All Posts By

Stefán Pálsson

Kjarnorkuárás á Íran í smíðum?

By Uncategorized

No Iran War Margir óttast að árás á Íran sé yfirvofandi og óneitanlega minnir síharðandi orðalag bandarískra ráðmanna á aðdraganda innrásarinnar í Írak fyrir þremur árum. Í grein á vefnum Gagnauga.is eru leidd rök að því að Bandaríkjastjórn sé að undirbúa árás á Íran og útiloki jafnvel ekki notkun svokallaðra „minni kjarnorkuvopna“. Greinina er hægt að nálgast hér.

Fjölmiðlar og Íraksstríð

By Uncategorized

Þáttur fjölmiðla í stríðsrekstrinum í Írak hefur reynst kveikja mikilla umræðna síðustu misseri. Fimmtudagskvöldið 16. mars efna SHA til fundar um þennan þátt Íraksmálsins. Fréttamennirnir Sveinn Guðmarsson á NFS og Gunnar Gunnarsson á RÚV rekja reynslu sína af fréttaflutningi í umhverfi fréttastýringar og ritskoðunar. Að loknum stuttum kynningarerindum gefst gott færi til umræðna.

Fundurinn hefst kl. 20 og allir eru velkomnir.

Fögnum brotthvarfi orrustuþotanna

By Uncategorized

F 4 orrustuþota Það er fagnaðarefni að ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur nú ákveðið að orrustuþoturnar fjórar, sem íslenska ríkisstjórnirn hefur verið að suða um að fá að hafa áfram, verði sendar burt af landinu í september næstkomandi. Nú væri bara óskandi að ríkisstjórnin hefði döngun í sér til að segja upp herstöðvasamningnum og segja síðan skilið við NATO. Það er nefnilega ljóst að Bandaríkjastjórn hefur ekki hug á að leggja niður herstöðina á Miðnesheiði, hún vill hafa þar aðstöðu áftram, þótt hún verði mannlaus eða með lágmarksmannafla, til þess að geta gripið til hennar ef þörf sýnist á.

Samtök herstöðvaandstæðinga hafa löngum bent á nauðsyn þess að atvinnumál verði efld á Suðurnesjum til að byggðin þar verði undir það búin að starfsemi herstöðvarinnar dragist saman eða leggist niður. Raunar bíður allmikil vinna við að hreinsa upp eftir herinn. Það starf þarf að hefjast sem fyrst og að sjálfsögðu eiga Bandaríkin að bera kostnað af því.

Því miður verða orrustuþoturnar ekki sendar til niðurrifs, heldur til vafasamrar þjónustu annars staðar í heiminum. Með samdrætti í herstöðinni hér er verið að losa mannafla og tæki til notkunar á þeim stöðum þar sem Bandaríkin halda nú uppi hernaði eða ógnarástandi. Baráttu herstöðvaandstæðinga og friðarsinna er ekki lokið hvorki heima fyrir né á alþjóðavísu. Með mótmælaaðgerðunum nk. laugardag, 18. mars, mótmælum við meðal annars þeim verkum sem herliðið og tækin af Keflavíkurflugvelli verða nú sett til.

ritstjóri

Divided States of America – Grandrokk 16. mars

By Uncategorized

Laibach Í tilefni af hljómleikum hinna ódauðlegu LAIBACH á Nasa 22. mars, verður sýnd glæný heimildamynd um hljómsveitina á Grand Rokk á fimmtudagskvöldið kemur, 16. mars.

DIVIDED STATES OF AMERICA

Myndin heitir ,,Divided States of America” – Hin sundruðu ríki Ameríku – og fylgir Laibach á ferð um 15 borgir í Bandaríkjunum fyrir tveimur arum. Stór hluti myndarinnar fer raunar í að sundurgreina bandarískt samfélag, hugsunarhátt, hernaðarhyggju, atburðina 11. september o. fl. Þar er fjöldi viðtala við bandaríska aðdáendur hljómsveitarinnarsem eyða drjúgum hluta myndarinnar í að skilgreina sitt eigið samfélag, kosti þess og galla.Í myndinn kemur skýrt fram að Laibach telja sig greina í Bandaríkjunum dagsins í dagsterkar tilhneigingar til alræðis.

