All Posts By

Stefán Pálsson

Norski herinn og karlablöðin

By Uncategorized

Í framhaldi af síðustu færslu þar sem rifjuð var upp grein úr gömlum Dagfara, er rétt að grípa niður í pistil Steinunnar Rögnvaldsdóttur í nýjasta hefti Dagfara (sumar 2011). Þar fjallar Steinunn einmitt um norska herinn og óhefðbundnar söluaðferðir hans. Þar var vikið að mótmælum sem…

…voru haldin í skugga meira en vikulangs fjölmiðlafárs eftir birtingu sjokkerandi viðtals við norska hermenn í Afghanistan. Þar var m.a. haft eftir þeim að það sé betra að vera í stríði en að ríða, og „markmiðið“ sé að drepa. Ummælin birtust í viðtali við hermennina í nýjasta „karlablaði“ Noregs, Alfa. Þegar lestri viðtalsins við hina karlmannlegu hermenn er lokið er sem sé einfaldlega hægt að fletta á næstu síðu og skoða beran rass prakkaralegs forsíðumódelsins. Einhverra hluta vegna kemur það ekki á óvart að það sé akkúrat í klámblaði sem að manndráp eru sett á stall með kynlífi.

Happiness is a warm gun

„Maður fer ekki til Afghanistan til að bjarga heiminum, heldur til að taka þátt í almennilegu stríði“, segir í viðtalinu, þar sem að hermenn lýsa spennunni við að beita skotvopnum og einbeittum vilja sínum til að drepa óvininn. Ummæli hermanna í viðtalinu hafa gefið sögum um „ónauðsynleg“ borgaraleg dauðsföll, þ.e.a.s. að hermennirnir séu ansi gikkglaðir, byr undir báða vængi.

Í kjölfar ummælanna voru boðaðir krísufundir á æðstu stöðum í hernum og varnarmálaráðuneytinu, og yfirmenn hersins, þ.á.m. Greta Faremo varnarmálaráðherra, lýstu áhyggjum sínum af því að hermennirnir beri ekki virðingu fyrir mannslífum og séu haldnir hefndarhug. Þó að yfirmennirnir segjist taka „ómenninguna“ alvarlega þá reyndu þeir að tóna niður dramatíkina í umræðunni, sögðu vandann einskorðast við fámennan hóp og boðuðu aukna umræðu um siðfræði og manngildi innan hersins – en á því hálfa ári sem liðið er síðan, hefur lítið farið fyrir slíkri umræðu opinberlega.

Það sem hefur verið kallað „ómenning“ innan hersins einskorðast þó ekki við þessi ummæli hermannanna. Í fjölmiðlum hafa m.a. komið fram spurningar um uppgang nýnasisma innan hersins, eða a.m.k. innan Telemark herdeildarinnar, en frá meðlimum hennar eru ummælin í Alfa komin. Þær spurningar eiga rætur sínar að rekja til notkunnar hermannanna á táknum úr norrænni goðafræði, t.d. herópsins „Til Valhallar!“ (þó að ýmsir blási á slíkar kenningar og bendi á að nokkurra ára-veldi Hitlers hafi ekki fært honum einkarétt á norrænnum menningararfi). Þá hafa meðlimir þessarar herdeildar tekið uppá því að bera hauskúpumerki eða svokallað „Punisher“-tákn á búningum sínum og gjarnan áletrunina „Jokke, við munum aldrei gleyma“ (Jokke hét fullu nafni Claes Joachim Olson og var hermaður í Telemark herdeildinni, en lést af völdum vegasprengju í Afghanistan á síðasta ári). Þetta hauskúpumerki hafa hermennirnir líka spreyjað á hús Afghana sem hermennirnir hafa grun um að hafi tengsl við uppreisnarmenn.

Er nauðsynlegt að skjóta þá?

Yfirmenn norska hersins hafa tekið fram að það sé ekki óvenjulegt eða óæskilegt að hermenn noti tákn og slagorð sem að tjá samstöðu og bræðralag. Slíkt megi þó ekki vera þess eðlis að það grafi undan siðferði hermannanna. Sporin hræði, enda sé sagan smekkfull af dæmum um hermenn sem hafa „farið yfir strikið“ með skelfilegum afleiðingum.

