Monthly Archives

August 2008

Bandarísk eldflaugastöð í Póllandi

By Uncategorized

Í dag, fimmtudaginn 14. ágúst, náðist samkomulag milli Bandaríkjanna og Póllands um að setja upp í Póllandi herstöð fyrir tíu gagneldflaugar. Þetta er liður í gagnflaugaáætlun Bandaríkjanna en fyrir rúmum mánuði, 8. júlí, var undirritaður samningur milli Tékklands og Bandaríkjanna um aðstöðu í Tékklandi fyrir radarstöð í þessu kerfi. Mikil barátta hefur verið gegn þessum fyrirætlunum bæði í Póllandi og þó enn meir í Tékklandi. Núverandi stjórn í Póllandi var þó ekki eins samvinnulipur við Bandaríkin og fyrri stjórn og krafðist einhverrar umbunar þannig að Bandaríkin voru farin að þreifa fyrir sér í Litháen, en nú hefur sem sagt gengið saman með ríkjunum.

Grafið undan afvopnun
Auk andstöðu heima fyrir hefur þessi áætlun Bandaríkjanna víða verið gagnrýnd og Rússar hafa andmælt henni kröftuglega, enda telja þeir hana beinast að sér þótt Bandaríkjamenn segi hana beinast einkum gegn Íran. Margir hafa líka gagnrýnt þessa áætlun á þeim forsendum að hún auki spennu milli Bandaríkjanna og Vesturveldanna annars vegar og Rússlands hins vegar og setji í uppnám áætlanir um afvopnun, bæði kjarnorkuafvopnun og almenna. Forsenda þessarar áætlunar var að Bandaríkjamenn sögðu upp hinum mikilvæga ABM-sáttmála um takmörkun gagnflaugakerfa og í kjölfarið tilkynntu Rússar að afvopnunarsamningur um hefðbundinn herafla í Evrópu frá 1990 væri úr gildi fallinn.

Velþóknun íslenskra stjórnvalda
NATO kemur ekki beint að þessum áætlunum Bandaríkjanna en leiðtogafundurinn í Búkarest í vor lýsti velþóknun sinni á henni. Í yfirlýsingu fundarins, sem fulltrúar allra ríkja stóðu að, þ.á.m. forsætis- og utanríkisráðherrar Íslands, segir að sá gagnflaugabúnaður, sem Bandaríkin hyggjast koma sér upp, sé mikilvægt framlag til verndar bandalagsríkjunum. Í skoðun sé hvernig tengja megi þessar eldflaugavarnir Bandaríkjanna núverandi viðleitni NATO til eldflaugavarna og tryggja að þær verði hluti af framtíðarskipulagi NATO á þessu sviði. Fastaráði NATO (Council in Permanent Session) er falið að þróa slíkt skipulag þannig að það nái til alls þess svæðis bandalagsins, sem ekki verður dekkað af eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjanna, og skal leiðtogafundurinnn 2009 taka nánari ákvörðun um þá þróun.

Sjá einnig á Friðarvefnum:

Samtök hernaðarandstæðinga leita svara um vígbúnaðarstefnu ríkisstjórnarinnar
Samkomulag um gagnflaugastöð undirritað í Prag
Rússar og NATO í nýtt kalt stríð?
Alþjóðleg ráðstefna í Prag gegn hervæðingu Evrópu
Evrópa án kjarnavopna
Mikil andstaða í Tékklandi gegn fyrirhugaðri gagnflaugastöð
Undirskriftasöfnun gegn bandarískum herstöðvum í Tékklandi

Minningar frá Hiroshima

By Uncategorized

Helga Nína Heimisdóttir var fundarstjóri á kertafleytingunni á Reykjavíkurtjörn 6. ágúst sl. Hún sendi Friðarvefnum minningarbrot frá heimsókn sinni til Hiroshima.

imagesÁrið 1995 fór ég til Hiroshima og sem einn af fulltrúum friðarhreyfingar Soka Gakkai afhentum við Borgarstjóranum í Hiroshima peningagjöf til uppbyggingar á heimili fyrir öldruð fórnarlömb sprengjunnar. Við fórum líka og afhentum blóm á einu elliheimilinu. Maðurinn sem tók við blómunum úr minni hendi var með dæld í höfuðkúpunni, afleyðing sprengingarinnar, ég gat ekki haldið aftur af tárunum. Ég skoðaði líka Stríðsminjasafnið í Friðargarðinum í Hiroshima þar er Dúman eða – The Atom Bomb Dome – sem var eina húsið sem stóð eftir sprengjuna.

