All Posts By

Stefán Pálsson

Þörf á ítarlegri rannsókn á mengun á herstöðvasvæðunum

By Uncategorized

Í Blaðinu hefur undanfarna daga verið fjallað um mengun af völdum hersins á Suðurnesjum. Margir hafa haft áhyggjur af því hvernig viðskilnaðurinn verður hvað þetta varðar en ekkert er gefið upp um hvað rætt er á samningafundum sem haldnir hafa verið vegna brottfarar hersins.

Í febrúar árið 2000 lögðu Steingrímur J. Sigfússon og Sigríður Jóhannesdóttir fram eftirfarandi þingsályktunartillögu á Alþingi:

    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gangast fyrir rannsókn á umfangi mengunar í jarðvegi og grunnvatni frá „varnarsvæðinu“ við Keflavíkurflugvöll.

Í umræðum um tillöguna 16. mars árið 2000 gerði þáverandi utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, lítið úr vandanum og sagði að sú mengun sem um væri að ræða væri þekkt. Jafnframt gerði hann lítið úr ábyrgð Bandaríkjamanna, taldi þá hafa hegðað sér í samræmi við þær reglur sem hefðu verið á hverjum tíma og ekki bótaskyldir þegar svo væri. „Mér er sönn ánægja,“ sagði hann, „að upplýsa að utanríkisráðuneytið hefur vakandi auga yfir mengunarmálum vegna starfsemi varnarliðsins og það er fylgst náið með hugsanlegri mengunarhættu. Ég tel hins vegar að engin efni séu til þess að á þessu stigi fari fram umfangsmiklar rannsóknir á stöðu mála og ég tel að þessi málefni séu í allgóðu lagi á því svæði sem hér hefur verið til umræðu.“

Að lokinni fyrri umræðu var tillögunni vísað til utanríkismálanefndar og hefur verið skv. vef Alþingis til umræðu þar síðan 4. maí 2000.

Tillaga sama efnis var áður flutt af Sigríði Jóhannesdóttur á Alþingi árið 1992 og endurflutt 1997 en var ekki afgreidd.

Enn var tillaga sama efnis lögð fram á Alþingi 12. febrúar 2004 af Steingrími J. Sigfússyni. Sú tillaga var svohljóðandi:

    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta fara fram rannsókn á umhverfisáhrifum af völdum erlendrar hersetu og hernaðarumsvifa á Íslandi og hættum sem eru núverandi hernaðarumsvifum samfara. Einnig verði gerð úttekt á lagalegum álitaefnum þessu tengdum.

    Rannsókn beinist sérstaklega að eftirfarandi þáttum:

    1. grunnvatnsmengun,
    2. jarðvegsmengun,
    3. frágangi spilliefna og sorphauga,
    4. umhverfishættu sem stafar af núverandi hernaðarumsvifum,
    5. réttarfarslegum hliðum málsins varðandi skaðabótaskyldu erlendra og/eða íslenskra stjórnvalda gagnvart landeigendum í þeim tilfellum sem mengun hefur orðið og skyldu þeirra til að hreinsa menguð svæði.

    Jafnframt verði reynt að áætla kostnað við hreinsun þeirra svæða sem mengast hafa.

Þessi tillaga hefur ekki enn verið tekin til umræðu.

Af umfjöllun Blaðsins um þessi mál má ráða að betur hefði verið farið að tillögum þeirra Sigríðar og Steingríms.

Utanríkisráðherra sagði í umræðunum árið 2000: „Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefur sinnt eftirliti með umhverfismálum á varnarsvæðum frá 1989 og greiðir varnarliðið fyrir þann kostnað sem af því hlýst. Heilbrigðiseftirlitið hefur starfsmann sem sinnir þessum verkefnum sérstaklega og starfar náið með umhverfisdeild varnarliðsins. Umhverfisdeild varnarliðsins hefur með höndum innra eftirlit á varnarsvæðunum og starfa þar á annan tug manna í dag. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefur eftirlit með umhverfisdeildinni og að hún starfi í samræmi við íslenskar reglur.“

Í umfjöllun Blaðins 25. ágúst segir svo:

    Magnús Guðjónsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, hefur áhyggjur af olíu- og PCB-mengun á svæði varnarliðsins á Suðurnesjum.

