All Posts By

Stefán Pálsson

Friðarpípan – spurningakeppni SHA

By Uncategorized

pipanFriðarpípan, spurningakeppni SHA, verður haldin laugardaginn 21. janúar í Friðarhúsinu og hefst kl. 16. Um er að ræða keppni með svokölluðu “pub-quiz” fyrirkomulagi, að hætti breskra öldurhúsa. Gestir og gangandi mæta og glíma tveir og tveir saman við spurningarnar, sem eru úr ýmsum áttum.

Þrír spyrlar sjá um jafnmarga spurningapakka. Allir eru velkomnir.

Léttar veitingar á vægu verði.

Rokk gegn her

By Uncategorized

2k2 3toneÁ vefritinu Hugsandi birtist nýverið grein eftir sagnfræðinginn Unni Maríu Bergsveinsdóttur, fyrrum miðnefndarfulltrúa í SHA. Þar gerir hún að umfjöllunarefni fræga tónleika sem haldnir voru í Laugardalshöllinni á fyrri hluta níunda áratugarins í baráttu fyrir friði og afvopnun. Tónleikarnir Rokk gegn her og Við krefjumst framtíðar voru báðir í hópi merkari stórtónleika sem haldnir voru hér á landi á þessu árabili. Sjálfsagt er að hvetja lesendur Friðarvefsins til að kynna sér greinina.

Alþjóðlegar aðgerðir undirbúnar

By Uncategorized

20_marsÞann tuttugasta mars nk. verða þrjú ár liðin frá því að innrás Bandaríkjamanna og bandalagsríkja þeirra hófst í Írak. Þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar ráðamanna á Vesturlöndum um að hylli undir lok hernaðarins í landinu, er fátt sem bendir til að sú sé raunin. Þvert á móti berast daglega fregnir af mannskæðum árásum og áframhald þeirrar mannskæðu borgarastyrjaldar sem gagnrýnendur innrásarinnar spáðu fyrir um í upphafi.

Á ársafmæli stríðsins efndu friðarhreyfingar víða um lönd til aðgerða þar sem þess var krafist að látið yrði af hernaðinum og að hernámsliðið færi brott. Ári síðar endurtóku þær leikinn, en í bæði skiptin var gríðarleg þátttaka í hinum alþjóðlegu mótmælum. Ákveðið hefur verið að dagana 18.-20. mars verði mótmæli af þessu tagi og rignir nú inn fréttum af borgum og bæjum víða um heim þar sem andstæðingar stríðsins láta ljós sitt skína.

Hér á landi voru haldnar eftirminnilegar aðgerðir í tengslum við mótmæli þessi bæði í fyrra og hitteðfyrra. 2004 voru Óskapa-verðlaunin afhent á tröppum Stjórnarráðsins, þar sem veittar voru viðurkenningar í flokkum á borð við “aumasti lygarinn” og “ósvífnasti stríðsgróðapungurinn”. Aðgerðirnar 2005 voru öllu alvörugefnari, en þar voru nöfn fjölda fórnarlamba stríðsins næld í stóran, svartan segldúk og hann borinn um miðbæinn. Báðar aðgerðirnar voru afar fjölmennar.

Miðvikudagskvöldið 18. janúar verður fyrsti formlegi undirbúningsfundur aðgerðanna í mars haldinn í Friðarhúsi á horni Snorrabrautar og Njálsgötu. Þar munu verður velt upp hugmyndum varðandi það með hvaða hætti unnt sé að mótmæla stríðinu þannig að eftir verði tekið. Allir velkomnir.

Undirbúningur alþjóðamótmæladags

By Uncategorized

18.-20. mars verða alþjóðleg mótmæli gegn Íraksstríðinu, en þrjú ár verða þá liðin frá innrás Bandaríkjamanna og bandalagsríkja þeirra í landið. Á fundinum í Friðarhúsi verður rætt um mögulega tilhögun aðgerða hér á landi.
Fundurinn er öllum opinn.

Dagfari á Friðarvefnum

By Uncategorized

dagfariTímarit og fréttabréf Samtaka herstöðvaandstæðinga nefnist Dagfari, en útgáfusaga blaðsins nær aftur á fyrri hluta sjötta áratugarins. Í Dagfara birtast fréttir af starfi SHA, en einnig ítarlegar greinar og annað efni sem tengist friðar- og afvopnunarmálum. Félagar í Samtökum herstöðvaandstæðinga fá Dagfara sendan heim til sín, en leitast er við að gefa út stóran Dagfara árlega en minni tölublöðin 3-4 sinnum á ári.

Nú hafa nokkur nýjustu eintök Dagfara verið sett inn á Friðarvefinn á pdf-formi. Þau má nálgast með því að smella á reitinn Dagfari, til vinstri á síðunni.

Málningarvinna í Friðarhúsi

By Uncategorized

pensillUnnið verður að málningarvinnu í Friðarhúsi á sunnudag frá klukkan 14. Um er að ræða hliðarherbergi á stigapalli, sem ætlunin er að nýta undir skrifstofu SHA.

Allir eru velkomnir og vonandi leggja sem flestir hönd á plóg.

Heitt á könnunni.

