18. desember sl. var hér á Friðarvefnum farið yfir tillögur fjárlagafrumvarpsins fyrir 2009 um útgjöld til varnarmála. Niðurstaðan var þessi:
• Varnarmálastofnun: 1.409,4 milljónir króna
• NATO: 70,8 milljónir króna
• Fastanefnd Íslands hjá NATO: 123,9 milljónir króna
• Samtals: 1604,1 milljónir króna
Fjárlögin voru afgreidd í þinginu 22. desember og þegar endanleg niðustaða er skoðuð hafa orðið nokkrar breytingar.
Útgjöld til Varnarmálastofnunar hafa lækkað nokkuð og eru 1.227 milljónir króna (bls. 58) en bein útgjöld vegna aðildarinnar að NATO hafa hinsvegar hækkað og eru 87,6 milljónir króna (bls. 60). Ekki kemur fram í lögunum sjálfum kostnaður við Fastanefnd Íslands hjá NATO en heildarkostnaður vegna sendiráða (fastanefndin er undir þeim lið) er hins vegar heldur hærri (9,3 milljónir) í lögunum en gert var ráð fyrir í frumvarpinu og má því ætla að ekki hafi verið dregið úr kostnaði við fastanefndina, sem er þá 123,9 milljónir króna. Ef það er rétt, þá er heildarkostnaðurinn 1438,5 millljónir króna.
Þessi útgjöld eru að verulegu leyti gagnslaus og reyndar til ills eins. Þó má vera að Ratsjárstofnun, sem var sett undir Varnarmálstofnun við stofnun hennar í fyrra, sé til einhvers gagns. Útgjöld vegna Ratsjárstofnunar samkvæmt fjárlögum 2008 voru 822,3 milljónir króna en í frumvarpinu fyrir 2009 kemur engin sundurliðun fram. Ef við reiknum með svipuðum útgjöldum 2009, þá er annar kostnaður við Varnarmálstofnun 404,7 milljónir króna, sem er þarflaus. Samtals mætti því spara að minnsta kosti 616,2 milljónir króna og sennilega miklu meira.
Til samanburðar þessum tölum má geta þess að með þeim tillögum sem heilbrigðisráðherra kynnti nú í vikunni um skiplagsbreytingar í heilbrigðiskerfinu á að spara 1300 milljónir og sértekjur heilbrigðisstofnana af komugjaldi vegna innlagnar á sjúkrahús eru áætlaðar um 360 milljónir á næsta ári.
Friðarvefurinn 18. des. 2008: Fjárlagafrumvarpið: 1,6 milljarður í hernaðarmál
Fjárlög fyrir árið 2009 (pdf-skjal)
Fréttablaðið 8. jan. 2009: Stofnunum verður fækkað og skorið niður um 1300 milljónir
Visir.is 23. des. 2008: Ný gjöld og hækkun í heilbrigðisþjónustu
Samtök hernaðarandstæðinga fordæma grimmdarverk Ísraelshers á Gaza-svæðinu, sem heimurinn hefur orðið vitni að undanfarna daga. Ljóst er að aðgerðirnar hafa kallað ólýsanlegar þjáningar yfir íbúa svæðisins og þverbrjóta alþjóðalög og mannréttindasáttmála. Samtökin taka undir kröfu félagsins Íslands-Palestínu þess efnis að íslenska ríkisstjórnin slíti stjórnmálasamstarfi við Ísraelsríki vegna fjöldamorðanna.
Íslendingar bera sína ábyrgð á stöðu mála vegna aðildar landsins að hernaðarbandalaginu Nató. Á undanliðnum árum hefur Nató átt í margvíslegum hernaðarsamskiptum við Ísrael og á leiðtogafundi bandalagsins í Búkarest á síðasta ári var sérstaklega ályktað að þróa bæri tengsl Nató og Ísraels enn frekar. Er það en nein sönnun þess að Ísland væri betur komið utan hernaðarbandalaga.
Jafnframt krefjast Samtök hernaðarandstæðinga þess að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir því á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að sett verði alþjóðlegt vopnasölubann á Ísrael.