    „Við vitum um nokkur svæði þarna með PCB-mengun í og það getur verið að við vitum ekki um þau öll. Við höfum upplýsingar um stór svæði sem notuð voru til urðunar og þar er ýmislegt grafið sem við vitum ekkert um,“ segir Magnús.

Jafnframt hefur Blaðið eftir Cornelis Aart Meyles, sérfræðingi Umhverfisstofnunar í jarðvegsmengun:

    „Bandaríski herinn hefur gengið mjög illa um á þeim stöðum þar sem hann hefur athafnað sig hér á landi. Ég er undrandi á athafnaleysi stjórnvalda, þeim er leyft að pakka bara saman og fara. Áður en þeir fara eigum við að grípa til stórtækra rannsókna á þessu svæði. Það er mjög erfitt að fá þá til að sýna ábyrgð eftir að þeir eru farnir,” segir Cornelis.

Það er auðvitað ekki seinna vænna. Fyrir tveimur árum, sex árum, níu árum og fjórtán árum voru lagðar fram tillögur á Alþingi um að gerð yrði rannsókn á umhverfismálum á herstöðvasvæðinu. 1992 var tillaga tekin til fyrri umræðu en enginn stjórnarþingmaður tók til máls. 1997 kom hún ekki til umræðu né heldur 2004. Það var bara árið 2000 sem einhverjar umræðu urðu um, en utanríkisráðherra gerði lítið úr málinu og taldi engin efni til að gera nokkrar rannsóknir.

Hvers vegna?

By Uncategorized

bear-d Í þessari grein, sem birtist í Morgunblaðinu 4. júní 2006, hrekur Vigfús Geirdal staðhæfingar ritstjóra Morgunblaðsins um að Íslendingum hafi stafað ógn af sovéskum flugvélum, kafbátum og njósnaduflum á dögum kalda stríðsins

„HVERS vegna voru risastórar sovézkar sprengiflugvélar stöðugt á ferð í kringum Ísland, nánast í hverri viku? Hvers vegna voru sovézkir kafbátar allt í kringum landið? Hvers vegna fundust sovézk njósnadufl hér og þar í fjörum á Íslandi?“

Þessum þremur spurningum er varpað fram í athyglisverðum leiðara Morgunblaðsins þriðjudaginn 22. maí sl. Svarið liggur í augum uppi að mati leiðarahöfundar. Spurningunum er í raun ætlað að birta í hnotskurn ógnina sem Íslendingum stafaði á sínum tíma af Sovétríkjunum. Öllum á að vera ljóst að vegna þessarar ógnar var nauðsynlegt að hafa hér bandarískt varnarlið í hartnær hálfa öld. Og vegna hennar var það réttlætanlegt að hlera síma þeirra „sem vildu að Ísland yrði skilið eftir varnarlaust í þeim hörðu átökum“ sem áttu sér stað á tímum kalda stríðsins.

Það eru auðvitað staðreyndir að sovéskar herflugvélar áttu árum saman reglulega leið hjá, eða jafnvel um íslenska lofthelgi. Sovéskir kafbátar fóru um sundin milli Grænlands og Íslands og Skotlands til að komast út á Atlantshaf. Og það er alkunna að þessir kafbátar drógu oft langa kapla með hlustunarduflum til að reyna að hlera ferðir bandarískra kafbáta.

En stundum er hægt að setja staðreyndir fram með þeim hætti að úr verður afskræming á sannleikanum. Og það gerir leiðarahöfundur Morgunblaðsins hér, hvort sem hann gerir það af vanþekkingu eða vitandi vits. Þegar grannt er skoðað er engin þessara umræddu staðreynda vísbending um ógnun sem sérstaklega er beint að Íslandi.