Aðgerðir gegn Íraksstríðinu 18. mars

By Uncategorized

End the War Eins og kom fram í fréttum hér á síðunni 10. janúar (sjá hér neðar á síðunni) er stefnt að mótmælaaðgerðum gegn Íraksstríðinu dagana 18.-20. mars. Sagt var frá því að samtökin Stop the War Coalition í Bretlandi og ANSWER (Act Now to Stop War & End Racism) í Bandaríkjunum séu farin að undirbúa aðgerðir. Nú hafa samtökin United for Peace and Justice (UFPJ) einnig boðað aðgerðir í Bandaríkjunum undir kjörorðunum „Þremur árum of lengi“ (Three Years Too Many) og og „Stöðvið stríðið – kallið hersveitirnar heim strax“. UFPJ eru stærstu regnhlífarsamtök friðarhreyfinga í Bandaríkjunum, stofnuð í 25. október 2002. Samtökin hafa deildir eða aðildarfélög um gjörvöll Bandaríkin og hugmyndin er að það verði aðgerðir hvarvetna í Bandaríkjunum vikuna 15. til 22. mars.

Væntanlega verða aðgerðir víða um heim helgina 18.-19. mars. Miðnefnd SHA ákvað á fundi sínum 11. janúar að stefna að aðgerðum í Reykjavík laugardaginn 18. mars. Nánar verður sagt frá undirbúningi og undirbúningsfundir auglýstir hér á síðunni þegar þar að kemur.

Innrásin er ýmist sögð hafa hafist 19. eða 20. mars 2003. Í Evrópu er miðað við 20. mars, í Ameríku 19. mars. Ástæðan er sú að innrásin hófst aðfaranótt 20. mars, um það bil kl. hálf sex að staðartíma í Írak. Í Ameríku var ekki enn komið miðnætti og því var ennþá 19. mars þar.

Öryggi og varnir Íslands

By Uncategorized

rumsfield Lögð hefur verið fram á Alþingi tillaga til ályktunar um opinbera nefnd um öryggi og varnir Íslands. Flutningsmenn eru fjórir þingmenn Samfylkingarinnar. Samtökum herstöðvaandstæðinga barst beiðni um umsögn um ályktunina og fylgir hún hér að neðan. Tillöguna og umræður um hana má finna á vef Alþingis.

Reykjavík
9.janúar 2006

Umsögn um þingsályktunartillögu um öryggi og varnir Íslands, 40. mál á 132 löggjafarþingi

Samtök herstöðvaandstæðinga fagna því að fram sé komin tillaga um að gera opna og lýðræðislega úttekt á stöðu öryggis- og varnarmála á Íslandi. Samtökin hafa um árabil bent á nauðsyn þess að þingheimur bregðist við þeirri staðreynd að stríðsátökum í Kóreu sé lokið, en það var yfirlýst forsenda hins svokallaða varnarsamnings frá 1951. Mikilvægt er að Alþingi eigi frumkvæði að því að brugðist sé við nýrri skipan alþjóðamála, fremur en að sú vinna eigi sér stað innan lokaðra stofnana og af hálfu embættismanna sem ekki hafa lýðræðislegt umboð til stefnumótunar í þessum mikilvæga málaflokki.

Að sjálfsögðu er mikilvægt að tekið sé mið af reynslu nágrannaþjóða og er vel til fundið að nefna Írland í því samhengi, þar sem Írar hafa kosið að starfa utan hernaðarbandalaga án þess að meiri ógn steðji að landinu af þeim sökum en t.d. Íslandi. Hlutleysisstefna Íra hefur gert þeim kleift að móta utanríkisstefnu sem tekur meira mið af almannavilja en afstaða ríkja sem eru innan NATO og eru rígbundin af samþykktum þess. Til að mynda hefur Írland greitt atkvæði með tillögu um útrýmingu kjarnorkuvopna á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna en Íslendingar hafa verið í þeim fámenna hópi ríkja sem greitt hafa atkvæði gegn slíkri tillögu eða setið hjá.

Engar vísbendingar eru um að sú afstaða sé í samræmi við vilja íslensku þjóðarinnar, hér hefur aðild Íslands að NATO einfaldlega í för með sér að utanríkisstefna Íslands mótast af öðrum hagsmunum en meirihlutavilja fámennrar þjóðar í viðkvæmu vistkerfi á Norður-Atlantshafi. Í því sambandi má vísa til undirtekta sveitarstjórna víða um land við áskorun Samtaka herstöðvaandstæðinga fyrir nokkrum misserum um að þau friðlýstu sig fyrir kjarnorkuvopnum, en meira en 90% landsmanna búa nú í friðlýstum sveitarfélögum.

Enda þótt samþykkt tillögunnar vísi til framfara er ekki þar með sagt að Samtök herstöðvaandstæðinga geti tekið undir allt sem fram kemur í greinargerð þeirri sem tillögunni fylgir. Þar ber ennþá á tregðu við að taka stöðu og hlutverk NATO á nýjum tímum til róttæks endurmats. Ljóst er að loftárásir á Júgóslavíu vorið 1999 hafa vakið upp spurningar um eðli bandalagsins og tilvist þess. Starf NATO sem undirverktaka Bandaríkjahers í Afganistan gerir þetta bandalag sömuleiðis að ótrúverðugum aðila til annarra verka en að framkvæma þá pólitík sem ákveðin er hverju sinni í Washington. Brýnt er að þingheimur geri sér grein fyrir eðli og tilgangi NATO ef ætlunin er að taka utanríkisstefnu Íslands til gagnrýninnar og löngu tímabærrar endurskoðunar.