All Posts By

Stefán Pálsson

Samtök hernaðarandstæðinga leita svara um vígbúnaðarstefnu ríkisstjórnarinnar

By Uncategorized

natonuclearthreatSamtök hernaðarandstæðinga hafa sent ríkisstjórninni athugasemdir og spurningar vegna yfirlýsingar leiðtogafundar NATO í Búkarest í byrjun apríl. Með setu sinni á fundinum hafa ráðherrarnir samþykkt þá stefnu sem fram kemur í yfirlýsingunni.

Samkvæmt yfirlýsingunni hyggst NATO taka enn meiri þátt í stríðsrekstrinum í Írak, sem ríkisstjórnin harmaði í stefnuyfirlýsingu sinni og Samfylkingin var andvíg frá upphafi. NATO mun einnig herða stríðsaðgerðir sínar í Afganistan, sem Ísland tekur þátt í undir yfirskini friðargæslu. NATO leggur áherslu á baráttuna gegn hryðjuverkum, sem er réttlæting fyrir enn frekari hernaðarstefnu, vígbúnaði og atlögu að borgaralegum réttindum.

Eitt alvarlegasta atriði þessarar yfirlýsingar er áætlun um aukinn vígbúnað NATO og aðildarríkja þess og stuðningur við fyrirhugað eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjanna, sem setur öll fyrirheit um kjarnorkuafvopnun í uppnám. Að auki er gert ráð fyrir að NATO þrói eigið eldflaugavarnarkerfi.

Eitt aðalefni fundarins var áframhaldandi útþensla NATO, sem felur í sér aukinn vígbúnað og hernaðarstefnu á heimsvísu og samþættingu hernaðarlegrar starfsemi við borgaralega öryggisgæslu á sviði lögreglu, strandgæslu, almannavarna, björgunarsveita, friðargæslu og þróunaraðstoðar. Sérstaka athygli vekja áætlanir um stóraukið samstarf við Ísrael.

Samtök hernaðarandstæðinga spyrja ráðherrana hvort það sé stefna ríkisstjórnarinnar að styðja og taka þátt í þessari vígbúnaðar- og útþenslustefnu NATO.

Nokkrar spurningar vegna yfirlýsingar leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins í Búkarest 2.-4. apríl 2008

antinato rumenia2008Leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Búkarest 2.-4. apríl sl., sem Geir H. Haarde forsætisráðherra og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sóttu fyrir hönd Íslands, sendi frá sér yfirlýsingu sem túlkar þá meginstefnu sem samkomulag náðist um á fundinum. Ýmislegt í þessari skýrslu vekur upp spurningar sem Samtök hernaðarandstæðinga (SHA) vilja beina til ráðherranna sem sátu þennan fund og bera ábyrgð á þessari yfirlýsingu ásamt starfssystkinum sínum frá öðrum aðildarríkjum NATO.

      1. Írak. Í 17. lið yfirlýsingarinnar er gert ráð fyrir að þjálfunarverkefni NATO í Írak (NATO Training Mission Iraq – NTM I) verði aukið á árinu 2009 og fært út til fleiri sviða. Þá hefur NATO einnig staðfest tillögur um að þróa samskipti NATO og Íraks og skipuleggja til lengri tíma. Innrás Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í mars 2003 var gerð án samþykkis Sameinuðu þjóðanna og ólögmæt. Innrásarliðið er þar enn og landið í raun hernumið. Ómögulegt er að líta á liðsveitir NATO í Írak öðruvísi en sem hluta af því innrásar- og hernámsliði, sem þar er enn undir forystu Bandaríkjanna, þó svo að liðsveitir NATO séu ekki bardagasveitir. Gagnrýni á þennan stríðsrekstur fer almennt vaxandi. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að ríkisstjórnin harmi stríðsreksturinn í Írak og síðastliðið haust var ákveðið að kalla íslenska fulltrúann í NATO-liðinu heim. SHA spyrja því hvort það sé stefna ríkisstjórnarinnar að styðja áframhaldandi þátttöku NATO í stríðsrekstrinum Írak. Jafnframt vilja SHA minna á þær tillögur, sem samtökin sendu ríkisstjórninni 13. mars sl. um aðgerðir til að binda endi á hernám Íraks og koma á friði í landinu.

      2. Afganistan. Aðgerðir NATO í Afganistan voru eitt af meginmálum þessa fundar. Í 6. lið ályktunarinnar kemur fram að þessar aðgerðir séu mikilvægasta verkefni („top priority“) NATO núna. Lögð er áhersla á nauðsyn þess að herða baráttuna þar enn frekar og bæta við liðsafla. Þótt ISAF-verkefnið, sem NATO tók við í Afganistan árið 2003, byggist á ályktun Öryggisráðsins frá desember 2001, þá er NATO í reynd að halda áfram því stríði sem Bandaríkin og Bretland hófu í október 2001 og stendur enn og sér ekki fyrir endann á. Forusta NATO í Afganistan er stærsta og alvarlegasta dæmið um nýtt hlutverk NATO sem virkt stríðsbandalag, sem færir starfsemi sína æ lengra út fyrir upphaflegt athafnasvæði sitt. SHA spyrja hvort það sé vilji og stefna íslensku ríkisstjórnarinnar að NATO herði enn frekar stríðsrekstur sinn í Afganistan.