Safnið er í þremur byggingum og þegar komið er inn blasa við líkön af Hiroshima bæði fyrir og eftir sprengjuna, á veggjunum voru myndir af hrundum húsium og ástandinu eftir sprengjuna. Í öðrum sal á efrihæðinni voru meira áþreidanlegir hlutir eins og þríhjól sem meira og minna var bráðnað, glerflaska bráðin, blóðugar tætlur af fötum fórnarlambanna og allskonar munir illafarnir, það sem var samt hryllilegast voru vaxmyndir af standandi fólki sem húðin hafði bráðnað af svo sá í beinin eins og þau væru raunveruleg. Við útganginn er svo mynd af Gorbatsjov að skoða safnið. Það sem Hiroshima búar gera er að þeir kenna börnunum strax í leikskóla að biðja fyrir friði, á meðan þau eru að því búa þau til litlar pappírsfígúrur,sem þau síðan koma með í Friðargarðinn.

Börnin í Soka Kindergarden kyrja Nam Mjó Hó Ren Ge Kjó á meðan þau brjóta saman oregami fuglana sem hafa orðið nokkurskonar tákn fyrir frið í hugum margra. Þegar ég var þarna úti var ég hvött til að setja mér ásetning, og ég hét því að koma aftur að tíu árum liðnum með börnin mín til að sýna þeim safnið, sem ég gerði 2005. Ég tel að heimurinn yrði friðvænlegri ef öll börn jarðarinnar fengju að sjá hvaða afleiðingar kjarnorkusprengjur hafa og þeim væri kennt að byðja fyrir friði frá blautu barnsbeini eins og börnunum í Hiroshima er kennt sama hvaða trúarhópum þau tilheyra.

Með þökk fyrir að lesa þetta.
Helga Nína Heimisdóttir.

Ávarp á kertafleytingu á Akureyri

By Uncategorized

Á Akureyri stóð Samstarfshópur um frið (SHA og ÆSKÞ) að kertafleytingu við Minjasafnstjörnina kl. 22.30 fimmtudaginn 7. ágúst í góðu veðri. Ávarp flutti sr. Svavar Jónsson sóknarprestur á Akureyri. Að því loknu fleyttu þátttakendur kertum sínum út á kvöldkyrra tjörnina.

Við söfnumst hér saman til að minnast fórnarlamba, tæplega tvöhundruð þúsunda, sem fyrir rúmum sex áratugum fórust í eyðandi eldi tveggja kjarnorkjusprengja í japönsku borgunum Hiroshima og Nagasaki.

Máttur mannsins er mikill, stundum skelfilegur. Hann er fær um að eyða sjálfum sér og saga mannkyns er ofin blóðrauðum þræði sjálfseyðingaráráttu þess. Manneskjan smíðar tæki og tól til að granda sér. Hún stundar rányrkju og skipulega eyðileggingu á hinni góðu sköpun. Þar með stefnir hún í voða lífmöguleikum sínum á þessari plánetu. Og manneskjan smíðar af hugkvæmni sinni þjóðfélagsleg kerfi sem fæða af sér ranglæti og misskiptingu.

Þar lifa fáir útvaldir í andstyggilegum ofgnóttum en stór hluti mannkyns í andstyggilegri örbirgð og er dauðadæmdur áður en hann fæðist.

Eldur er tvírætt tákn. Friðsælt er flökt á litlum ljósum. Við tendrum eld á friðarkertum. Við berum friðarkyndla.

En eldurinn er líka tákn eyðileggingarinnar. Eldar loga í helvíti. Eldurinn er ófriðarbál. Sprengjan er eyðandi funi.

Og friðurinn er líka tvíræður. Við viljum öll frið. Við viljum búa saman hér á þessari jörð í sátt og samlyndi.

En sumt má ekki láta í friði ef friður á að verða. Ég sagði hér áðan að við værum hér samankomin til að minnast fórnarlamba.Við erum hér ekki einungis til þess. Við erum ekki bara hér til að minnast heldur til að áminna. Áminna okkur um eitt mesta ódæði mannkynssögunnar. Við megum ekki láta það gleymast, ekki láta það í friði – né önnur níðingsverk mannsins.

Sá friður sem felst í sinnuleysi og áhugaleysi, sá friður sem er máttleysi og hugleysi, sá friður sem er þögn um ranglætið og ofbeldið í mannheimum, hann er friður eyðileggingarinnar; hann er djöfullegur friður. Hann er friður sama eðlis og sá sem ríkir í yfirgefnum skotgröfum og í borgunum þar sem búið er að eyða öllu. Hann er friðurinn sem ógnar lífinu en þjónar því ekki.