Hljómsveitin og leikstjórinn sjá mörg teikn um daður við lögregluríki í okkar vestræna fyrirmyndarþjóðfélagi. Í myndinni eru harkalegar yfirlýsingar Laibach um Rómarveldi nútímans – hina gjörsamlega ábyrgðarlausu untanríkisstefnu Bandaríkjanna í dag og nýju íhaldsmannanna þar, sem virðast á góðri leið með að leggja heiminn undir sig án þess að nokkur þjóðríki eða alþjóðastofnanir fái rönd við reist.Laibach þekkja tilhneigingar stjórnvalda til ofríkis og daður við lögreglueftirlit vegna þess að hljómsveitin hefur verið bönnuð oftar en nokkur önnur.

Ljóðskáldið Peter Mlakar, sem gjarnan fylgir Laibach á hljómleikum, heldur þrumandi ræðu í myndinni, þar sem hann segir m. a. :

,,Því hærra sem turnarnir rísa, því lægra sekkur siðferðið.”[,,The higher the towers, the lower the morals ..” – Peter Mlakar, 2004]

upplýsingar: http://traffik.is/laibach

Norðurlandsdeild SHA fundar

By Uncategorized

AkureyriNorðurlandsdeild Samtaka herstöðvaandstæðinga (SHA) ætlar að hittast á Kaffi Amor við Ráðhústorg á Akureyri laugardaginn 18. mars, kl. 16.30. Þess verður minnst að um þessa helgi (19. mars) eru 3 ár liðin síðan innrásarstríðið í Írak hófst enda verða á laugardag alþjóðlegar aðgerðir gegn innrásar- og hernámsöflunum.

Fundurinn á Kaffi Amor er þó ekki opinn öllum, heldur innri fundur í Norðurlandsdeilder SHA. Allir sem vilja vera félagar í SHA eru hvattir til að mæta. Kosin verður ný stjórn deildarinnar og rætt um verkefni og baráttumál.

Stjórn Norðurlandsdeildar SHA

Íraksdagar í Friðarhúsi – þriðjudagur & miðvikudagur

By Uncategorized

Þriðjudagskvöldið 14. mars mun Dagur Þorleifsson fjalla um þá ólíku trúarhópa og þjóðflokka sem byggja Írak og reyna varpa ljósi á orsakir deilna milli einstakra hópa.

Miðvikudagskvöldið 15. mars verður sýnd heimildarmynd sem nefnist Uncovered – The War on Iraq og varpar ljósi á margt gruggugt í aðdraganda Íraksstríðsins.

Báða daga hefst dagskráin kl. 20. Allir velkomnir.
Sjá nánar hér.

INNRÁSIN Í ÍRAK – EKKI Í OKKAR NAFNI!

By Uncategorized

Not in my name Háskólabíó – laugardaginn 18. mars kl 13:00-14:45
FRUMSÝNING HEIMILDARMYNDAR & UMRÆÐUR

Þjóðarhreyfingin – með lýðræði boðar til almenns borgarafundar laugardaginn 18. mars kl. 13 í Háskólabíói (Salur 1). Þann dag verða 3 ár liðin frá því þáverandi forsætisráðherra sendi forseta Bandaríkjanna stuðningsyfirlýsingu vegna innrásinnar í Írak og nafn Íslands fór á lista hinna „viljugu & staðföstu“ þjóða.

Á fundinum verða sýndar tvær heimildarmyndir um innrásina í Írak eftir Sigurð Guðmundsson myndlistarmann og Ara Alexander Magnússon kvikmyndargerðarmann.

Dagskrá

13:00 Hans Kristján Árnsson viðskiptafræðingur setur fundinn
• Örstutt ávörp
Ólafur Hannibalsson rithöfundur – Andri Snær Magnason rithöfundur – Ari Alexander Magnússon kvikmyndagerðarmaður
• Kvikmynd 1: ÉG ER ARABI (37 mín.)
• Kvikmynd 2: 1001 NÓTT (6 mín.)
• Pallborðsumræður – Fundarstjóri séra Örn Bárður Jónsson
Halla Gunnarsdóttir Hallgrímur HelgasonKristrún Heimisdóttir Jón Baldvin Hannibalsson Steingrímur Hermannsson Þórunn Jónsdóttir

14:45 Fundi slitið

ALLIR VELKOMNIR ! LÁTTU ÞAÐ GANGA !

