Síðastliðinn laugardag, 22. ágúst, reistu Samtök hernaðarandstæðinga á Norðurlandi Nató níðstöng við Akureyrarflugvöll.
Þórarinn Hjartarson magnaði þennan seið þegar níðstöngin var reist:
-
Heyrið og nemið níð það sem hér er reist og rist.
Níðinu sný ég gegn orustuflugdrekum þeim sem ógna lofthelgi okkar, og makki íslenskra stjórnvalda þar um.
Níðinu sný ég gegn hernum sem flugdrekar þessir þjóna og lengi hefur þjáð land vort og þjóð.
Níðinu sný ég gegn félaginu NATO og allri þess heimsvaldastefnu á norðurhjara og vítt um veröld.
Á stönginni er þessi rista: „NATO aldri þrífist“.
Heiti ég á landvættir Íslands til hjálpar að þetta megi eftir ganga.
Rístum rún á kvistu
ránfuglum stáls og þjánar,
öndverð reisi röndu
regin og Íslands megir:
Steypi þeim tap fyr stapa,
stökkvi þeim tjón af Fróni,
níð þetta allt þá elti
og ólán á jarðar bóli.
Fleiri myndir af gjörningnum hafa verið settar inn á fésbókarsvæði SHA:
http://www.facebook.com/search/?q=sha&init=quick#/photo_search.php?oid=45949826268&view=all
Mótmælastaða Samtaka hernaðarandstæðinga á Norðurlandi vegna aðflugsæfinga Nató við Akureyrarflugvöll.
Í dag, fimmtudaginn 20. ágúst, sveimuðu bandarískar orrustuþotur yfir Akureyrarflugvelli í svokölluðum aðflugsæfingum. Samkvæmt Varnarmálastofnun eru umræddar æfingar venjubundinn hluti af hinni svökölluðu loftrýmisgæslu Nató. Gjörningurinn er ekki geðslegri fyrir það að hann sé bundinn venju.
Samtök hernaðarandstæðinga á Norðurlandi óska þess að hernaðarbandalagið Nató muni ekki venja komur sínar til Akureyrar í framtíðinni. Við óttumst þó að herveldin muni ekki verða við ósk okkar, en það er ljóst að heimsvaldasinnar renna hýru auga til olíulinda og samgönguleiða í Norðurhöfum.
Samtökin hafa því ákveðið að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða og reisa hernaðarbandalaginu níðstöng til að fyrirbyggja að heimsvaldasinnum verði ágengt í ásælni sinni
Athöfnin fer fram laugardaginn 22. ágúst á suðurbílastæði Akureyrarflugvallar.
Nánari upplýsingar veitir Þórarinn Hjartarson (s. 4624804/thjartar@internet.is)
Samtök hernaðarandstæðinga minna á þau gömlu sannindi að sjaldan er ein báran stök. Íslenskt efnahagslíf hefur lent í mörgum stóráföllum á undanförnum mánuðum, jarðfræðingar fylgjast með kvikusöfnun í mörgum af helstu eldstöðvum landsins og nú síðast hefur verið tilkynnt að von sé á aðalritara Nató, Anders Fogh Rasmussen til landsins í vikunni. Allt eru þetta vondar sendingar.
Í hverri viku berast fréttir af nýjum ódæðisverkum Nató-sveita í styrjöldinni í Afganistan – stríði sem stuðningsmenn innrásarinnar töldu að myndi ljúka með glæstum sigri á fáeinum vikum haustið 2001. Nú, tæpum átta árum síðar, virðist líklegra að hernaður Nató-ríkja muni halda áfram næstu áratugina í þessu stríðshrjáða landi. Réttlætingin fyrir stríðsrekstrinum verður stöðugt óljósari og meginmarkmiðið virðist vera að viðhalda völdum veikrar leppstjórnar sem styðst við alræmda stríðsglæpa- og ofstopamenn.
Nató er bandalag nokkurra af ríkustu herveldum heims, sem jafnframt ráða yfir stærstum hluta vopnaiðnaðarins. Einn megintilgangur þess er tryggja fjárstreymi til vígvæðingar og að gæta þess að aðildarríkin dragi ekki saman hernaðarútgjöld, þótt skóinn kreppi annars staðar. Þess vegna er það engin tilviljun að aðildin að Nató sé nú dregin fram sem rök gegn því að leggja niður þá óþörfu peningahít sem Varnarmálastofnun er og hætta verkefnum hennar með öllu.
