All Posts By

Stefán Pálsson

Undirbúningsfundur f. andófsaðgerðir

By Uncategorized

Lárus Páll Birgisson (Lalli sjúkraliði) boðar til fundar í Friðarhúsi föstudaginn 8. apríl kl. 20 til að undibúa aðgerðir gegn stríðinu í Líbíu. Í fundarboði segir:

Íslensk stjórnvöld hafa ekkert lært af hryllilegum stríðsrekstri undanfarinna ára í Írak og Afganistan og eru við sama heygarðashornið í stuðningi sínum við loftárásir í Líbíu. Það er krafa friðarsinna á Íslandi að íslensk stjórnvöld snúi baki við þeirri hugmyndafræði að loftárásir og annar hernaður sé ásættanleg leið til að ná fram pólitískum markmiðum. Stríð er vandamál en ekki lausn. Hernaður er helsi en ekki frelsi. Við hvetjum alla friðelskandi menn að mæta og skipuleggja aðgerðir gegn þátttöku Íslands í hryllingnum í nafni frelsis og mannréttinda.

Ályktun frá SHA vegna „loftrýmisgæslu“

By Uncategorized

Samtök hernaðarandstæðinga lýsa vonbrigðum sínum með fréttir af því að hingað komi til lands kanadískar herþotur til svokallaðs loftrýmiseftirlits. Sagt hefur verið frá því í fréttum að flugsveit sú sem nú kemur til landsins, hafi verið kölluð til með skömmum fyrirvara, þar sem sú sveit sem upphaflega átti að koma hingað var kölluð til verkefna í tengslum við hernaðinn í Líbýu.

Þessar fregnir ættu að vekja almenning til umhugsunar um raunverulegt eðli þeirra heræfinga sem eiga sér reglubundið stað hér á landi undir merkjum loftrýmiseftirlits. Hér er um að ræða hefðbundnar æfingar loftherja sem hafa það að helsta takmarki að vera til taks í hernaði og varpa sprengjum á fátækt fólk í fjarlægum löndum. Æfingar þessar fara fram með vilja og stuðningi íslenskra stjórnvalda. Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla því harðlega að stjórnvöld leggi til aðstöðu á Íslandi og fjármagn til að þjálfa erlenda heri til manndrápa hvort sem er í Líbýu, Írak, Afganistan eða hvar annarsstaðar sem er í veröldinni.

„Los cincos“ – Kúbumennirnir fimm

By Uncategorized

Kynningarfundur um mál fimmenninganna verður í sal MÍR, Hverfisgötu 105, fimmtudagskvöldið 31. mars klukkan 19:30. Irma González, dóttir eins af fimmenningunum, segir frá. Léttar veitingar verða í boði á vægu verði frá klukkan 19.

Irma González, dóttir eins hinna svokölluðu „fimmmenninga“ frá Kúbu sækir Norðurlöndin heim á næstunni og verður hér á landi dagana 30.-31. mars, ásamt frænda sínum Orlando Sandoval. Hún talar máli föður síns og fjögurra annarra sem hlutu þunga dóma í Bandaríkjunum af pólitískum ástæðum.

Réttarhöldin yfir þeim Gerardo Hernández, Antonio Guerrero, Ramón Labañino, Fernando González og René González hafa verið fordæmd alþjóðlega, en þeir hafa nú setið á þrettánda ár í bandarískum fangelsum, lengi í einangrun. Irma talar einnig máli móður sinnar og annarar konu sem fá ekki að heimsækja eiginmenn sína. „Glæpurinn” sem fimmmenningarnir drýgðu var að fylgjast með starfsemi hægrisinnaðra hópa af kúbönskum uppruna sem hafa staðið fyrir ofbeldisaðgerðum og hryðjuverkum á Kúbu og í lofthelgi Kúbu mörg undanfarin ár, með vitund og vilja bandarískra stjórnvalda. Þetta eru glæpahópar á borð við Alpha 66, F4 Commandos, Cuban American National Foundation og Brothers to the Rescue.

Mennirnir voru handteknir 1998. Réttarhöldin fóru fram 2001 í Miami, borg þar sem stjórnvöld hafa lent í átökum við hægrisinna af kúbönskum uppruna og hatramt andrúmsloft ríkir gagnvart Kúbu. Markaðist samsetning kviðdómsins af því. Amnesty International lýsti því yfir „verulegum efasemdum“ um að réttarhöldin 2001 yrðu „sanngjörn og hlutlaus“. Tillögu verjanda um að flytja þau annað var hafnað. Þá kom saksóknari með „sannanir“ sem verjandinn fékk ekki að sjá. Fimmmenningarnar hlutu þunga dóma sem voru síðar „mildaðir“ árið 2008. Þeir voru dæmdir til 15–30 ára fangelsisvistar og hlaut einn þeirra tvöfaldan lífstíðardóm plús 15 ár fyrir upplogna ákæru um „samsæri um að fremja morð“.

