Að venju verða friðargöngur á Þorláksmessu í Reykjavík, á Ísafirði og á Akureyri.
Í Reykjavík verður safnast saman á Hlemmi og leggur gangan af stað stundvíslega klukkan 18:00. Sjá nánar
Á Ísafirði hefst gangan einnig kl. 18. Lagt verður af stað frá Ísafjarðarkirkju. Sjá nánar
Á Akureyri hefst blysför í þágu friðar kl. 20 og verður gengið frá Samkomuhúsinu (Leikhúsinu) og út á Ráðhústorg. Sjá nánar
Áhugafólk um friðvænlegri heim stendur að hinni árlegu blysför í þágu friðar á Þorláksmessu, en gengið hefur verið frá árinu 2002. Gengið verður frá Samkomuhúsinu (Leikhúsinu) á Akureyri kl. 20.00 og út á Ráðhústorg.
Blysför í þágu friðar felur annars vegar í sér almennar jólaóskir um frið og hins vegar beinist hún gegn versta tilræðinu við friðinn nú um stundir, Íraksstríðinu.
Stíðið í Írak heldur áfram. Innrásaröflin verða stundum að breyta túlkun sinni á eðli þess. Flestar vestrænar fréttastofur (m.a. íslenskar) bergmála þá túlkun. Í byrjun var fylgismönnum Saddams helst kennt um ofbeldið. Síðan var áherslan lögð á al-Qaeda, ekki síst á al-Zarqawi, hinn blóðþyrsta jórdanska al-Qaedaliða. Eftir að hann var drepinn er kápunni enn snúið og nú kallast ofbeldið „átök trúarhópa” og „borgarastríð” og er túlkað sem stríð milli ofstækisfullra sía- og súnnímanna.
Stöku sinnum heyrast þó fréttir af að dauðsaveitir þær sem flesta myrða tengist svonefndri „ríkisstjórn” Íraks og C.I.A. og að allt sé þetta hluti af hinu grimmilega, löglausa og tilefnislausa ensk-bandaríska hernámi á Írak.
Innrásin og hernámið hefur enn fullan og yfirlýstan stuning Íslands.
Kjörorð okkar eru hin sömu og áður:
– Frið í Írak!
– Burt með árásar- og hernámsöflin!
– Enga aðild Íslands að stríði og hernámi!
Ávarp flytur Hlynur Hallsson, myndlistamaður
Kór Akureyrarkirkju syngur
Kerti verða seld í upphafi göngunnar.
Taka ber fram í ljósi verðurspár að aðeins verður gengið ef veður leyfir.
Áhugafólk um friðvænlegri heim
Á fréttavefnum Bæjarins besta má lesa þessa frétt um friðargöngu á Ísafirði á Þorláksmessu. Líkt og í Reykjavík hefst gangan kl. 18. Lagt verður af stað frá Ísafjarðarkirkju og gengið á Silfurtorg þar sem Eiríkur Örn Norðdahl skáld og blaðamaður ávarpar göngufólkið.
Meðal þeirra tugmilljóna manna sem mótmæltu innrásinni í Írak í mars 2003 var bandaríski leikarinn Sean Penn. 18. desember sl. var honum veitt viðurkenning kennd við leikarann látna, Christopher Reeve. Í ávarpi sem hann flutti við þetta tækifæri gagnrýndi hann bandarísk stjórnvöld harðlega
Í ávarpi sínu vék Penn meðal annars að möguleikanum á ákæru, sem gæfi „kjörnum þingmönnum okkar vald til að láta fara fram rannsókn. Vald til að leggja sannleikann á borðið. Mæður og feður missa börn sína á hræðilegan hátt í þessu stríði á hverjum degi. Hryllilegur dauði. Hryllilegar limlestingar. Var framinn glæpur með því að láta land okkar styðja þá ákvörðun að fara í þetta stríð? … Ef sönnur verða færðar á að framin hafi verið „landráð, mútur eða önnur alvarleg afbrot og afglöp“, gerum þá það sem lagt er fyrir í annarri grein fjórða kafla stjórnarskár Bandaríkjanna og víkjum „forseta, varaforseta og … embættismönnum Bandaríkjanna“ úr embætti. Ef dómsmálaráðuneytinu sýnist svo við hæfi að stinga þeim inn með Jeff Skilling [forstjóra Enron], látum þá svo vera.“
Ávarp Sean Penn má nálgast í heild á þessari slóð:
www.afterdowningstreet.org/node/16505
Íslenskir friðarsinnar standa að blysför niður Laugaveginn á Þorláksmessu.