Samtök hernaðarandstæðinga minna sömuleiðis á feril Rasmussens aðalritara sem forsætisráðherra Danmerkur, þar sem hann var í fararbroddi þeirra þjóðarleiðtoga sem studdu innrásarstríð Bandaríkjamanna og Breta í Írak og valdið hefur ólýsanlegum hörmungum. Menn með slíkan brotaferil eru ekki aufúsugestir á Íslandi og mun nær að slíkum náungum sé snúið við í Leifsstöð en þeim dönsku vélhjólaknöpum sem löggæslan hefur verið að elta ólar við síðustu misserin.
Ekki er langt síðan utanríkisráðherra Íslands frábað sér heimsókn ísraelsks ráðherra, vegna stuðnings hins síðarnefnda við loftárásir á byggðir Palestínumanna. Vandséð er hvað réttlætir nú fundi íslenskra ráðamanna með aðalritaranum vígfúsa.
Stefán Pálsson, sagnfræðingur og formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, flutti eftirfarandi ávarp á kertafleytingu Samstarfshóps friðarhreyfinga að kvöldi 6. ágúst.
Félagar
Í tuttugasta og fimmta sinn erum við saman komin til að fleyta kertum hér á Reykjavíkurtjörn. Á þessum langa tíma höfum við fengið sýnishorn af öllum mögulegum veðrum. Við höfum fleytt í rjómablíðu, úrhellisrigningu og hávaðaroki. En hversu truntulegt sem veðrið kann að vera, er alltaf eins og eitthvað gerist þegar kertin eru sett á vatnið. Reykjavíkurtjörn er aldrei fallegri en einmitt á þessu kvöldi.
Það er hálfóraunverulegt að þessi fallega aðgerð sé haldin til að minnast jafn ljóts verknaðar. Kjarnorkuárásirnar á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki í ágústbyrjun 1945, eru einhver svartasti bletturinn í sögu mannkyns. Enginn atburður á jafn skýrt tilkall til að teljast stærsti stríðsglæpur sögunnar.
Sú var tíðin að orðið „hryðjuverk“ hafði raunverulega merkingu. Það var áður en valdamenn heimsins tóku að beita því sem allsherjar réttlætingu fyrir hvers kyns kúgun og ofbeldi. En eitt sinn skildum við merkingu orðsins: hryðjuverk eða terrorismi er sú aðferð að ná fram markmiðum sínum með því að skapa ógn og skelfingu með ofbeldi gagnvart lífi og limum almennra borgara. Samkvæmt þeirri skilgreiningu voru kjarnorkuárásirnar hreinræktað hryðjuverk.
Með því að varpa sprengjunum á borgirnar tvær, vildu bandarísk yfirvöld sýna umheiminum og þá ekki síst Sovétríkjunum – verðandi andstæðingi í köldu stríði – fram á eyðileggingarmátt hinna nýju vopna sinna. Önnur borgin, Nagasaki, var raunar sérstaklega valin með tilliti til þess hversu heilleg hún væri fyrir, svo áhrifamáttur eyðileggingarinnar sæist sem best. Á þriðja hundrað þúsund manna máttu gjalda með lífi sínu fyrir þessa vopnasýningu. Það er þessara fórnarlamba sem við minnumst hér í kvöld.
Árið 1985, þegar við kom fyrst saman hér á bakkanum, vorum við að bregðast við ákalli japanskra friðarsinna um að halda á lofti minningu þeirra sem létust í árásunum og að leggja áherslu á kröfuna um heim án kjarnorkuvopna. Þá var kjarnorkukapphlaup risaveldanna í algleymingi. Fjölmiðlar fluttu reglulega fregnir af því hversu oft vopnabúr vestursins og austursins gætu eytt öllu mannkyni. Á sama tíma gældu leiðtogar heimsins við möguleikann á að heyja og vinna kjarnorkustríð, meðal annars með því að fylla heimshöfin af kjarnorkuskipum og -kafbátum.
Sjaldan hefur framtíð mannkyns verið í jafnmikilli hættu og á tímum kjarnorkukapphlaupsins á níunda áratugnum. Og það var ekki stjórnmálamönum eða hernaðarfræðingum að þakka að því lauk ekki með ósköpum. Það var almenningur – frjáls félagasamtök friðelskandi fólks sem réðu úrslitum. Það var með friðargöngum, kertafleytingum, dreifibréfum og haganlega sömdum slagorðum, sem leiðtogar risaveldanna voru þvingaðir að samningaborðinu.
