Kjarnorkusprengju var varpað á japönsku borgina Nagasakí þann 9. ágúst árið 1945. Þremur dögum fyrr fengu íbúar Hírósíma sömu örlög.
Í 36 ár hefur Samstarfshópur friðarhreyfinga staðið fyrir kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn til að minnast fórnarlambanna og til að leggja áherslu á kröfuna um heim án kjarnorkuvopna.
Safnast er saman við suðvesturbakka Tjarnarinar, við Skothúsveg mánudaginn 9. ágúst kl. 22:30. Flotkerti verða seld við Tjörnina á 500 krónur.
Fundarstjóri verður Kolbeinn H. Stefánsson félagsfræðingur og ávarp flytur Ingibjörg Hjartardóttir rithöfundur.
Vegna smitvarnarráðstafana verður einungis hleypt inn í tvö hólf á aðgerðinni, sem hvort tekur að hámarki 200 manns. Rík áhersla verður lögð á að þátttakendur gæti að fjarlægðartakmörkunum.
Kertafleyting verður einnig haldin á Akureyri að venju undir merkjum Samstarfshóps um frið. Hún hefst kl. 22 við Leirutjörn. Ávarp flytur Tryggvi Hallgrímsson félagsfræðingur.