Hér ætlum við ekki að láta nægja að líta sextíu og þrjú ár aftur í tímann. Við ætlum líka að líta í kringum okkur, horfa á heiminn eins og hann er. Eldurinn sem logar á flotkertunum nýtur sín vel í húminu. Við skulum láta hann bregða birtu á það sem þar leynist. Líka það sem illa þolir dagsljósið. Það sem ekki má segja og fáir vilja heyra.

Við horfumst í augu við fórnarlömb stríðssjúkra yfirvalda okkar tíma, við sjáum þau sem þjást vegna ranglætis og ofbeldis, þau sem ekki fá borið hönd fyrir höfuð sér, þau sem enga málsvara eiga.

Ef til vill finnst mörgum það heldur klént framlag til friðarins í veröldinni að kveikja á litlum kertum og í ofanálag að ýta þeim út á vatn, sem hæglega getur kæft þessi litlu friðarljós með einni nettri skvettu.

En þannig er hlutskipti friðflytjandans. Hann er í raun alltaf að kveikja á svona litlum kertum. Friðurinn á erfitt uppdráttar. Besta sönnun þess er ástandið í veröldinni. Friðurinn flöktir eins og fljótandi kerti í hvassviðri.

Það getur reynst jafn erfitt að kveikja á kerti úti í strekkingnum og að vekja frið í beljanda samtíðarinnar.

Og það getur verið jafn auðvelt að kæfa friðinn og það er fyrir vindinn að feykja loganum af kveiknum á einu litlu kerti.

Þess vegna á hver friðflytjandi aldrei nóg af kertum og eldspýtum.

Við skulum ekki gefast upp. Við skulum halda áfram, hvert með sínu lagi, hvert á sínum stað, hvert með sinni rödd, hvert eftir sinni sannfæringu, í smáu sem stóru.

Við skulum standa í flæðarmáli vettvangsins og halda áfram að senda friðarkerti út á höfin.

Þannig minnumst við þeirra best sem dóu í Hiroshima og Nagasaki. Og þannig reynumst við þeim best sem þessa stundina eru fórnarlömb ófriðarins á jörðinni.

Megi ljós friðarins eflast í veröldinni.

Ávarp á kertafleytingu

By Uncategorized

Kolbrún Halldórsdóttir alþingismaður flutti ávarp á kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn miðvikudaginn 6. ágúst. Það fylgir hér á eftir:

Við erum hér saman komin til að minnast þeirra sem fórust í þegar Bandaríkin vörpuðu kjarnorkusprengjunum á Hiroshima og Nagasagki fyrir ríflega 60 árum. En einnig til að láta í ljós vilja okkar til baráttu fyrir friði í heiminum og fyrir því að kjarnorkuáætlanir herveldanna verði upprættar fyrir fullt og allt. En ógnin af kjarnorkuvopnakapphlaupinu tvinnast óhjákvæmilega saman við annað kjarnorkukapphlaup, ekki síður ógnvænlegt fyrir þjóðir heims og móður jörð. Mig langar að deila með ykkur reynslusögu:

Umhverfis- og auðlindanefnd Norðurlandaráðs fór í ferð til Hvíta Rússlands og Úkraínu dagama 24. – 27. júní síðastliðinn. Tilgangurinn var að skoða ummerkin eftir kjarnorkuslysið í Tsérnóbyl. Ástæðan sú að nefndin óttast þær raddir sem gerast nú æ háværari að kjarnorkan sé hluti af lausninni á loftslagsvanda veraldarinnar og eigi því að flokkast með „umhverfisvænum orkugjöfum“. Ófyrirleitin þversögn!

Kl. 1:23 að morgni 26. apríl 1986 fór öryggisprófun í kjarnaofni nr. 4 í kjarnorkuverinu í Tsérnóbyl herfilega úrskeiðis, með þeim afleiðingum að tvær sprengingar urðu í ofninum. Við það losnaði hundrað sinnum meiri geislun út í umhverfið en af samanlögðum sprengjunum sem varpað var á Hiroshima og Nagasaki rúmum 40 árum áður. Geislavirkt úrfelli varð 30 – 40 sinnum meira.

Stjórnvöld í Sovétríkjunum ákváðu að segja ekki frá slysinu strax. Þóttust ekki vilja trufla 1. maí hátíðarhöldin, sem voru í uppsiglingu og stefndu að því að milljónir manna færu út á götur og torg, óvarin fyrir geisluninni. Ef einhver glóra hefði verið í mönnum, þá átti að hefja brottflutning fólks úr nærliggjandi þorpum og borgum umsvifalaust. En það var ekki fyrr en boð komu frá Svíþjóð, þar sem geislunarinnar varð fyrst vart, að yfirvöld áttuðu sig á því að þau gætu ekki þagað. Í Svíþjóð héldu menn að eitthvað hefði komið upp á í þeirra eigin kjarnorkuverum, en fljótt kom í ljós að svo var ekki. Þá bárust böndin að nágrannalöndunum hinu megin við Eystrasaltið, Baltnesku löndunum, en þar er fjöldi kjarnorkuvera og á endanum alla leið til Úkraínu; Tsérnóbyl.