Þjóðarhreyfingin – með lýðræði
www.thjodarhreyfingin.is

Athugið!
Kl. 15, eftir fundinn í Háskólabíói, hefst útifundur á Ingólfstorgi

Fjölmennum á báða fundina!
Samtök herstöðvaandstæðinga

Íraksdagar í Friðarhúsi – mánudagur & þriðjudagur

By Uncategorized

Mánudagskvöldið 13. mars verður sýnd heimildarmynd sem nefnist Private Warriors og fjallar um hinn einkavædda stríðsrekstur Bandaríkjamanna í Írak.

Þriðjudagskvöldið 14. mars mun Dagur Þorleifsson fjalla um þá ólíku trúarhópa og þjóðflokka sem byggja Írak og reyna varpa ljósi á orsakir deilna milli einstakra hópa.

Báða daga hefst dagskráin kl. 20. Allir velkomnir.
Sjá nánar hér.

Dr. Michael Rubin, gestur Háskóla íslands, ákærður fyrir undirbúning árásarstríðs

By Uncategorized

Nú í kvöld, 12. mars, var lögð fram ákæra á hendur dr. Michael Rubin frá Bandaríkjunum, en til stendur að hann haldi fyrirlestur á vegum Háskóla Íslands í Odda kl. 12:15 mánudaginn 13. mars. Dr. Rubin er kærður fyrir að undirbúa ólöglegt og saknæmt árásarstríð á hendur Írak árið 2003. Kærandi er Elías Davíðsson ásamt fleirum.

Reykjavík
12. mars 2006

Til Lögreglustjórans í Reykjavík
Frá undirrituðum

Ákæra
Við undirrituð/aðir leggjum hér með fram ákæru á hendur dr. Michael Rubin, bandarískum ríkisborgara, sem dvelur um þessar mundir hér á landi, vegna rökstudds gruns um aðild hans að samsæri um að undirbúa ólöglegt og saknæmt árásarstríð gegn Írak árið 2003. Við ætlumst til þess að hinn ákærði verði handtekinn og yfirheyrður um meinta aðild hans að þessu saknæma athæfi. Komi í ljós að hann hafi tekið þátt í þeim verknaði að undirbúa árásarstríð gegn Írak, förum við fram á, að hann verði lögsóttur hér á landi á grundvelli meginreglna alþjóðaréttar um saknæmi árásarstríðs.

Meintur verknaður hins ákærða í undirbúningi árásarstríðs

Árið 2002 stofnaði Paul Wolfowitz, aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sérstaka deild, Office for Special Plans (héreftir nefnd OSP), í varnarráðuneytinu í Washington. Hefðbundin leyniþjónusta Bandaríkjanna, CIA, hafði þá ekki treyst sér til að sanna tilvist gereyðingarvopna í Írak. Pólítiskt markmið Paul Wolfowitz og yfirmanns hans, Donalds Rumsfeld, hafi lengi verið að undirbúa árásarstríð gegn Írak og skipta þar um stjórnvöld. Til þess að sniðganga CIA gripu þeir til þess ráðs að stofna eigin upplýsingaþjónustu, Office for Special Plans, sem yrði mönnuð skoðanabræðrum þeirra og sem tækju þátt í matreiðslu sönnunargagna um gereyðingarvopn Íraka. [1]

Meðal meintra verkefna deildarinnar var auk þess að undirbúa stoðir alþjóða bandalags „hinna viljugu og staðföstu“, samræma skipanir um herflutninga, semja reglur um meðferð stríðsfanga og gera áætlanir um skipan írasks olíuiðnaðar að stríðinu loknu. [2]

Deildin (OSP) var fámenn. Í henni störfuðu upphaflega 4 menn en þeim var síðar fjölgað í 10-16 fasta starfsmenn auk margra lausráðinna „ráðgjafa“.

Hinn ákærði, Michael Rubin, vann í OSP, skv. eigin ferilsskrá, árin 2002-2004, þ.e. meðan verið var að undirbúa árásarstríð gegn Írak [3][4]. Hann var því starfsmaður þeirrar deildar sem hafði það markmið að undirbúa árásarstríð gegn Írak.

Það er því prima facie ástæða til að ætla að hinn ákærði hafi tekið þátt í undirbúningi árásarstríðs, en undirbúningur árásarstríðs telst saknæmur verknaður samkvæmt þjóðarétti.