Borgaraleg óhlýðni hefur verið talsvert til umræðu upp á síðkastið, ekki hvað síst í tengslum við beinar aðgerðir ýmissa mótmælenda sem hafa látið skoðanir sínar í ljós á ýmsum málum tengdum hruni bankanna. Ýmsir hafa talið sig kenna breytingar á mótmælahegðun Íslendinga í þessu samhengi.
Samtök hernaðarandstæðinga hafa raunar fylgst grannt með þessari þróun um alllangt skeið. Fyrir nokkrum misserum var Dagfari, tímarit SHA, að mestu helgað umfjöllun um mótmæli, mótmælatækni og hugmyndafræði mótmæla. Varðandi borgaralega óhlýðni sérstaklega, hefur margoft verið fjallað um þessa baráttuaðferð erlendra friðarsinna í blöðum samtakanna og á þessari síðu. Má þar nefna Ploughshares-hreyfinguna, sem tileinkar sér þá baráttuaðferð að ráðast inn í herstöðvar og valda tjóni á kjarnorkuvígbúnaði. Félagar í hreyfingunni bíða undantekningarlaust handtöku að skemmdarverkunum loknum, láta handtaka sig en bera við neyðarrétti.
Um árið komu Samtök hernaðarandstæðinga að námskeiði sem haldið var í Reykjavík, þar sem breski róttæklingurinn Milan Rai og kona hans Emily Jones kenndu borgaralega óhlýðni og settu hana í sögulegt samhengi. Segja má að þetta námskeið marki viss tímamót í sögu þessarar tegundar pólitískra mótmæla hér á landi.
Nýverið skrifaði Milan Rai grein í breska tímaritið Peace News, þar sem farið var yfir atburði ársins 2008 á sviði róttækrar baráttu friðarsinna. Greinina má lesa hér.
Þar er meðal annars fjallað um tímamótadóm sem féll í Bretlandi á síðasta ári, þar sem hópur mótmælenda á Norður-Írlandi var sýknaður af kæru fyrir að hafa brotið og bramlað á skrifstofu vopnaframleiðanda. Dómstóllinn féllst í stuttu máli á að neyðarréttur hefði átt við í þessu tilviki og að fólkinu hefði verið heimilt að grípa til þessara aðgerða til að afstýra öðrum og verri glæpum. Um þetta má og önnur þau sem Milan Rai nefnir í grein sinni má fræðast með einfaldri leit á netinu, s.s. á alfræðisíðunni Wikipediu.
Stefán Pálsson
Útifundur til að mótmæla blóðsúthellingunum á Gaza
á Lækjartorgi, þriðjudag 30. desember kl. 16
Kröfur dagsins eru:
Stöðvið fjöldamorð Ísraelshers á Gaza
Slítum stjórnmálasambandi við Ísrael
Ræðumenn verða:
María S. Gunnarsdóttir, formaður Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna
Ögmundur Jónasson, alþingismaður
Sr. Örn Bárður Jónsson, sóknarprestur
Fundarstjóri:
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands
Fundurinn er undibúinn af Félaginu Ísland-Palestína með stuðningi fjölmargra félagasamtaka
Fjölmennum!
Látum erindið berast á Facebook: http://www.facebook.com/n/?event.php&eid=41181914711
Við sögðum frá því hér á Friðarvefnum 9. desember að utanríkisráðherrar NATO hefðu samþykkt á fundi sínum í Bussel 2.-3. desember að styðja gagnflaugaáætlun Bandaríkjanna, en slíkur stuðningur var reyndar líka samþykktur á leiðtogafundi NATO í Búkarest apríl 2008, sem forsætis- og utanríkisráðherrar Íslands sátu.