Herflugvélarnar sem um ræðir voru vissulega þess konar vélar sem kallaðar voru á Vesturlöndum „Björninn“, þ.e. í grunninn sams konar vélar og langdrægar sprengiflugvélar Sovétmanna. Langflestar vélarnar, sem orustuþotur varnarliðsins í Keflavík flugu í veg fyrir, voru hins vegar svokallaðar “Björninn D”, könnunar- og kafbátaleitarvélar, á leið til eða frá Kúbu og reyndar afar berskjölduð skotmörk. Þetta voru með öðrum orðum ekki sprengiflugvélar sem beint var að Íslandi.

Kafbátar þeir sem einkum áttu leið hjá Íslandi voru svokallaðir árásarkafbátar, þ.e. kafbátar sem ætlað var svipað hlutverk og þýskum kafbátum í síðari heimsstyrjöld. Þetta voru skip hönnuð til átaka við bandaríska kafbáta, flugmóðurskipaflota og flutningaskipalestir á stríðstímum. Þessir kafbátar voru sannarlega hluti af þeirri ógn sem mannkyninu stafaði af átökum risaveldanna í kalda stríðinu en þessir bátar báru engan þann vígbúnað sem stefnt var sérstaklega að Íslandi. Síst af öllu eru kafbátar til þess fallnir að flytja landgöngulið til að gera innrás í landið (ef það er það sem leiðarahöfundur Mbl. ætlar lesendum sínum að trúa).

Njósnaduflin sem fundust „hér og þar í fjörum á Íslandi“ (fundust ekki jafnvel einhver við Kleifarvatn?) voru jafnvel enn minni „ógn“ við íslenskt þjóðaröryggi en þeir Ragnar Arnalds og Kjartan Ólafsson eftir að þau hafði rekið á fjörur hér við land.

Þessi dufl höfðu eingöngu það hlutverk að hlera ferðir kafbáta og það má jafnvel draga í efa gagnsemi þeirra á því sviði, ef haft er í huga að bandarískir kafbátaforingjar hældu sér iðulega af því að hafa siglt bátum sínum undir sovéskum kafbátum inn á hafnir á Kolaskaga án þess að þeirra yrði vart.
Það er dálítið kaldhæðnislegt að þessar sovésku „sprengiflugvélar“, kafbátar og „njósnadufl“ afhjúpa fyrst og fremst veikleika sovésku hernaðarvélarinnar í samanburði við þá bandarísku á dögum kalda stríðsins. Það hefði verið meiri ástæða til að óttast ef stjórn-, eftirlits- og njósnabúnaður Bandaríkjahers hefði ekki nær öllum stundum vitað hvar þessi stríðstól Sovétríkjanna voru hverju sinni.

Mikilvægasta staðreynd þessa máls er sú að Bandaríkjaher taldi Íslandi ekki stafa meiri ógn af Sovétríkjunum en svo að hann hafði aldrei nokkurn tíma neinn viðbúnað hér á landi til að verjast hugsanlegri innrás þeirra.
Báðum aðilum var fullkomlega ljóst að Sovétríkin höfðu aldrei hernaðarlegar forsendur til að hernema Ísland og halda landinu.

Mynd: www.fas.org/nuke/guide/russia/bomber/tu-95.htm

Friðarsinnar eða heimsvaldaandstæðingar?

By Uncategorized

peacefist eftir Þórarin Hjartarson

Vér herstöðvaandstæðingar verðum að ræða grundvöll starfs SHA í breyttu landi og breyttum heimi. Þarna er margt undir og ég hef hvorki tíma né krafta til að skoða dæmið í heild. En mig langar til að koma inn á einn hluta umræðunnar. Raunar er það hvorki lítið svið né létt. Og vísast telst ég á skjön við aðra orðræðu innan svonefndrar friðarhreyfingar.

