Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga krefst þess að íslensk stjórnvöld fordæmi stríðsglæpi Ísraelsríkis og beiti sér fyrir því að komið verði á vopnahléi sem undanfara friðarsamkomulags á svæðinu. Ísland ruddi brautina í Vestur-Evrópu þegar kom að viðurkenningu á Palestínu sem sjálfstæðu ríki en hefur ekki tekið árásum Ísraelshers á Palestínumenn af nægilegri alvöru. Heilbrigðis- og menntakerfi Gasa-svæðisins hefur verið lagt í rúst, innviðir, íbúðarhús, almennir borgarar, blaðamenn og hjálparstarfsmenn eru skotmörk og lífsnauðsynlegum hjálpargögnum og matvælum er haldið frá íbúum í herkví.
Íslensk stjórnvöld hafa kallað eftir vopnahléi og hjálpað til við að bjarga dvalarleyfishöfum af svæðinu, en frekari aðgerða er þörf í ljósi þess að Ísrael hefur hundsað bindandi ályktun öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna um vopnahlé og mannúðaraðstoð. Ísland á að styðja við mál Suður-Afríku fyrir alþjóðaglæpadómstólnum um þjóðarmorð á Gasa og beita refsiaðgerðum gegn Ísraelskum ráðamönnum sem hafa hvatt til þjóðarmorðs og stríðsglæpa. Beita þarf viðskiptahindrunum í samræmi við vilja Palestínsku þjóðarinnar. Mikilvægt er að Ísland láti aldrei flækja sig inn í neitt form vopnasölu eða vopnaflutnings til Ísraels og beiti sér fyrir vopnasölubanni á Ísrael og þrýsti jafnframt á þau ríki sem halda áfram sölu vopna þrátt fyrir að þau séu notuð til stríðsglæpa og þjóðarmorðs.