All Posts By

Stefán Pálsson

Ávarp í lok Þorláksmessugöngu á Ísafirði

By Uncategorized

Í tólfta sinn var farin friðarganga á Þorláksmessu á Ísafirði. Þátttakendum hefur fjölgað ár frá ári og hafa sjaldan verið fleiri en núna. Veðrið var með eindæmum gott, nýfallin mjöll, tveggja stiga frost og logn. Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar tók á móti göngumönnum með jólalögum á Silfurtorgi. Anna Sigríður Ólafsdóttir flutti ræðu, Skúli Þórðarson flutti eigið lag og texta um mikilvægi innri friðar og stúlkur úr Grunnskólanum á Ísafirði sungu jólasálminn Heims um ból.

Ávarp Önnu Sigríðar Ólafsdóttur:

„Friður er ástand laust við átök. Oftast er þá um stríðsátök að ræða, og friður er í þeim skilningi andheiti stríðs. En einnig er vísað til friðar sem ástands þar sem læti og persónuleg átök eru ekki til staðar, og er þá samheiti kyrrðar. Enn ein merkingin vísar til hugarástands þar sem einstaklingur á ekki í innri átökum eða efasemdum, og er þá talað um innri frið.“

Svona er friður skilgreindur í Wikipediu. Ástand laust við átök – þá oftast stríðsátök…

Undanfarna daga hef ég verið að velta því fyrir mér hvað ég ætli að fjalla um í kvöld. Ég vissi strax að ég ætlaði að tala um frið því við vorum auðvitað flest að ganga friðargöngu. Fyrsta sem mér datt til hugar þegar hugtakið leitaði á hugann var einmitt þetta andheiti stríðs – sá friður. Ég velti því fyrir mér hvernig ég – sem stærstan part lífs míns hef búið á friðsæla litla Íslandi ætti að geta fjallað um þesskonar frið og hljómað sannfærandi.

Hvað veit ég um hvernig það er að þurfa að hlaupa með lífið í lúkunum á milli húsa, því á hverri mínútu má ég búast við sprengjuárás. Hvað veit ég um það hvernig er að kveðja ástvini sem fara á víglínuna og vita að alveg eins komum við aldrei til með að hittast aftur. Hvað veit ég um það að þurfa að bugta mig og beygja undir hervaldið því annars má ég eiga von á misþyrmingum – jafnvel dauða. Já hvað veit ég?!

Það eru víða háð stríð og við þurfum kannski ekki að leita langt yfir skammt til að finna þau og það sem kemur kannski meira á óvart er að við þurfum ekki að leita til fortíðar til að finna stríðshrjáð lönd. Þessa stundina gæti einhver verið að láta lífið af völdum stríðsátaka – líkurnar eru meiri en minni.

Íbúar í hinum vestræna heimi furða sig oft á því að árið 2007 þurfi enn að grípa til vopna til að leysa ágreiningsmál. Ég veit ekki hvort það er bara ég en ég get ómögulega séð hvernig er hægt að knýja fram frið með stríði – það finnast mér öfugmæli.

Almenn óánægja er meðal Evrópubúa út af stríðsrekstri í Írak og samt hafa barist þar meðal annara herlið frá Bretlandi og Danmörku og eins og frægt er orðið – einn íslendingur. Hverjir geta ákveðið fyrir hönd heilla þjóða að þær séu að heyja stríð og hvernig geta tvær manneskjur tekið fram fyrir hendurnar á þjóð sinni og sett hana á lista yfir hinar staðföstu þjóðir – ekki gaf ég leyfi fyrir mína hönd og þó er ég hreinræktaður íslendingur og hvergi nærri því staðföst.

Yfirgangssemi valdstjórnarinnar virðist ekki eiga sér takmörk. Í blindi trúa þjóðar- og trúarleiðtogar því, í hroka sínum, að þeir viti hvað öðrum er fyrir bestu og hvernig þeir skuli haga sér. Friður mun ekki ríkja fyrr en leiðtogar geta talað saman og fundið leið til að komast að mannvænum niðurstöðum af umburðarlyndi. Síðast en ekki síst borið virðingu fyrir því að sinn er siðurinn í hverju landi.

Þá að annars konar friði

Þess þar sem vísað er til ástands þar sem læti og persónuleg átök eru ekki til staðar, og er þá samheiti kyrrðar.

Þó við Íslendingar þekkjum ekki til stríðsátaka þá þekkja margir ástand ófriðar. Enn búa margir við ofbeldi – andlegt, líkamlegt og kynferðislegt. Samt lifum við á tímum þar sem upplýsingar streyma til okkar í útvarpi, sjónvarpi og á internetinu og einhvernvegin verðum við samt alltaf jafn hissa á fréttum af ofbeldisverkum og það sem er öllu verra er þá eru sumir farnir í hina áttina og orðnir ónæmir. Flestir sem hér standa þekkja ofbeldi í einhverri mynd, ef ekki á eigin skinni þá hjá einhverjum nákomnum, vini eða ættingja. Okkur finnst kannski skrýtið til þess að hugsa að jafnvel fólk í okkar litla friðsama samfélagi búi við ógn ofbeldis en þannig er það nú samt. Ég hvet alla til þess að horfa ekki í hina áttina ef þeir verða vitni að ofbeldi í einhverri mynd, heldur bregðast við og benda á lausnir. Margir hafa leitað sér hjálpar með góðum árangri og losnað undan okinu, bæði gerendur og þolendur.

Þriðja skilgreiningin á friði sem fjallað var um vísar til hugarástands þar sem einstaklingur á ekki í innri átökum eða efasemdum, og er þá talað um innri frið.

Það er sennilega sú tegund friðar sem flestir eru í vandræðum með nú á 21stu öldinni þegar allt á að vera svo fullkomið. Góðar líkur eru á að þetta verði öld neyslunnar, aldrei hefur annað eins magn af áfengi, eiturlyfjum og allskyns geðbreytandi lyfjum verið innbyrt og nú. Flestir virðast vilja komast eins langt frá sjálfum sér og kostur gefst. Það er virkilegt áhyggjuefni. Þegar við ættum að geta haft það sem best höfum við það einna verst og við veltum því fyrir okkur hvar hundurinn liggji grafinn.