Kröfur ákærenda
Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands hefur auglýst að á vegum hennar hyggist hinn ákærði halda fyrirlestur í húsakynnum HÍ, Odda, stofu 101, mánudag 13. mars 2006, kl. 12:15.

Þar sem hinn ákærði hefur að öllum líkindum tekið þátt í saknæmum verknaði með meintri aðild að undirbúningi árásarstríðs, förum við undirrituð/aðir þess á leit að hinn ákærði verði handtekinn og yfirheyrður um meinta aðild hans að undirbúningi árásarstríðs gegn Írak. Verði sannað að hinn ákærði hafi tekið þátt í slíkum undirbúningi, förum við undirritaðir auk þess fram á að réttað verði yfir hinum ákærða í ljósi meginreglna alþjóðaréttar um saknæmi árásarstríðs.

Lagalegar heimildir
Ein meginregla þjóðaréttar er bann við árásarstríði. Slíkt bann var þegar við lýði fyrir upphaf annarrar heimsstyrjaldar. Árásarstríð var þegar talið saknæmt í byrjun 20. aldar.

Við réttarhöldin í Nürnberg árið 1945 voru nokkrir leiðtogar nasista dæmdir til dauða vegna aðildar að glæpum gegn friði (árásarstríði).

Samkvæmt grein 6(a) Nürnbergsáttmálans telst „glæpur gegn friði“ það að „gera áætlanir, undirbúa, hefja eða heyja árásarstríð eða stríð sem brýtur í bága við alþjóðlega samninga, sáttmála eða samkomulaga, eða aðild að sameiginlegri áætlun eða samsæri um að framkvæma eitthvað af því sem fyrr greinir“.

Meginreglur þjóðaréttar sem sáttmáli Nürnbergdómstólsins byggði á, voru staðfestar með einróma ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna nr. 95(1) frá 11. desember 1946. Frá þeim tíma hefur verið litið á þessar meginreglur sem hluta alþjóðlegs venjuréttar (international customary law) um ábyrgð einstaklinga sem taka þátt í glæpum gegn friði, glæpum gegn mannkyninu [og þjóðarmorði] og stríðsglæpum.

Í meginreglu 1 segir: „Sérhver einstaklingur sem fremur athöfn sem felur í sér glæp samkvæmt þjóðarétti ber refsiábyrgð á gerðum sínum“.

Í meginreglu 2 segir: „Þótt einhver athöfn teljist ekki refsiverð samkvæmt landslögum, ber einstaklingur refsiábyrgð vegna athafnarinnar, ef hún telst glæpur samkvæmt þjóðarétti“.

Í meginreglu 3 segir: „Sú staðreynd að einstaklingur sem sekur er um alþjóðlegan glæp hafi verið þjóðarleiðtogi eða opinber embættismaður ríkisins þegar hann framdi glæpinn, dregur ekki úr ábyrgð hans samkvæmt þjóðarétti“.

Í meginreglu 4 segir: „Sú staðreynd að einstaklingur hafi framið alþjóðlegan glæp samkvæmt skipun að ofan, dregur ekki úr ábyrgð hans samkvæmt þjóðarétti ef hann átti siðferðislegan valkost [að óhlýðnast]“.

Í meginreglu 7 segir: „Samsekt (complicity) við framkvæmd alþjóða glæps sbr. meginreglu 6 telst einnig alþjóðlegur glæpur“.

Árásarstríð („aggression“) er skilgreint sem glæpur („crime“) í sáttmála Alþjóða sakadómstólsins (International Criminal Court). Ísland er aðili að þessum dómstól. Skilgreining á „árásarstríði“ finnst í viðhengi við ályktun 3314 (XXIX) Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna frá 14. desember 1974, en Ísland studdi þessa ályktun.

Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eru skuldbundin að virða sáttmála Sameinuðu þjóðanna en samkvæmt honum er ríkjum óheimilt að beita valdi gegn öðrum ríkjum nema í brýnni sjálfsvörn (51. grein sáttmálans) eða samkvæmt skýrri heimild Öryggisráðsins (42. grein sáttmálans).

Þess ber að geta að flestir alþjóðaglæpir eru unnir við stríðsátök. Þeir sem hefja árásarstríð gera öðrum því kleift að fremja stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu. Þess vegna hefur árásarstríð verið lýst sem æðsta alþjóðaglæp, að þjóðarmorði undanskildu.