      3. Stríðið gegn hryðjuverkum. Í 15. lið yfirlýsingarinnar er lögð áhersla á baráttuna gegn hryðjuverkum. Eftir 11. september 2001 hefur baráttan gegn hryðjuverkum verið notuð til réttlætingar á innrásum og stríðsaðgerðum, persónunjósnum, fangelsunum, pyndingum og öðrum mannréttindabrotum, þó að hryðjuverk séu í reynd sáralítil ógn eða vandamál miðað við ýmislegt annað sem minna vægi fær. Eins og fram kemur í þessum lið yfirlýsingarinnar og víðar notar einnig NATO þessa ýktu ógn til að auka starfsemi sína, uppbyggingu, vígbúnað og útþenslu. Meðal annars er í ályktuninni gert ráð fyrir að hleypt verði nýju lífi í Samstarfsáætlunina gegn hryðjuverkum (Partnership Action Plan against Terrorism), sem sett var á laggirnar eftir leiðtogafundinn í Prag í september 2002, og jafnframt ítrekað mikilvægi eftirlitsaðgerða NATO á Miðjarðarhafi (Operation Active Endeavour – OAE), sem hafnar voru í október 2001 til að hafa eftirlit með vopnasmygli og ferðum hryðjuverkahópa. SHA spyrja hvort íslenska ríkisstjórnin ætli sér gegnum NATO að taka þátt í þeirri herför, sem Bandaríkin skilgreina sem „stríð gegn hryðjuverkum“ og hefur auk annars kostað tugþúsundir mannslífa?

      4. Eldflaugavarnir. Í 37. lið yfirlýsingarinnar segir að sá gagnflaugabúnaður, sem Bandaríkin hyggjast koma sér upp, sé mikilvægt framlag til verndar bandalagsríkjunum. Í skoðun sé hvernig tengja megi þessar eldflaugavarnir Bandaríkjanna núverandi viðleitni NATO til eldflaugavarna og tryggja að þær verði hluti af framtíðarskipulagi NATO á þessu sviði. Fastaráði NATO (Council in Permanent Session) er falið að þróa slíkt skipulag þannig að það nái til alls þess svæðis bandalagsins, sem ekki verður dekkað af eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjanna, og skal leiðtogafundurinnn 2009 taka nánari ákvörðun um þá þróun. Bandaríkin sögðu árið 2002 einhliða upp ABM-sáttmálanum, sem á sínum tíma var talinn mikilvægt skref í átt til kjarnorkuafvopnunar. SHA spyrja því hvort það sé vilji íslensku ríkisstjórnarinnar að NATO taki þátt í þessari viðleitni Bandaríkjanna til að grafa undan frekari árangri á sviði kjarnorkuafvopnunar. SHA vísa jafnframt til mikillar andstöðu bæði í Póllandi og Tékklandi, þar sem áætlað er að koma upp aðstöðu vegna þessa gagnflaugabúnaðar Bandaríkjanna.

      5. Aukinn vígbúnaður. Í ályktuninni kemur fram tvískinnungur varðandi vígbúnað. Annars vegar (liðir 40 og 42) er talað um að NATO-ríkin hafi dregið úr vígbúnaði sínum og lögð áhersla á mikilvægi Samningsins um hefðbundinn herafla í Evrópu (CFE-samningsins). Hins vegar (liðir 44-46) er lögð áhersla á að styrkja NATO hernaðarlega. Gert er ráð fyrir að styrkja viðbragðssveitir NATO (NATO Response Force) og þróa og auka herafla bandalagsins (liðir 44 og 45) og þau ríki, sem hafa dregið úr útgjöldum til varnarmála, eru hvött til að snúa við blaðinu og auka þessi útgjöld (liður 46). SHA spyrja hvort það sé stefna íslensku ríkisstjórnarinnar að hvetja til aukinnar vígvæðingar og hernaðarútgjalda NATO og NATO-ríkjanna og hvort ætlunin sé að þessi aukni vígbúnaður og útgjaldaaukning nái einnig til Íslands.

      6. Útþensla NATO. Í ýmsum liðum ályktunarinnar er lögð áhersla á frekari beina og óbeina útþenslu bandalagsins. Tengslin við samstarfsríkin á hinu „strategískt“ mikilvæga svæði í Kákasus og Mið-Asíu verði styrkt og þessi ríki gerð virkari (liður 32). Miðjarðarhafssamstarfið verði þróað enn frekar (liður 33) sem og samstarf við ríki við Persaflóa gegnum Istanbúl-samstarfsáætlunina (Istanbul Cooperation Initiative – ICI) (liður 34). Þá er einnig lögð áhersla á aukið samstarf við ríki í fjarlægari heimshlutum, Ástralíu, Japan, Nýja Sjáland og Singapúr, og verður sett í gang sérstök áætlun til að þróa tengslin við þessi ríki (Tailored Cooperation Packages). Einnig er Suður-Kórea nefnd í þessu sambandi. Þessi mikla útþensla til annarra heimshluta hefur verið umdeild innan bandalagsins og hlaut ekki brautargengi á leiðtogafundinum í Ríga 2006. Bandaríkin hafa einkum beitt sér fyrir henni og nú virðist sífellt meir látið undan þrýstingi þeirra. SHA spyrja hvort það sé stefna íslensku ríkisstjórnarinnar að styðja þessa umdeildu útþenslu NATO.

      7. Aukin samskipti við Ísrael. Sérstaka athygli vekur að gert er ráð að fyrir þróa tengsl NATO við Ísrael enn frekar. Gert er ráð fyrir að settar verði í gang tvíhliða samvinnuáætlanir (Individual Cooperation Programmes) gagnvart Egyptalandi og Ísrael. SHA spyrja hvort það sé vilji og stefna íslensku ríkistjórnarinnar að NATO stórauki samstarf sitt við Ísrael á sama tíma og mannréttindabrot og stríðsglæpir ísraelsku ríkisstjórnarinnar gagnvart Palestínumönnum verða æ alvarlegri. Er það í samræmi við það sem NATO kallar lýðræðisleg gildi?

————–
Yfirlýsing Búkarest-fundarins
Tillögur SHA um aðgerðir til að binda endi á hernám Íraks og koma á friði í landinu

Helga Kress í Friðarhúsi

By Uncategorized

Vakin er athygli á opnum félagsfundi MFÍK í Friðarhúsi miðvikudagskvöldið 9. apríl, kl. 19.