Getur verið að lífshamingjan felist ekki í dauðum hlutum? Getur verið að tíminn sem við eyddum í að vinna fyrir Prada skónum eða nýja leðursófasettinu hafi verið betur varið úti í guðsgrænni náttúrunni? Eða tíminn sem liggur að baki öllum dýru fínu jólagjöfunum hafi verið betur varið í faðmi fjölskyldunnar. Kannski er vandinn einna helst falinn í forgangsröðuninni. Markaðsöflin berja á og segja fólki hvað það er sem það þarfnast helst og sem beljur á bás hlýðum við, oft í þeirri blindu trú að þetta eða hitt færi okkur gleði og lífsfyllingu. Flestir eru löngu hættir að trúa litlu röddinni innra með þeim sem segir að svo muni ekki vera.

Það er hætt að vera töff að eiga trú og að vera andlegur er orðið heiti á einhverjum nútíma hippum. Kannski er lykilinn að hamingjunni fólginn í því að vera ekki lengur æðsta stig tilvistar í veröldinni. Kannski er gott að fá að hvíla í því að vakað sé yfir okkur öllum, sama hverrar trúar við erum því auðvitað hlýtur réttlátur guð að vera hafinn yfir trúarbrögð.

Ég óska ykkur friðar. Megi heimili ykkar vera griðastaður þar sem þið fáið að vera þeirrar hamingju aðnjótandi að verja tíma með fjölskyldum ykkar. Megi friður ríkja í sálum ykkar og sinni og þið ódofin njóta lífshamingjunnar. Ég óska þess að þið gleðjist yfir því smáa, fegurðinni í sólsetrinu, sjávarilmsins, brosi úr óvæntri átt og bernskubrekum barna ykkar. Ég óska ykkur gleðilegrar hátíðar, megum við öll njóta hennar í friði og kærleika.

Mig langar í lokin að lesa orð úr innsetningarræðu friðarsinnans Nelsons Mandela sem hitta mig alltaf í hjartastað….

Okkar dýpsti ótti er ekki að við séum vanmáttug.

Okkar dýpsti ótti er að við erum óendanlega máttug.

Það er ljósið innra með okkur ekki myrkrið sem við hræðumst mest.

Við spyrjum sjálf okkur hvað á ég með að vera frábær, yndisfögur, hæfileikarík og mikilfengleg manneskja.

En í raun hvað átt þú með að vera það ekki?

Þú ert barn Guðs.

Það þjónar ekki heiminum að þú gerir lítið úr þér.

Það er ekkert uppljómað við það að gera lítið úr sjálfum sér svo annað fólk verði ekki óöruggt í kringum þig.

Við fæddumst til að staðfesta dýrð guðs innra með okkur, hún er ekki bara í sumum okkar, heldur í hverju einasta mannsbarni og þegar við leyfum ljósi okkar að skína, gefum við öðrum, ómeðvitað, leyfi til að gera slíkt hið sama.Um leið og við erum frjáls undan eigin ótta mun nærvera okkar sjálfkrafa frelsa aðra.

Ávarp í lok Þorláksmessugöngu á Akureyri

By Uncategorized

Blysför gegn stríði var farin í sjöunda sinn í röð á Akureyri á Þorláksmessu kl. 20.00. Í þetta sinn stóðu Samtök hernaðarandstæðinga ein að henni. Veður var gott, lítil gola og lítið frost. Það er góður siður að bæta andstöðu við stríðsrekstur og yfirgang á líðandi stund við hinn almenna friðarboðskap jólanna. Kjörorð okkar voru þau sömu og undanfarin ár: Frið í Írak! Burt með árásar- og hernámsöflin! Enga aðild Íslands að stríði og hernámi!

Gengið var frá Samkomuhúsinu í Hafnarstræti og út á Ráðhústorg. Ekki fór fram nákvæm talning en áætlað var að göngumenn væru ekki færri en 250. Hannes Örn Blandon prófastur í Eyjafirði hélt í göngulok ávarp það sem hér fylgir. Félagar úr kór Akureyrarkirkju sungu og einnig voru kjörorð göngunnar sungin undir jólalagi.

Ávarp séra Hannesar Arnar Blandon:

Kæru félagar, komilitones, bræður og systur. Ég vil byrja á því að þakka þennan heiður að fá að ávarpa þessa samkomu, sem gekk hér til friðar í kvöld. Þegar vélarnar flugu á turnana forðum og við horfðum með skelfingu var fyrsta hugsun er fló í höfuð mér þessi: Hvað höfum við kallað yfir okkur? Já, hvað veldur því að uppi sé fólk sem leggur slíkt hatur á okkur vestræna menn? Sjálfsagt verða svörin mörg og sannlega er ekki friðvænlegt í heimi hér. Tuttugasta öldin var einhver sú ægilegasta í gjörvallri sögu mannkyns. Verður 21.öldin verri eða munum við ná tökum á ástandinu og búa í friði við alla menn? Minn ágæti prófessor í Gamlatestamentisfræðum, dr. Þórir Kr. Þórðarson, blessuð sé minning hans, útskýrði hebreska friðarhugtakið á svofelldan hátt: Schalom, sem er salem á arabísku, merkir jafnvægi. Jafnvægi milli Guðs og manna, jafnvægi milli manns og náttúru, jafnvægi í millum manna. Þá gæti það þýtt ógnarjafnvægi t.d. nær tvö stórveldi standa andspænis hvort öðru og ota fram þúsund kjarnaoddum svo ekkert má úrskeiðis fara en maður nánast greinir neistaflugið. Maðurinn, mannskepnan, hefur stórlega raskað jafnvægi á mörgum sviðum í heimi hér.