Robert Pastor, þjóðarráðgjafi Jimmy Carters fyrrum forseta Bandaríkjanna í málefnum Rómversku Ameríku hefur látið hafa eftir sér að það sé álíka sanngjarnt að rétta í Miami yfir þessum fimm mönnum og að rétta yfir ísraelskum leyniþjónustumönnum í Teheran.

Fjölskyldur fimmmenninganna og stuðningsmenn þeirra hafa aflað víðtæks stuðnings. Í þeim hópi eru kunnir talsmenn mannréttinda, stjórnmálamenn og listamenn, þar á meðal Nóbelsverðlaunahafar. Þeir hafa hvatt til þess að mennirnir verði leystir úr haldi og að eiginkonurnar fái að koma til Bandaríkjanna til að hitta þá.

Nú gefst tækifæri hér á landi til þess að kynnast málavöxtum og sjónarmiðum fimmmenninganna og stuðningsmanna þeirra frá fyrstu hendi. Irma González mun tala á opinberum fundi fimmtudagskvöldið 31. mars klukkan 19:30 í sal MÍR, Hverfisgötu 105 í Reykjavík. Léttar veitingar verða í boði frá klukkan 19.

Nokkrir tenglar:

http://mbl.is/folk/frettir/2010/09/17/penn_og_del_toro_kalla_eftir_lausn_kubverskra_njosn/
http://www.change.org/petitions/end_the_injustice_free_the_cuban_5_now#?opt_new=t
http://news.bbc.co.uk/2/hi/americas/8537932.stm
http://www.iacenter.org/cuba/walker-cuban5082609/

Stjórn Vináttufélags Íslands og Kúbu (VÍK) – www.simnet.is/cuba – cuba@simnet.is

Stríðið sem ákvað sig sjálft

By Uncategorized

Grein þessi birtist upphaflega á vefritinu Smugunni.

Árið 2003 tóku tveir menn ákvörðun um að Ísland gerðist stuðningsaðili stríðsreksturs í fjarlægu landi og þótti saga til næsta bæjar. Nú eru horfur á að met þetta verði slegið. Það stefnir nefnilega hraðbyri í að Ísland verði stríðsaðili á ný, en að þessu sinni án þess að nokkur kannist við að hafa ákveðið það.

Það er væntanlega bara spurning um tíma hvenær Nató tekur að sér stríðið í Líbýu, sem nokkur forysturíki hernaðarbandalagsins hófu á grundvelli langsóttrar túlkunar á loðini ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þar með yrði Ísland formlegur aðili að stríði sem útilokað er að segja til um hvernig mun þróast.

Ákvörðun þessi er tekin án nokkurrar raunverulegrar umræðu hér á landi. Hún byggist ekki á samþykkt ríkisstjórnar, Alþingis eða utanríkismálanefndar þingsins. Helst er að sjá að utanríkisráðherra eða embættismenn hans hafi sjálfdæmi þegar kemur að jafn afdrifaríkum ákvörðunum og að túlka samþykktir Öryggisráðsins og skuldbinda Ísland til þátttöku í stríði. Hver svo sem skoðun manna á hernaðinum í Líbýu kann að vera, hljóta flestir að geta verið sammála um að þetta séu óásættanleg vinnubrögð.

Á tímum kalda stríðsins var því haldið fram að Nató væri varnarbandalag með það eina hlutverk að tryggja sameiginlegar varnir aðildarríkjanna. Friðarsinnar höfnuðu þeirri túlkun og bentu á árásargjarnt eðli bandalagsins. Að kalda stríðinu loknu hefur hins vegar yfirlýst hlutverk bandalagsins gjörbreyst. Það má nú heita fastur liður að Nató sé falið að hreinsa upp eftir herleiðangra einstakra forysturíkja sinna og taka við stríðum þeirra. Ekkert bendir til að lát verði á þessu á komandi árum.

Í ljósi þessarar þróunar má ljóst vera hversu brýnt það er að Ísland dragi sig hið fyrsta úr Nató. Fáránleiki þess að herlaus þjóð sé aðili að hernaðarbandalagi hefur löngu legið fyrir, en enn fráleitara er ef þjóðin á ítrekað að verða stríðsaðili, ýmist sjálfkrafa eða á grunni tilviljanakenndra ákvarðanna utanríkisráðherra eða fulltrúa Íslands hjá Nató.

Stefán Pálsson

Fjáröflunarmálsverður Friðarhúss

By Uncategorized

Hinn mánaðarlegi fjáröflunarmálsverður Friðarhúss verður haldinn föstudagskvöldið 25. mars. Kokkar kvöldsins verða Harpa Stefánsdóttir og Ármann Gunnarsson.

Boðið verður upp á indverskan kjúklingarétt með hrísgrjónum og jógúrtsósu
& afrískan grænmetispottrétt með couscous.

Guðrún Lára Pálmadóttir tekur lagið. Árni Hjartarson flytur hugvekju um baráttuna gegn Nató, enda 30. mars skammt undan.

Borðhald hefst kl. 19. Verð 1.500 kr.

