Það eru ekki slysaskot í Palestínu þessa dagana – ástandið þar er svo voðalegt að það er líklega ekki einu sinni hægt að yrkja um það ljóð. Þar falla skotin af ásetningi. Sama má segja um Úkraínu, Sýrland. Í Súdan er fólk höggvið niður með lagvopnum!
Um þessi ósköp á maður engin orð, getur ekki ímyndað sér hvernig þetta er.
Og getur ekkert sagt, ekkert sem skiptir máli. Við, almennir borgarar hér uppi á friðsæla Íslandi, höfum varla nokkrar forsendur til að skilja svona hrylling.
Þess vegna ætla ég að tala um okkur hér – og frið.
Við sem nú lifum hér, þekkjum ekki annað en frið, þau átök sem við heyrum og sjáum í fjölmiðlum þekkjum við ekki á okkar eigin skinni. Við lifum í velsæld og friði og kunnum ekki annað.
Samt rífumst við.
Við rífumst um pólitík, rífumst um útlendinga, rífumst um hátt verðlag, holótta vegi. Margt á rétt á sér og mætti ræða á málefnalegri grundvelli en oftast er gert, en við virðumst líka oft rífast bara til að rífast, við rífumst við annað fólk, jafnvel ættingja og vini, við rífumst við afgreiðslufólk í búðum, rífumst út af bílastæðum, við rífumst á samfélagsmiðlum – notum stundum orðbragð sem hneykslar, særir og skaðar, – og svo rífumst við út af því.
Oft og tíðum finnst mér eins og yfirspenna, æsingur og úlfúð ráði ríkjum í samfélaginu. Hér hjá þessari litlu þjóð í miðri velsældinni og friðsemdinni. Allt er blásið upp í æsifréttastíl, bæði prívat milli manna og opinberlega á vettvangi samfélagsumræðunnar þar til æsingurinn er orðinn nógu mikill til að ósannindi, falsfréttir og ásakanir hafa náð yfirhöndinni.
Þá er skrattanum skemmt.
Af hverju getum við ekki bara haldið friðinn?
Við búum jú ekki við ófrið. Hér eru engin stríð.
En kunnum við að meta þann frið sem við búum við? Er ekki stundum dálítið grunnt á því?
Hér alast upp börn sem fá ekki þá andlegu næringu og uppfræðslu sem öll börn í friðsælu samfélagi ættu að fá. Hér alast upp börn sem geta varla tjáð sig á máli sem ætti að vera – eða verða – þeirra móðurmál, því hér eiga þau heima. Hér alast upp börn sem eru varla læs, hvorki á eitt tungumál né annað. Hér alast upp börn sem hópast í gengi og beita ofbeldi. Hér alast upp börn sem beita hnífum!
Hvað er að hér í friðsemdinni? Erum við orðin vitlaus af velsæld?
Ætti kannski að senda okkur öll í lífsþjálfun til Palestínu? Til Úkraínu? Til Sýrlands? Til Súdan? Láta okkur hitta konur sem hefur verið massanauðgað, karla sem hafa horft upp á misþyrmingar og nauðganir á konum sínum og börnum. Sjálfum verið nauðgað og misþyrmt. Senda okkur gangandi margra klukkustunda leið eftir vatnsdreitli? Búa klæðlítil og eldsneytislaus í tjaldi í flóttamannabúðum um nokkurra vikna skeið? Láta leiða okkur um fangelsi Assads – ég held það sé ekki nóg að skreppa og skoða Auswitch, það er yesterday‘s paper.
En þannig eru stríð – sem við þekkjum ekki, kunnum ekkert á, vitum ekkert hvað er eða hvað felur í sér fyrir einstaklinginn.
Í stríði er manneskjan, einstaklingurinn, einskis virði. Mannslífið byssufóður eða pyntingamatur.
Ekkert svona þekkjum við af eigin raun. Þess vegna skiljum við þetta ekki, heldur æðum áfram í okkar ofurvelsæld, eyðum og spennum í okkur sjálf, og friðum samviskuna með nokkrum Amnesty-póstkortum eða gjafabréfum fyrir brunnum og geitum í Afríku, og látum það viðgangast að hér gangi um ofurríkir burgeisar sem bæði stela af hinum almennu borgurum og heiminum sem á bágt og gæti notað einhverja aura til að komast betur af og lifa í meiri friði. Höfum við heyrt minnst á Namibíu? Tortóla?
Nú vil ég ekki staðhæfa að við séum ómöguleg og óalandi af því að við höfum ekki upplifað stríð.
En ég held að við megum að ósekju skoða hug okkar betur en við gerum varðandi hve gott við höfum það og hvernig við getum hugsanlega nýtt einmitt þá staðreynd til að efla frið, nýtt okkur þessi ótrúlegu forréttindi, bæði hér heima og úti í veröldinni, til að efla frið í milli einstaklinga og nákominna, frið milli hópa og samfélagseininga, frið milli þjóða, frið við náttúruna, frið í allri hugsun.
Ég hef ekki svarið við þessu, það verður hver og einn að finna hjá sjálfum sér, í hjarta sínu. En ég held að það væri okkur sem þjóð, íbúum þessa friðsæla lands, hollt og þroskandi að leita þess innra með sér og breyta samkvæmt því.
Að lokim vil ég minna okkur öll á að auk hinar ágætu kveðju: Gleðileg jól – ég ég vitaskuld óksa ykkur öllum, eigum við aðra ekki síðri kveðju á okkar fallegu íslensku: Ég óska því ykkur öllum og öllum landsmönnum árs og friðar.
Takk fyrir