Þannig hefur þetta raunar alltaf verið. Allir mikilvægustu afvopnunarsamningar sögunnar hafa orðið til vegna krafna að neðan – frá fólkinu og upp. Öllum hugmyndum um að takmarka vopnaeign eða vopnaframleiðslu hefur, á öllum tímum, verið mætt með fullyrðingum um að slíkt sé óraunhæft eða jafnvel skaðlegt. Aldrei hefur frumkvæðið komið frá þeim sem ráða – þótt aftur og aftur hafi þeir þurft að láta undan samtakamætti fjöldans.
Það var hin alþjóðlega friðarhreyfing sem fyrst leiddi heiminum í ljós hvílíkar vítisvélar kjarnorkusprengjur væru í raun og veru. Það barátta hennar sem kom því til leiðar að notkun kjarnorkuvopna varð pólitískt ómöguleg í stríðum á borð við Kóreustríðið og Víetnamstríðið – herforingjum Bandaríkjanna og síðar annarra hervelda til sárrar skapraunar.
Það var hin alþjóðlega friðarhreyfing sem kom því til leiðar að risaveldin féllust á að hætta kjarnorkutilraunum í andrúmsloftinu. Það var hin alþjóðlega friðarhreyfing sem knúði í gegn stofnun kjarnorkuvopnalausra svæða – jafnvel í heilu heimsálfunum, eins og í Suður-Ameríku og á Suðurskautslandinu. Þetta er hin stolta arfleið friðarhreyfingarinnar.
Fyrir 25 árum var ógnin af kjarnorkuvopnunum augljós. Við vorum minnt á hana nánast daglega í blöðum, sjónvarpi, dægurlögum, kvikmyndum… Þótt kjarnorkuógnin í dag sé ef til vill ekki jafn áþreifanleg, er hún svo sannarlega enn til staðar. Stutt er síðan það varð fullsannað að Norður-Kórea hefur bæst í hóp kjarnorkuvelda. Fyrir fáeinum vikum sjósettu Indverjar sinn fyrsta heimasmíðaða kjarnorkukafbát. Í nágrannaríkinu, kjarnorkuveldinu Pakistan, stappar nærri að ríki borgarastyrjöld. Metnaður Írana til að koma sér upp kjarnorkuvopnum er öllum kunnur – og eina kjarnorkuveldið í Miðausturlöndum, Ísrael, sendir nágrönnum sínum lítt duldar hótanir.
Staðreynd málsins er sú, að þótt kjarnorkuvopn séu í hugum þorra fólks minna áhyggjuefni nú en fyrir fáeinum árum – þá er hættan á að gripið verði til þeirra í hernaði, óðagoti eða fyrir slysni meiri nú en á flestum öðrum tímum frá árásunum 1945. Þetta sýnir fullkomið gjaldþrot þeirrar hugmyndafræði að friður verði best tryggður með ógnarjafnvægi – að tilvist fleiri og fleiri kjarnorkuvopna sé besta vörnin gegn því að slíkum vopnum verði nokkurn tíma beitt.
Það er í ljósi þessa, sem sígildum kröfum okkar friðarsinna um algjöra kjarnorkuafvopnun er sífellt að vaxa fiskur um hrygg. Sífellt fleiri – þar með talið gamlir þjóðarleiðtogar og ráðamenn sem seint verða sakaðir um að vera sérstakar friðardúfur – hafa komist að þeirri niðurstöðu að sú stefna stórveldanna, að reyna að hefta frekari útbreiðslu kjarnavopna, sé tálsýn. Það eina sem geti nú komið í veg fyrir að kjarnorkuvopn komist í hendur sífellt fleiri ríkja og jafnvel stjórnmálahreyfinga, sé að þegar í stað verði hafist handa við allsherjar útrýmingu kjarnorkuvopna.
Bandaríkin og Rússland eiga 95% allra kjarnorkuvopna í heiminum. Með hverju árinu sem þessi lönd halda áfram að viðhalda þessum vopnabúrum sínum og þróa þau frekar, því ódýrari og auðveldari verða þessi vopn í smíðum. Sú staðreynd að blásnautt og einangrað þriðja heims ríki eins og Norður-Kórea hafi getað komið sér upp kjarnorkusprengju skýrist ekki af afrekum vísindamanna í Pyongyang – útlagaríkin hirða einfaldlega molana sem hrjóta af borðum stóru kjarnorkuveldanna.