Sprengingin reif gat á húsið yfir kjarnaofninum. Slökkviliðsmennirnir sem börðust við eldana vissu fyrst í stað ekki við hvað var að fást. Þeir báru sig að eins og um eld í venjulegu raforkuveri væri að ræða. Þeir höfðu enga kunnáttu í að fást við kjarnorkuslys og voru ekki varaðir við neinu. Eini hlífðarfatnaðurinn sem þeir höfðu aðgang að var ætlaður til að takast á við slys í efnaiðnaði. Í honum var engin vörn. Menn önduðu að sér geislavirkum eiturgufum án þess að vita að reykurinn væri geislavirkur. Vladimir Pravik „Mischa“ er tákn fyrir þá sem börðust við eldana. Hann lést 8. maí, ellefu dögum eftir að ofninn sprakk. Við heimsóttum minnismerki um hann í Brahin. Þar eru líka nöfn félaga hans, u.þ.b. 40 talsins, sem allir eru látnir.

Enginn veit með vissu hversu margir létust. Engir áreiðanlegir listar eru til um það. Sumar tölur segja að á bilinu 25.000 til 100.000 björgunarmenn hafi látið lífið vegna geislavirkni. Víst er að tíðni skjaldkirtilssjúkdóma og krabbameina jókst gríðarlega og lagðist jafnt á börn sem fullorðna. Svo kom að því, eftir fá ár að stjórnvöld bönnuðu læknum og heilbrigðisstarfsfólki að tengja dauðsföll við áhrif geislunar. Og nú, 22 árum síðar segja þau að tíðni þessara sjúkdóma sé ekki meiri í Hvíta Rússlandi eða Úkraínu en gengur og gerist annars staðar. Ekki verður því á móti mælt að norrænu þingmennirnir leyfðu sér að draga sannleiksgildi þeirra upplýsinga í efa.

Geislunin frá Tsérnóbyl breiddist yfir allt norðurhvel jarðar og hennar verður enn vart víða. Vindáttin var norð-vestanstæð, þess vegna varð Hvíta Rússland verst úti, enda einungis 12 km frá Tsérnóbyl að landamærunum. Í Úkraínu lagðist geislavirkt úrfelli yfir 40% landsins. Nálægt skóglendi í þessum tveimur löndum varð á skömmum tíma svo geislavirkt að trén fengu á sig rauðan lit, líkt og trjánum blæddi. Allur skógur var að endingu hogginn. Menn vissu að það væri ekki óhætt að brenna trjábolina, við slíkan bruna myndi losna enn meira af geislavirkum efnum út í andrúmsloftið. Því var allur geislavirkur gróður grafinn. Víða á svæðinu næst verinu má sjá hauga merkta með gula og svarta merkinu, „geislavirku rósinni“. Þar á rigningavatn greiðan aðgang að þeim og með því losna geislavirk efni út í grunnvatn.

Enn í dag eru 6% lands í Úkraínu menguð og mun stærri svæði í Hvíta Rússlandi. Umhverfis verið er afgirt svæði, frá 30 km upp í 60 km í þvermál. Þangað fer enginn inn án leyfis frá yfirvöldum. Slíkt leyfi fengum við norrænu þingmennirnir og sáum inn í óhugnanlegan heim. Allt iðagrænt, en lífshættulegt af geislavirkni.

Eftir slysið, þó ekki fyrr en á öðrum sólarhring, var fólk flutt tugþúsundum saman út af svæðinu. Borgin Pripyat var rýmd, þar bjuggu 50 þúsund manns. Núna er Pripyat draugaborg eins og þorpin umhverfis hana. Kraftmikill gróðurinn er um það bil að færa þessar menjar um mannlíf á kaf. Geislavirk trén teygja sig til himins eins og þau vilji breiða yfir ummerkin um slysið. Torgið í Pripyat, sem eitt sinn iðaði af lífi, er nú allt úr lagi gengið og gömul skilti sem vísa á veitingahús og bíó hafa skekkst og sum fallið til jarðar. Háar blokkirnar, sem eitt sinn hýstu starfsmenn kjarnorkuversins mega hafa sig allar við að standa uppúr gróðurþykkninu.