En slík ummæli vekja upp spurningar um hvar þetta strik sé eða hvar það eigi að vera? Mannfall óbreyttra borgara er daglegt brauð í Afghanistan. Borgaraleg fórnarlömb eru tugir þúsunda. Árásarherirnir hafa ekki einu sinni tölu á hversu marga er búið að drepa. Flokkast allt þetta fólk ekki sem „ónauðsynlegt mannfall“? Var nauðsynlegt að drepa það?

Hinir hneyksluðu, þar með talinn varnarmálaráðherrann, voru í umræðunni gagnrýnd fyrir að viðurkenna ekki eða að reyna að draga dul á að svona er stríð einfaldlega. Þetta er það sem stríð gengur útá, að hermenn gera sitt besta til að drepa óvininn – segja þeir sem gripið hafa til varna fyrir herdeildina vígreifu, þ.á.m. hægrisinnaðir stjórnmálamenn og fyrrum hermenn. Að þeirra mati er það aukaatriði hvort hermennirnir hafi gaman að því að drepa eður ei, aðalatriðið er að þeir eru að vinna vinnuna sína.

En skiptir það þá kannski ekki máli hvort hermennirnir voru graðir, í hefndarhug, í hópeflisleikjum, aðeins of spenntir fyrir byssunni sinni, að kaupa sér teppi í Kjúklingastræti eða langaði bara að vera í alvöru stríði, þegar að tugþúsundir manna liggja í valnum eftir bráðum tíu ár í Afghanistan? Kannski finnst sumum betra að fólk sé drepið útaf því að hermenn vinna vinnuna sína, frekar en útaf því að hermenn hafi gaman af því að vinna vinnuna sína. En ég held að stríðsfórnarlömb séu að hugsa um flest annað þegar kúlan hæfir þau.

Steinunn Rögnvaldsdóttir

Vill Árvakur fá þig í herinn?

By Uncategorized

Vegna umfjöllunar fjölmiðla um tilraunir norskra hernaðaryfirvalda til að skrá íslensk ungmenni í herinn, er vert að rifja upp grein Þórhildar Höllu Jónsdóttur úr Dagfara 2008 um svipað efni:

Þegar líða tók að hausti þetta sólríka sumar þá fylgdi athyglisvert aukablað með óskabarni og stolti Árvakurs einn föstudagsmorguninn. Það var nánar tiltekið þann fimmtánda ágúst sem veglegt og pent sérblað um menntun hafði verið laumað inn í Morgunblaðið og þyngdi byrðar blaðberanna þann morguninn. Í þessu aukablaði var ýmislegt fróðlegt að finna um menntun. Viðtöl, greinaskrif og ágætis útlistun á hinum ýmsu námsleiðum sem standa ungu fólki, sem og þeim sem eldri eru, til boða við byrjun nýs skólaárs.

En við nánari skoðun á innihaldi blaðsins kom fljótlega í ljós að eitt umfjöllunarefnið var ekki jafn pent og annað eftir allt saman. Þarna inni á milli ágætis útlistinga á fjölbreytni námsleiða hér á landi, hafði slæðst með grein um hernám í öðrum löndum. Undir fyrirsögninni „Hvað með að fara í herinn?“ var glaðleg og allt að því glettileg umfjöllun um kosti þess (ég ítreka, kosti þess, ekki galla) að leggja land undir fót, taka sér riffil í hönd og læra að stríða, skjóta og skríða í öðrum löndum.

Greinin byrjar á þeirri fullyrðingu að hernám sé þriðji alvöru kosturinn sem stendur ungu fólki til boða þegar það velur sér menntun, fyrir utan bóknám og iðnnám náttúrulega. Hvernig höfundur greinarinnar náði að galdra þá fullyrðingu upp úr töfrahatti lyklaborðsins skal ekkert sagt um. En þessi vafasama fullyrðing ein og sér hefði vel nægt til að fá mann til að hætta lestrinum á stundinni ef ekki hefði verið fyrir eðlilega forvitni um það hvernig svo hættuleg hollráð Árvakurs, sem lögð væru á borð fyrir ungt fólk og foreldra þess sem góð lausn á valkrísunni, gætu mögulega farið.