Mér finnst eins og sjálfnefndir friðarsinnar líti oft svo á að ófriður í sé fyrst og fremst menningarástand eða menningararfleifð (sbr. orðtakið að vera „fastur í kaldastríðshugsun“). Ismi. Ófriðlegt sé nú um stundir af því hvað hernaðarsinnar séu margir. Hernaðarhyggja og ofbeldishyggja séu sjálfstæð fyrirbæri og nærist á einhverjum gömlum, lágum hvötum í mannseðlinu. Andsvarið við því sé að stunda friðaruppeldi og sálfræðilega sókn friðarsinna, t.d. ef nógu margir komi saman og segist vera á móti stríði o.s.frv. Þarna er verið að fást við hernað sem slíkan. Hernað án þess að draga inn hagsmuni stétta, efnahags- og valdablokka. Sríð er bara stríð og ekki greint á milli réttlátra og óréttlátra stríða. Þegar hernaður er skoðaður sem afleiðing af „stríðsmenningu“ verður allur herðnaður jafn illur og rökrétt að fordæma hernað Hizbollah og andspyrnuafla í Írak á sama hátt og innrásarherina. Ég held reyndar ekki að venjulegir herstöðvaandstæðingar setji jafnaðarmerki þarna á milli en það væri samt lógík hinnar hreinu friðarstefnu, passífismans. Þess vegna er spurning mín þessi: Hvort erum við friðarsinnar eða heimsvaldaandstæðingar?

Í ræðu sinni í minningu kjarnorkufórnarlamba 9. ágúst sagði Guðrún Margrét Guðmundsdóttir margt skynsamlegt um friðarbaráttu sem baráttu gegn misrétti. Samt kemst hún nálægt því að leita skýringa á ófriði í menningarástandi og hún skilgreinir styrjaldir nútímans sem afsprengi af „stríðsmenningu“ sem þurfi að mæta með „friðarmenningu.“

Birna Þórarinsdóttir lendir þó ansi miklu lengra út í móa þegar hún í „orðræðu um stríð og konur“ hjá Rannsóknarstofu í kvennafræðum fer að skilgreina „kyngervingu hernaðar og hermennsku“ (sjá vefsíðu www2.hi.is/page/RIKK-birnatorarinsd).

„Herinn er e.k. micro-cosmos karlmennskunnar. …. Í hernum eru karlmannleg gildi í hávegum höfð, þar verða drengir að mönnum og hver og einn verður að standast sína manndómsraun….“

Síðan fjallar hún um táknfræði vopna og styður sig við rannsóknir Joshua Goldstein:

„Goldstein vitnar t.d. í hermann úr Víetnam stríðinu sem sagði að sumum hafi þótt það að ganga með byssu líkt og að vera sífellt með standpínu. Það var hrein kynferðisleg upplifun í hvert sinn sem manni gafst að taka í gikkinn… Svo virðist sem það séu einhver brengluð tengsl á milli þess að þrýsta kynfærum sínum djúpt inn í líkama annars og að þrýsta morðvopninu (t.d. hníf eða byssusting) inn í líkama fórnarlambsins. Þessi samlíking typpis og vopns hefur haldist eftir því sem tækninni hefur fleygt fram frá spjótum til loftskeyta…“

Birna telur mikilvægt að auka hlutdeild kvenna í öryggismálum, stjórnmálum, alþjóðlegri friðargæslu o.s.frv. „…til þess að minnka þessa kynferðislegu vídd átaka og þá vonandi að minnka átökin sjálf.“

Fyrirgefið mér en þetta er í sannleika skilningshamlandi umræða. Ég frábið mér að taka þátt í henni. Spyrja mætti þó hvort framganga hinnar bandarísku frú Condi Rice í Líbanonstríðinu nýverið og kaldranalegt „cowgirl diplomacy“ hennar beri að skýra sem afleiðingu af of mikilli „stríðsmenningu“ í bandarísku þjóðarsálinni eða „kyngerfingu hernaðarins.“

Orsakasamhengi hernaðar nútildags er oftast fremur einfalt. Arðránskerfi nútímans er heimskapítalisminn og heimsvaldastefna hans. Stærstu arðránsblokkirnar eru þríeykið Bandaríkin, Vestur-Evrópa og Japan. Ein þeirra, Bandaríkin, hefur algera yfirburði hernaðarlega og vinnur skítverkin og sendir félögum sínum reglulega reikninga fyrir herkostnaði. Menn reyna að flækja málin með tali um „átök milli menningarheima“, „trúarbragðastríð“ og nú síðast „stríð gegn hryðjuverkum“. Ef skoðuð er á korti dreifing 570 bandarískra herstöðva utan eigin lands sést að þær liggja fast upp að ríkustu olíusvæðunum og olíuflutningaleiðum heims. Heimkapítalisminn er enn knúinn olíu.