Það er fagnaðarefni að í Fréttablaðinu 29, desember er haft eftir aðstoðarmanni utanríkisráðherra, Kristrúnu Heimisdóttur, að Ísland sé í hópi þeirra ríkja sem hafi lýst yfir efasemdum um málið:
-
„Utanríkisráðherra hefur ekki stutt þetta mál og Ísland var í hópi þeirra ríkja sem lögðu áherslu á að þessir samningar fengu ekki stóran sess í yfirlýsingunni frá Brussel, en rétt er að halda til haga að utanríkisráðherra sótti þann fund ekki.” Ingibjörg Sólrún sat þó fundinn í Búkarest í vor þar sem sams konar yfirlýsing var samþykkt og fulltrúi Íslands skrifaði undir yfirlýsinguna í Brussel.
„Við höfum skipað okkur í lið með Norðmönnum, Þjóðverjum og fleiri þjóðum sem hafa lýst yfir efasemdum um þessi mál,” segir Kristrún. Hún segir aðferðafræðina sem að baki eldflaugavörnunum býr ekki treysta sameiginlegt öryggi í Evrópu og víðar. „Utanríkisráðherra hefur aldrei skipað sér í flokk þeirra sem vilja magna, í orðum eða verki, kaldastríðsnálgun gagnvart Rússlandi.”
Þessu ber að fagna, þótt ekki verði horft framhjá því að yfirlýsingarnar í Búkarest og Brussel voru sameiginlegar yfirlýsingar allra NATO-ríkjanna. Þótt það sé góðra gjalda vert að þetta sé haft eftir aðstoðarmanni utanríkisráðherra í blaðafrétt, þá þurfum við öllu ákveðnari yfirlýsingu frá utanríkisráðherra.
Snemma í október var lögð fram á Alþingi þingsályktunartillaga þriggja þingmanna Vinstri grænni svohljóðandi:
-
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggjast eindregið gegn áformum Bandaríkjanna og eftir atvikum NATO um að koma upp eldflaugavarnakerfi í Austur-Evrópu. Skal þessari afstöðu komið skýrt til skila á vettvangi NATO og annars staðar þar sem við á í alþjóðasamstarfi. Jafnframt ályktar Alþingi að Ísland beiti sér fyrir því með virkum hætti að gildandi samningar um afvopnun eða takmörkun vígbúnaðar verði virtir. Eru þar einkum mikilvægir ABM-samningurinn um takmörkun gagneldflauga og gegn vígbúnaði í geimnum, samningurinn um takmörkun hefðbundins vígbúnaðar í Evrópu og NPT-samningurinn um bann við frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna, sér í lagi 6. gr. samningsins sem kveður á um kjarnorkuafvopnun.
Tillagan hefur ekki enn komið til umræðu í þinginu, en vert væri að flýta afgreiðslu hennar þannig að utanríkisráðherra hefði í höndunum ályktun Alþingis. Hún yrði ráðherranum ómetanlegur stuðningur í andstöðunni við gagnflaugaáætlun bandaríkjanna og NATO.
Friðarins fólk!
Stórt orð friður
Fyrir 40 árum – tæpum – hitti ég Mohamed – kannski hét hann ekki Mohamed – skiptir engu.
Mohamed var frá Palestínu – hafði búið í flóttamannabúðum frá 1948 – fimm árum eldri en ég – rekinn í flóttamannabúðir með foreldrum sínum – 48 stundir fengu þau til að komast útfyrir sjálfskipuð landamæri Ísraelsríkis – svonefnds. Ríkis sem stofnað var – til að samviska V-Evrópu fengi frið og gæti losað sig undan gyðingadraugi nasismans.
Samviska ráðamanna Íslands á þeim tíma hreinsaðist einnig, þeir urðu fyrstir til að viðurkenna hið nýja ríki. Enda höfðu þeir neitað að taka við flóttamönnum – gyðingum – hingað til lands – þau sem björguðust undan brottflutningi héðan voru flest hver konur sem giftust heiðarlegum Íslendingum sér til lífsbjargar – að hluta – kannski og vonandi hefur ástin einnig komið til – en ráðslagið var ekki ráðamanna. Þannig að þeir fengu sína samviskuhreinsun.
Já, samviska stríðsgróðamanna fékk frið. Og síðan hefur ófriður ríkt í Mið-Austurlöndum, vegna þess að friður getur ekki byggt á óréttlæti. Friður getur ekki byggt á því að múra Palestínumenn inni í eigin landi.