Við gengum til friðar í kvöld ugglaust mörg með döprum hjörtum og vonleysi í huga. Það verður auðvitað enginn friður í heiminum svo lengi, sem við smíðum spjót í stað sniðla og sverð í stað plógjárna svo við umorðum aðeins spámanninn Jesaja annan kaflann. Sjálfur hét ég mér því að ganga hér í kvöld biðjandi fyrir þeim sem útdeila hatri og hernaði í heimi. Hét mér því að hrópa ekki ókvæðisorð að þeim sem smíða napalmsprengjur, klasasprengjur eða kjarnavopn, vitandi það, að það eru ekki sannir kristnir menn, sannir múslimar, sannir súfistar, sannir taoistar, sannir Zen-búddistar, sannar manneskjur er það gera. Ég hét mér því að ganga hér í kvöld í anda Gandhis, Martin Luther Kings, Dalai Lama, Idras Shah, Mandela, Krists og Thich Nhat Hanhs, ein vesæl prestsskepna úr Eyjafirði fram.

Thich Nhat Hanh er Vietnami og Zen-Búddisti og afar kærleiksrík manneskja sem flúði land á sínum tíma sakir þess að hann barðist fyrir friði í landi sínu, og þegar ég segi barðist, þá var það ekki með vopnum heldur með orðum, orðum vonar, kærleika og friðar. Hann lifði það er napalmi og agnent orange bombum rigndi yfir land hans. Hann mun búa í Frakklandi og vonandi fæ ég einhvern tíma tækifæri til þess að hitta hann. Þrátt fyrir allar hörmungar sem hann lifði og reyndi vogar hann sér að útbreiða von og bjartsýni meðal manna. Hann bendir á það m.a. í bók sinni „Að vera friður“, Being peace, að sumar manneskjur búi við þannin aðstæður sem börn að þær geti ekki að því gert að verða dýrslegar skepnur á unglingsárum. Aðstæður sem við getum breytt. Í ljóði sem hann kallar: „Viltu vera svo vænn að kalla mig réttu nafni“, og ekki veit ég til að hafi verið þýtt á íslensku, segir hann, og ég snara lauslega hér:

Segðu ekki að ég fari á morgun.
Ég kem meira að segja í dag.
Sjá, ég mæti á sekúndu hverri,
til þess að vera brum á vorgrein,
til þess að vera lítill fugl með veikbyggða vængi
sem lærir að syngja í hreiðinu sínu nýja.
Ég er lirfan í hjarta blómsins,
gimsteinn, falinn í bergi.

Já ég kem til þess að hlæja og gráta,
til þess að óttast og vona.
Fæðing og dauði alls er lifir
býr í hjarta mér.

Ég er dægurflugan er flýgur á vatnsborðinu,
ég er fuglinn sem snæðir hana
á fögrum vordegi.

Ég er froskurinn sem syndi glaður
í tæru vatni,
ég er snákurinn er skríður
hljóðlega að honum

Ég er barnið í Uganda
og fætur mínir eru grannir sem bambus.
Ég er vopnasalinn sem selur vígvélar
handa börnum.

Ég er tólf ára stúlka
flóttamaður í bát
sem hendir sér í hafið
þegar sjóræninginn
hefur lokið sér af.
Ég er sjóræninginn
sem aldrei hefur lært að skilja
og elska.

Ég sit í forsætisnefndinni
með allt vald í mínum höndum

Ég er maðurinn
sem þarf að greiða þjóð minni blóðskuldina
og deyja hægt í fangabúðum.

Gleði mín er sem blær vorsins
er vekur blóm um allan heim.
Kvöl mín er táraflóð
sem fyllir höfin fjögur.

Vertu svo vænn að kalla mig réttu nafni
svo ég megi vakna
og opna dyr hjartans,
dyr samkenndar.

Kæru bræður og systur. Sýnum samkennd. Verum samkennd með þeim er þjást. Já verum samkennd öllu lífi. Við erum hluti af heildinni miklu. Við berum ábyrgð. Verum samkennd og berum klæði á vopn. Ræktum tré, ræktum blóm, ræktum líf. Ræktum jafnvægi og frið.

Góðar stundir og glæsta framtíð.

Friðarvefurinn og Samtök hernaðarandstæðinga óska landsmönnum árs og friðar

By Uncategorized

Því miður hafa vonir um heim án styrjalda og stríðsæsinga, án vígtóla og gegndarlausra hernaðarútgjalda, ekki glæðst á árinu sem er að líða. Þó eru vissulega góð teikn á lofti, en þau koma því miður ekki frá þeim sem sitja við stjórnvölinn, þvert á móti, það er almenningur sem hefur fundið sig knúinn til að hafa vit fyrir ráðamönnum.

Friðarhreyfingin
Þó að nokkuð hafi dregið úr þeirri hreyfingu sem hæst reis í andstöðu við innrásina í Írak veturinn 2002 til 2003 þá er hún þó enn virk og nýtur þeirra alþjóðlegu tengsla sem þá mynduðust. Í febrúar voru stofnuð á ráðstefnu í Ekvador Alþjóðasamtök herstöðvaandstæðinga, en hugmyndin að stofnun þeirra varð til í kjölfar baráttunnar gegn innrásinni í Írak. Fyrst og fremst er horft til herstöðvanets Bandaríkjanna sem hefur verið í mikilli endurnýjun, en baráttunni er þó beint gegn öllum erlendum herstöðvum, enda heita samtökin formlega upp á enska tungu International Network Against Foreign Bases. Þá er haldið áfram baráttunni gegn stríðinu í Írak og Afganistan og einkum hafa breskir og bandarískir hernaðarandstæðingar haft forystu í þeirri baráttu. Stefnt er að alþjóðlegri baráttuviku dagana 15. til 22. mars næstkomandi þegar fimm ár verða liðin frá innrásinni í Írak.

