Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga haldinn 12. september 2020 áréttar nauðsyn þess að varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna verði tafarlaust sagt upp og Ísland segi sig úr hernaðarbandalaginu Nató. Þau alvarlegu mistök voru gerð við lokun herstöðvar Bandaríkjamanna á Íslandi árið 2006 að fella ekki úr gildi varnarsamninginn. Vegna hans og viðbótarbókana sem síðar hafa verið gerðar, er Bandaríkjaher í raun tryggt sjálfdæmi um þau umsvif sem hann kýs að hafa hér á landi. Birtingarmynd þess er t.a.m. umfangsmikið kafbátaleitarflug og hvers kyns hernaðarumsvif á Keflavíkurflugvelli sem minna á herstöð að öllu nema að nafninu til.
Síðustu misseri hafa einkennst af stórfelldri hernaðaruppbyggingu á Norðurslóðum, svo sem í norðanverðu Rússlandi, í Skandinavíu, á Grænlandi og einnig hér á landi. Glórulausar hugmyndir sem kynntar hafa verið um uppbyggingu herskipaaðstöðu í Helguvík eru í takt við þessa þróun.
Vígbúnaðarkapphlaup í norðurhöfum ætti að vera öllu hugsandi fólki áhyggjuefni. Hagsmunir Íslendinga felast ótvírætt í því að norðurslóðir séu lausar við hernaðaruppbyggingu og umferð vígvéla.