Er hernám skemmtilegra en viðskiptafræði? Spyr sú sem skrifar þessi orð með pistlahöfundi Morgunblaðsins, því hvorugt námið hefur hún reynt á eigin skinni. En það þarf líklegast ekki mikla tölfræði til að sýna fram á það að viðskiptafræði dregur ekki jafn marga til dauða með jafn beinum hætti og hermennskan gerir, þó að það sé sígilt (og nokkuð ofnotað) atriði í misgóðum gamanmyndum að sjá viðskiptaspáfugla fleygja sér útum gluggann þegar allt er komið í öngstræti. Það hefur líklegast verið ætlunin að áskrifendur Moggans kæmust að niðurstöðu sjálfir eftir lesturinn.

En það væri blekking að neita því að tónninn í greininni dregur mjög ákveðið taum herþjónustu og ljær henni ásýnd skemmtilegs og gefandi framtíðarstarfs. Greinarhöfundur Moggans gengur út frá því að það verði nú líklegast að kalla það fríðindi að þurfa ekki að gegna herskyldu hér á Íslandi og bendir á að í mörgum löndum geri ungmenni ýmislegt til þess að losna undan þeirri kvöð. En það verður að teljast frekar snúðug afstaða að kalla það „fríðindi“ að vera ekki neydd(ur) til að dvelja í langan tíma frá heimili sínu, vinum, fjölskyldu, námi og áhugamálum til þess að láta öskra á sig í herbúðum og læra að skjóta annað fólk. Lesendur verða að fyrirgefa að mér skuli finnast hugtakið fríðindi afkáralegt og jafnvel hræsnisfullt í þessu samhengi. Herþjálfun hefur reyndar verið gerð valkvæð í mörgum löndum, en þó aðallega á Vesturlöndum. Sú leið að ákveða að fara í herinn er oft sú skásta fyrir ungt fólk í ýmsum öðrum löndum sem hefur ekki mikið milli handanna til að öðlast einhverja menntun og mannsæmandi tekjur í framtíðinni, og má þá sérstaklega benda á Bandaríkin í því samhengi.

Já hvað með herinn?

Þær hugleiðingar um hagnýti hernámsins sem er að finna í greininni eru stuttar og öllum lýtum herþjónustunnar er einfaldlega sleppt. Benda má á að samkvæmt greinarhöfundi Moggans er hernám gott veganesti þegar haldið er út á hinn harðskeytta og torsótta veg atvinnulífsins. Velta má því fyrir sér hvernig hugmyndir greinarhöfundur hefur almennt um atvinnulífið. Áhætta og stríðsátök bjóða víst upp á kærkominn bónus á launaseðlinum en ekkert er minnst á hve auðveldlega slíkur bónus gæti orðið of dýru verði keyptur. Örkumlun og dauði eru óhjákvæmilegir fylgifiskar stríðsátaka og hermennsku ásamt ófáum öðrum, líkt og fátækt, ofbeldi, nauðgunum, pyntingum og þunglyndi, svo fátt eitt sé nefnt. Að starfa sem hermaður snertir ekki einungis viðkomandi manneskju persónulega heldur alla í kringum hana. Fjölskyldu, vini og allt það fólk sem lendir beint eða óbeint í eldlínu stríðsátaka og þarf að takast á við afleiðingar þeirra, hvort sem það eru saklausir borgarar, hjálparstarfsfólk, fréttamenn, aðrir hermenn eða bara hver sem er.

Svo er sögunni vikið að því hernámi sem íslenskum ungmennum stendur til boða að skrá sig í. Ekki er ætlunin að útlista það ýtarlega hér, þó aðeins sé snert á því, til þess er auðvitað margumrædd grein í aukablaði Morgunblaðsins. Fyrst er sagt frá herþjálfun frænda okkar í Danmörku og Noregi. Mikilvægi þess að vera í „herformi“ er tíundað ásamt þeirri söguvísun að það sé líklegast vegna afreka íslenskra víkinga við norsku hirðina á landnámstímanum að dyr norska hersins skuli standa svo galopnar fyrir íslenskum ofurhugum og ævintýraþyrstum ungmennum.

En það eru víst ekki bara norrænir herir sem taka vel á móti útlendingum. Franska útlendingahersveitin, sem er goðsagnakennd samkvæmt greinarhöfundi Morgunblaðsins, hefur verið við lýði síðan árið 1831, og er víst alræmd úrvalssveit. Hún byggir starfsemi sína víst á ýmsum athyglisverðum hefðum. Má þar t.d. nefna að hver sá sem skráir sig þarf að skipta um nafn, en fyrr á tímum var það hugsað til þess að auðvelda mönnum að hefja nýtt líf. Nú í dag er hægt að taka aftur upp sitt gamla nafn eftir eitt ár. Önnur regla sem vert er að minnast á er sú að fyrstu fimm árin í þjónustu herdeildarinnar má viðkomandi ekki eiga neitt faratæki og verður ávallt að klæðast einkennisbúningnum. Launakjör á meðan herþjálfun stendur í einhverju af þessum þremur löndum eru nokkuð vel útlistuð, og sérstaklega er imprað á áðurnefndum bónus (en útí slíkt verður ekki farið hér).