Gestur fundarins er Helga Kress. Hún mun tala um ævi og verk Ólafar á Hlöðum en 9. apríl eru liðin hundrað fimmtíu og eitt ár frá fæðingu þessarar merku skáldkonu.

Léttur kvöldverður seldur í upphafi fundar (kr. 1.000)

Fundurinn er öllum opinn. Húsið opnar k. 18:30 – borðað kl. 19.

Vinur er sá er til vamms segir! – Flosa svarað

By Uncategorized

Friðarvefurinn hefur birt grein Flosa Eiríkssonar úr tímaritinu Herðubreið, þar sem Flosi finnur að einu og öðru varðandi baráttuaðferðir og málflutning Samtaka hernaðarandstæðinga. Stefán Pálsson, formaður SHA, svarar hér einu og öðru úr grein Flosa.

Jóhannes úr Kötlum flutti eftirminnilega ræðu á útifundi Samtaka hernámsandstæðinga fyrir margt löngu, þar hann sem lagði út frá því að þótt einungis “ein lítil kona í rauðri regnkápu” myndi mæta til að hlusta, skyldi hann ekki skorast undan því að tala máli friðar og afvopnunar. Skáldið vissi sem var að hvort heldur sem fundarmenn væru taldir í tugum eða tugþúsundum hefði það eitt og sér ekki áhrif á réttmæti málstaðarins og breytti því ekki hvort boðskapurinn væri réttur eða rangur.

Fáir menn unnu jafnötulega að framgangi herstöðvaandstöðunnar og Jóhannes úr Kötlum. Stofnun Samtaka herstöðvaandstæðinga árið 1972, á grunni Samtaka hernámsandstæðinga sem þá lágu í dvala, var að hluta til í minningarskyni við skáldið sem lést þetta sama ár. Jóhannes þekkti því mætavel gagnrýni andstæðinga hreyfingarinnar, sem reyndu að draga upp þá mynd að hún væri fáliðuð, áhrifalaus og einkum skipuð óraunsæjum öfgamönnum af vinstri vængnum.

Íslenskir hernaðarsinnar og stuðningsmenn NATO-aðildarinnar hafa alla tíð reynt að afgreiða friðarsinna og samtök þeirra með þessum hætti. Að því leyti hefur orðræðan ekkert breyst frá lokum síðari heimsstryjaldarinnar til dagsins í dag.

Gagnrýni er alltaf góð

Flosi Eiríksson, gamall og góður félagi í Samtökum hernaðarandstæðinga, er á nokkuð öðru máli. Hann telur friðarhreyfinguna í kreppu, meðal annars vegna þess að hún eigi við heimatilbúinn ímyndarvanda að etja. Í nýlegri grein í tímaritinu Herðubreið, sem nú hefur verið birt hér á Friðarvefnum, freistar Flosi þess að greina í hverju vandi SHA felist.

violetÉg fagna því að Flosi skuli hafa gefið sér tíma til að skrifa þessa grein og búa hana til birtingar. Pólitísk hreyfing sem enginn nennir að hafa skoðun á er ekki í góðri stöðu. Öll samtök hljóta að hafa gott af stöðugri umræðu um hversu vel þeim gengur í baráttu sinni og hvort hún skili tilætluðum árangri. Jafnframt deili ég þeirri skoðun með Flosa að friðarhreyfingin þyrfti að vera miklu sterkari en raun ber vitni – það væri raunar skringilegur formaður félagasamtaka sem ekki vildi málstað félags síns sem mestan.

Samtök hernaðarandstæðinga hafa aldrei verið hrædd við gagnrýna umræðu um starfsemi sína. Til marks um það má nefna greinar sem birtust hér á Friðarvefnum í tengslum við nafnbreytingu SHA árið 2006, þar sem 2-3 ágætir félagar gagnrýndu eitt og annað í starfinu og stefnunni – en þau skrif eru raunar einhver veigamesta heimildin í umræddri grein Flosa.

Upphaflega var hér um að ræða tölvuskeyti viðkomandi félaga til þess er hér skrifar og Einars Ólafssonar, ritstjóra Friðarvefsins. Við Einar töldum hins vegar rétt að sem flestir gætu lesið skrifin og báðum því um leyfi til birtingar.

Beinskeytt skrif í Dagfara

dagfforsEnn hvassari gagnrýni á baráttuaðferðir SHA hafa birst í sjálfu málgagni félagsins, Dagfara – jafnvel í ritstjórnargreinum. Fyrir nokkrum misserum var t.a.m. “mótmælamenning” meginstefið í einu tölublaði Dagfara, þar sem íslenskum mótmælendum (þar með talið SHA) var sagt til syndanna af ungum anarkista fyrir að vera alltof settleg – og Haukur Már Helgason amaðist við þjóðernissöngvum og hvatti til þess að “hinni langdregnu líkfylgd Maístjörnunnar” yrði slitið hið fyrsta.

Enn má nefna Dagfarann þar sem SHA var skammað úr ólíkum áttum í greinum sem birtust hlið við hlið – af sósíalistanum Þórarni Hjartarsyni á Akureyri sem hvatti til beins stuðnings við andspyrnusveitir í Írak og af f.v. formanni Heimdallar, Björgvini Guðmundssyni sem átaldi herstöðvaandstæðinga fyrir að berjast ekki fyrir frjálsri verslun.