Þá er einnig öflug barátta í gegn herstöðvum og hernaðarstefnu í einstökum löndum og svæðum. Í Ekvador er háð barátta gegn herstöðinni í Manta, baráttan heldur áfram gegn herstöðinni á Diego García á Indlandshafi, á Filippseyjum er háð barátta gegn nýjum herstöðvum, á Ítalíu gegn stækkun herstöðvarinnar í Vicenza, í Japan er haldið áfram áratugalangri baráttu gegn bandarískum herstöðvum og kjarnorkuvopnum, í Tékklandi hefur myndast öflug hreyfing gegn byggingu ratsjástöðvar sem á að þjóna hinu nýja gagnflaugakerfi Bandaríkjanna. Hér er aðeins fátt eitt talið, um allan heim heldur baráttan áfram. Auk þess ber að hafa í huga borgarastyrjaldir og þjóðfrelsisbaráttu víða um heim, svo sem í Sómalíu, á Sri Lanka, í Tsjetsjeníu, Kúrdistan og Palestínu, og áfram mætti telja upp ýmis gleymd stríð. Og verður þessari upptalningu þó ekki lokið án þess að nefna Kósovó, sem er æpandi dæmi um vanhæfni hernaðarveldanna við að leysa viðkvæm ágreiningsmál, eða öllu heldur um hagsmunaárekstrana sem þar koma alltaf við sögu, eins og best má sjá ef þessi lönd og héruð er skoðuð í samhengi.

Vígfúsir valdamenn
Hinir sem halda um stjórnvölin halda hins vegar áfram vígvæðingu og stríðsæsingum og þeim styrjöldum sem þeir hafa hafið og geta ekki lokið. Ekki sér fyrir endann á stríðshörmungum í Írak og Afganistan. Herlið Bandaríkjanna og bandamanna þeirra ráða alls ekki við ástandið í þessum löndum. Erfitt er að sjá hvernig hægt er að skapa þar frið, en margir telja að vera þeirra erlendu herja sem þar eru geri aðeins illt verra, enda líta margir íbúar þessara landa á þessa heri sem innrásar- og hernámslið. Það er því fagnaðarefni að nokkur bandalagsríki Bandaríkjanna í Írak hafa ákveðið að draga úr þátttöku sinni í þessu stríði. Á hinn bóginn vekja stöðugar ógnanir gagnvart Íran áhyggjum og vísbendingar eru um að Bandaríkin hafi beinlínis búið sig undir að ráðast þar inn, jafnvel eftir að leyniþjónusta Bandaríkjanna hefur komist að þeirri niðurstöðu að hafi írönsk stjórnvöld einhvern tíma verið að þróa kjarnorkuvopn, þá hafi þau látið af því fyrir mörgum árum.

Bandaríkin hafa haldið uppi grimmri heimsvalda- og hernaðarstefnu að undanförnu. Liður í þeirri stefnu eru innrásirnar í Írak og Afganistan og raunar einnig loftárásir NATO á Júgóslavíu 1999 og Persaflóastríðið. Rætur þeirrar stefnu sem nú er uppi í Bandaríkjunum má því rekja aftur fyrir stjórnartíma Bush yngri þó að hún hafi komist í nýjar hæðir eftir að hann var kosinn forseti. Þótt mörg frambjóðendaefni fyrir næstu forsetakosningar í Bandaríkjunum boði áherslubreytingar er alls ekki tryggt að um grundvallarbreytingu verði á þessari stefnu. Þessi stefna lýsir sér líka í hinu svokallaða stríði gegn hryðjuverkum, sem í raun er átylla til frekari stríðsæsinga, hernaðaruppbyggingar og eftirlits með almennum borgurum. Hún hefur einnig þau geigvænlegu áhrif að ýta undir fordóma gagnvart múslímum og spennu milli menningarheima. Þriðja birtingarmynd þessarar árásargjörnu heimsvaldastefnu er uppstokkun á herstöðvakerfi Bandaríkjanna, meðal annars með tilfærslu herafla frá Norður-Evrópu til Miðjarðarhafssvæðisins, Miðausturlanda og Asíu. Í fjórða lagi kemur hún fram í breytingum á Atlantshafsbandalaginu, NATO, útþenslu þess og ekki síður verkefnum þess utan bandalagssvæðisins, þar á meðal í Afganistan og Írak, og breyttu hernaðarskipulagi sem er ætlað að auka sveigjanleika þess og viðbragðsflýti.

Enn ein birtingarmynd hinnar nýju hernaðarstefnu Bandaríkjanna er uppsetning gagnflaugakerfis í kjölfar uppsagnar ABM-sáttmálans árið 2002. Þótt hér sé um að ræða áætlun og verkefni á vegum Bandaríkjanna nýtur það viðurkenningar NATO og er samræmt kjarnorkuvopnastefnu bandalagsins sem byggist á mögulegri beitingu kjarnorkuvopna. Á sama tíma vinnur Bretland að því að endurnýja kjarnorkuvopn sín og í mars samþykkti breska þingið áætlun þar að lútandi gegn háværum mótmælum.

Því miður hefur verið fátt fyrir andstæðinga kjarnorkuvopna að fagna á nýliðnu ári, en þó hefur Norður-Kórea í það minnsta hægt á kjarnorkuvopnaþróun sinni eftir kjarnorkuvopnatilraun sína í október 2006. Að öðru leyti hefur árið einkennst af viðsnúningi frá viðleitni til kjarnorkuafvopnunar og sá viðsnúningur er fyrst og fremst á ábyrgð Bandaríkjanna, sem auk gagnflaugaáætlunar sinnar er að þróa ný kjarnorkuvopn sem eiga að vera minni í sniðum í því skyni að meiri möguleikar verði á að beita þeim. Önnur NATO-ríki, eins og Bretland og Frakkland, eru einnig að þróa ný kjarnorkuvopn þótt í minni mæli sé.

Á síðustu árum Sovétríkjanna voru stigin stór skref í afvopnunarmálum. Eftir upplausn Sovétríkjanna dró mjög úr vægi Rússlands sem hernaðarveldis. Hins vegar teygðu Bandaríkin og NATO áhrif sín inn í bæði önnur fyrrverandi austantjaldsríki og mörg gömlu sovétlýðveldin. Á undanförnum misserum hefur Rússland aftur hafið hernaðaruppbyggingu og nú á seinni hluta nýliðins árs hefur rússneski herinn farið að gera sig sýnilegan hér á norðurslóðum í lofti og legi. Það má deila ástæður þessarar þróunar, en án þess að draga úr ábyrgð rússneskra stjórnvalda, þá verður ekki litið fram hjá þeirri ögrun sem þau hafa mátt búa við frá hendi Bandaríkjanna og NATO. Búast má við að þessi þróun verði svo aftur tilefni til aukins vígbúnaðar á norðurslóðum og þá skipta viðbrögð íslenskra stjórnvalda miklu máli.

