All Posts By

Stefán Pálsson

Ný stjórn Norðurlandsdeildar & ályktun

By Uncategorized

akureyrarkirkjaAðalfundur Norðurlandsdeildar Samtaka hernaðarandstæðinga var haldinn sl. fimmtudagskvöld. Góð stemning var á fundinum, þar sem meðal annars var fluttur fyrirlestur um vaxandi vægi einkaaðila í nútíma hermennsku og stríðsrekstri.

Ný stjórn var kjörin á fundinum. Hana skipa:

Formaður:
Kolbeinn Stefánsson

Stjórn:
Andrea Hjálmsdóttir
Bjarni Þóroddsson
Jósep Helgason
Sveinn Arnarsson
Þórarinn Hjartarson

Varamenn:
Kristín Sigfúsdóttir
Rachel Johnstone

Jafnframt semdi fundurinn frá sér eftirfarandi ályktun:

Aðalfundur Samtaka hernaðarandstæðinga á Norðurlandi skorar á íslensk stjórnvöld að beita sér fyrir breyttum áherslum í endurreisn alþjóðahagkerfisins. Áherslur undanfarinna ára hafa leitt af sér aukna misskiptingu og óréttlæti, bæði innan þjóðfélaga og á milli heimshluta.

Þessar sömu áherslur hafa leitt til ágangs á auðlindir náttúrunnar, mengun og náttúruspjöll, hróplegu misrétti, eymd og fátækt. Verði ekki lát á þessari þróun mun það leiða til tíðari og harðari átaka í heiminum. Þverrandi auðlindir leiða til harðnandi samkeppni um yfirráð og vaxandi misskiptingu verður aðeins viðhaldið með ofbeldi og kúgun. Kerfið er úr sér gengið og verður að víkja fyrir nýjum áherslum á mannúð, frelsi, velferð og réttlæti.

Aðalfundur Norðurlandsdeildar SHA

By Uncategorized

Aðalfundur Samtaka hernaðarandstæðinga á Norðurlandi verður haldinn í sal Zontaklúbbsins á Akureyri Aðalstræti 54 A, fimmtudaginn 22. október klukkan 20.00.

Dagskrá fundarins:

1. Setning fundar/kosning fundarstjóra
2. Ávarp formanns SHA á Norðurlandi
3. Ávarp formanns SHA á landsvísu
4. Einkavæðing í hernaði: Jóhann Ásmundsson flytur erindi
5. Kosning stjórnar
6. Önnur mál

Fundurinn er opinn öllum meðlimum Samtaka hernaðarandstæðinga og stuðningsfólki þeirra.

Þotugeymslu og hermangi hafnað

By Uncategorized

Ályktun frá SHA:

Samtök hernaðarandstæðinga lýsa miklum vonbrigðum sínum vegna frétta af hugmyndum um stofnun hergagnageymslu og æfingaaðstöðu fyrir NATO-heri á Keflavíkurflugvelli. Þrjú ár eru nú liðin frá því jákvæða skrefi sem lokun herstöðvar Bandaríkjamanna hér á landi var. Íslendingar eiga sem þjóð að leggja sitt að mörkum til að stuðla að afvopnun og vinna að friðsamlegri heimi. Það gerum við ekki með því þjónusta hernaðarmaskínur grannríkjanna.



Allt tal um að orrustuþotur og herþyrlur þær sem hér kunna að vera geymdar muni ekki bera vopn er aumt yfirklór. Það er enginn eðlismunur á því að þjónusta herþotur og þjálfa herflugmenn annars vegar, en varpa sprengjum í fjarlægum löndum með þessum sömu vélum hins vegar. Í fréttum af málinu hefur talsvert verið fjallað um hversu mörg störf kynnu að skapast vegna starfseminnar, en minna hefur farið fyrir umræðu um hversu margir muni láta lífið vegna hennar.

Samtök hernaðarandstæðinga vekja athygli á því að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að hún ætli sér að gera Ísland að vettvangi fyrir friðarumræðu og leggja áherslu á baráttu fyrir friði og afvopnum í heiminum. Vandséð er að hergagnageymslur og þjálfunarbúðir hermanna samrýmast þessari stefnu.

Hugmyndir af þessu tagi eru ekki samboðnar virðingu íslensku þjóðarinnar og ættu með réttu að ganga gegn siðferðiskennd landsmanna allra. Ljóst er að enginn friður mun ríkja um þessa fyrirhuguðu starfsemi, verði hún að veruleika og Samtök hernaðarandstæðinga munu beita sér af krafti gegn henni.