En hinu megin við línuna, sem markar bannsvæðið, býr fjöldi fólks í þorpum af ólíkum stærðum. Litlu timburhúsin kúra hvert upp við annað og fólk ræktar garðinn sinn og gripi til að hafa í sig og á. Það er heimilt, en þau mega engar afurðir selja út fyrir svæðið. Á hugann leitar spurningin um „línuna“. Línuna, sem skilur að svæðið sem er óbyggilegt vegna geislavirkni og svæðið hinu megin þar sem fjöldi fólks býr án þess að vera sjálfu sér nógt um nauðsynjar.

Þó 22 ár rúm séu frá slysinu eru áhrif þess enn að koma í ljós.

En stóra verkefnið sem menn standa frammi fyrir er að rífa kjarnaofn 4 og hina þrjá ofnana sem komnir voru í gagnið. Raunar líka ofna nr. 5 og 6, sem standa hálfbyggðir, með byggingakrana trónandi hátt yfir svæðið. Kjarnaofn 4 er undir stálþaki sem reist var til að loka geislunina inni og menn segja að 95% af hinum geislavirka úrgangi sé enn undir þakinu. En okkur var líka sagt að komnar væru sprungur í steypuklumpinn sem ofninn hvílir í, og við sáum að mikil tæring er í þakinu, sem opnar vindum, regni og snjó greiða leið ofan í ofninn.

1997 var stofnaður alþjóðlegur sjóður sem hefur fengið það verkefni að kosta niðurrif kjarnorkuversins. Verkefnið er risavaxið. Fyrst þarf að reisa gríðarlegt hvolfþak yfir ofn nr. 4. Þakið verður reist nokkuð frá ofninum sjálfum, í sleðum sem gera mögulegt að renna því yfir ofninn að smiði þess lokinni. Þakið verður 100 m. hátt, 270 metrar á annan kantinn og 150 á hinn. Kostnaðurinn er stjarnfræðilegur og tímaáætlunin ótrygg. Kannski verður verkinu að fullu lokið 2060. Þá verða 80 ár liðin frá slysinu en geislavirknin verðu enn til staðar, einhvers staðar þar sem við sjáum hana ekki, en móðir jörð finnur fyrir henni. Og fólkið sem hefur allt sitt líf þurft að búa í nábýli við hana finnur fyrir henni.

Það gremjulegasta við þessa vitneskju, sem ég nú hef um Tsérnóbyl slysið, er að stjórnvöld í Hvíta Rússlandi og Úkraínu skuli hafa enn frekari uppbyggingu kjarnorkuvera á prjónunum. Þau sletta í góm og segja: Þetta er alveg öruggt núna; núna erum við búnir að fullkomna tæknina; það verður aldrei aftur Tsérnóbyl!
En það eru ekki bara stjórnvöld í þessum löndum sem eru með fleiri kjarnorkuver í smíðum. Það sama má segja um þjóðir nær okkur, eins og Finna og Pólverja. Í Finnlandi eru m.a.s. áform um að fara að vinna úran úr jarðlögum til að fóðra kjarnorkuverin. Eins og Eystrasaltið sé ekki nógu geislavirkt…..

Nei, við erum ekki örugg! Og við erum langt frá því að vera búin að fullkomna tæknina! Krafan um kjarnorkuvopnalausan heim, sem við undirstrikum með því að koma hér saman í kvöld, er jafnframt krafa um umhverfisvæna orkustefnu fyrir heiminn. Innan hennar rúmast engin kjarnorkuver.

Aldrei aftur Tsérnóbyl!
Aldrei aftur Hiroshima!
Friður fylgi ykkur.

Munu þeir ráðast á Íran?

By Uncategorized

Í dag, 2. ágúst, eru mótmælaaðgerðir víðsvegar um Bandaríkin gegn hugsanlegri innrás í Íran. Sjá nánar vefsíðuna Stop War On Iran. En munu þeir ráðast á Íran? Þórarinn Hjartarson fjallar um þá spurningu hér í þessari grein:

Ofanskráð spurning brennur heitt á þeim sem láta sig heimsfriðinn einhverju skipta. En stóru fréttastofurnar umorða spurninguna að vanda, og spyrja: Eru Íranir að framleiða kjarnorkuvopn og væri það ekki hættulegt heimsfriði? Fólk veit að stóru vestrænu fréttastofurnar (þær litlu íslensku þar með) hafa logið okkur full um Afganistan og Írak enda eru þær eign og málpípur bandarískra og annarra vestrænna heimsvaldasinnaðra auðhringa. Samt lætur fólk alltaf sömu fréttastofur segja sér hver séu helstu vandamálin á heimsvísu í dag. Í Afganistan eru Talíbanar vandamálið. NATO hins vegar stundar þar friðargæslu í bland við þróunarhjálp (sbr. umsagnir utanríkisráðherra Íslands). Í gömlu Júgóslavíu voru það serbneskir þjóðernissinnar sem skilgreindir voru sem glæpamennirnir en NATO kom bara til að stilla til friðar. Í Írak var Saddam og gjöreyðingarvopn hans vandamálið. Nú er helsta hættan tengd kjarnorkuvopnum Írana. Það þarf að verja Evrópu og Bandaríkin fyrir þeim með eldflaugakerfum í A-Evrópu. Og kannski verður nauðsynlegt að sprengja kjarnorkuverin þeirra. Fréttastofurnar mala eins og peningavaldið vill.