Þess vegna hefur krafan um útrýmingu kjarnorkuvopna aldrei verið mikilvægari. Þar er fyrsta skrefið að Bandaríkin og Rússland skeri stórlega niður vopnabúr sín. Að þróun og tilraunum með nýjar gerðir kjarnorkuvopna verði tafarlaust hætt. Að látið verði af öllum hugmyndum um að flytja kjarnorkuvígbúnað upp í geiminn – og að höf heimsins verði friðuð fyrir þessum óskapnaði. Þar getum við Íslendingar lagt okkar af mörkum, með því að samþykkja það stjórnarfrumvarp sem liggur fyrir Alþingi um algjöra friðlýsingu Íslands og íslenskrar lögsögu fyrir kjarnorkuvopnum.
Þetta eru stórhuga markmið og kannski kann það að virðast óraunhæft að þau muni nást með jafn hugljúfum aðgerðum og að fleyta kertum á litlum tjörnum í bæjum vítt og breitt um Ísland. En munum þá, að þannig og aðeins þannig hefur friðarbaráttan unnið sína stærstu sigra.
Við fleytum kertum í kvöld í 25. sinn, til að minnast fólksins sem drepið var í mestu hryðjuverkum sögunnar fyrir 64 árum, í þeirri vissu að með hverju árinu færumst við nær kröfu okkar um heim án kjarnorkuvopna.
Á kertafleytingu á Akureyri, 6. ágúst 2009, flutti Brynhildur Þórarinsdóttir rithöfundur eftirfarandi ávarp:
Kæru vinir,
Í dag eru 64 ár liðin frá kjarnorkuárásinni á japönsku borgina Hiroshima. Þennan dag árið 1945 var gríðarlegum fjölda óbreyttra borgara fórnað til að binda endi á stríð sem þegar var á enda. Nærri tífaldur íbúafjöldi Akureyrar lést samstundis en um 80.000 dóu síðar af völdum sára eða sjúkdóma vegna geislunar frá sprengjunni. Þremur dögum síðar var sams konar sprengju varpað á borgina Nagasaki með þeim afleiðingum að 80.000 manns dóu strax, og létust tugir þúsunda létust síðar af völdum geislunar. Enn glímir fólk á þessum slóðum við afleiðingar geilsunarinnar.
Vígbúnaðarkapphlaupið hefur haft skelfileg áhrif á veröldina. Sífellt fleiri ríki reyna að koma sér upp kjarnorkuvopnum og eldri kjarnorkuveldi þverskallast við að eyða birgðum sínum. Þau sem fyrst komu sér upp slíkum gereyðingarvopnum telja sig þar með hafa öðlast einkarétt á þeim. Hverslags vitleysa er þetta, auðvitað á að eyða þessum vopnum, hvaða ríki sem á þau, hvort sem það er Íran, Norður-Kórea, Indland, Pakistan, Kína, Ísrael, Rússland, Frakkland, Bretland eða Bandaríkin.
En ábyrgðin hvílir að miklu leyti á Bandaríkjamönnum sem einir hafa beitt kjarnorkuvopnum í hernaði. Nýr forseti Bandaríkjanna flytur því von um betri heim þegar hann talar fyrir kjarnorkuafvopnun – svo fremi hans þjóð sé tilbúin að taka þátt í slíkri afvopnun.
Eyðingarmáttur kjarnorkuvopnanna er svo óhugnanlegur að mann setur hljóðan yfir því að til séu leiðtogar sem ekki vilja losan heiminn undan þessari ógn.
Mannfallið í Hiroshima og Nagasaki minnir okkur ekki síður á hversu berskjaldaðir óbreyttir borgarar eru í stríðsleik leiðtoganna – manna sem aldrei horfast sjálfir í augu við börnin sem þeir skipa að skuli deyja. 64 árum síðar eru óbreyttir borgarar enn helstu skotmörkin í stríði, fólk eins og við sem ekkert hefur til saka unnið annað en að fæðast og lifa í röngu landi.
Ekki sér til dæmis fyrir endann á átökunum í Afganistan sem verða sífellt blóðugri. Í sumar hafa borist ótal fréttir af mannfalli í herliði Nató, fjöldi Breskra, danskra, þýskra og spænskra hermanna hefur fallið frá innrás andaríkjamanna 2001. Sumir þeirra varla komnir af unglingsaldri, 18 ára krakkar sem með réttu ættu enn að vera í skóla en eru í stað þess látnir bera byssur.