Vígvæðing Íslands?
Allt þetta hefur haft mikil áhrif hér á landi og má deila um hversu viturlega stjórnvöld hafa brugðist við. Árið 2006 markaði tímamót hér að því leyti að þá hvarf bandaríski herinn á brott frá Íslandi eftir fimmtíu og fimm ára samfellda veru hér. Þetta var fagnaðarefni þótt íslenskir herstöðvaandstæðingar gætu ekki beinlínis hreykt sér af því. Þessi breyting var hluti af endurskipulagningu bandaríska herstöðvakerfisins og því miður þýddi þetta einungis tilflutning hermanna og hergagna í því skyni að þjóna árásargjarnri heimsvaldastefnu Bandaríkjanna enn betur. Þannig er til dæmis beint samhengi milli brottflutnings bandaríska hersins héðan og stækkunar herstöðvarinnar í Vicenza á Ítalíu þó að hermennirnir sem þar bætast við séu fluttir frá herstöðvum í Þýskalandi.

Viðbrögð íslenskra stjórnvalda við brottför bandaríska hersins einkenndust af taugaveiklun og áhyggjum af því að hér myndaðist einhverskonar tómarúm varðandi varnarmál. Viðbrögðin hafa líka dregið dám að þeim ruglanda sem bandarísk stjórnvöld hafa byggt upp varðandi hernaðarleg málefni, ruglanda sem er vísvitandi settur á flot af þeirra hendi, og hugmyndin um stríð gegn hryðjuverkum gegnir þar mikilvægum þætti. Þar er líka um að ræða ógreinilegri mörk milli hernaðarlegra og borgaralegra stofnana sem við höfum séð á undanförnum árum, meðal annars í heræfingum hér á landi. Því miður hefur utanríkisráðherra hinnar nýju ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tekið þessa stefnu upp í öllum aðalatriðum. Í skýrslu sinni til Alþingis 8. nóvember sagði utanríkisráðherra að nú skilgreindi NATO sig „ekki lengur sem varnarbandalag heldur fremur sem öryggisbandalag“, og hélt áfram: „Upprunalegt landvarnarhlutverk er enn til staðar en í hnattvæddum heimi hefur áhersla bandalagsins færst á hinar nýju hnattvæddu ógnir.“ Þessar ógnir séu t.d. útbreiðsla kjarnorkuvopna, alþjóðleg glæpastarfsemi, neikvæðar afleiðingar loftslagsbreytinga, fátækt og örbirgð og hryðjuverk.

Á nýliðnu ári hafa verið gerðir samningar um heræfingar erlendra herja hér á landi og flug orrustuþotna nokkurra NATO-ríkja um lofthelgi Íslands. Jafnframt eru ýmis önnur teikn á lofti um aukna hervæðingu Íslands og þar leikur dómsmálaráðuneytið sitt hlutverk auk utanríkisráðuneytisins. Og í fyrsta sinn er í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar liður undir heitinu „varnarmál“. Samtals eru áætluð útgjöld Íslands vegna hernaðarlegra málefna ríflega 2,3 milljarðar króna. Það eru líka vonbrigði að hin nýja ríkisstjórn heldur áfram stuðningi sínum við hernaðinn í Afganistan og hefur ekki haft dug til að taka einarðlega til baka stuðning sinn við innrásina í Írak.

Svo allrar sanngirni sé gætt ber þó að geta þess að tilhneigingar hefur gætt hjá síðustu tveimur utanríkisráðherrum að draga friðargæsluna út úr hernaðarlega samhengi. Nýleg tilkynning um varnamálastofnun vekur þó ýmsar spurningar, þó svo opinberlega sé ætlunin með henni að greina í sundur hernaðarlega varnarstarfsemi og borgaralega starfsemi.

Það er dapurlegt að með formann Samfylkingarinnar og fyrrverandi forystukonu og þingkonu Kvennalistans í hlutverki utanríkisráðherra virðist lítil breyting ætla að verða á stefnunni í hernaðarmálum. Í erindi sínu á fundi Varðbergs og Samtaka um vestræna samvinnu 27. nóvember sagði hún stjórnvöld fylgja mati NATO á nauðsyn íslensks loftvarnarkerfis og reglulegs eftirlits flugvéla bandalagsríkja og að slíku samstarfi væri ekki ætlað að leysa af hólmi varnarsamstarf við Bandaríkin.

Það var raunar ekki við því að búast að í ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn yrði aðildinni að NATO sagt upp en í öllum flokkum hafa þó heyrst raddir um að varnarsamningurinn við Bandaríkin frá árinu 1951 væri að öllu eðlilegu runninn sitt skeið. Það væri óskandi að á nýju ári tækist andstæðingum herstöðva og NATO í Samfylkingunni sem og öðrum flokkum að hafa þau áhrif á forystu sinna flokka að farið verði vinna að í fyrsta lagi uppsögn varnarsamningsins við hið árásargjarna heimsveldi Bandaríkin og í öðru lagi uppsögn aðildarinnar að NATO. Ennfremur verði loksins samþykkt margflutt tillaga um „friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja“, eins og sú tillaga heitir sem síðast var flutt á þinginu 1999-2000 af þingmönnum Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Þannig mundi Ísland geta gert sig gildandi á alþjóðavettvangi sem friðelskandi og hlutlaust land.