Bjartsýnisverðlaun Nóbels

By Uncategorized

Átti Barack Obama skilin Friðarverðlaunin?

harpa stefansdottirEftirfarandi grein Hörpu Stefánsdóttur birtist í Smugunni 10. október 2009

Það fór eflaust kjánahrollur um marga þegar tilkynnt var að Barack Obama hefði hlotið Friðarverðlaun Nóbels. Obama fær verðlaunin ekki fyrir eitthvað sem hann hefur gert í raun og veru. Heldur sem einhverskonar hvatningu til þess að standa við stóru orðin um von og breytingar og stuðla að friði í framtíðinni.

Obama fékk líka verðlaun árið 2008. Kosningaherferðin hans fékk Advertising Age markaðsverðlaunin, þau sömu og Apple fékk árið 2007. Hann var í kjölfarið sæmdur titlinum „Markaðsmaður ársins 2008“ (e. Marketer of the year 2008) Enda var kosningabaráttan mjög vel hönnuð auglýsingaherferð um vörumerkið Obama sem hreif marga með sér með innantómum frösum og slagorðum um von og óljósar breytingar. Það fór minna fyrir stefnumálunum.

Ástæðurnar fyrir tilnefningunni eru af sama meiði og kosningaherferðin. Fallegar umbúðir en lítið innihald. Nóbelsnefndin segir að hann hafi komið af stað flóðbylgju vonar um allan heim. Það er hálfsorglegt að friðarverðlaunin séu veitt í eintómri von um eitthvað sem gæti gerst, veitt manni sem hefur ekki komið fram með neitt í friðarmálum annað en verðlaunaslagorð og innantóman fagurgala.

Eitt það fyrsta sem kom upp í hugann á mér þegar ég frétti hver hefði hlotið verðlaunin var þegar Obama var spurður útí árás Ísraelsmanna á Gaza rétt fyrir innsetningarathöfnina. Hann lét eftirfarandi ummæli falla “Ef eldflaugar féllu þar sem dætur mínar tvær svæfu þá myndi ég gera allt sem í mínu valdi stæði til þess að stöðva það”. Hann var þó ekki að vísa til þeirra fjölmörgu palestínsku barna sem voru drepin með bandarískum vopnum í árásinni, undir því yfirskyni að Ísrael eigi rétt á að verja sig með fyrirbyggjandi aðgerðum.

Obama kann að koma fyrir sig orði og heldur fallegar ræður. En hvers virði eru orð ef lítið er á bakvið þau. Ímyndin er kannski ný og fersk en það er erfitt að sjá einhverjar raunverulegar, róttækar breytingar frá utanríkisstefnu Bushstjórnarinnar.

Því hefur verið haldið fram að hann fái verðlaunin í raun fyrir það eitt að vera ekki Bush. Það er ekki úr háum söðli að detta fyrir Obama sem hefur þó valdið mörgum sárum vonbrigðum. Það er stundum sagt að undir stjórn Obama sé allt öðruvísi en ekkert hafi breyst. Það sér ekki fyrir endann á hersetunni í Írak, það er ekki búið að loka Guantanamo og hernaðurinn á hinu svokallaða Afpak svæði fer stigversnandi. Hann er búinn að senda 20.000 hermenn til viðbótar til Afganistan og uppi eru áætlanir um að senda allt að 40.000 í viðbót.

Obama virðist samþykkja „The Bush Doctrine“. Þ.e.a.s að Bandaríkin eigi fullkominn rétt á því að vernda sig með öllum tiltækum ráðum sig gagnvart ríkjum sem grunur leikur á að hylmi yfir með eða fjármagni hryðjuverkamenn. Það sést m.a. á því að undir stjórn Obama er sprengt í Pakistan nánast að vild, eins og mörg dæmi eru um. Í fyrstu viku hans í embætti voru sendar ómannaðar sprengjuflugvélar yfir landamæri Pakistans þar sem a.m.k 22 saklausir borgarar létu lífið, þar á meðal börn.

Hann virðist í raun fylgja utanríkisstefnu Bush stjórnarinnar í mörgum málum, þ.á.m. í Palestínudeilunni þar sem hann vill auka hergagnaaðstoð til Ísraels með samningi til næstu tíu ára. Obamastjórnin hefur heldur ekkert gert í útþenslu landnemabyggðanna og stendur í vegi fyrir því að Ísraelsmenn þurfi að svara til saka fyrir hina grimmilegu árás á Gaza samkvæmt alþjóðalögum. Það er hægt að telja upp mörg svipuð dæmi.