Safnast verður saman á Hlemmi og leggur gangan af stað stundvíslega klukkan 18:00. Fólk er hvatt til að mæta tímanlega. Friðargangan á Þorláksmessu er nú orðin fastur liður í jólaundirbúningi margra. Gangan í ár er sú tuttugasta og sjöunda í röðinni. Að venju munu friðarhreyfingarnar selja kyndla á Hlemmi í upphafi göngunnar.
Söngfólk úr Hamrahlíðarkórnum og Kór Menntaskólans við Hamrahlíð undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur kórstjóra tekur að vanda þátt í blysförinni sem endar með stuttum fundi á Lækjartorgi.
Þar mun Falasteen Abu Libdeh frá Palestínu halda stutt ávarp. Fundarstóri verður Arnar Jónsson leikari. Fundinum lýkur síðan með friðarsöng.
Friðargöngur verða einnig á Akureyri og Ísafirði á Þorláksmessukvöld.
Síðla árs 1999 hvöttu SHA íslensk sveitarfélög til að friðlýsa sig fyrir kjarnorku-, sýkla- og efnavopnum. Undirtektir voru almennt góðar og í árslok 2002 var þorri sveitarfélaga búinn að gera slíkar samþykktir.
Á dögunum barst Samtökum hernaðarandstæðinga staðfesting á að nýtt sveitarfélag hefði bæst í hópinn. Húnavatnshreppur varð til í ár með sameiningu Bólstaðarhlíðarhrepps, Sveinsstaðahrepps, Svínavatnshrepps, Torfalækjarhrepps og Áshrepps. Tveir fyrstnefndu hrepparnir höfðu samþykkt friðlýsingu en erindinu ýmist verið vísað frá eða ekki fengist afgreitt í hinum hreppunum þremur.
Eftir þessa samþykkt Húnvetninga eru einungis tíu íslensk sveitarfélög sem ekki hafa fallist á þetta sjálfsagða baráttumál og standa vonir til að þeim muni fækka enn á næstu vikum. Sveitarfélögin sem hér um ræðir eru:
Garðabær
Gerðahreppur
Grindavík
Grímsnes- og Grafningshreppur
Hornafjörður
Reykjanesbær
Sandgerði
Skagabyggð
Skútustaðahreppur
& Vatnsleysustrandarhreppur
Tilkynnt verður jafnóðum um gang þessara mála hér á Friðarvefnum.
Hin árvissa bókmenntakynning Menningar- og friðarsamtakanna, MFÍK er ómissandi þáttur í jólaundirbúningi fjölmargra. Hún verður að venju haldin í húsnæði MÍR, Hverfisgötu 105 (á horni Snorrabrautar) laugardaginn 16. desember kl. 14.
Lesið verður úr verkum eftirtalinna höfunda:
* Vilborgar Dagbjartsdóttur
Það kallast ögurstund úr bókinni Heil brú.
Myndir Guðrúnar Hannesdóttur hanga uppi í salnum.
* Ingunnar Snædal
Guðlausir menn – hugleiðingar um jökulvatn og ást.
* Fríðu Á Sigurðardóttir
Í húsi Júlíu – Guðrún Sigfúsdóttir les.
* Einars Más Guðmundssonar
Ég stytti mér leið framhjá dauðanum.
* Guðrúnar Helgadóttur
Öðruvísi saga.
* Kristínar Steinsdóttur
Á eigin vegum.
* Kristínar Ómarsdóttur
Jólaljóð.
*Rósu Þorsteinsdóttur
Einu sinni átti ég gott : upptökur úr Árnastofnun.
* Hildar Finnsdóttur
Að opna dyr : æviminningar Guðrúnar J. Halldórsdóttur.
* Vilborgar Dagbjartsdóttur
Fjögur ljóð.
* Tónlist: Magga Stína og Kristinn H. Árnason, gítaleikari flytja lög af diskinum Magga Stína syngur Megas.
Aðventustemning. – Kaffisala.
Húsið opnar kl. 13:30 – Allir velkomnir.