Við undirbúning þessa ávarps spurði ég vinkonur mínar: Hvað er friður?
Friður er draumur – sagði ein.
Friður fæst verði hætt að framleiða og selja vopn – sagði önnur.
Ráðamenn uppdubbaðra heimsvelda hafa löngum notað aðferðir Rómverja að deila og drottna: Corrumpe et impera! Og hefur gefist vel – þarf skammt að líta til að sjá merkin.
Í Höndum og orðum Sigfúsar Daðasonar segir:
-
Fyrrum var sagt: þú skalt sundra og drottna síðan –
en vér höfum nýtt og ljúfmannlegra boðorð.
Vort boðorð er stórfenglegt
einfalt og snjallt
og tært eins og sjálft dagsljósið.
Drottnun er ekki samræmanleg vorum hugsjónum:
undirokaðar þjóðir
eiga sér öruggan samastað
í hjarta voru.
Vér berum friðarorð sundruðum
og vér flytjum huggun fátækum.
Vér erum málsvarar frelsis:
frjálslyndi vort er svo yfirtak víðtækt
að það krefst frelsis handa kúgaranum
friðar handa rústunum
lífsréttar handa dauðanum.
Svo mælti skáldið Sigfús.
Í Írak hafa hersveitir friðarins kastað friðarbombum síðustu árin – með samþykki ríkisstjórnar Íslands – og gildir þá einu hver með ráðherradóminn fer eða hvert kynið er – friðsemd stjórnvalda okkar eru fá takmörk sett – innanlands sem utan.
Flísasprengjur – klasasprengjur – jarðsprengjur – dúndursprengjur – sprengjur – drepa! – drepa allt í friðarins nafni – og gróðans. Það er málið – gróðans, þar sem allt er leyft í frelsisins nafni.
Undarlegt orð friður!
Friður er að segja – ekki þegja!
Friður er að standa upp – ekki lúffa!
Friður felst ekki í því að horfa í gaupnir sér – heldur aðhafast – gera – vera og þora.
Hafast það að, að þola ekki órétt, þola ekki að sumir safni auði með augun rauð – meðan aðra brauðið vantar – þar mun enginn friður ríkja.
Og hér – hér norður undir baugi heimskauts – hafa gengið og ganga lausir varúlfar og varmenni – hér ríkir enginn friður.
Sátt getur aldrei orðið um það að fólk sé borið út af heimilum sínum, vegna ráðslags stjórnmálamanna og þeirra legáta – allra síst á tímum er aðrir hafa svo stórt um sig að halda má að ístrum og undirhökum sé safnað til að fylla upp í plássið!
Friður felst ekki í undirgefni – heldur virðingu gagnkvæmri okkar á milli – manneskjanna.
Friður getur ekki byggt á hroka – hrokinn sem upphafning eigin sjálfs er ekki góður grunnur að byggja á.
Friður á ekki rætur í forsetaembætti sem talar ofan frá og samsamar sig þotuliði heimsins.
Stjórnvöld sem valdið hafa ófriði geta ekki leitt til friðar.
„O, ætli rauðsmýringum verði skotaskuld úr því að tapa því sem þér fá léð, bara ef þeir sjá sér hag í því,“ skrifaði Halldór Kiljan Laxness fyrir ríflega sjötíu árum.
Nei – Rauðsmýringum varð engin skotaskuld úr því – ekki fremur en lukkuriddurum dagsins sem hefur tekist svo dáindis vel að græða á því að tapa öllu sem þeir fengu léð af okkur – múgamönnum. Og meðan lukkuriddarar ganga lausir verður enginn friðurinn – meðan stjórnvöld styðjast við og styðja lukkuriddara – verður enginn friður.
