Svör flokkanna, 4. spurning: Unnið að friði

Samtök hernaðarandstæðinga sendu spurningalista á þau framboð sem bjóða fram á landsvísu til komandi Alþingiskosninga. Spurningarnar voru sex talsins og bárust svör frá öllum nema Flokki fólksins. Sum framboðanna vísuðu til samkomulags þeirra á milli þess efnis að einungis væri svarað þremur spurningum frá frjálsum félagasamtökum. Þau sem tóku þann pól í hæðina fengu að velja sjálf hvaða þremur spurningum þau svöruðu. Spurning 4 hljómaði svo: Á hvaða vettvangi telur flokkurinn að Ísland geti best unnið að málstað friðar í veröldinni og með hvaða hætti? – Hér fylgja svör þeirra sem svöruðu spurningunni.

Viðreisn:
Á sameiginlegum vettvangi innan NATO, á vettvangi Norðurlandanna og í auknum mæli í evrópskri samvinnu á vettvangi ESB. Þá eru Sameinuðu þjóðirnar einnig mjög miklilvægar í þessu samhengi.

Vinstri græn:
Utanríkisstefna Íslands þarf að byggjast á því sjónarmiði að við kjósum alþjóðlegt réttlæti, afvopnun og friðsamlegar lausnir deilumála og að við fordæmum hvers kyns árásarstríð og ofbeldi í samskiptum þjóða. Utanríkisstefna Íslands á að taka mið af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Ísland á að taka skýra afstöðu með friði, réttindum frumbyggja, sjálfbærni og náttúruvernd á norðurslóðum.Ísland á að koma fram af dirfsku á alþjóðavettvangi í baráttu fyrir kynjajafnrétti, kvenfrelsi og réttindum hinsegin fólks í heiminum. Ísland á jafnframt að beita sér fyrir aðgerðum gegn mansali á alþjóðavettvangi. Við eigum einnig að skipa okkur í sveit forystuþjóða í umhverfismálum og í baráttu gegn umhverfis- og loftslagsvá á alþjóðavettvangi.

Miðflokkur:
Miðflokkurinn hefur lagt áherslu á að aðstoða fólk sem næst sínum heimaslóðum svo fjármagn nýtist sem best og svo að auðveldlega gangi að koma fólki til síns heima þegar um hægist. 

Samfylkingin:
Samfylkingin er alþjóðasinnaður stjórnmálaflokkur og telur að Ísland geti best stuðlað að málstað friðar með því að taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi, t.d. á vettvangi þeirra alþjóðastofnana sem Ísland er aðili að. Samfylkingin er einnig aðili að norrænni, evrópskri og alþjóðlegri hreyfingu jafnaðarflokka og tekur virkan þátt í því samstarfi sem þar fer fram. Með því að beita sér á þeim vettvangi getur Samfylkingin komið á framfæri sjónarmiðum sínum við hreyfingar og einstaklinga sem hafa meiri áhrif á alþjóðavettvangi en Ísland getur nokkurn tímann haft.
Samfylkingin stendur með þjóðum sem þurfa að þola ólöglegt hernám og yfirgang, svo sem í Palestínu og Úkraínu, og gerir kröfu um að reglur þjóðaréttar um friðsamleg samskipti þjóða séu virtar í hvívetna. Ísland á alltaf að taka skýra afstöðu gegn mannréttindabrotum, styðja réttindabaráttu viðkvæmra hópa á heimsvísu og berjast gegn fordómum og hvers kyns mismunun.
Samfylkingin vill að íslensk stjórnvöld beiti sér af festu á alþjóðlegum vettvangi fyrir tveggja ríkja lausn milli Ísraels og Palestínu. Samfylkingin fordæmir landtökubyggðir Ísraelsmanna á Vesturbakkanum og árásir á íbúa Gaza. Samfylkingin fordæmir með afgerandi hætti þá stríðsglæpi sem framdir hafa verið fyrir botni Miðjarðarhafs. Einnig fordæmir Samfylkingin innrás og stríðsglæpi Rússa í Úkraínu.

Lýðræðisflokkurinn:
Á Alþingi, á leiðtogafundum, hjá alþjóðastofnunum og víðar.

Sósíalistaflokkurinn:
Í gegnum alþjóðlegar stofnanir og grasrótarsamtök. Með virkri þátttöku í því að vinna að friðsömum heimi og hvatt til samskipta og málamiðlanna í stað stigmögnunar. Með því að beita okkur eftir fremsta megni fyrir fullveldi og sjálfstæði þjóða í heiminum og beita sér gegn ójöfnuði, hér heima og í heiminum. Ójöfnuður í heiminum skapar og viðheldur átökunum. Það er mikilvæg friðarstefna að stuðla að framþróun í heiminum.

Píratar:
Píratar eru í grunninn alþjóðasinnuð hreyfing sem telur gríðarlega mikilvægt að alþjóðalög séu virt til að fólk og ríki geti lifað við frið og öryggi. Mikilvægt er að Ísland taki virkan þátt á alþjóðavettvangi og eigi frumkvæði að því að berjast fyrir friði, mannúð, mannréttindum, stöðu hinsegin og kynsegin einstaklinga og að alþjóðalögum sé fylgt. Þar má sérstaklega nefna Evrópuráðið og mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna, sem dæmi um mikilvægan vettvang sem Ísland getur unnið að málstað friðar. Friðargleraugun þurfa að vera uppi í öllu alþjóðastarfi.

Framsóknarflokkur:
Framsókn telur að Ísland geti best unnið að málstað friðar í veröldinni með því að taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi og mannréttindabaráttu. Flokkurinn vill að Ísland sé áfram í fararbroddi í alþjóðlegri baráttu fyrir mannréttindum og jafnrétti, og að þróunarsamvinna sé efld. Með því að leggja áherslu á mannúðarsjónarmið og friðsamlegar lausnir getur Ísland stuðlað að friði á alþjóðavettvangi.