Monthly Archives

November 2008

Ályktanir landsráðstefnu SHA – II

By Uncategorized

Ályktun um breskar herþotur og “loftrýmisgæslu”:

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn laugardaginn 15. nóvember, fagnar því að fallið hafi verið frá því að fá hingað breskar herþotur til að sinna svokallaðri „loftrýmisgæslu“ hér við land í desember. Æfingaflug þetta hefur engu jákvæðu hlutverki að gegna og ætti aldrei að þrífast.

Kostnaðarsamt hernaðarbrölt á vegum Nató er þeim mun fráleitara á tímum þar sem ríkissjóður stendur frammi fyrir erfiðum verkefnum og brýn þörf er á fjármunum til annarra verka. Ljóst er að landsmenn kæra sig ekki um heræfingar af þessu tagi og að þorri fólks telur tíma ráðamanna betur varið í aðra hluti en að snapa afnot af herþotum út um hvippinn og hvappinn.

Jafnframt gagnrýna SHA harðlega þá forgangsröðun sem lesa má út úr nýlegum sparnaðartillögum utanríkisráðuneytisins, þar sem gert er ráð fyrir verulegum niðurskurði á framlögum til þróunarmála, en áfram haldið á hervæðingarbraut á vettvangi Varnarmálastofnunnar. SHA leggja til að stofnunin verði lögð niður hið fyrsta, rekstri ratstjárkerfis í hernaðartilgangi hætt og Ísland gangi tafarlaust úr Nató. Með því móti mætti veita háum fjárhæðum á þann hátt að gagnist almenningi.

Ályktanir landsráðstefnu SHA – I

By Uncategorized

Ályktun landsráðstefnu SHA, 15. nóvember 2008, um málefni Atlantshafsbandalagsins:

Næstkomandi vor verða liðin 60 ár frá stofnun Atlantshafsbandalagsins, NATO. Víða um Evrópu eru í undirbúningi mótmælaaðgerðir gegn bandalaginu í tilefni af því.

Samtök hernaðarandstæðinga og forverar þess hafa alla tíð barist gegn aðild Íslands að NATO. Á undanförnum árum hefur bandalagið þanist út, orðið æ árásargjarnara og veldur síaukinni spennu í alþjóðasamskiptum. Má þar auk útþenslunnar nefna árásarstríð þess gegn Júgóslavíu fyrir tæpum tíu árum og þátttöku þess í hernámi og blóðugum átökum í Afganistan og Írak. Einnig áskilur NATO sér rétt til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði og leiðtogafundur bandalagsins síðastliðið vor lýsti yfir stuðningi við umdeilda gagnflaugaáætlun Bandaríkjanna. Þá ýtir NATO undir aukinn vígbúnað og gífurlega sóun fjármuna.

Ástæða er til að ætla að á leiðtogafundi bandalagsins á sextugsafmæli þess næsta vor verði árásar- og útþenslustefna stefna þess enn áréttuð. Með aðild sinni að NATO bera íslensk stjórnvöld fulla ábyrgð á stefnu og gerðum NATO. Samtök hernaðarandstæðinga krefjast þess enn og aftur að Ísland segi skilið við NATO og taki upp stefnu friðar og sátta á alþjóðavettvangi.

Landsráðstefna SHA, 15.nóv.

By Uncategorized

427175377EUHtYW phLandsráðstefna SHA 2008 verður haldin í Friðarhúsi laugardaginn 15. nóv.

11:30 – venjuleg aðalfundarstörf (kosning stjórnar, samþykkt reikninga og umræður um ályktanir)

Boðið verður upp á léttan hádegisverð

13:30 til 14:40 – málþing um það sem efst er á baugi í hernaðarmálunum hér heima og erlendis.

* Halla Gunnarsdóttir blaðamaður á Morgunblaðinu fjallar um Varnarmálastofnun
* Magnús Sveinn Helgason sérfræðingur um bandarísk stjórnmál ræðir afleiðingar forsetaskipta í BNA

Athugið að dagskráin hefur verið stytt talsvert frá upphaflegri áætlun, til að rekast ekki á við boðaðar mótmlaaðgerðir í miðborginni á laugardag.

20:00 – Landsráðstefnugleði í Friðarhúsi. Hernaðarandstæðingar gera sér glaðan dag.