-
„rennur blóð eftir slóð
og dilla ég þér jóð,“
segir um Gunnvöru er samning gerði við Kólumkilla á sínum tíma – enn er verið að gera samninga við Kólumkilla – en það er okkar að rifta þeim – hvort heldur um er að ræða samninga um beina og óbeina þátttöku í hernaði gegn öðrum – eða okkur sjálfum – eða landinu sem við byggjum og eigum að gæta fyrir afkomendur okkar
-
„Sjálfgerðir fjötrar
eru traustastir fjötra,“
segir skáldið Sigfús í Höndum og orðum – minnumst þess – rjúfum hina sjálfgerðu fjötra – sem og aðra! Fjötralaus erum við alls megnug til að ná friði – við þurfum ekki sprengjur – í mesta lagi einn skó – eða jafnvel tvo – sem við getum gripið til – í ítrustu neyð!
Birna Þórðardóttir
framkvæmdastjóri Menningarfylgdar Birnu ehf.
Veffang: www.birna.is
Netfang: birna@birna.is
Góðir tilheyrendur.
Stundum er hugtökum best lýst með andstæðum eða andheitum sínum. Andstæða ljóss er myrkur, andstæða hita er kuldi og andstæða friðar er stríð eða styrjöld. Friður er því ástand laust við átök og honum verður kannski best lýst með andstæðunni ófriði eða styrjöld. Hér mun ég tala um þrenns konar frið; heimsfrið, frið á milli manna og í þriðja lagi innri frið einstaklingsins, sálarfrið.
I
Fyrst er það heimsfriðurinn. Við höfum heyrt um tvær heimsstyrjaldir á nýliðinni öld og mörg okkar muna síðan eftir staðbundnum styrjöldum, Kóreu, Vietnam, Rúanda, Bosníu og enn geysa stríð í Palestínu, Írak og Afghanistan og í þessum þremur löndum eru innrásarherir sem ættu að hverfa heim. Það er skelfilegt að hugsa til allra þeirra milljóna manna og kvenna sem hafa látið lífið í þessum átökum, ég vil segja: að ástæðulausu. Einstaklingar með vonir og þrár eins og við, einstaklingar sem áttu bara eitt jarðlíf og það varð stutt og styrjöldinni að bráð. Og margir þeirra sem látast í átökum eru saklausir borgarar sem höfðu ekkert með átökin að gera. Enn fremur eru óteljandi þau mannslíf sem tapast í hungursneyðum sem eru afleiðingar átaka og nægir að nefna Darfúr í Súdan sem nýlegt dæmi. Oft er það gleymt um hvað menn byrjuðu að berjast, var það land, auðlind, fjármagn, trú, völd, andúð, kynþáttur eða menning? Allt eru þetta algjör aukaatriði og menn og þjóðfélagshópar eiga að geta lifað í sátt og samlyndi og leyst sín mál í góðu. Það er ekkert mál svo erfitt að það réttlæti manndráp. Eftir hverja styrjöldina á fætur annarri þá segja menn: „Aldrei aftur“, en samt gerist það aftur og aftur að hernaðarátök breiðast út. Við skulum leggja okkar af mörkum til að hjálpa stríðshrjáðu fólki og umfram allt að leggja okkar lóð á vogarskálar til að hindra styrjaldir, eða öllu heldur til að tryggja heimsfrið. Þrátt fyrir ýmis friðarráð og friðarverðlaun Nóbels og friðarsúlu á Íslandi þá hefur það ekki tekist. Við hneigjumst til að telja það hlutverk Sameinuðu þjóðanna að koma á friði og við bara hlustum á fréttirnar af voðaverkunum. En við eigum líka á þessu sviði verk að vinna á heimsvísu. Með þátttöku í friðargöngu sem þessari höfum við sýnt vilja í verki, samstöðu með þeim sem vilja koma á friði í heiminum.
Nú er hugtakið hryðjuverk og hryðjuverkamaður í tísku. Gengur það jafnvel svo langt að við umhverfisverndarsinnar erum einu nafni kallaðir hryðjuverkamenn vegna þess að við höfum aðra sýn á framtíð landsins en stórvirkjanir og byggingu álvera. Og hryðjuverkalögum er óspart beitt svo sem við fengum að reyna frá Bretum í kreppunni. Mér hefur reyndar löngum þótt hryðjuverkalög afar hæpin og ganga allt of langt til dæmis ef menn eru settir í fangelsi vegna þess að þeir hafa bara hugsað sér að gera eitthvað. Og þessum mönnum er svo haldið föngnum langa hríð án dóms og laga. Ég óttast reyndar að svonefnd barátta gegn hryðjuverkum kunni að vekja upp fleiri nýja hryðjuverkamenn en hún eyðir.
