sem að bandalagið stendur gegn viðleitni til afvopnunar og útrýmingar kjarnorkuvopna. Tíð fjölmiðlaumfjöllun um ógnina sem stafar af kjarnorkuáætlun Írans, ætti öðru fremur að vekja fólk til vitundar um það að tugþúsundir kjarnorkuvopna NATO ógna heimsfriði og framtíð mannkyns.

Önnur goðsögn hersetunnar snerist um að nærvera hersins væri nauðsynleg fosenda þess að atvinnulíf á Suðurnesjum fengi þrifist, en hún hefur afsannast undraskjótt og með afgerandi hætti á undanförnum mánuðum. Ljóst má vera að hersetan kom fyrst og fremst í veg fyrir atvinnuuppbyggingu á öðrum sviðum og hefti framtak manna og sveitarstjórna til að byggja upp eðlilega atvinnustarfsemi á svæðinu.

Góðu heilli reyndust björgunarsveit bandaríska hersins ekki heldur forsenda þess að hægt væri að halda úti eðlilegum öryggisviðbúnaði fyrir Íslendinga í nauðum. Metnaðarleysi stjórnvalda á að sinna þessu hlutverki verður ekki útskýrt með öðru en viðleitni til að nota þessi öryggismál sem áróður fyrir áframhaldandi veru setuliðs í landinu.

Ný miðnefnd SHA

By Uncategorized

Landsfundur SHA var haldinn í Friðarhúsi í dag, laugardag. Helstu niðurstöður og ályktanir fundarins verða kynntar á þessum vettvangi á næstu dögum.

Ný miðnefnd var kjörin á fundinum. Hana skipa:

Aðalmenn
Erla Guðrún Gísladóttir
Kolbeinn Óttarsson Proppé
Kristinn Schram
Júlía Margrét Einarsdóttir
Sigurður Flosason
Stefán Pálsson (formaður)
Steinunn Rögnvaldsdóttir
Þorvaldur Þorvaldsson
Þórður Sveinsson

Varamenn
Bergljót Njóla Jakobsdóttir
Haukur Þorgeirsson
Þórhildur Halla Jónsdóttir

Landsfundardagskrá SHA

By Uncategorized

427175377EUHtYW phLandsfundur SHA verður haldinn í Friðarhúsi laugardaginn 24. nóvember, eins og áður hefur verið kynnt á þessum vettvangi. Dagskrá fundarins er sem hér segir:

11:00 – Venjuleg aðalfundarstörf (kjör miðnefndar, samþykkt reikninga o.þ.h.)

Hádegi – léttur málsverður

13:30 – Þorskastríð, herinn og NATO. Kynntar nýjar rannsóknir sagnfræðingsins Guðmundar J. Guðmundssonar á sögu landhelgisdeilna Íslendinga og Breta.

14:00-16:00 – “Hernaðarvélin Ísland” – málþing um stöðu mála á Íslandi eftir brottför hersins.
– Herstöðin á Miðnesheiði er orðin að háskóla og kvikmyndaveri, en á sama tíma eru “varnarmál” orðin sérstakur liður á fjárlögum, heræfingar eru tengdar við störf almannavarna og björgunarsveita og Íslendingar taka við rekstur ratsjárkerfis, sem fáir vita til hvers er.
Kolbrún Halldórsdóttir, Soffía Sigurðardóttir, Árni Hjartarson og Sveinn Aðalsteinsson ræða málin.

Áætluð fundarlok eru um kl. 16.

Ályktun um utanríkis- og öryggismál

By Uncategorized

Friðarvefnum hefur borist eftirfarandi ályktun frá Kjördæmisráði Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi:

Aðalfundur Kjördæmisráðs Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi haldinn 17.11.07 leggur áherslu á að Íslandi marki sér sjálfstæða utanríkisstefnu og því aðeins eigi landið erindi inn í Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna að það notfæri sér möguleika sína til frumkvæðis í friðar- og afvopnunarmálum.

Möguleikar okkar hvíla á sögulegum, menningarlegum og landfræðilegum grunni.

Fundurinn lýsir fullum stuðningi við lýðræðislegt samstarf allra ríkja, sem liggja að Norður-Íshafi á þeim grunni, sem Norðurlandaráð er að móta.

Fundurinn hafnar því að hægt sé að tryggja heimsfrið með hervaldi og hótunum og bendir á að fjárráðstöfun í Íraksstríðið, sem ekki sér fyrir endann á og háð er með samþykki fyrrum ríkisstjórnar Íslands, er margfalt meiri en öll aðstoð sömu þjóða til þróunaraðstoðar.

Fundurinn telur einu raunhæfu leiðina til að sporna gegn útbreiðslu gereyðingarvopna að allar þjóðir, sem yfir þeim ráða geri heiminum (Sameinuðu Þjóðunum) grein fyrir sínum birgðum og leggi fram áætlun um eyðingu þeirra undir gagnkvæmu eftirliti.

Fundurinn harmar að núverandi utanríkisráðherra Íslands skuli hafa gert þjóðinni þá smán að semja um aukin hernaðarumsvif á Íslandi frá mörgum grannríkjum okkar þegar létt hafði verið af landinu óværu bandarísks hers. Þeim fjármunum sem verja á í tilgangslausar og varasamar hernaðaræfingar hér á landi væri betur varið í að efla borgaralega björgunarstarfsemi, almannavarnir, styrkja björgunarsveitir, efla varnir gegn mögulegum mengunarslysum á hafinu og þar fram eftir götunum. Með uppsögn herverndarsamningsins svokallaða og úrsögn úr NATÓ jukust stórlega möguleikar Íslands til forystu í friðarmálum á heimsvísu.

Loks krefst fundurinn þess að liðsafli Íslendinga verði kallaður heim frá Afganistan og þátttaka Íslands í friðargæsluverkefnum verði endur skipulögð og byggi eftirleiðis alfarið á borgaralegum grunni án nokkurra tengsla við hernaðarstarfsemi.

Hver eru grunngildin?

By Uncategorized

ReykjavíkurAkademían blæs til umræðufundar þriðjudaginn 20. nóvember kl. 17-19.

Umræðuefnið er „grundvallargildi samfélagsins“ í ljósi þess að lögreglan óskaði eftir að Miriam Rose, sem hefur tekið þátt í mótmælaaðgerðum Saving Iceland hópsins, yrði vísað úr landi. Röksemd lögreglunnar var að hún hefði brotið gegn grundvallargildum samfélagsins.

Framsögu hefur Miriam Rose og mun hún lýsa málinu frá sinni hlið og greina frá hver hún telur íslensk grunngildi vera.

Á eftir framsögu hennar verða pallborðsumræður. Þar verða Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Viðar Þorsteinsson heimspekingur.

Nánari upplýsingar um fundinn veitir Viðar Hreinsson, framkvæmdastjóri ReykjavíkurAkademíunnar í síma 562 8565 / 844 8645

ReykjavíkurAkademían er til húsa í JL-húsinu, Hringbraut 121, 4. hæð.

http://www.akademia.is/frett.aspx?fid=398