Lesendur eru skildir eftir í lausu lofti svo að ævintýrablær hernámsins nái að njóta sín eins mikið og mögulegt er. En hann er fljótur að dofna þegar byrjað er að týna saman allar þær hörmungar sem stríð og hermennska býður mannkyninu upp á, þó að öllum slíkum staðreyndum og vangaveltum sé sleppt í greininni. Umfjöllunin er einfaldlega hönnuð sem „one-way-street“ í tilraun til að véla ungt fólk með stjörnur í augunum út í ógöngur hermennskunnar. Ævintýraþrá eftir áhættubónus og að prófa að stökkva út úr flugvélum með fallhlíf á bakinu getur auðveldlega blindað fólk fyrir þeim afleiðingum sem herþjálfun og hermennska bera í skauti sér.

Enginn ætti að þurfa að klóra sér lengi í hausnum við að rifja það upp hvaða öfl hafa hin pólitísku ítök í Árvakri, sem á Morgunblaðið. Um hægri slagsíðu Moggans verður ekki efast enda lítill metnaður lagður í slíkan óþarfa eins og að reyna að hylma yfir hana. Þeir sem standa fyrir slíkri slagsíðu kunna líka óskaplega vel við sig undir pilsfaldi NATO og snobba grimmt fyrir hinum ýmsu hermálum. Er því nokkur furða að finna svona umfjöllun í aukablaði sem runnið er undan slíkum rifjum? Er furða að í þessari umfjöllun sé herþjálfun látin líta út fyrir að vera spennandi ævintýrastarf? Og er því furða að maður skuli spyrja sjálfan sig: „Vill Árvakur fá þig í herinn?“

Þórhildur Halla Jónsdóttir

Stríðsfréttir

By Uncategorized

Fréttaflutningur af stríðinu í Líbýu hefur mjög verið á einn veg síðustu daga og vikur. Forystumenn Nató lofa skjótum sigrum og koma sér undan því að tjá sig um afleiðingar loftárásanna fyrir almenning í Líbýu. Samkvæmt sumum áætlunum er meira en 10% íbúanna á flótta og matvælaskortur orðinn mikill í landinu sem er að mestu upp á innflutning á mat kominn.

Vakin er athygli á þremur stuttum fréttum á ensku sem tengjast stríðinu. Fyrst þessari frétt um mannfall í loftárásunum.

Þá þessari frétt um tilraunir Afríkulanda til að miðla málum.

Og loks þessa frétt um hvernig árásarríkin hyggjast fá herkostnaðinn endurgreiddan.

Magnaður matseðill

By Uncategorized

Síðasti fjáröflunarmálsverður Friðarhúss á þessu vormisseri verður haldinn nk. föstudagskvöld, 28. maí. Kokkaþríeykið Jón Bjarni, Gísli Hrafn og Friðrik Atlasynir töfra fram margslunginn málsverð:

* Kjötréttur að hætti byltingarsinnaða Mexíkóans

* Ítalski grænmetisrétturinn gegn Berlusconi

* Friðarsalat og lifibrauð hernaðarandstæðingsins

* Súkkulaðikaka lífsins

Þórunn Pálína Jónsdóttir og Ragnar Emilsson flytja tónlistaratriði.

Borðhald hefst að venju kl. 19. Verð kr. 1.500.

Kvikmyndasýning Íslands-Palestínu

By Uncategorized

INSHALLAH – HEIMILDAKVIKMYND EFTIR MAURICE JACOBSEN

Íbúar Gazastrandarinnar hafa lifað árum saman vi! hernám, umsátur og stöðugar árásir Ísraelshers.
Bandaríski kvikmyndagerðarmaðurinn Maurice Jacobsen bjó á Gazaströndinni í rúmt ár og kynntist lífi íbúanna. Kvikmynd hans Inshallah („ef guð lofar“), sýnir okkur að íbúar Gaza eru harðduglegir, snjallir og úrræ!agóðir í baráttunni vi! ógnina og skortinn.