Sú ímynd Íslands hefur fengið styrk á liðnu ári. Í fyrsta lagi ber að fagna því að herstöðvarsvæðið og byggingarnar þar hafa fengið nýtt hlutverk og þjóna nú menntastofnunum, þótt ekki hafi orðið úr að þar yrði sett upp friðarrannsóknarstofnun, eins og lagt var til meðal annars hér á Friðarvefnum. En einnig fékk höfuðborg Íslands, Reykjavík, það hlutverk að hýsa friðartákn í formi ljóssúlu sem lýsir upp á himininn í minningu listamannsins og friðarsinnans John Lennons að frumkvæði ekkju hans, Yoko Ono. Þetta kom í kjölfar stofnunar Friðarstofnunar Reykjavíkur í október 2006. Af því tilefni sagði Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson þáverandi borgarstjóri: „Ísland er herlaust land og engin hefð er hér fyrir hernaðaruppbyggingu né herrekstri. Því er Reykjavík einstakur vettvangur til viðræðna um friðsamlega úrlausn margvíslegra alþjóðlegra deilumála.“ Þess er að vænta að nýr borgarstjórnarmeirihluti taki undir þess orð og leggi sitt af mörkum að Ísland verði virkilega herlaust land, án aðildar að hernaðarbandalögum og heræfingum og friðlýst fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum eins og samþykkt hefur verið í nær öllum sveitarfélögum á Íslandi, þar á meðal Reykjavík. Sem slíkt gæti Ísland átt erindi í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.

Friðarvefurinn og Samtök hernaðarandstæðinga óska landsmönnum árs og friðar.

Ávarp í lok Þorláksmessugöngu

By Uncategorized

Hér gefur að líta ávarp Höllu Gunnarsdóttur blaðamanns, sem flutt var á Ingólfstorgi í lok Þorláksmessugöngu.

Kæru friðargöngugarpar

Ég vil byrja á að þakka fyrir tækifærið að fá að ávarpa þennan fund hér í kvöld. Þakkir mínar eru ekki aðeins vegna þess að það sé gaman að fá að vera með ykkur, heldur jafnframt vegna þess að þegar ég vissi að ég ætti að flytja ávarp fór ég að hugsa, sem gerist því miður of sjaldan í amstri dagsins. Ég fór að velta því fyrir mér hvað ég gæti mögulega haft um frið að segja. Og hvers vegna kalla ég mig friðarsinna?

Fyrir nokkrum árum sat ég á netkaffihúsi í Bangkok, höfuðborg Tælands. Hópur ungs fólks sat fyrir framan tölvuskjá og fylgdist með körfuboltaleik í gegnum Netið. Á leið minni út staldraði ég aðeins við og í ljós kom að Ísrael var að keppa og þarna voru saman komnir nokkrir af þeim fjölmörgu Ísraelum sem leggja land undir fót þegar þeir hafa lokið herskyldu sinni.

Jafnaldri minn úr hópnum tók mig tali og eins og venjulega byrjuðum við á að skiptast á upplýsingum um heimaland, ferðalög, starf, nafn og aldur.
„Hvað ertu að gera í þessum bol?“ spurði hann síðan og benti á Che Guevara bolinn sem ég var í.
Ég svaraði því til að ég hefði keypt hann sem minjagrip á Kúbu en Ísraelanum þótti ekki mikið til svarsins koma. „Ég ber enga virðingu fyrir þessum manni,“ sagði hann og bætti við að Che Guevara hefði verið morðingi, drepið fjölda fólks.
Samræðurnar voru eiginlega hættar að vera vingjarnlegar.

Sjálfur var þessi nýi kunningi minn nýbúinn að sinna herskyldu sinni til tveggja ára.
Ég reyndi að eyða umræðuefninu en einhverra hluta vegna fórum við út í bollaleggingar um hvort einhvern tímann væri réttlætanlegt að drepa fólk. Þá sagði Ísraelinn: „Það er máltæki í Ísrael, sem segir, að ef einhver vaknar að morgni til að drepa þig, þá skaltu vakna fyrr og drepa hann.“

Þetta var einn margra Ísraelsmanna sem ég hitti á þessum slóðum.
„En er engin lausn?“ spurði ég einn sem ræddi ástandið á heimaslóðunum við mig.
„Auðvitað, það er alltaf lausn,“ svaraði hann
„Og heldurðu að það geti komist á friður?“ spurði ég vongóð.

Hann hristi höfuðið. Hann hafði ekki von.

Annar sagðist vera með riffil í húsinu sínu enda byggi hann á Gaza. Þegar hann sá að mér svelgdist á sagði hann: „Þú veist ekki hvernig það er.“
Og hann hafði rétt fyrir sér, ég veit ekki hvernig það er.

Ég veit ekki hvernig það er að búa við stríðsátök. Ég hef séð sársaukann í augum fólks sem hefur lifað við stríð en ég er 26 ára, alin upp á Íslandi, og hef aldrei þekkt stríð.

Ég var barn og sá myndir í sjónvarpinu frá stríðinu í Kúweit. Af hverju er fólk að gera þetta? spurði ég, en það var fátt um svör.
– Getur ekki bara verið friður?
– Það er ekki svo einfalt, var viðkvæðið

En hvað er ekki svona einfalt? Að sleppa því að beita ofbeldi?

***

Stríðsátök kosta ekki bara lífin sem er fórnað á vígvellinum.
Ísraelarnir sem ég hitti á ferðalagi höfðu eytt tveimur árum af lífi sínu í hernum. Á sama tíma og ég byrjaði að mennta mig sem kennari og eyddi einu ári í útlöndum, sinntu þeir herþjónustu. Þeir höfðu ekkert val.

Til að halda úti her þarf að samþykkja að það geti í sumum tilvikum verið réttlætanlegt að beita ofbeldi og um leið að það sé réttlætanlegt að ríkið geri það. Til að fólk samþykki það þarf markvissa menningarmótun.

Ungt fólk sem sinnir herþjónustu, hvort sem er í Ísrael, Bandaríkjunum, Súdan, Finnlandi eða Kólumbíu, lærir gildi sem eru í hrópandi andstöðu við þær stoðir sem lýðræðið hvílir á.
Herinn byggir á stigskiptu valdakerfi og mjög harðri ímynd sem er því miður oft kennd við karlmennsku. Við hikum ekki, grenjum ekki og hlýðum skipunum að ofan án þess að spyrja. Karlmennskuímynd sem eyðileggur líf þeirra sem læra að lifa eftir henni, og jafnframt þeirra sem verða á vegi hörkutólanna.