Auðvitað hafa greinar sem þessar stundum farið fyrir brjóstið á almennum félagsmönnum – sem jafnvel hafa hótað úrsögnum eða hringt í okkur úr miðnefndinni og skammast hraustlega. Sjálfur hef ég hins vegar alltaf verið stoltur af því að vera hluti af félagi sem hikar ekki við að draga fram sem ólíkust sjónarmið og óvægna sjálfsgagnrýni. Af lestri greinar Flosa virðist mér hann vera á öðru máli. Mér virðist hann telja það veikleikamerki að á vettvangi félagsins birtist gagnrýnin skrif manna sem ekki eru sáttir við starfið og stefnuna. Sé sá skilningur minn réttur, verðum við Flosi að vera ósammála í þessu efni.

Ólík sjónarmið

Félagar í SHA hafa ólíkar skoðanir og áherslur. Sumir aðhyllast harða friðarstefnu (pacifisma), aðrir ganga talsvert langt í að fallast á valdbeitingu til að koma á réttlæti. Þannig segist Ólafur Jónsson (Óli kommi) “vera á móti öllum her – nema Rauðum her”, meðan Framsóknarþingmaðurinn Bjarni Harðarson leggur á það áherslu að herstöðvaandstaða hans hafi alla tíð byggst á þjóðernislegum forsendum, þar sem erlendur her eigi hér ekki að vera.

herskip 01Sumir félagsmenn byggja afstöðu sína að miklu leyti á andstöðu við það sem þeir telja heimsvaldastefnu Bandaríkjanna og þá trú að stjórnin í Washington sé helsta ógnin við frið í heiminum nú um stundir. Það er því kannski ekki að undra þótt þessi hópur hafi ekki látið mikið til sín taka þegar SHA hafa mótmælt komu herskipa frá öðrum ríkjum en BNA, s.s. frá Þýskalandi, Frakklandi og Rússlandi. Þeir eru til í röðum félaga okkar sem sjá litla ástæðu til að amast við heræfingum hér á landi þar sem engir bandarískir hermenn taka þátt. Þannig virðist mér Flosi Eiríksson vera ósáttur við það að samtökin mótmæli heræfingum Norðmanna og Dana.

En þótt skoðanir og áherslur einstakra félagsmanna kunni að vera skiptar, er stefna sjálfra samtakanna skýr – og hún hlýtur jú að vera mælikvarðinn. Stefnuskráin, sem síðast var endurskoðuð haustið 2005 er afdráttarlaus. SHA berjast fyrir því að alþjóðleg deilumál verði leyst án ofbeldis. Þau hafna heimsvaldastefnu og öllum tilraunum til að kúga þjóðir með hervaldi. Þátttaka Íslendinga í hernaði og hernaðarbandalögum má aldrei líðast.

Þótt stefnuskrá SHA sé innan við þriggja ára gömul, hefði hún allt eins getað verið samin fyrir tíu árum, tuttugu árum eða hálfri öld – það er af því að baráttumálin eru sígild. Við hernaðarandstæðingar teljum sjónarmið okkar eiga jafn vel við nú og fyrir hundrað árum, á sama hátt og frjálshyggjumaðurinn eða jafnaðarmaðurinn telja væntanlega báðir að hin klassísku gildi þeirra hafi staðist tímans tönn.

Þetta sjónarmið – að stefnumál og gildismat okkar friðarsinna okkar í dag væri hið sama og frumherjanna fyrir mörgum áratugum – reyndi ég að reifa í skoðanaskiptunum sem urðu í tengslum við breytinguna á nafni samtakanna árið 2006 og sem Flosi vísar talsvert í. Líklega hefur mér ekki tekist nægilega vel að koma hugsun minni vel í orð – í það minnsta leggur Flosi allt annan skilning í skrif mín en til var ætlast.

Hvað á barnið að heita?

Til að setja skrifin haustið 2006 í samhengi, er rétt að rifja upp að miðnefnd SHA hafði þá lagt til að nafni Samtaka herstöðvaandstæðinga yrði breytt í Samtök hernaðarandstæðinga. Tilefnið var augljóslega sú breytta staða sem upp var komin vegna brottfarar bandaríska hersins af Miðnesheiði. Nýja nafnið mæltist vel fyrir hjá þorra félagsmanna og var samþykkt furðumótbárulítið ef haft er í huga hversu miklar tilfinningar geta verið bundnar við gamalgróin nöfn.

Í aðdraganda aðalfundarins gerðu samt nokkrir félagar ágreining um þessa breytingu og töldu hana til marks um að samtökin hefðu fjarlægst fyrri stefnu sína og markmið. Að þeirra mati voru samtökin í seinni tíð farin að reka almenna og innihaldsrýra friðarstefnu, sem væri í raun til þess fallin að verja ríkjandi ástand og væri því vatn á myllu valdastétta. Þá var það sjónarmið reifað að friðarhreyfingin hefði aldrei neinu skilað og engum árangri náð.

picassopablolacolombedelapaix2406263Þessum sjónarmiðum andmælti ég og hélt því fram að hugmyndafræðilegi grundvöllur hernaðarandstöðunnar í dag væri sá sami og fyrir hálfri öld. Eftir að hafa lesið mér rækilega til um sögu friðarhreyfingarinnar hér á landi er ég sannfærður um að fáar ef nokkrar pólitískar hreyfingar á Íslandi hafa verið jafn alþjóðlegar og friðarhreyfingin. Þótt andstæðingar okkar hafi oft viljað líta á hreyfingu herstöðvaandstæðinga sem séríslenskt fyrirbæri er líklega erfitt að gera sér í hugarlund nokkuð sem er jafn ó-séríslenskt og einmitt friðarhreyfingin.

Því miður fór þessi boðskapur gjörsamlega framhjá Flosa, sem kaus að túlka orð mín um að baráttumál friðarhreyfingarinnar væru klassísk á þann hátt að hreyfingin sjálf ætti engum breytingum að taka og að best væri að gera alla hluti eins og þeir voru framkvæmdir árið 1975.

