Skip to main content
Monthly Archives

March 2010

Þétt dagskrá framundan

By Uncategorized

keflavikurgangaÞað er margt á döfinni hjá hernaðarandstæðingum næstu daga. Dagskráin hefst föstudagskvöldið 26. mars með fjáröflunarmálsverði Friðarhúss. Borðhald hefst að venju kl. 19, en húsið verður opnað hálftíma fyrr.

Matseldin verður í höndum Unnar Jónsdóttur & sona og er óðum að komast mynd á matseðilinn:

* Kjúklingaréttur með frönsku ívafi
* Hrísgrjón, salat og brauð
* Grænmetisréttur verkalýðsins

Verð kr. 1.500. Allir velkomnir.

* * *

Sunnudaginn 28. mars kl. 14 verður svo aðalfundur Friðarhúss SHA ehf. haldinn í húsi félagsins. Kjörin verður stjórn, farið yfir reikninga og samþykkt starfsáætlun ásamt öðrum hefðbundnum aðalfundarstörfum.

Fundurinn telst ekki löglegur nema eigendur helmings hlutafjár í félaginu mæti á hann eða sendi fulltrúa sinn. Því eru hluthafar sem ekki sjá fram á að komast eindregið hvattir til að veita öðrum umboð. Það má t.d. gera með því að senda póst á netfangið sha@fridur.is

* * *

Þriðjudaginn 30. mars kl. 17 bjóða Samtök hernaðarandstæðinga svo til sýningaropnunar í Þjóðarbókhlöðunni. Þá verður formlega sett sýning um sögu Keflavíkurganga, en fimmtíu ár verða í sumar frá fyrstu göngunni. Sýningin er full af fróðleik og dregur upp mynd af eðli og þróun friðarbaráttunnar á Íslandi um margra áratuga skeið. Hernaðarandstæðingar eru hvattir til að mæta á opnunina og/eða kynna sér sýninguna á næstu vikum.

Opið bréf til Ólafs Stephensens

By Uncategorized

Grein þessi birtist einnig á vefritinu Smugunni.

Komdu sæll Ólafur,

Ég skrifa þér til þess að lýsa yfir vonbrigðum mínum með leiðara þinn í Fréttablaðinu dag.

Leiðarinn er ótrúlega bernskur en að sama skapi miskunnarlaus gagnvart þeim sem þurfa að lifa við hernað á hverjum degi, til dæmis vegna aðgerða NATO. Miðað við þá reynslu sem ég hef af samskiptum við þig bjóst ég ekki við skrifum sem þessum frá þér, þrátt fyrir að mér hafi ávallt verið fullkunnugt um blinda trú þína á ágæti hernaðar og hernaðarbandalaga.

Við fyrsta lestur leiðarans varð ég einfaldlega reiður. Við næsta lestur varð ég miður mín. Þegar ég las hann í þriðja sinn rann upp fyrir mér að skrifin voru ætluð til að réttlæta vonda afstöðu.

Réttlætingarnar eru þrjár:

1) Starfsemi fyrirtækisins er ekki hernaðarstarfsemi, enda eru þotur þess óvopnaðar og starfsmennirnir bera ekki vopn.

Svar: Aðstaða og búnaður sem ætlaður er til heræfinga er hernaðarstarfsemi. Tilgangur slíkrar starfsemi er að þjálfa hermenn og heri í því að granda skotmörkum og drepa fólk.

2) Vinstri grænir eru alveg á móti veru Íslands í hernaðarbandalaginu NATO, eins og þeir ítrekuðu fyrir helgina. Það breytir ekki því að meirihluti þjóðarinnar telur Ísland eiga heima í bandalaginu. Og af hverju ætti Ísland þá ekki að hýsa fyrirtæki, sem tengist starfsemi NATO?

Svar: Ég hef ekki séð þá skoðanakönnun þú vísar í, en það skiptir í sjálfu sér ekki máli enda eru skoðanakannanir ekki rök fyrir afstöðu heldur tæki til að réttlæta hana.

Almennt séð hefur NATO-aðildin verið réttlætt með því að tala um mikilvægi þátttöku í „vestrænni samvinnu“. Hún hefur aldrei verið réttlætt með mikilvægi þess að Ísland bjóði upp á aðstöðu til að þjálfa og undirbúa heri NATO áður en þeir halda til árásar á önnur lönd. Ef fólk væri spurt: „Vilt þú að Ísland taki þátt eða sé aðili að hernaði eða hernaðarstarfsemi?“ held ég svarið yrði einfalt nei og er það kannski spurning sem þið ættuð að varpa fram í næstu skoðanakönnun ykkar.

3) Íslenzk sprotafyrirtæki hafa sum hver þróað vörur, sem nýtast í hernaði. Prímex á Siglufirði framleiðir til að mynda sáraumbúðir með kítósani, unnu úr rækjuskel, sem bandaríski herinn notar. Hafmynd í Kópavogi framleiðir dvergkafbáta, sem eru notaðir í hernaði. Gavia-kafbáturinn þjónar til dæmis hlutverki æfingaskotmarks í heræfingum danska flotans. Eru þetta þá líka vond fyrirtæki?

Svar: Ég trúi því ekki að þú leggir framleiðslu sáraumbúða að jöfnu við herþjálfunaraðstöðu. Þó að þú getir vissulega sýnt fram á að sáraumbúðir tengis hernaði þá er, fyrir utan hversu langsótt þetta er, grundvallar munur á þessu tvennu.

Sáraumbúðir eru notaðar til þess að taka á afleiðingum hernaðar og lágmarka skaðann sem hann veldur fólki. Aftur á móti snúast heræfingar um að hámarka þann skaða sem hernaður veldur á fólki sem og mannvirkjum.