Og hvernig verður þankagangur fólks sem fær þessi skilaboð á viðkvæmum mótunarárum? Mun þetta unga fólk leggja eitthvað gott og heilbrigt fram til samfélagsins?

Stundum er sagt að Ísland eigi ekki að halda úti her vegna þess að engin ógn steðji að landinu.
Það getur vel verið, en það gæti breyst á morgun.

En ég er andvíg því að íslenskum her verði komið á fót vegna þess að fátt er eins skaðlegt samfélagi fólks og sú harkalega menningarmótun sem óhjákvæmilega fylgir hernaðarrekstri.

Þegar við hér á Íslandi segjum við börn eða friðarsinna: Þetta er ekki svona einfalt, þá erum við að réttlæta stríð. Við erum að segja að í sumum tilvikum geti verið réttlætanlegt að beita ofbeldi.

Um leið drepum við vonina, vonina um að hvorki við né nokkrir aðrir í heiminum þurfi að búa við ofbeldi eða ógnina af ofbeldi. Og í staðinn kemur myrkur í augun sem segja: Það er engin von.

Við setjum okkur líka á háan stall; fyrst að minni kynslóð tókst ekki að byggja friðsælan heim þá tekst þinni kynslóð það ekki. Og samþykkjum um leið heim þar sem menn sjá sig knúna til að vakna snemma og drepa þann sem gæti drepið þá.

Það má kalla mig bláeygan, barnslegan ídealista, en ég trúi því einfaldlega að fólk geti lifað saman í friði. Ég hafna því að það sé réttlætanlegt að beita ofbeldi og ég hafna því að hernaðarbrölt sé besta leiðin í samskiptum ríkja.

Ég veit ekki hvernig það er að búa við stríðsátök. Og þannig vil ég hafa það áfram.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla, og friðar.

Stóri sannleikur varnarmálanna

By Uncategorized

eftir Einar Ólafsson

Eftirfarandi grein birtist á vefritinu ogmundur.is 20. desember, en var send Morgunblaðinu til birtingar í lok nóvember þar sem hún hefur ekki birst enn.

Rúmt ár er liðið síðan síðustu bandarísku hermennirnir yfirgáfu Ísland og hátt á annað ár síðan Bandaríkjastjórn tilkynnti að herstöðin yrði lögð niður. Þessi ákvörðun tengdist breytingum í alþjóðamálum á undanförnum hálfum öðrum áratug, breyttum áherslum bandarískra stjórnvalda og endurskipulagningu herstöðvakerfis þeirra. Jafnframt hafa orðið breytingar á skipulagi og starfsemi NATO og jafnvel eðli þess. Allt þetta kallar að sjálfsögðu á endurmat á stöðu Íslands og afstöðu Íslendinga til þessara mála, endurmat sem hlýtur að vera bæði pólitískt og tæknilegt, ef svo má segja.

Íslensk stjórnvöld virðast hinsvegar líta svo á að þetta kalli einungis á einhverskonar tæknilega aðlögun. Eiginlega hafi þessar breytingar fært þennan málaflokk af hinu pólitíska sviði eða gefi í það minnsta færi á því. Í munnlegri skýrslu sinni til Alþingis 8. nóv. sl. talaði utanríkisráðherra um mikilvægi þess að „leitast við að byggja upp sammæli Íslendinga um grunnatriði utanríkisstefnunnar ólíkt því sem einkenndi 20. öldina oft og tíðum og það stjórnmálaandrúmsloft sem þá var ríkjandi“. Í því skyni hafi verið efnt til opinna funda í háskólunum um erindi Íslands á alþjóðavettvangi. Það er auðvitað ágætt. En í fyrrahaust boðaði þáverandi ríkisstjórn að sett yrði upp öryggismálanefnd með aðkomu allra stjórnmálaflokka á þinginu og núverandi ríkisstjórn ítrekaði það í stjórnarsáttmála. Þeirri nefnd hefur þó ekki verið komið á fót. Hinsvegar kynnti ráðherra það í ræðu sinni að hún hefði skipað starfshóp til að vinna hættumat fyrir Ísland, enda væri það undirstaða haldgóðrar varnarstefnu Íslands til framtíðar.

Miðað við allt sem gerst hefur á þessu rúma ári síðan bandaríski herinn fór er það skrítið að ekki skuli enn hafa náðst að skipa umrædda öryggisnefnd stjórnmálaflokkanna og bendir kannski til að það „sammæli“ sem ráðherrann talar um eigi einfaldlega að byggjast á sameiginlegu gagnrýnisleysi núverandi stjórnarflokka gagnvart NATO og þeirri skoðun þeirra að það sé óumbreytanlegt að utanríkisstefna Íslands byggist á aðildinni að NATO og nánu samstarfi við Bandaríkin. Í erindi sínu á fundi Varðbergs og SVS 27. nóv. sagði ráðherrann stjórnvöld fylgja mati NATO á nauðsyn íslensks loftvarnarkerfis og reglulegs eftirlits flugvéla bandalagsríkja og að slíku samstarfi væri ekki ætlað að leysa af hólmi varnarsamstarf við Bandaríkin (Fréttablaðið 28. nóv.).

Það er eins og reynt sé að koma þeirri hugmynd inn hjá þjóðinni að sá ágreiningur, sem var um utanríkismál eða svokölluð varnarmál á tímum kalda stríðsins, eigi sér ekki lengur neinn grundvöll, hann hafi bara snúist um afstöðuna til Bandaríkjanna eða Sovétríkjanna. Með upplausn Sovétríkjanna og lokum kalda stríðsins stafi hverskyns ágreiningur bara af misskilningi og kreddufestu.