Heimskapítalisminn sýnist ógnvænlegur en hann er samt hnignandi og hefur minna að bjóða þjóðum heimsins en áður. Svo er komið að hann getur ekki stjórnað og tryggt arðrán sitt nema með beinum íhlutunum, hernámi og stórauknu hernaðarofbeldi. Frá tíma Reagans og Thatchers og enn frekar frá því um 2000 hafa nýhægrimenn frjálshyggjunnar freistað stórsóknar á heimsvísu og nú einkum undir merkjum „stríðs gegn hryðjuverkum“. En þeim gengur ekki vel í stríðinu. Þeir skara æ meiri glóðum elds að höfði sér. En meðan heimsvaldastefnan lifir munu stríðin halda áfram

Það er ákveðin kaldhæðni í því að þetta gerist meðan verkalýðshreyfing og byltingarsinnuð hreyfing á kjarnsvæðum heimsvaldastefnunnar er í mikilli lægð. Það er helst að þeir andheimsvaldasinnar sem ekki hafa verið keyptir til að þegja komi saman og syngi sálma um frið. Ég er hlynntur slíkur sálmum og syng þá stundum sjálfur, berandi kerti, en sálmarnir duga of skammt (enda rek ég upp heróp inn á milli).

Brennipunktur baráttunnar gegn heimsvaldastefnunni er nú í Austurlöndum nær, Afghanistan, Írak, Íran, Palestínu, Líbanon. Það sjá þeir sem vilja sjá. Ofbeldi og yfirgangur elur af sér andstöðu. Það er mennskt, eðlilegt og heilbrigt, en ekki af því fólkið hafi sýkst af stríðsmenningu eða ofbeldishneigð. Það er líka auðséð að hugmyndafræði viðnámsins gegn heimsvaldastefnunni er nú ekki sósíalismi og hefðbundinn vinstrimennska sem við þekkjum heldur oftast einhverjar tegundir af íslamisma. Og íslamisminn er beinn drifkraftur í baráttunni. Ég hef trú á því að róttækur íslamismi muni þróast yfir í meiri andkapítalisma og tel að hann sé að því nú þegar. En aðalatriðið er að þetta er nú brennipunkturinn í baráttu alþýðu heimsins og hana ber að styðja á hennar eigin forsendum. Kaninn rést inn í Afghanistan. Þjóðfrelsisöflin drógu sig þá í hlé í bili en koma aftur fram með sívaxandi þunga eins og tilfellið var í innrásum Breta í landið fyrir 100 árum og innrás Sovétmanna síðar. Það sama er uppi á teningnum í Írak. Innrásaröflin mæta æ meiri andstöðu og freista þess nú að breyta því stríði í borgarastríð og skipta síðan upp landinu, deila og drottna – og hefur orðið nokkuð ágengt í bili.

Miklu ver gekk þeim að þessu leyti í Líbanon þar sem innrásin hefur sameinað þjóðina. Við óttuðumst að Ísraelsher og bandarískir bakmenn og kostunaraðilar hans gætu rétt einu sinni vaðið fram, barið fólkið ærlega til hlýðni og skipað málunum eftir sínu höfði. En þeim tókst það bara ekki, þökk sé Hizbollah. Og nú ber alþýða Arabalanda höfðuðið hærra en áður. Kostnaðurinn er mikill í eyðingu og dauða, en viðnámið borgar sig samt miðað við það að þurfa um alla framtíð að standa frammi fyrir yfirganginum, valdalaus, magnlaus, réttlaus. Sigur Hizbollah var afar mikilvægur. Staðan er breytt, bæði í Líbanon og Palestínu og öllum Arabalöndum.