Hvorki sáraumbúðir né kafbátarnir sem þú vísar til eru eingöngu notaðar í hernaðartengda starfsemi og í raun er hvorugur hluturinn hannaður sérstaklega til slíks eins og sjá má á heimasíðum fyrirtækjanna. Burtséð frá því eru þessar samlíkingar bara útúrsnúningur enda er hægt með þessum aðferðum að tengja flesta skapaða hluti við hernaðarstarfsemi. Heræfingar stuðla hins vegar beint að hernaði enda er tilgangur þeirra að þjálfa hermenn til hernaðar.

Í niðurlagi leiðarans gagnrýnir þú Vinstri græn fyrir að láta siðferðislega afstöðu, gildismat og hugmyndafræði hafa áhrif á ákvarðanatöku (og telur upp dæmi í kjölfarið sem þú veist auðvitað að eru ekki annað en strámenn og ofureinföldun). Er það virkilega svo að þínu mati að nú skuli víkja öllu siðferði, gildismati og hugmyndafræði til hliðar? Er það ekki einmitt það sem var gert á árunum 2002 til 2008 með hörmulegum afleiðingum? Væri ekki nær að opna augun og láta af hinni blindu trú á markaðinn (sem telur hernað væntanlega skapa jákvæð viðskipta og atvinnutækifæri) og opna augun?

Með bestu kveðjum,

Elías Jón Guðjónsson

fyrrverandi blaðamaður 24 stunda

Ályktun frá SHA vegna áforma um einkaflugher

By Uncategorized

Fréttablaðið bauð lesendum sínum upp á ónotalega forsíðufrétt í morgun, miðvikudaginn 17. mars, þar sem sagt var frá áformum um staðsetningu einkarekinnar herþotusveitar á Miðnesheiði. Fréttin bætti raunar litlu við fyrri fréttaflutning RÚV af málinu frá því í október á síðasta ári, en af því tilefni sendu SHA frá sér þessa ályktun.

SHA árétta þá afstöðu sína að starfsemi af þessu tagi eigi ekkert erindi hér á landi. Málaliðaher eins og hér um ræðir er eitthvert auvirðilegasta fyrirbæri mannlegrar tilveru. Markmið rekstursins er að þjálfa hermenn í drepa fólk í fjarlægum og fátækum löndum. Er það vilji íslensku þjóðarinnar að hafa slíka iðju að féþúfu?

Allt tal um vopnleysi starfsmanna fyrirtækisins er aumur fyrirsláttur. Þjálfun orrustuflugmanna og skipulagning heræfinga er og getur aldrei talist annað en hernaðarstarfsemi. Ljóst er að áform fyrirtækisins stangast á við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að Ísland skuli verða vettvangur friðarumræðu og vinna að afvopnun í heiminum.

SHA hvetja fjölmiðla til að grafast betur fyrir um fyrirtækið E.C.A. Program. Heimilisfang þess er pósthólf í smábæ í Hollandi og þótt forstjóri þess tali drýgindalega um verkefni þess um víða veröld, finnast um þau litlar heimildir. Ljóst er að E.C.A. Program er í dag hálfgert skúffufyrirtæki og væntanlega leppur fyrir öflugari fyrirtæki. Hver eru þau? Fyrir liggur að fyrirtækið sóttist eftir aðstöðu fyrir starfsemi sína í Kanada, en fékk ekki leyfi frá stjórnvöldum. Hvaða sjónarmið lágu þar að baki? Um þetta var m.a. fjallað í Dagfara, tímariti Samtaka hernaðarandstæðinga sem kom út seint á síðasta ári.

Dagskrá í Tjarnarsal, 8. mars

By Uncategorized

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti. Dagskrá í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur mánudaginn 8.mars 2010 kl.17.

Við getum betur!

Fundarstjóri: Kolbrún Halldórsdóttir

Ávörp:

María S. Gunnarsdóttir: Framlag okkar til friðvænlegri heims.

Þórdís Elva Þorvaldsd. Bachmann: Kynbundið ofbeldi.

Helga Sif Friðjónsdóttir: Heilsugæsla fyrir jaðarhópa.

Barbara Kristvinsson: Við getum betur

Andrés Ingi Jónsson: Framtíð ófæddra barna.

Guðrún Hallgrímsdóttir: Hælisleitendur, hvað getum við gert?

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir: Fjölmiðlar og konur.

Kvennakór við Háskóla Íslands syngur undir stjórn Margrétar Bóasdóttur.

* * *

Menningar- og friðarsamtökin MFÍK, BHM-Bandalag háskólamanna, BSRB-Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Félag ísl. hjúkrunarfræðinga, Félagsráðgjafafélag Íslands, Íslandsdeild Amnesty International, Kennarasamband Íslands, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennahreyfing Öryrkjabandalags Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Samtök kvenna af erlendum uppruna, Samtök um Kvennaathvarf, SHA – Samtök hernaðarandstæðinga, Sjúkraliðafélag Íslands, ST.Rv – Starfsmannafélag Reykjavíkur, Þroskaþjálfafélag Íslands.

Vissir þú…?

By Uncategorized

Hernaðarbandalagið Nató hefur þá yfirlýstu stefnu að aðildarríki þess skuli verja sem nemur 2% af landsframleiðslu sinni til öryggis- og varnarmála. Hafa aðildarríkin ítrekað verið hvött til að standa við þessi markmið og hafa íslenskir ráðamenn staðið að slíkum samþykktum.

Nærri lætur að þessi upphæð nemi 30 milljörðum króna fyrir Ísland. Það er nærri því sem rekstur Landsspítalans kostar.

Ef íslenskir Nató-sinnar eru samkvæmir sjálfum sér hljóta þeir að gera þá kröfu að Íslendingar standi við þessar skuldbindingar. Ekki satt?