Fréttirnar af vestrænu krökkunum eru meira áberandi en fréttirnar af afgönsku krökkunum sem dáið hafa langt fyrir aldur fram. Alls staðar þar sem er barist eru það nefnilega börnin og unglingarnir sem líða mest, þau eru svipt æskunni, sakleysinu og þar með framtíðinni. Sum átök virðast hreinlega endlaus og setja mark sitt á kynslóð eftir kynslóð, – bara í byrjun þessarar viku misstu 19 palenstínsk börn heimili sitt þegar ísraelski herinn bar fjölskyldur þeirra út.
Við stóðum hér á sama tíma í fyrra, í blússandi góðæri, og fleyttum kertum í þágu friðar og kjarnorkuafvopnunar í heiminum. Margt hefur gengið á síðan og sumir eiga vafalaust erfitt með að hugsa út fyrir landsteinana þegar erfiðleikar steðja að íslenskum heimilum. Við búum sem betur fer ekki við stríðsástand hérna, Ísland er herlaust land og á að vera það áfram. Við getum þakkað fyrir að okkar börn eiga ekki yfir höfði sér herskyldu við 18 ára aldur, við getum þakkað fyrir að þau sem eru auralaus neyðast ekki til að ganga í herinn til að fá skólagjöld greidd.
Samt sem áður mun dynur frá herþotum rjúfa kyrrðina í firðinum okkar næstu dagana. Það er með ólíkindum ógeðfellt að horfa upp á þessar heræfingar á sama tíma og minnst er fórnarlamba loftárásanna á Hiroshima og Nagasaki.
Grimmdarlegir stálfuglarnir minna okkur þó á það sem á þessari stundu er mikilvægast. Að venjulegt fólk hefur ekkert að gera við herþotur og á aldrei skilið að lenda í loftárásum. Hiroshima og Nagasaki hefðu allt eins getað verið Hafnarfjörður og Neskaupsstaður eða Houston og New York. Alls staðar býr fólk eins og við sem þráir frið og fyrirlítur hernað og þá viðbjóðslegu slátrun barna, kvenna og karla sem kjarnorkuvopnin hafa í för með sér.
Við hugsum því með hryllingi 64 ár til baka þegar við segjum: Aldrei aftur Hiroshima, aldrei aftur Nagasaki.
Bandaríska herveldið virðist hafa hörfað undan friðarvilja Norðlendinga. Aðflugsæfingum hefur a.m.k. verið frestað um óákveðinn tíma. Fyrir vikið hafa Samtök hernaðarandstæðinga á Norðurlandi ákveðið að fresta fyrirhugaðri mótmælastöðu við Akureyrarflugvöll klukkan 14.30, laugardaginn 8. ágúst.
Samtökin hafa þó haft njósnir af því að hernaðarbrölti sé ekki lokið á Akureyrarflugvelli og að umræddar æfingar muni fara fram síðar í vikunni. Því verður boðað til nýrrar mótmælastöðu um leið og það liggur fyrir hvenær þær verða.
Samtök hernaðarandstæðinga á Norðurlandi efna til mótmælastöðu við Akureyrarflugvöll laugardaginn 8. ágúst klukkan 14.30 til að mótmæla aðflugsæfingum bandarískra orrustuflugvéla og vörslu hergagna á flugvellinum.
Samtökin mótmæla harðlega þeim heræfingum NATO sem hér eru stundaðar undir yfirskyni loftrýmisgæslu fyrir Ísland. Þær ógnir sem nú steðja að íslensku sjálfstæði eru frá amerískum og evrópskum fjármálakapítalisma. NATO er hernaðararmur þeirra afla. NATO er úlfurinn sem á að vernda lambið.
Í janúar sl. var haldin í Reykjavík mikilvæg NATO-ráðstefna undir heitinu: „Öryggishorfur á Norðurheimskautssvæðinu“, og er það í samræmi við nýjan áhuga stórveldanna á þessu svæði. Hernaðarlegar áherslur Bandaríkjanna og NATO verða ekki aðskildar frá efnahagslegum hagsmunum. Það liggur beint við að tengja aukinn áhuga NATO á Íslandi og norðurslóðum ekki aðeins við vaxandi hernaðarlega þýðingu svæðisins heldur vaxandi mikilvægi flutningaleiða í Norðurhöfum og olíuvinnslu í framtíðinni.
Nánari upplýsingar veitir Þórarinn Hjartarson, formaður Félags hernaðarandstæðinga á Norðurlandi (sími 462 4804/netfang thjartar@internet.is).