Heimildamyndin Inshallah veitir einstakt tækifæri til a! kynnast lífi Gazabúa. Nafn myndarinnar „ef guð lofar“, lýsir þeirri óvissu um framtí!ina sem fólki! býr við. Árásir Ísraelshers eru daglegur viðburður og ísrealskir stjórnmálamenn hóta enn stórárás svipa!ri þeirri sem þeir gerðu um jól og áramót 2008/2009.

SÝND Í BÍÓ PARADÍS FIMMTUDAGINN 26. MAÍ KL. 20

Maurice Jacobsen verður viðstaddur sýninguna og svarar spurningum áhorfenda eftir sýningu. Allur ágóði af sýningunni rennur til hjálparstarfa á Gaza.

Miðaverð: kr. 1.150 Myndin er á ensku

Fjáröflunarmálsverður, 1. maí kaffi & Dagfari

By Uncategorized

Föstudagskvöldið 29. apríl verður hinn mánaðarlegi fjáröflunarmálsverður Friðarhúss. Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi verður yfirkokkur og verður matseðillinni einfaldur:

* Matarmiklar tómatsúpur: annars vegar með kjúlkingi en hins vegar með grænmeti
* Lífrænt brauð úr Brauðhúsinu, Grímsbæ
* Bragðgóður eftirréttur

Borðhald hefst að venju kl. 19, en húsið verður opnað hálftíma fyrr. Alli velkmnir. Verð kr. 1.500

* * *

Morgunkaffi SHA á 1. maí er ómissandi byrjun á baráttudegi verkalýðsins. Það hefst kl. 11 í Friðarhúsi, Njálsgötu 87 og stendur fram að kröfugöngu verkalýðsfélaganna sem leggur af stað kl. 13:30. Líkt og undanfarin aldarfjórðung er kaffigjaldið litlar 500 krónur.

* * *

Dagfari, tímarit SHA, er kominn í prentun. Félagsmenn fá blaðið sent heim til sín og eru þeir sem nýverið hafa flutt heimili sitt því hvattir til að tilkynna breytinguna hið fyrsta, t.d. með því að senda póst á sha@fridur.is

Friðarsinnar heimsækja herskip 16. apríl kl. 14

By Uncategorized

Skömmu fyrir hádegi fimmtudaginn 14. apríl komu þrjú þýsk herskip til hafnar í Reykjavík. Brandenburg og Berlin liggja við Skarfabakka og Reinland Pfalz við Sundabakka. Almenningi er boðið að skoða skipin á laugardag og sunnudag kl. 13-16.

Hópur friðarsinna hyggst þiggja þetta boð á sinn hátt kl. 14 á laugardag. Þeir munu safnast saman við Skarfabakka kl. 13:30. Friðarsinnar, fjölmennum!

Líbýustríði mótmælt

By Uncategorized

Óformlegur hópur fólks sem andæft hefur stríðinu í Líbýu og þátttöku Nató í því boðar til mótmælafundar:

Gegn stríði – útifundur á Lækjartorgi.

Fimmtudaginn 14. apríl klukkan 17:00 verður útifundur á Lækjartorgi. Látum í ljós óánægju okkar, sökum aðildar Íslands að NATO erum við nú, á vormánuðum árið 2011, þáttakendur í þremur stríðum. Á þessu ári á nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar að skila niðurstöðum um aðdraganda stuðnings Íslands við innrásina í Írak. Krafist er afléttingar leyndar skjala sem leiddu til stuðnings okkar við stríðið og að þau verði gerð opinber.

Krafa okkar fyrir þetta stríð er engu minni: Við krefjumst þess að öll gögn sem Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og fulltrúar í utanríkismálanefnd Alþingis höfðu aðgang að og byggðu stuðning sinn við ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna á, verði þegar í stað gerð opinber. Geðþóttaákvarðanir stjórnvalda eru brot á mannréttindum og því er áríðandi að almenningur geti lagt sjálfstætt mat á það hvort að nú líkt og áður hafi kjörnir fulltrúar byggt ákvörðun sína um stuðning við loftárásir á einkahagsmunum.

Mælendur verða:
Lárus Páll Birgisson
Sólveig Jónsdóttir
Kristín Ómarsdóttir
María S. Gunnarsdóttir