Samtök herstöðvaandstæðinga standa fyrir fjölbreyttri dagskrá alla þessa viku í tilefni að því að senn eru þrjú ár liðin frá því að stríðið í Írak hófst með stuðningi íslenskra stjórnvalda.
Mánudagskvöldið 13. mars verður sýnd heimildarmynd úr röð Frontline-þáttanna, sem gerðir eru af PBS-sjónvarpsstöðinni. Myndin nefnist Private Warriors og fjallar um hinn einkavædda stríðsrekstur Bandaríkjamanna í Írak. Þar starfa nú tugþúsundir hermanna í þjónustu einkafyrirtækja eða “öryggisverktakar” eins og þeir eru nefndir í íslenskum fréttum.
Hvaða áhrif hefur tilvist slíkra einkaherja á bandaríska utanríkispólitík og hver er staða þeirra gagnvart alþjóðalögum? Í myndinni er skyggnst inn í herbúðir Bandaríkjamanna í Írak og rakin saga nokkurra einkahermanna. Myndin er tæplega klukkustundarlöng og á ensku.
Sýningin hefst kl. 20. Allir velkomnir.
* * *
Þriðjudagskvöldið 14. mars verður hugað að sögu Íraks og bakgrunni þeirrar borgarastyrjaldar sem nú geysar þar í landi.
Sagnfræðingurinn Dagur Þorleifsson hefur um árabil fylgst grannt með þróun mála við Persaflóa og hefur kennt um sögu svæðisins við Háskóla Íslands. Hann mun fjalla um þá ólíku trúarhópa og þjóðflokka sem byggja Írak og reyna varpa ljósi á orsakir deilna milli einstakra hópa. Að loknu stuttu erindi, gefst færi á fyrirspurnum og umræðum.
Fundurinn hefst kl. 20. Allir velkomnir.