Nú snerist ágreiningur á þessu sviði aldrei nema að hluta um afstöðuna til Sovétríkjanna og æ minna sem á leið. Mér finnst ótrúlegt ef utanríkisráðherra gerir sér ekki grein fyrir því þótt það komi forsætisráðherra kannski á óvart. Ágreiningurinn snerist miklu fremur um afstöðuna til heimsvaldastefnu Bandaríkjanna, eðlis og hlutverks NATO og svo almennt um afstöðuna til hervalds, hernaðarhyggju, kjarnorkuvopna o.s.frv. Upplausn Sovétríkjanna breyta engu um það né heldur endalok kalda stríðsins. Reyndar hafa þessi tímamót miklu frekar afhjúpað heimsvaldastefnu Bandaríkjanna og eðli og hlutverk NATO, sem þó var alltaf augljóst hverjum sem vildi sjá. Það er dapurlegt að sumir, sem þá höfðu augun opin, hafa nú lokað þeim.

Eini skoðanamunur utanríkisráðherra og forsætisráðherra virðist vera að hinn fyrrnefndi hefur heldur meiri ímugust á Bush og stjórn hans, sem sé undantekning á lýðræðis- og frelsisbraut Bandaríkjanna, og er þá gleymt Víetnamstríðið og framganga Bandaríkjanna seint á síðustu öld í Mið-Ameríku og raunar svo víða að of langt er upp að telja.

NATO hefur vissulega breyst, en ekki til batnaðar eins og utanríkisráðherra virðist telja. Nú skilgreinir NATO sig „ekki lengur sem varnarbandalag heldur fremur sem öryggisbandalag,“ segir ráðherrann í skýrslu sinni. „Upprunalegt landvarnarhlutverk er enn til staðar en í hnattvæddum heimi hefur áhersla bandalagsins færst á hinar nýju hnattvæddu ógnir.“ Þessar ógnir séu t.d. útbreiðsla kjarnorkuvopna, alþjóðleg glæpastarfsemi, neikvæðar afleiðingar loftslagsbreytinga, fátækt og örbirgð og hryðjuverk. Um þetta mætti hafa mörg orð og fleiri en hér rúmast. Má þó minna á að Bandaríkin og NATO hafa oft verið heldur treg í taumi varðandi kjarnorkuafvopnun og aðildin að NATO hefur verið sögð ósamrýmanleg yfirlýsingu um kjarnorkuvopnaleysi Íslands. Þá má spyrja hvort flug orrustuþotna eigi að sporna við afleiðingum loftlagsbreytinga eða vígbúnaður Bandaríkjanna og NATO eigi að draga úr fátækt. Þetta er, segir ráðherrann, til marks um að „öryggishlutverkið sjálft er gjörbreytt“. Hér fylgir ráðherrann reyndar línu Bush þar sem öllu er hrært saman til að undirbyggja enn frekari vígvæðingu og skerðingu borgaralegra réttinda. Vonandi sammælast menn seint um það.

Friðargöngur á Þorláksmessu í Reykjavík, á Akureyri og Ísafirði

By Uncategorized

Fugl dagsinsÍslenskir friðarsinnar munu að venju standa að friðargöngum á Þorláksmessu. Tilkynnt hefur verið um friðargöngur í Reykjavík og á Akureyri og Ísafirði.

Reykjavík – friðarganga niður Laugaveginn

Safnast verður saman á Hlemmi og leggur gangan af stað stundvíslega klukkan 18:00. Fólk er hvatt til að mæta tímanlega. Friðargangan á Þorláksmessu er nú orðin fastur liður í jólaundirbúningi margra. Gangan í ár er sú tuttugasta og áttunda í röðinni. Að venju munu friðarhreyfingarnar selja kyndla á Hlemmi í upphafi göngunnar áður en lagt verður af stað niður Laugaveginn.

Í lok göngu verður efnt til fundar á Ingólfstorgi þar sem Halla Gunnarsdóttir blaðamaður flytur ávarp en fundarstjóri er Þorvaldur Þorvaldsson.

Söngfólk úr Hamrahlíðarkórnum og Kór Menntaskólans við Hamrahlíð syngur í göngunni og við lok fundar.

Ráðlegt er fyrir göngufólk að mæta tímanlega, því gangan leggur af stað stundvíslega.

Nánari upplýsingar veita: Steinunn Þóra Árnadóttir (s. 6902592/5512592) og Ingibjörg Haraldsdóttir (s. 8495273/5528653)

Akureyri – blysför í þágu friðar

Samtök hernaðarandstæðinga á Norðurlandi standa fyrir Blysför í þágu friðar á Akureyri á Þorláksmessu. Gengið verður frá Samkomuhúsinu í Hafnarstræti kl. 20.00 og út á Ráðhústorg.

Kjörorð eru þau sömu og undanfarin ár:
– Frið í Írak!
– Burt með árásar- og hernámsöflin!
– Enga aðild Íslands að stríði og hernámi!

Ávarp flytur Hannes Örn Blandon prófastur. Félagar úr Kór Akureyrarkirkju syngja.

Ísafjörður – friðarganga frá Ísafjarðarkirkju

Gengið verður frá Ísafjarðarkirkju klukkan 18:00 á Þorláksmessu. Á Silfurtorgi verður svo stutt dagskrá með tónlistaratriði, ljóðaflutningi og Anna Sigríður Ólafsdóttir flytur ávarp.

Bókmenntakynning MFÍK

By Uncategorized

mfik Bókmenntakynning MFÍK

laugardaginn 15. desember 2007 kl.14:00

MÍR-sal, Hverfisgötu 105 (á horni Snorrabrautar)

Auður Ólafsdóttir
Afleggjarinn

Berglind Gunnarsdóttir
Tímavillt

Freyja Haraldsdóttir og Alma Guðmundsdóttir
Postulín

Guðrún Hannesdóttir
Fléttur

Halldóra Thoroddsen
Aukaverkanir

Ingibjörg Haraldsdóttir
Veruleiki draumanna

Ólöf P. Hraunfjörð kynnir
Sykurmolinn eftir Huldu Hraunfjörð Pétursdóttur

Sigurlín Bjarney Gísladóttir
Fjallvegir í Reykjavík

Aðventustemning – Kaffisala
Húsið opnar kl. 13:30 – Allir velkomnir.

Ágóði af kaffisölu rennur til Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur

Menningar- og friðarsamtökin MFÍK
Pósthólf 279, 121 Reykjavík http://mfik.is