Úr ýmsum áttum

tordenskjoldReyndar finnst mér fleira í gagnrýni Flosa bera það með sér að hann hafi í flýti gripið niður hér og þar í starfsemi félagsins og tínt til málsgreinar eða setningar sem kunni að orka tvímælis ef samhengið vantar. Þannig gremst Flosa að í lok langrar ályktunar um herfingar Norðmanna á Íslandi komi sagnfræðileg vísun í sjóhetjuna Tordenskjold og Einar Þveræing – engu að síður viðurkennir hann að í meginmáli ályktunarinnar komi fram meginröksemdir samtakanna gegn heræfingum almennt. Sagnfræðilegu kjúríosítetin í lokin, sem öðrum þræði voru sett inn í þeirri vitneskju að fjölmiðlar birta síður þurrar ályktanir, eru hins vegar fleinn í holdi Flosa sem telur þau stórskaða málstað friðarsinna.

Leiðinlegra þykir mér að lesa dylgjur Flosa um að ég hafi í þessari grein á Friðarvefnum gefið undir fótinn kenningum um CIA-samsæri að baki hryðjuverkunum 11. september 2001. Hvað er það við setninguna: “Sá er þetta ritar, leggur ekki trú á þessar kenningar”, sem vefst fyrir höfundi? Dylgjur af þessu tagi eru enn bagalegri í ljósi þess að Flosi hirðir ekki um að birta tilvísanir með grein sinni í Herðubreið – með þeim afleiðingum að lesendur tímaritsins hafa ekki möguleika á að kanna sjálfir hvað hæft sé í ályktunum hans.

Eins er skringilegt að lesa umfjöllun um að Pútíns-dýrkun ráði miklu um afstöðu einstakra félaga í mikilsverðum málum. SHA hafa vissulega staðið gegn uppbyggingu gagneldflaugakerfis í Evrópu, sem margir telja að miklu leyti beint gegn Rússlandi. Á sama hátt hafa samtökin varað við öllu því sem stuðlað gæti að nýju vígbúnaðarkapphlaupi milli Rússlands og Vesturveldanna – en í því felst vitaskuld ekki neinn stuðningur við ríkisstjórn Rússlands, á sama hátt og andstaðan við vígvæðingu NATO-þjóða á tímum kalda stríðsins var ekki stuðningsyfirlýsing við stjórnvöld í Moskvu.

Hvers vegna íslenskir friðarsinnar ættu líka að finna til sérstakrar samkendar með mönnum á borð við Pútín, sem hefur blóði drifnar hendur eftir stríðið í Téténíu, er mér sömuleiðis hulin ráðgáta. Á tímum kalda stríðsins vildu sumir trúa því að SHA væri skálkaskjól fyrir fimmtu herdeild kommúnista – enn langsóttari er þó hugmyndin um að þar hafi verið um að ræða fimmtu herdeild Rússasinna – alveg óháð stjórnmálaástandi í Rússlandi.

Höfum við gengið til góðs?

Til hvers er okkar starf? – Hversu oft höfum við öll ekki spurt okkur þessarar spurningar? Að andæfa herveldum veraldar með baráttusöngva og skilti með hnitmiðuðum slagorðum að vopni, kann að virðast ójafnasta glíma sem hugsast getur. Ef sagan er könnuð kemur þó í ljós að samstaða fólksins hefur ýmsu áorkað.

wtv8g300Líklega var það evrópska friðarhreyfingin sem bjargaði veröldinni frá yfirvofandi gereyðingarstríði þegar kjarnorkukapphlaupið stóð sem hæst. Þegar risaveldin kepptust við að setja upp skamm- og meðaldræg kjarnorkuvopn á meginlandi Evrópu – þá voru það ekki firrtu risaeðlurnar Reagan og Brésneff sem tóku í taumana. Það var samtakamáttur fjöldans – milljóna manna um álfuna alla sem afstýrði geggjuninni.

Friðarhreyfingin hefur glæsta sögu og getur sýnt fram á fjöldamörg afrek. En jafnvel þótt engum slíkum væri til að dreifa – jafnvel þótt eini áheyrandinn öll þessi ár, væri ein lítil kona í rauðri regnkápu – þá gæti hún samt borið höfuðið hátt.

Stefán Pálsson
– höfundur er formaður SHA

Firring og fásinna – Íslenska „friðarhreyfingin“ er ónýt

By Uncategorized

Eftirfarandi grein Flosa Eiríkssonar, félaga í SHA, birtist nýverið í tímaritinu Herðubreið. Aðstandendur Friðarvefsins fóru fram á að fá að birta greinina á þessum vettvangi og féllst geinarhöfundur og útgefendur Herðubreiðar góðfúslega á það.

„Fjöldafundurinn í fyrrakvöld er einn þeirra atburða sem ekki gleymast, sem lifa í minningunni, ylja og styrkja.
Þúsundir og aftur þúsundir Reykvíkinga söfnuðust saman þögulir og alvarlegir, þrátt fyrir kaldranalegt og leiðinlegt veður. Og þá lá við að maður fagnaði veðrinu. Afleiðing þess var sú að þeir einir mættu á fundinn sem höfðu brennandi áhuga á sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.”

Svo segir í leiðara Þjóðviljans föstudaginn 18. maí 1951 um útifund Sósíalistaflokksins, sem haldinn var við Miðbæjarskólann í Reykjavík tveimur dögum fyrr, til að mótmæla varnarsamningum milli Íslands og Bandaríkjanna sem undirritaður var 5. maí.

Þessi fjölmenni fundur var ein birtingarmynd þeirrar miklu andstöðu sem var við Nató, varnarsamninginn og veru Bandaríkjahers í landinu.

Í ágústmánuði 2007, 56 árum síðar, var aftur blásið til mótmæla. Nú var tilefnið varnaræfingar Nató, en þeim var mótmælt með því að ganga á milli sendiráða Noregs, Danmerkur og Bandaríkjanna. Samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins tóku um 80 hernaðarandstæðingar þátt í þessum mótmælum, og það þrátt fyrir rjómablíðu.

