Svör flokkanna, 6. spurning: Við þurfum að tala um Trump…

Samtök hernaðarandstæðinga sendu spurningalista á þau framboð sem bjóða fram á landsvísu til komandi Alþingiskosninga. Spurningarnar voru sex talsins og bárust svör frá öllum nema Flokki fólksins. Sum framboðanna vísuðu til samkomulags þeirra á milli þess efnis að einungis væri svarað þremur spurningum frá frjálsum félagasamtökum. Þau sem tóku þann pól í hæðina fengu að velja sjálf hvaða þremur spurningum þau svöruðu. Spurning 6 hljómaði svo: Treystir flokkur þinn nýjum forseta Bandaríkjanna til að leiða hernaðarbandalagið NATO og vera æðsti stjórnandi herliðs á Íslandi? Hér fylgja svör þeirra sem svöruðu spurningunni.

Lýðræðisflokkurinn:
Já, DT [Donald Trump] hefur lýst því yfir að hann vilji stilla til friðar og hætta blóðsúthellingum. Þær yfirlýsingar hans eru trúverðugar í ljósi reynslunnar, enda hóf hann engin stríð á valdatíma sínum 2016-2020. Fráfarandi forseti BNA hefur leitt ríkisstjórn sem aðhyllst hefur hernaðarhyggju. Allt bendir til að ný ríkisstjórn BNA muni stefna málum í betra og friðvænlegra horf.

Viðreisn:
Nýr forseti tekur við völdum í byrjun næsta árs. Reynslan verður að leiða í ljós hvaða áhrif valdataka hans mun hafa innan NATO og í samskiptum við Evrópuríkin sem og varnarsamning Íslands við Bandaríkin. Viðreisn telur að fullt tilefni sé til þess að styrkja enn sambandið við ESB og dregur valdataka nýs forseta síst úr þeirri áherslu.

Píratar:
Nei, Píratar eru áhyggjufullir yfir því hver staða mála á alþjóðavettvangi verður þegar Trump tekur aftur við embætti. 

Vinstri græn:
Nei.

Sósíalistaflokkurinn:
Nei.

Miðflokkur:
Miðflokkurinn leggur áherslu á að virða lýðræðislegan rétt annarra þjóða til að velja sér leiðtoga og leggur áherslu á gott og heilbrigt samstarf sem sjálfstæð og fullvalda þjóð við aðrar þjóðir. Það byggir á gagnkvæmri virðingu fyrir menningu, sögu og siðum viðkomandi landa.

Framsóknarflokkur:
Framsókn leggur áherslu á mikilvægi alþjóðlegs samstarfs og að alþjóðalög séu virt. Flokkurinn hefur ekki tekið afstöðu til einstakra leiðtoga eða þeirra hlutverka innan NATO.