Davíð Stefánsson frá Fagraskógi varar okkur við kjarnorkusprengjum og segir:
-
Við refsum bjálfum, sem ræna og fremja svik,
og rónum, sem neyta víns og gerast trylltir.
En foringjar þjóða, sem framleiða geislaryk
og fylla loftið eitri – þeir eru hylltir.
Ísland stendur ekki í neinum hernaðarátökum núna og ég var afar ánægður með það hvernig lokun herstöðvarinnar á Miðnesheiði reyndist ekki vera sú ógnun sem spáð var, heldur tækifæri, sem menn eru núna að nýta í þágu menntunar.
Þetta var svolítið um heimsfriðinn. Kannski lýsti ég honum of mikið með andheiti sínu, styrjöldunum. Drápin og eyðileggingin í styrjöldunum er geigvænleg, og Halldór Laxness segir í ljóði sem hann nefnir Stríðið:
-
Spurt hef ég tíu milljón manns
sé myrtir í gamni utanlands:
og svo segir hann:
-
Afturámóti var annað stríð
undir grjótkletti forðum tíð,
það var allt útaf einni jurt
sem óx í skjóli og var slitin burt.
Þarna hugsar ljóðmælandinn til dóttur sinnar, hennar Ástu Sóllilju, sem hann sinnti ekki sem skyldi og missti því frá sér, og hann segir í framhaldinu:
-
því hvað er auður og afl og hús
ef engin jurt vex í þinni krús.
II
Já við skulum hlúa að börnunum okkar og náunga okkar hver sem hann er. Út frá þessum orðum Halldórs Laxness skulum við í annan stað aðeins fjalla um frið milli manna, einstaklinga. Undir það heyrir til dæmis heimilisfriðurinn, sem við skulum leggja áherslu á að rækta. Að vísu ríkir kreppa hér á landi og menn eru reiðir og mótmæla og gera kröfur á strjórnvöld um ábyrgð og breytingu. Það er eðlileg og réttmæt krafa og kannski verður þessi nýja staða þjóðarbúsins til þess að þjappa okkur saman, þannig að við gerum okkur grein fyrir því að „auður og afl og krús“ er einskis virði „ef engin jurt vex í þinni krús“, það er ef við hlúum ekki að börnunum og náunganum. Við skulum stunda frið við alla menn þannig að lífsganga okkar verði samfelld gleði- og friðarganga. Það er ekkert ömurlegra en að vera í eilífu stríði við náungann og þá um leið við allt umhverfi sitt.
III
Og að lokum og í þriðja lagi nokkur orð um sálarfriðinn. Oft er sagt að við eigum að vera sátt við Guð og menn. Við höfum þegar rætt um nauðsyn þess að eignast frið við menn. Við getum auðveldlega eignast frið við Guð, sálarfrið, með því að snúa okkur til Guðs og biðjast fyrirgefningar á syndum okkar. Og aldrei verður boðskapurinn um frið augljósari en á jólunum. Þá minnumst við fæðingar frelsarans, hans sem frelsar okkur frá syndinni og englarnir á Betlehemsvöllum sögðu: „Friður á jörðu með þeim mönnum sem hann hefur velþóknun á.“ Síðar sagði frelsarinn, sem einnig var nefndur friðarhöfðingi: „Minn frið gef ég yður“ og gerir skýran greinarmun á friði milli manna og sálarfriðnum.
Við skulum leitast við að stuðla að heimsfriði og friði manna á milli og taka með fögnuði á móti boðskap jólanna um frelsarann sem veitir frið þannig að hjá okkur ríki einnig friður Guðs, sálarfriður. Þá erum við sátt við Guð og menn.
Ég þakka ykkur fyrir samveruna þessa stund og óska ykkur öllum gleðilegra jóla.