Bandaríkin og heimsvaldastefnan
Þetta er hið grátlega: Eftir að hafa hlustað á Bush og hina viljugu fylgismenn hans stunda sinn skítuga málatilbúnað til að réttláta innrás og verða svo berir að lygunum eftir á, heldur fólk áfram að láta sömu aðila skilgreina þau „vandamál“ sem á dagskrá eru. Fólk sér þá ekki að vandamálið mikla eru þessir heimshöfðingjar sjáfir. Mannkynið stendur nú frammi fyrir meiri ógn en áður í 70 ár, jafnvel meiri en nokkru sinni.

Jú, segja margir, Bush er illmenni. En þá kemur næsta viðbára: Það þarf að skipta um stjórnendur. Bush er fífl, en Rice vill raunar vel. Hillary Clinton er þó betri. Og Obama er betri en Clinton. Þetta hlýtur að skána eftir kosningar.

Það er kjaftæði. Það sem fólk hefur ekki látið sér skiljast er að vandinn liggur ekki í brjáluðum stjórnendum heldur í grundvelli kerfisins. Heimsvaldasinnaður kapítalismi byggist á arðráni á heimsvísu. Það eru hans ær og kýr að sveigja efnahagskerfi annarra landa og svæða undir sig og sína hagsmuni. Með mismunandi aðferðum; með aðferðum fríverslunar, með regluveldi (reglur Alþjóðabankans, Heimsviðskiptastofnunarinnar…), eða með aðferðinni að deila og drottna til að veikja andstæðinginn – m.a. að styðja aðskilnaðarsinna: Tsétsena í Rússlandi, Bosníu-múslima eða Kosovo-Albani í Júgóslavíu, Darfúrhérað í Súdan, Tíbet í Kína, Kúrda og Síta umfram Súnnía í Írak, Balúka í Íran – eða þá með beinu innrásarstríði. Sem sagt með illu eða góðu.

Eftir fall Sovétríkjanna hefur dans heimsveldanna haft eftirfarandi sérkenni:

  1. Risaveldið er aðeins eitt. Yfirburðir þess yfir önnur heimsveldi eru gífurlegir, en mestir á hernaðarsviðinu.
  2. Það hefur tekið sér óformlega þá stöðu að sjá um hervarnir fyrir allt heimsvaldakerfið.
  3. Hinar heimsvaldablokkirnar viðurkenna þá stöðu, þó svo að risaveldið noti hana miskunnarlaust til að ota fram eigin hagsmunum og bægja hinum frá.
  4. Hinar heimsvaldablokkirnar eru drifnar áfram af sömu gróðasókn sem er lögmálsbundin í gangverki kapítalismans en hafa ekki sömu möguleika til valdbeitingar. Hugmyndafræðilegur mismunur (sem t.d. ESB-sinnar elska að tala um) er afar lítill en hagsmunirnir eru mismunandi þar sem um keppinauta er að ræða.
  5. Bandaríkin eru hnignandi heimsveldi þrátt fyrir sögulegan sigur á Sovét-blokkinni. Önnur heimsveldi eru smám saman að draga það uppi á efnahagssviðinu. ESB, Kína Japan…
  6. Staðan er að því leyti önnur en t.d. 1930 að þá voru herskáustu heimsveldin (Þýskaland, Japan) ung og landhungruð og í sókn. Nú er hins vegar herskáasta heimsveldið (BNA) gamalt og efnahagsvopn þess hafa sljóvgast. Það minnir á geitung um haust.
  7. Heimsveldin hlýða ennþá Stóra bróður en hagsmunaárekstrarnir vaxa jafnt og þétt.
  8. Um skeið hefur dans heimsveldanna snúist alveg sérstaklega um áhrifin yfir hinni takmörkuðu auðlind, olíubirgðum heimsins. Hnattræn dreifing helstu hernaðarátaka og staðsetning herstöðva BNA sýnir þetta afar skýrt.

