Ályktun SHA um norrænt hernaðarbandalag

By 12/04/2015 Uncategorized
Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla harðlega að Ísland hafi ákveðið að ganga til samstarfs við Norðurlöndin um aukna hernaðarvæðingu, með fjölgun heræfinga, meiri samvinnu á sviði iðnaðarframleiðslu, sem gæti sem best verið vopn miðað við yfirlýsinguna, og á fleiri sviðum. Ísland virðist þar með vera að taka þátt í aukinni vígvæðingu án nokkurrar opinberrar umræðu.
Samtök hernaðarandstæðinga ítreka þá skoðun sína að Ísland eigi að vera friðsamleg þjóð, stuðla að friði í heiminum og að flestar aðferðir séu betur til þess fallnar en hernaður og vígvæðing.
Stækkun NATO og uppsetning eldflaugakerfa í Austur-Evrópu undanfarin ár hafa stuðlað að aukinni spennu og óöryggi í þessum heimshluta. Augljóst er að Norðurlöndin ætla að taka fullan þátt í að fylgja eftir þeirri þróun. Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla því að Ísland taki þátt í því. Nær væri að beita sér fyrir samkomulagi um vopnahlé og undið sé ofan af útþenslu vestrænnar heimsvaldastefnu á svæðinu.