Í fréttinni segir svo: „Í hópi mótmælenda mátti sjá marga gamla hernámsandstæðinga og einnig gömul mótmælaspjöld og kunnugleg.” Greinilegt er að fréttamanni finnst þetta skemmtilegt umfjöllunarefni, nokkurs konar krydd í tilveruna, skondin og skemmtileg frétt eins og þær sem oft eru fluttar í seinni hluta fréttatímans til að létta á landsmönnum brúnina, en hann sér ekki að hér séu á ferðinni nein sérstök tíðindi.

Lögreglan í Reykjavík virðist hafa haft sama mat á þessum fámennu „endurfundum“ – að þaðan væri ekki mikilla tíðinda eða hættu að vænta – því í fréttinni segir ennfremur: „Stefán Pálsson formaður samtakanna hafði á orði að hann hálfvegis saknaði þess að hvergi væri lögreglu að sjá.” Svo var komið fyrir hinni rótttæku hreyfingu gegn her í landi að hún var ekki einu sinni ofsótt af lögreglunni – það var ekki aðeins almenningur sem sá ekki ástæðu til að taka þátt í mótmælum á hennar vegum, heldur nennti löggan ekki einu sinni að mæta.

En það var fleira sem olli Stefáni formanni hugarangri en fjarvera lögreglunar. Í viðtali við Moggann orðar hann áhyggjur sínar svo: „Við erum með almannavarnir, landhelgisgæslu og lögreglu og eigum að efla þessarar stofnanir, en ekki að nota peningana í að þjálfa upp erlenda dáta sem er með höppum og glöppum hvort séu lausir eða eigi heimangengt ef eitthvað kemur upp á.” Það er óneitanlega nýstárlegt að formaður hernaðarandstæðinga hafi áhyggjur vegna efasemda um að erlendir hermenn „eigi heimangengt ef eitthvað kemur upp á.” Ekki er útskýrt hvað þetta „eitthvað“ er sem gæti komið upp á, en sú „hætta” virðist þó vera með þeim hætti að ástæða sé til að efla landhelgisgæsluna og lögregluna.

Nató vottar Steingrím

Það er ef til vill bara við því að búast að samtök hernaðarandstæðinga skipti engu máli í umræðunni nú þegar þátttaka Íslands í alþjóðlegu starfi og Nató er til umræðu með opnari hætti en verið hefur um áratugaskeið.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hefur haft forgöngu um að umræða um þessi mál er mun opnari en áður og sagði til að mynda í ræðu á á fundi Samtaka um vestræna samvinnu þriðjudaginn 27. nóvember 2007:
„Ég hef nú þegar beitt mér fyrir því að allir nefndarmenn [utanríkismálanefndar] fengu öryggisvottun NATO svo hægt sé að gera þeim einnig grein fyrir málefnum sem NATO bindur trúnaði. Viðtökur Alþingismanna gefa mér góðar vonir um að þessi vinnubrögð séu vísir að nýju upphafi…”
Einn þeirra þingmanna sem tók svona vel í þessa hugmynd er Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem þar með hefur undirgengist að segja ekki nokkrum manni frá þeim leyndarmálum sem Nató mun trúa honum fyrir. Einhvern tíma hefði nú yfirlýstur andstæðingur Atlandshafsbandalagsins ekki tekið þátt í slíku og afþakkað pent þann trúnað. Ákvörðun Steingríms sýnir vandræðin sem hann og fleiri eru lentir í umræðunni um utanríkismál og þær breytingar sem hafa orðið á umhverfinu með brottför bandaríska hersins á haustdögum 2006.

Gamla, góða skammstöfunin

En slík vandræði herja á fleiri. Í aðdraganda landsfundar Samtaka herstöðvaandstæðinga 2006 fór fram umræða um hlutverk og nafn samtakanna. Þáverandi miðnefnd lagði til að nafni samtakanna yrði breytt í „Samtök hernaðarandstæðinga” og segir í rökstuðningi með tillögunni að það sé „sameiginlegt álit miðnefndar að hið nýja nafn myndi endurspegla verkefni og baráttumál félagsins jafnvel betur en það ágæta nafn sem það hefur borið síðustu 24 árin.” Það virðist semsagt vera skoðun miðnefndarinnar að það að vera andstæðingur „herstöðva“ Bandaríkjanna á íslensku landi hafi ekki endurspeglað verkefni og baráttumálin nógu vel!

Ætli það sögulega mat miðnefndarinnar, að heiti Samtaka herstöðvaandstæðinga hafi í raun verið hálfgert rangnefni sem ekki endurspeglaði hlutverkið, hafi ekki komið einhverjum félagsmönnum á óvart? Slíkir þankar sýna vel vandræðaganginn sem samtökin eru lent í um hlutverk sitt og tilgang. Til öryggis er reynt í næstu setningu að róa íhaldssamari félaga: „Þá spillir ekki fyrir að hljómur nýja nafnsins er ekki ósvipaður þess sem fyrir var og skammstöfunin gæti staðið óbreytt.“

Óbreytt skammstöfun sparar væntanlega fjármuni og vinnu við að endurgera gömlu og góðu mótmælaspjöldin sem dregin eru fram við margvísleg tækifæri.