Því verður ekki neitað að frá bandaríska valdakerfinu berast nú misvísandi skilaboð gagnvart innrás í Íran. Það er alls ekki að sjá að sú misvísun fylgi hugmyndafræðilegum línum. Leiðandi demókratar standa nú á bak við síharðnandi kosti sem Írönum eru settir. Frú Clinton er t.d. augljóslega haukur gagnvart Íran og í samskiptum Ísraels og Araba. Það er ekki síst innan úr forustu hersins og CIA sem alvarlegar viðvaranir hafa komið. Og mótbárurnar eru greinilega það sterkar að þær koma upp á yfirborðið svo ráðamenn virka reikandi í málinu. Hvernig á að skilja þetta?

Íran og heimsvaldastefna Bandaríkjanna
Þegar veðurútlit er dökkt skimar maður eftir leiðarljósum. Ég ætla að leyfa mér að benda á kanadísku vefslóðina globalresearch.ca. Þar er stunduð mikil umræða um hnattvæðingu og hagsmunabrölt heimsveldanna almennt og brölt BNA sérstaklega, umræða sem hefur komið mér að góðu gagni undanfarið. Ég vil benda sérstaklega á einn skríbent, Michel Chossudovsky, sem lengi hefur skrifað um alþjóðastjórnmál. Árið 1997 vakti hann athygli með skarpri greiningu á hnattvæðingunni í bókinni The Globalization of Poverty: Impacts of IMF and World Bank Reforms. Eftir 2001 hefur hann þó einkum sinnt hagsmunaátökum heimsveldanna og hernaðarstefnu BNA. Strax árið 2002 kom út bókin America’s “War on Terrorism” sem var endurútgefin og uppfærð 2005. Í seinni tíð birtir vefsíðan í sífellu upplýsandi greinar, eftir Chossudovsky og aðra, um stríðin í Afganistan og Írak, og ógnanirnar gegn Íran. Auk ýmislegs viturlegs um bæði efnahagsmál og alþjóðastjórnmál. Með stuðningi af þessum höfundum mætti leggja fram nokkra þætti til greiningar á stöðunni kringum Íran. Verður ráðist inn?

A) Í bókinni America´s “war on terrorism” frá 2002 tengdi Chossudovsky atburðina 11. september 2001 við stefnumörkun nýhægrimannanna kringum Bush og Cheney, m.a. í mikilvægum klúbbi álitsgjafa, „Verkefni fyrir nýju amerísku öldina“, frá árinu 2000. Hann sló þar föstu að „hryðjuverkaógnin“ væri ekki neins konar greining á raunveruleikanum heldur pólitískt slagorð og pólitískt vopn herskárrar heimsvaldastefnu. „Stríð gegn hryðjuverkum“ væri merkimiði fyrir nýja bandaríska stórsókn. Þetta hefur komið æ betur í ljós (um þetta, m.a. túlkanir Chossudovsky, hef ég fjallað í greininni „11. september og „stríðið gegn hryðjuverkum““ hér á Friðarvefnum 8. des. 2007).

B) Um þá togstreitu sem varð meðal heimsvaldasinna í aðdraganda Íraksstríðsins 2002-03 fjallaði Chossudovsky í greininni „The Anglo-American Military Axis“ sem birtist á vefsíðunni þann 10. mars 2003, skömmu fyrir innrásina í Írak. Hann benti fyrst á hvernig bandarískir og breskir olíuhringar og vopnaframleiðsluauðvald hafði þá runnið saman á undangengnum áratug. Síðan greindi hann ástæðurnar fyrir óeiningu heimsveldanna í aðdraganda innrásarinnar. Þar sagði m.a.

    „Fyrirhuguð innrás í Írak er til þess ætluð að bola hinum evrópsku, rússnesku og kínversku hagsmunum frá olíulindunum í Miðausturlöndum og Mið-Asíu. Á meðan BNA á Balkanskaga „deildi molunum“ með Frakklandi og Þýskalandi, í aðgerðum undir verndarvæng NATO og SÞ, er innrásin í Írak til þess gerð að tryggja bandarísk yfirráð en veikja frönsk, þýsk og rússnesk áhrif á svæðinu.“ (globalresearch.ca/articles/CHO303B.html, bls. 1)

Í nýlegri grein bendir Chossudovsky á að BNA hafi náð mikilvægustu markmiðum Íraksstríðsins. M.a. vegna viðskiptabannsins gegn Írak höfðu bandarískir auðhringar verið fjarverandi frá olíunni í Írak fyrir 2003 en keppinautarnir nutu gæðanna. En eftir innrás og 5 ára hernám er þar í landi „spillt nýlenduhagstjórn… sem miðar að beinu afsali eigna- og umráðaréttar heilla þátta hagkerfisins yfir til fáeinna bandarískra auðhringa.“
(Sjá: globalresearch.ca/index.php?context=va&aid=9501)