Friðarverðlaunin ætti að veita fyrir raunverulegar aðgerðir sem stuðla að friðsamari heimi. Það er skammarlegt að veita þessi verðlaun til leiðtoga stærsta og árásargjarnasta herveldis heims sem enn kyndir ófriðarbál um allan heim með gengdarlausum hernaði og hergangaframleiðslu.
Þetta er auðvitað ekki í fyrsta skipti sem þessi verðlaun eru veitt í pólitískum tilgangi, sem einhverskonar hvatningarverðlaun til þjóðarleiðtoga. En væri ekki mikið áhrifaríkara að friðarverðlaunin fari til einstaklinga eða samtaka sem hafa helgað líf sitt baráttunni fyrir friði? Má í því tilliti nefna Noam Chomsky sem er enn á níræðisaldri óþreytandi við að tala fyrir friði og afvopnun og Dr. Mukwege frá Kongó (DRC). Sem hefur sett sig í stöðuga hættu og unnið þrekvirki við að bjarga lífi kvenna sem hafa orðið fyrir því hrottalega kynferðisofbeldi sem er orðið að faraldri í landinu. Það er til fullt af hugsjónafólki sem vinnur að friði án ofbeldisfullra málamiðlana. Þessi verðlaun eiga að tilheyra þeim.

Harpa Stefánsdóttir

Silfurmaður í Friðarhúsi

By Uncategorized

tarpleyBandaríski rithöfundurinn Webster Tarpley var gestur í sjónvarpsþættinum Silfri Egils sunnudaginn 26. september, þar sem hann ræddi framtíðarhorfur efnahagsmála í heiminum og Bandaríkjunum þá sérstaklega. Tarpley álítur að efnahagskreppan sé rétt að byrja og stjórnvöldum beri að haga ákvörðunum sínum í samræmi við það.

Tarpley þessi hefur ritað fjölda bóka um efnahags- og stjórnmál, þar á meðal um bandaríska hernaðar- og utanríkispólitík. Hann verður gestur í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, fimmtudagskvöldið 1. október kl. 20. Þar mun hann fjalla um hernaðarstefnu Obama-stjórnarinnar og meðal annars bregða ljósi á feril sumra þeirra manna sem mest áhrif hafa innan bandaríska stjórnkerfisins þegar kemur að ákvörðunum í utanríkismálum.

Fundurinn er í boði Samtaka hernaðarandstæðinga og opinn öllu áhugafólki um alþjóðamál.

Dagur án ofbeldis – 2. október

By Uncategorized

heimsganga sm logo Heimsganga í þágu friðar og tilveru án ofbeldis er alþjóðlegt verkefni sem beinist að því að vekja okkur til vitundar um þörfina á því að efla frið og minnka ofbeldi í heiminum. Hin táknræna ganga hefst í Wellington, Nýja Sjálandi 2. október næstkomandi og lýkur 2. janúar 2010 í Punta de Vacas í Andesfjöllum við landamæri Argentínu og Chile. Auk þessarar göngu eru margskonar uppákomur og atburðir víðsvegar um heim sem hófust þegar á síðasta ári. Sjá www.heimsganga.is og www.theworldmarch.org.

Heimsgangan mun í samvinnu við fjölda samtaka standa fyrir friðargjörningi á Miklatúni 2. október n.k kl 20 til að halda hátíðlegan „Dag án ofbeldis“ sem Sameinuðu þjóðirnar hafa helgað þessu málefni. Þennan sama dag, sem jafnframt er fæðingardagur Gandhis, leggur Heimsgangan af stað frá borginni Wellington á Nýja Sjálandi.

Fri  armerki 6    g  st B  dapest 2 01

Gjörningurinn felst í því að fjöldi fólks mun stilla sér upp með blys í hendi til að mynda stórt mannlegt friðarmerki (sjá meðfylgjandi mynd frá Búdapest þar sem slíkt merki var myndað þann 6. ágúst s.l. til að minnast fórnarlamba kjarnorkuárásanna á Hírósíma og Nagasaki).

Hugmyndin um mannlegt friðarmerki byggist á því að fá samtök og einstaklinga til þess að tryggja ákveðinn fjölda þátttakenda. Seldir eru fyrirfram miðar eða ávísun á blys á kr. 300 og fá þátttakendur blysin afhent á staðnum gegn framvísun á miðanum. Þegar eru nokkur samtök með í áforminu, þar á meðal Samtök hernðaraandstæðinga, sem hvetja félaga sína og aðra till að mæta.

Sjá nánar:
Mannlegt friðarmerki – vefsíða
Mannlegt friðarmerki – facebook
Europe for Peace – vefsíða
International Day of Non-Violence – á vef SÞ