Ályktun frá SHA

By Uncategorized

Samtök hernaðarandstæðinga lýsa þungum áhyggjum af hernaði og ofbeldisverkum í Miðausturlöndum liðinna daga. Í Jemen hafa valdhafar framið fjöldamorð á almenningi og sagnir eru um að taugagasi hafi verið beitt. Bahrein hefur í raun verið hernumið af her Sádi-Arabíu, án þess að hósti né stuna heyrist frá alþjóðasamfélaginu. Og í Líbýu hefur geysað blóðug borgara- og ættbálkastyrjöld með morðum á báða bóga.

Í ölum þessum tilvikum er um að ræða einræðisríki sem notið hafa beins eða óbeins stuðnings Vesturlanda og átt greiðan aðgang að því að kaupa vopn frá Evrópu og Bandaríkjunum. Einræðisherrar í Arabaheiminum byggja og hafa byggt völd sín á stuðningi þeirra ríkja sem fara með neitunarvald í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Reynslan kennir okkur að friður verður hvorki tryggður né komið á með því að varpa sprengjum úr flugvélum. Stríð síðustu ára ættu sömuleiðis að hafa kennt mönnum hversu lítið er að marka frásagnir af „mannúðlegum“ nútímahernaði sem eigi aðeins að beinast að hernaðarlegum skotmörkum. Veruleikinn er allt annar. – Loftárásunum verður að linna!

Samtök hernaðarandstæðinga vara við því að alþingi eða ríkisstjórn Íslands lýsi yfir stuðningi við athæfi þeirra herskáu ríkja sem hafa misnotað samþykkt Öryggisráðsins um flugbann og notað sem átyllu til allsherjar loftárása. Reynslan af þess konar hernaði sýnir að hann bitnar óvenju harkalega á almennum borgurum þar sem markmiðið er að verja eigin hermenn fyrir hnjaski frekar en almenning á jörðu niðri. Íslenskir stjórnmálamenn ættu frekar að horfa til t.d. Svía og Þjóðverja sem hafa tekið allt aðra afstöðu til hernaðarins. Íslendingar eiga ekki að styðja aðgerðir sem leiða til aukinna þjáninga fyrir almenning í Mið-Austurlöndum.

Hvað er málið með Líbýu?

By Uncategorized

Þrátt fyrir margra vikna átök í Líbýu, hefur lítið farið fyrir dýpri umfjöllun um bakgrunn þeirra, sögu landsins og stjórnmál. Mánudagskvöldið 21. mars kl. 20 standa Samtök hernaðarandstæðinga fyrir umræðufundi um Líbýu í Friðarhúsi, Njálsgötu 87. Sagnfræðingarnir Gísli Gunnarsson og Sverrir Jakobsson ræða um söguna og velta vöngum yfir hverju við sé að búast.

Allir velkomnir.

Ályktun að gefnu tilefni

By Uncategorized

Ályktun frá miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga vegna kjarnorkuslyssins í Japan

Síðustu daga hafa fregnir af kjarnorkuslysinu í kjölfar náttúruhamfaranna í Japan vakið óhug um víða veröld. Það er áminning um hversu skaðleg kjarnorkutæknin getur reynst ef óvænt áföll koma upp á.

Það er einmitt ekki hvað síst vegna hættunnar á slysum eða óhöppum, sem íslenskir friðarsinnar hafa um árabil barist fyrir því að sett verði bann við umferð og geymslu kjarnorkuvopna í íslenskri landhelgi. Hættan á slysum í kjarnorkukafbátum má vera öllum kunn og óþarft að fjölyrða um hversu alvarlega afleiðingar það hefði ef slíkt óhapp yrði í námunda við landið.

Samtök hernaðarandstæðinga höfðu á sínum tíma frumkvæði að því að fá íslensk sveitarfélög til að friðlýsa sig fyrir kjarnorkuvopnum og brugðust langflest þeirra við því kalli. Raunar vildu aðeins fimm sveitarfélög ekki vera friðlýst fyrir geymslu og meðferð kjarnorkuvopna: Grímsnes- og Grafningshreppur, Reykjanesbær, Sandgerði, Skútustaðahreppur og Vogar.

Enn er þó eftir stóra málið, að Alþingi bindi í lög fortakslaust bann við slíkri umferð. Frumvarp um þetta efni liggur tilbúið í utanríkismálanefnd Alþingis. Samtök hernaðarandstæðinga skora á þingmenn að ljúka málinu fyrir vorið.

Hvað er að gerast í Miðausturlöndum?: Fundur um Jemen

By Uncategorized

Miðvikudagskvöldið 16. mars kl. 20 efna Samtök hernaðarandstæðinga til umræðufundar í Friðarhúsi. Yfirskriftin er: „Hvað er að gerast í Miðausturlöndum? – Sagt frá ástandinu í Jemen.“

Sveinn H. Guðmarsson og Þórhildur Ólafsdóttir eru nýkomin frá Jemen, þar sem þau störfuðu fyrir hjálparsamtök. Þau munu segja frá ástandinu í landinu og velta vöngum yfir því hvers sé að vænta í þessum heimshluta.

Almennar umræður. Allir velkomnir.