Réttur íslenskra lögregluyfirvalda til að handtaka og lögsækja menn vegna árásarstríðs
1. Ísland hefur stutt ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um gildi meginreglna Nürnbergsáttmálans sem að ofan getur, m.a. um saknæmi árásarstríðs.
2. Ísland hefur stutt ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sem skilgreinir árásarstríð og getið er hér að ofan.
3. Ísland er aðili að sáttmála alþjóða sakadómstólsins, ICC, en í þessum sáttmála er árásarstríði lýst sem alþjóðlegum glæp.
4. Ísland er aðili að sáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem leggur þær skyldur á herðar ríkjum að vinna með friðsamlegum hætti að lausn alþjóðamála og bannar árásarstríð.

Eðli alþjóðlegra glæpa er að í þeim felst tilræði við allar þjóðir, þ.e. við friðsamlega alþjóðaskipan. Af þeim sökum teljast alþjóðaglæpir dómtækir hvar sem til sakborninga næst. Það fellur því í hlut hvers ríkis að tryggja að slíkir glæpir verði ekki framdir og að þeir sem stunda slíka glæpi verði lögsóttir þar sem til þeirra næst. Ríki heims hafa því alþjóðlega lögsögu (universal jurisdiction) yfir slíkum brotamönnum, sem er liður í alþjóðlegu samstarfi. Ekkert í íslenskum lögum kemur í veg fyrir lögsókn á grundvelli alþjóðlegrar lögsögu. Almenn hegningarlög leggja jafnframt bann við því að hvetja til refsiverðra verka, þ.m.t. til árásarstríðs.

Samkvæmt meginreglum Princeton átaksins um alþjóðlega lögsögu [5], gildir alþjóðleg lögsaga (universal jurisdiction) yfir þeim einstaklingum sem taka þátt í helstu alþjóðaglæpum, þ.m.t. í glæpum gegn friði (árásarstríði). Samkvæmt meginreglu nr. 3 mega dómsyfirvöld einstakra ríkja grundvalla lögreglu- og dómsaðgerðir sínar gagnvart aðilum að árásarstríði á alþjóða lögsögu, þótt engin sérstök innlend löggjöf hafi gert ráð fyrir því. Íslensk dómsyfirvöld hafa því rétt til að handtaka, yfirheyra, rannsaka og lögsækja einstaklinga á grundvelli alþjóðlegrar lögsögu þegar um aðild að árásarstríði er að ræða. Eftirfarandi lagastofnanir standa að átaki Princeton háskólans um alþjóðlega lögsögu: Program in Law and Public Affairs og Woodrow Wilson School of Public and International Affairs, Princeton University; International Commission of Jurists; American Association for the International Commission of Jurists; Netherlands Institute of Human Rights; Urban Morgan Institute for Human Rights. Yfirmaður átaksins um hnattræna lögsögu, próf. Cherif Bassiouni, er einn virtustu sérfræðinga í alþjóða sakarétti, og fyrrverandi yfirmaður undirbúningsnefndar fyrir alþjóða sakadómstólinn.

Heimildir
[1] Um stofnun og hlutverk Office for Special Plans
The Guardian 17 July 2003
The Telegraph 11 July 2004
Inter Press Services, 7 August 2003
The American Conservative, 1 December 2003
The New Yorker, 12 May 2003

Nánar um leynilegt eðli deildarinnar og hlutdeild hennar í undirbúningi stríðsins er að finna í ítarlegri rannsókn um OSP sem birt er á http://www.cooperativeresearch.org/timeline.jsp?

[2] Sjá: Kenneth Timmerman, Insight on the News, 8 December 2003

[3] International Relations Center, Right Web

[4] Michael Rubin, Web of Conspiracies, 18 May 2004 „(…) I worked in the Office of Special Plans (OSP), charged with some aspects of the Iraq portfolio. My job was that of any desk officer: Writing talking points for my superiors, analyzing reports, burying myself in details, and drafting replies to frequent letters from Congressmen John Dingell and Dennis Kucinich. I was a participant or a fly-on-the-wall at many postwar planning meetings and accompanying video teleconferences.”

[5] [sjá http://www.law.uc.edu/morgan/newsdir/univjuris.html]

Undirrituð/aðir: