Monthly Archives

October 2008

Þroskumst sem þjóð

By Uncategorized

Eftirfarandi grein eftir Stefán Þorgrímsson birtist í Morgunblaðinu 23. október

Við Íslendingar höfum nú fengið að reyna hvernig það er að lenda í spinni breskra stjórnmálamanna. Í spinninu er sannleikanum snúið á hvolf, svart verður hvítt og já þýðir nei. Þegar „misskilningurinn“ hefur nú verið leiðréttur hefur hundruðum milljarða verið kastað fyrir borð og óvíst hvort nokkuð af þeim endurheimtist

En íslenska þjóðin má teljast heppin þrátt fyrir allt, við höfum aðeins tapað peningum. Aðrar þjóðir hafa tapað lífi og limum í vonlausri baráttu við spunameistara breskra stjórnmála. Barátta þeirra stendur ekki í nokkra daga eða vikur heldur mánuði og ár.

Það er ekki lengra síðan en 5 ár að Ísland fór í stríð við írösku þjóðina út af gjöreyðingarvopnum. En það voru engin gjöreyðingarvopn í Írak eftir allt saman. Spunameistararnir reyndust hafa rangar upplýsingar undir höndunum, sorry. Íraska þjóðin tapaði ekki milljörðum í pundum, hún tapaði milljónum í mannslífum og útlimum, og hún er enn að tapa.

Þeir íslensku stjórnmálamenn, sem nú fyllast heilagri reiði yfir því ranglæti sem íslenska þjóðin er nú beitt, voru í þá tíð fúsir til samstarfs við spunameistarana bresku. Þá skiptu smáatriðin og réttar upplýsingar ekki máli. Það verður nær ómögulegt fyrir spunameistarana bresku og íslensku útgáfuna af þeim að selja okkur annað stríð. Því þótt íslenska þjóðin sé fátækari að milljörðum þá er hún ríkari að reynslunni, eða það leyfi ég mér að vona.

Varnir Íslands upp á náð Kínverja?

By Uncategorized

Frétt í Morgunblaðinu 22. október hófst svo: „Íslendingar munu fagna áramótunum með hefðbundnum hætti. Það geta þeir þakkað kínverska flugeldaframleiðandanum Zhang Zong Lin, sem séð hefur Landsbjörg fyrir flugeldum um marga ára skeið. Hann ákvað að lána Landsbjörg fyrir flugeldunum vegna þess óvissuástands sem ríkir. Landsbjörg býst við minni sölu en undanfarin ár og hefur pantað minna magn en áður.“

Á vef Landsbjargar er sagt að flugeldasalan sé mikilvægasta einstaka fjáröflun flestra björgunarsveita landsins og í sumum tilfellum standi hún undir nær öllum rekstri einstakra björgunarsveita.

Björgunarsveitirnar byggja á sjálfboðaliðastarfi en engu að síður bera þær ýmislegan og umtalsverðan kostnað. En á sama tíma og þær þurfa að fjármagna þennan kostnað að 70-95% (sja visir.is 27.12.2007) með sölu flugelda og eyða dýrmætum tíma sjálfboðaliða sinna í þessa fjármögnun, þá rekur íslenska utanríkisráðuneytið Varnarmálastofnun fyrir 1500 milljónir króna á ári og NATO-ríki senda hingað orrustuþotur nokkrum sinnum á ári auk árlegra heræfinga, og allt kostar þetta formúu.

Þær raunverulegu ógnir sem steðja að íbúum Íslands, fyrir utan fjárglæfra og aðra glæpastarfsemi, er af völdum náttúrunnar, veðurs, jarðskjálfta og eldgosa. Og liðið sem kemur okkur til varnar og bjargar er fyrst og fremst björgunarsveitirnar auk landhelgisgæslu, lögreglu og sjúkra- og slökkvuliða.

Meðan meira en hálfur annar milljarður fer í gagnslausa stofnun og gagnlausar orrustuflugvélar og hersveitir, þá þarf hið raunverulega varnarlið okkar, björgunarsveitirnar, að bjarga fjárhag sínum með flugeldasölu. Og það er kaldhæðnislegt að þær skuli vera komnar upp á náð kínverskra bísnissmanna þegar fjárglæframennirnir eru búnir að koma Íslandi á kaldan klaka vegna skorts á vörnum gegn þeim.

Það má því segja að varnir Íslands séu komnar upp á náð Kínverja. Og það á sama tíma og útlit er fyrir að efnahagslíf Íslands sé upp á náð Rússa komið.

Ályktun frá SHA v. Bretaflugs

By Uncategorized

Samtök hernaðarandstæðinga fagna orðum starfandi utanríkisráðherra um að heimsóknir breskra herþotna verði afþakkaðar á næstunni og hvetja íslensk stjórnvöld til að hætta alveg að bjóða hingað erlendum her. Vandséð er hvernig stjórnvöld gætu réttlætt að sóa fjármunum í uppihald hermanna sem koma hingað til að sinna fánýtum æfingum.

Nú þegar raunveruleg ógn steðjar að Íslandi hefur sést hversu gagnslaust það er fyrir þjóðina að tilheyra NATO, bandalagi sem beinist gegn andstæðingi sem ekki er lengur til. Aldrei hefur verið ljósara að NATO-aðild Íslands er kostnaðarsamt dútl sem gerir ekkert til að tryggja öryggi og hag þjóðarinnar.