Sitt sýndist þó hverjum um þessa breytingu og vildu þeir nota tækifærið til að ræða hlutverk samtakanna og baráttuaðferðir. Fóru þær umræður meðal annars fram á póstlista SHA (sama gamla góða skammstöfunin). Elías Davíðsson, einn ötulasti baráttumaðurinn í hreyfingunni, talar enga tæpitungu þar sem hann segir að „barátta SHA á liðnum 50 árum hefur litlu sem engu skilað.” Elías nefnir nokkur dæmi, til að mynda: „Brottför bandarísks hers var ekki árangur baráttu SHA heldur ákvörðun sem tekin var í Pentagon af hnattrænum hagsmunum Bandaríkjanna. Ákvörðunin var m.a. tekin í óþökk stjórnarflokkanna á Íslandi.” Fleira nefnir hann til rökstuðnings fyrir því að SHA séu tiltölulega máttlítil samtök, en bætir við að nú sé von til að breyta þeim verulega.
Í svari Stefáns formanns má sjá að hann vill halda nokkuð í forna siði „Ég er alinn upp innan SHA og sem sagnfræðingur hef ég legið í gömlum blöðum og tímaritum. Ég leyfi mér því að andmæla því að SHA sé á síðustu misserum að þokast frá upphaflegum markmiðum og hugmyndafræði í átt til einfeldningslegrar friðarstefnu sem skorti tengsl við raunveruleikann. Þvert á móti tel ég að orðræða, baráttumál og baráttuaðferðir SHA hafi raunar verið ótrúlega svipuð frá upphafi til þessa dags.

Óhætt er að taka undir að það er ótrúlegt að samtök sem vilja vera mótandi í umræðu á Íslandi hafi uppi svipaða „orðræðu, baráttumál og baráttuaðferðir” árið 2006 og 1972. Í stað þess að telja þetta sérstakt gæðamerki mætti halda því fram að SHA hafi ekki náð að „fylgjast með” og halda hlutverki sínu sem málsmetandi þátttakandi í umæðunni. Raunar er það svo að „róttæklingar” og sérstaklega þeir yngri eru oft manna íhaldssamastir í mörgum hlutum.

Sprengdi CIA Tvíburaturnana?

Tilvistarkreppan birtist í mörgum myndum. Líflegar umræður eru meðal félagsmanna um hvort það að vera hernaðarandstæðingur hljóti ekki að fara saman við það að vera „andheimsvaldasinni”, og því eigi að styðja „þjóðfrelsisbaráttu” þótt háð sé með vopnavaldi. Er í raun merkilegt að skoða umræður um hvenær sé réttlætanlegt að grípa til vopna og þann skilning sem margir félagsmenn sýna hryðjuverkjahópum í Miðausturlöndum og víðar. Í það minnsta virðist boðskapur Ghandis og Martins Luthers Kings um friðsamlega andstöðu ekki eiga mikinn hljómgrunn lengur. Það kemur raunar fram í margívitnuðu póstspjalli að hugmyndum um að breyta nafni samtakanna í „Friðarsamtök Íslands” var hafnað á landsráðstefnu SHA „einmitt á þeirri forsendu að hugtakið friðarsinni væri útvatnað…” Og er ekki að furða þótt áhrif samtakanna fari minnkandi.

Hávær hópur félagsmanna heldur einnig fram þeirri skoðun að árásirnar á Pentagon og tvíburaturnana 11. september hafi verið verk bandarísku leyniþjónustunnar, CIA. Formaður miðnefndarinnar telur raunar nauðsynlegt að skrifa sérstaka grein á vefinn til að bera til baka að þetta sé skoðun SHA, en fagnar samt framtakinu: „Það er á hinn bóginn lofsvert að hópur fólks sé til í að fórna orku sinni og tíma til að draga viðtekin sannindi í efa og spyrja nýrra spurninga…” og fetar í greininni allri eitthvert undarlegt einstigi orðræðu sem aðeins er skiljanleg innvígðum. Og hryðjuverkin eru afgreidd svona: ,,Það skiptir ekki máli hvort íslamskur hryðjuverkamaður með dúkahníf eða CIA-agent með fjarstýringu sprengdi skrifstofubyggingu í New York – eftir sem áður erum við sem friðar- og afvopnunarsinnar á móti því þegar ríkustu og öflugustu herveldi heims láta sprengjum rigna yfir fátækt fólk í fjarlægum löndum.” Og það er hárétt hjá Stefáni, en ekki er vikið orði að þeim tæplega 3000 sem létust í „skrifstofubyggingunni” í New York; engin nálgun á það hvernig bregðast ætti við árásum á almenning.

Ótal aðgerðum sem Bandaríkin og fleiri ríki hafa gripið til á undanförnum árum hefur réttilega verið mótmælt kröftuglega víða um heim með gildum rökum. Pennahöfundar á vef SHA eru aftur á móti líka í einhverjum allt öðrum leiðangri. Til að mynda koma fram ítrekaðar áhyggjur af að ekki sé tekið nægjanlegt tillit til Rússlands og verið sé að egna „rússneska björninn”. Er býsna óvænt að sjá yfirlýsta vinstri sinnaða friðarsinna nota sömu rök og Pútín Rússlandsforseti, sem er einn af ógeðfelldustu stjórnmálamönnum Evrópu.

Tordenskjold og Einar Þveræingur

Afdráttarlaus dómur Elíasar um starf SHA fellur síðar í póstlistasamskiptunum þar sem hann segir: „Mikil orka hefur farið innan SHA, hins vegar, til að rifja minningar frá gömlum tímum, þegar baráttan var meiri, og halda málamyndamótmæli þegar „tilefni gefst“, þ.e. þegar herskip koma og þess háttar. Sjaldan hafa SHA tekið frumkvæði í baráttumálum. Þó má til sanns vegar færa að SHA hafa átt þátt í því að fá sveitarfélög til að lýsa sig kjarnorkulaus svæði, en þetta hefur ekki stuðlað að marktæku leyti að umræðu um aðild Íslands að kjarnorkubandalagi. Ég tel rétt að SHA skoði í eigin barm og læri af 50 ára árangurslausri baráttu. Viljum við halda áfram að vera saumaklúbbur gamalla róttæklinga sem veltir sér upp úr stórræðum gærdagsins eða leitt baráttu almennings gegn heimsvaldastefnu í öllum sínum myndum, þ.m.t hernaðarlegum?”