Staðreyndin er líka sú að sístækkandi hluti mannkyns mun verða eyðingu stríðsins að bráð nema því fólki fjölgi sem snýr stríði yfirgangsins yfir í frelsisstríð. Slæmt gengi yfirgangsaflanna í Afghanistan, Írak og Líbanon mun tefja innrásina í Íran. Sigur Hizbollah tafði þá innrás meira en allir þeir sálmar sem sungnir hafa verið af friðasinnum í Evrópu í áratug.

Íslensk alþýða er að mestu laus við hernaðarrómantík. Það er ekki vandamál. En hún veit of lítið um heimsvaldastefnu. SHA mega ekki með neinu móti draga úr baráttu gegn heimsvaldastefnu þótt hernaðarlegt mikilvægi Íslands minnki. Sú barátta er marghliða: pólitísk barátta gegn alheimsvæðingu auðhringanna, framrás heimsvaldaafla í líki fríverslunar hjá WTO eða ESB, barátta gegn landsölumönnum stóriðjustefnunnar. Barátta gegn rasisma sömuleiðis. Og auðvitað gegn veru Íslands í stríðsliðinu. En ekki síst er mikilvægur stuðningur okkar við þá hernaðarlegu baráttu sem alþýða æ fleiri landa heyr gegn heimsvaldastefnunni. Þar er framvarðarsveitin.

Lítur enginn þetta svipuðum augum og ég?

Mynd: globalcalliraq.org

Spennandi dagskrá á Menningarnótt

By Uncategorized

reykjavikNæstkomandi laugardag verður efnt til menningarnætur í Reykjavík. Að því tilefni verður staðið fyrir margvíslegri dagskrá í Friðarhúsi.

Kl. 17 verður myndasýning, þar sem sýnd verður fágæt fréttakvikmynd frá Austurvelli 30. mars 1949 og í framhaldi af því myndin Nafnakall frá 1989, þegar hópur leikara sviðsetti atkvæðagreiðsluna við NATO-inngönguna á Alþingi.

Kl. 18 og 20:30 Sögur af mótmælavaktinni – þátttakendur í Kárahnjúkamótmælum sumarið 2006 segja frá reynslu sinni og upplifun í máli og myndum. Einstakar frásagnir og fjörlegar umræður.

Allir friðarsinnar hjartanlega velkomnir.

Þegar vopnahlé er ekki vopnahlé

By Uncategorized

libanon STOP THE WAR COALITION – NEWSLETTER No. 2006/34
15 August 2006

Ef ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1701 hefur áhrif á að manndrápunum í Líbanon og Ísrael linni, þá ber að fagna henni. Ekki er þó á það að treysta þar eð Ísrael tók þátt í ritun hennar og í henni er allt sem Ísrael þarf til að halda áfram siðlausum árásum sínum sem hafa orðið meira en 1100 manns að bana, þriðjungur þeirra börn, og eyðilagt mikið af stoðkerfi landsins. Með ályktuninni er skorað á Ísrael að binda endi á „hernaðarlegar sóknaraðgerðir“, en það var ekki að ástæðulausu sem Ísraelar kölluðu her sinn Varnarlið Ísraels. Gegnum söguna hefur Ísrael lagt áherslu á að allar hernaðaraðgerðir þeirra hafi verið „sjálfsvörn“.

Í ályktuninni er hvergi minnst á þá óteljandi stríðsglæpi sem Ísrael hefur framið á undanförnum mánuði. Þar má nefna skv. Nürnberg-sáttmálanum: „glæpi gegn friði“ vegna „tilefnislausrar eyðileggingar borga, bæja og þorpa eða eyðileggingar sem ekki verður réttlætt með hernaðarlegri nauðsyn“ og „glæpi gegn mannkyni“ vegna „morða,… og annarra ómannúðlegra verknaða sem framdir hafa verið gagnvart óbreyttum borgurum fyrir eða meðan á styrjöld stóð…“.

Ályktunina og athugasemdir við hana má nálgast hér: http://tinyurl.com/mns4m

Mynd: http://fromisrael2lebanon.info