All Posts By

Stefán Pálsson

Langur laugardagur í Friðarhúsi – undirbúningur fyrir aðgerðir 15. mars

By Uncategorized

Næstkomandi laugardagur verður langur laugardagur á Laugaveginum og þar um kring. Að venju verður þá líka langur laugardagur og opið hús í Friðarhúsinu Njálsgötu 87. Húsið verður opnað klukkan eitt.

Þessi laugardagur verður einkum helgaður undirbúningi fyrir aðgerðirnar 15. mars. Þann 20. mars verða liðin fimm ár frá innrásinnni í Írak og dagana á undan verða aðgerðir gegn stríðinu víða um heim.

Vinnufúsar hendur eru vel þegnar til að taka þátt í undirbúningnum, þótt það sé kvaðalaust að líta inn og fá sér bara kaffisopa og spjalla.

Það þarf að útbúa borða og spjöld og sitthvað fleira, en í aðgerðunum verða meðal annars táknrænar aðgerðir sem krefjast nokkurs undirbúnings. Vegna þeirra er vel þegið að fólk komi með skó sem hætt er að nota, einkum barnaskó. Þeir sem eiga aflögu skó, sem ekki eru mjög illa farnir, eru beðnir að kippa þeim með. Þá verða einnig tilbúnir dreifimiðar og plaköt sem þarf að koma út.

Fjölmennum í Friðarhús á löngum laugardegi. Tökum til hendinni, mótmælum stríðinu, vinnum að friði.

Fjáröflunarmálsverður Friðarhúss – í umsjón MFÍK

By Uncategorized

mfikHinn sívinsæli mánaðarlegi fjáröflunarmálsverður Friðarhúss verður haldinn föstudagskvöldið 29. feb. kl. 19. Að þessu sinni verður samkoman í umsjón Menningar- og friðarsamtakanna MFÍK.

Kokkur kvöldsins er Veróníka S.K. Palaniandy (Rúbý) frá Singapúr.

Matseðillinn verður mátulega framandi til að falla öllum í geð:

* Kjötbollur (nautakjöt) með ferskum grænum piparkornum, basilíku og myntu.

* Gular baunir í kókos með ýmsu grænmeti (þessi réttur hentar grænmetisætum).

* Blandað grænmetissalat með ólífuolíusósu.

* Réttirnir eru borðaðir með brauði.

* Frönsk súkkulaðikaka í eftirrétt og boðið upp á kaffi og te með súkkulaðisírópi og blóðappelsínusírópi.

Andlega næringu munu skáldkonurnar Guðrún Hannesdóttir, Ingibjörg Haraldsdóttir og Vilborg Dagbjartsdóttir sjá um.

Fjölmennum og tökum með okkur gesti.

Borðhald hefst kl. 19 en húsið opnar 1/2 tíma áður.

Maturinn kostar 1.500 kr.

15. mars: Stríðinu verður að linna

By Uncategorized

Alþjóðlegar aðgerðir gegn Íraksstríðinu dagana 15.-22. mars 2008

gegnstridi 20. mars verða liðin fimm ár frá því innrásin í Írak hófst. Síðan hefur verið stríðsástand í landinu. Enginn veit hversu margir hafa dáið af völdum stríðsins, en ljóst er tala þeirra hleypur á hundruðum þúsunda. Talið er að af 26 milljónum íbúa í landinu séu um tvær milljónir á flótta innanlands og tvær og hálf utanlands. Innviðir samfélagins eru í rúst. Ástandið versnar með hverjum degi. Stríðinu verður að linna!

Innrásinni var mótmælt með einhverjum einhverjum víðtækustu mótmælaaðgerðum sögunnar. Síðan hafa alltaf verið alþjóðlegar mótmælaaðgerðir kringum 20. mars. Að þessu sinni hafa dagarnir 15. til 22. mars verið valdir og í Reykjavík munu Samtök hernaðarandstæðinga standa fyrir aðgerðum laugardaginn 15. mars kl. 1 eftir hádegi. Nánari upplýsingar verða birtar þegar þær liggja fyrir.

Takið 15. mars frá. Fjölmennum.
Stríðinu verður að linna!

Upplýsingar um aðgerðir erlendis:
www.stopwar.org.uk
www.theworldagainstwar.org
www.unitedforpeace.org
www.motkrig.org
www.nejtilkrig.dk

Alþingi ítrekar fordæmingu sína á fangabúðunum í Guantanamo

By Uncategorized

Við höfum sagt frá tillögu sem lögð var fram á Alþingi 17. janúar um að fordæma fangabúðirnar í Guantanomo (sjá hér). Tillögunni var samkvæmt hefð vísað til utanríkismálanefndar og annarrar umræðu en í fyrri umræðu kom fram stuðningur við tillöguna frá þingmönnum allra flokka. Í dag, 6. febrúar, var af gefnu tilefni aftur vikið að þessu máli og enn kom fram stuðningur allra flokka. Umræðuna má sjá á vef Alþingis.

Ekki er sama samstaða um frumvarp til varnarmálalaga sem rætt verður á fundi SHA fimmtudagskvöldið 7. febrúar kl. 20, sjá hér að neðan.

Félagsfundur SHA um varnarmálafrumvarp

By Uncategorized

Alþingi við Austurvöll Fyrir Alþingi liggur frumvarp ríkisstjórnarinnar um varnarmál, þar sem fjallað er um ýmis þau málefni sem SHA hafa sett á oddinn á liðnum árum, s.s. aðstöðu erlendra hersveita, heræfingar hér á landi o.s.frv. Frumvarpið má lesa ásamt greinargerð hér á vef Alþingis.

Afar brýnt er að SHA bregðist við frumvarpinu. Því verður efnt til almenns félagsfundar í Friðarhúsi fimmtudagskvöldið 7. febrúar kl. 20. Félagsmenn eru hvattir til að kynna sér frumvarpið, mæta og taka þátt í umræðum.