Á landsfundinum var nafnbreytingin samþykkt, en einnig ályktun um hugmyndir um samstarf við Norðmenn við varnir landsins, þar sem „Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla öllum áformum ríkisstjórnarinnar um að hefja svo kallaðar „varnarviðræður“ við Noreg.” Í tillögunni eru vitanlega tínd til þau rök sem SHA telja sterkust gegn þessum hugmyndum og væntanlega líklegastar til þess að snúa almenningi í landinu á sveif með málstað SHA, en þar segir m.a.: „Þegar litið er til sögunnar þá má segja að hinar svo kölluðu „varnir Íslands“ hafi verið verkefni Noregskonungs lengur en nokkurs annars yfirvalds, eða frá 1262 til 1814. Ekkert við þá reynslu gefur tilefni til þess að þetta verkefni eigi aftur að fela Norðmönnum. Enda þótt Norðmenn hafi vissulega átt sjóhetjur eins og Tordenskjold á árum áður stuðlaði hernaður slíkra manna aldrei að meira öryggi eða betri aðstæðum íslenskrar alþýðu.”

Og ef þessi rök skyldu ekki duga til að opna augu íslenskrar alþýðu er aukreitis teflt fram málatilbúnaði sem öllum landsmönnum er væntanlega kunnur og vitnað í aðra hetju: „Rök Einars Þveræings á Alþingi hinu forna gegn hugmyndum Ólafs Haraldssonar Noregskonungs um herstöð í Grímsey eiga jafn vel við gegn hugmyndum dagsins í dag um norsk hernaðarumsvif við Ísland.”

Fortíð og framtíð

Það er nauðsynlegt að Íslendingar eigi öflug samtök friðarsinna sem taka virkan þátt í umræðu um breytingar í alþjóðamálum og hvernig Ísland eigi að staðsetja sig í þeim breytingum. Slík samtök þurfa að starfa á breiðum grunni og horfa til framtíðar. Ef sterkustu og öflugustu rökin í umræðu um varnarmál árið 2006 er frammistaða Norðmanna á miðöldum eða málafylgja Einars Þverærings þá munu ekki einu sinni mæta 80 á næsta mótmælafund og SHA halda áfram að vera saumaklúbbur sífellt eldri „róttæklinga” – í efni og anda.

Flosi Eiríksson
– höfundur er félagi í samtökum hernaðarandstæðinga

Á hvaða leið er Samfylkingin?

By Uncategorized

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 5. apríl 2008.

Hópur þingmanna hefur nú lagt fyrir Alþingi lagafrumvarp um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og um bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja í íslenskri lögsögu. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem flutt er slíkt frumvarp og vonandi hlýtur það nú loks samþykki þingsins.

Ekki er hægt að segja hið sama um frumvarp til svonefndra varnarmálalaga sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, hefur lagt fyrir Alþingi. Því frumvarpi er ætlað að lögfesta aðild Íslands að herstjórnarmiðstöð NATO.

Þegar Ísland gekk í NATO flutti þáverandi utanríkisráðherra, Bjarni Benediktsson, ávarp þar sem hann sagði að sem vopnlaust land myndi Ísland aldrei segja nokkurri þjóð stríð á hendur. Vandséð er hvernig aðild að herstjórnarmiðstöðinni fær samrýmst þessum fyrirvara.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að æfingar NATO-herja á Íslandi verði lögfestar. Mörgum þessara herja hefur verið beitt í mannskæðum stríðsrekstri. Hvers vegna vill formaður stjórnmálaflokks, sem lýsti yfir eindreginni andstöðu gegn Íraksstríðinu, ljá þessum herjum aðstöðu á Íslandi?

Það er vandséð. Í því sambandi má rifja upp síðasta landsfund Samfylkingarinnar. Þar munaði litlu að sameiginleg ályktunartillaga yfir tíu flokksmanna um uppsögn varnarsamningsins yrði samþykkt. Tillaga sömu flokksmanna um úrsögn Íslands úr NATO hlaut einnig nokkurt fylgi.

Stundum virðist forystu Samfylkingarinnar vera það sérstakt kappsmál að láta sem hún heyri ekki þegar andstæðingar NATO-aðildar og heræfinga innan flokksins hefja upp raust sína. Þegar verst lætur virðist það jafnvel gleymast að þessi hópur flokksmanna sé til.

Til marks um það má nefna grein Árna Páls Árnasonar, þingmanns Samfylkingarinnar og varaformanns utanríkismálanefndar Alþingis, í Morgunblaðinu 23. ágúst 2007. Í þessari grein gaf hann í skyn að það væru eingöngu félagar í VG sem væru andvígir heræfingum á íslensku landi.

Því Samfylkingarfólki, sem er á móti öllu hernaðarbrölti, þótti þetta varla ánægjuleg lesning og ekki vekur varnarmálafrumvarpið heldur mikinn fögnuð. Það er því ekki auðvelt hlutskipti að vera friðarsinni í Samfylkingunni og ekki mun það skána ef flokksforystan heldur áfram á sömu braut.

Af hverju vill hún aðild að hernaðarbandalagi sem útilokar ekki beitingu kjarnorkuvopna að fyrra bragði? Samrýmist það því stefnumáli Samfylkingarinnar að kjarnorkuvopnum skuli útrýmt? Samrýmist það frumvarpinu um kjarnorkufriðlýsingu sem meðal annars Samfylkingarþingmenn standa að?

Má ekki biðja flokksforystuna um að hugsa sinn gang?

Þórður Sveinsson

Höfundur er félagi í Samfylkingunni og Samtökum hernaðarandstæðinga.