C) Um hættuna á stríði gegn Íran skrifar Chossudovsky í nýrri grein, frá 4. júlí sl., „Iran: War or Privatization: All Out War or “Economic Conquest”?“ Íranir hafa sett í gang umfangsmikla einkavæðingu ríkisfyrirtækja, m.a. sölu þeirra á erlendan markað, og ýmsir sérfræðingar telja að þetta sé eftirgjöf Írana gagnvart þrýstingi frá BNA. Svo er ekki, segir Chossudovsky. Þessi stefna Írana opnar á umfangsmiklar fjárfestingar þeirra sem þegar eiga fjárfestingar í Íran; Ítalir, Rússar, Þjóðverjar, Kínverjar, Japanir o. fl. Bandarískir fjárfestar eru ekki þar á meðal vegna viðskiptabanns Bandaríkjaþings á Íran frá 1996. Og nú í lok maí var borið fram í bandaríska þinginu frumvarp um að herða mjög á því viðskiptabanni. Frumvarpið verður líklega borið undir atkvæði á næstunni og nái það fram að ganga munu Bandaríkin beita efnahagslegum refsivendi alla þá sem eiga viðskipti við Íran. Chossudovsky telur einmitt að frumvarpið beinist ekki síður að erlendum fjárfestum en að Írönum sjálfum, að það miði einmitt að því að hindra fjárfesta annarra landa í því að hirða stærri hluta af írönsku kökunni en orðið er.

D) Samt er það rétt að misvísandi skilaboð berast nú úr bandarísku efnahags- og valdakerfi gagnvart því hvort stefna skuli að stríði. Í því sambandi bendir Chossudovsky einkum á það að ólíkir þættir bandaríska auðvaldsins hafa ólíka hagsmuni í málinu. Stríð við Íran mundi auðvitað stórlega skaða þungavigtarþætti efnahagslífsins, svo sem borgaralega neyslu- og verslunarhagsmuni sem hafa allan hag af friðsamlegum og opnum viðskiptum við Miðausturlönd og múslimaheiminn. Á andstæða vogarskál leggjast hins vegar afar voldugar efnahagsblokkir eins og olíuauðurinn og auðhringarnir í vopnaframleiðslu og vopnasölu. Chossudovsky er ekki sérlega bjartsýnn og telur að utanríkisstefnan muni enn um sinn stjórnast af sömu öflum, sem beita vilja trompi hernaðarafls og telja að heimsvaldahagsmunir Bandaríkjanna séu undir því komnir, með hjálp þess afls, að skapa sem hreinast bandarískt yfirráðasvæði um öll Miðausturlönd.
(Sjá: globalresearch.ca/index.php?context=va&aid=9501)

Munu þeir ráðast á Íran?
Vitnum nú ekki meira í Chossudovsky en spyrjum enn sömu spurningar: munu þeir ráðast á Íran?

Varðandi frambjóðendurna tvo: Ólíkir frambjóðendur í BNA eru ekki fulltrúar mismunandi hugmyndafræði. Þar kemst enginn langt nema hann sé gulltryggður heimsvaldasinni, enda er ekki lýðræði í BNA. Obama er ekkert minni heisvaldasinni en McCain. Eftir forkosningarnar talar hann æ betur í takt við zíoníska lobbýið og verður almennt herskárri í tali. En bandarísk utanríkisstefna er samt ekki eimreið á teinum sem er alveg óumbreytanleg.

Ýmsir ytri þættir hafa áhrif. Ég nefni baráttu vestrænna friðarhreyfinga. Í Víetnamstríðinu hafði barátta þeirra veruleg áhrif. Áhrif friðarhreyfinga um þessar mundir eru miklu minni, því miður, þó svo að almennur stuðningur við stríðsrekstur í Miðausturlöndum hafi alltaf verið minni en stuðningur við stríð í Indó-Kína.

Annað hefur meiri áhrif, andstaðan í þeim löndum sem ráðist var inn í. Gengi innrásarherjanna í Afganistan og Írak hefur verið heldur slæmt og mannfall í þeim allmikið. Alhliða andstaða við hernámið í þessum samfélögum er harðvítug, pólitísk sem hernaðarleg. Sívaxandi óvild og hatur á Bandaríkjamönnum og stuðningsmönnum þeirra í Miðausturlöndum og öllum múslimaríkjum er flestum ljóst. Þessu reyna bandarískir heimsvaldasinnar í Írak að svara m.a. með því að „balkanísera“ stríðið, framkvæma „hryðjuverk undir fölsku flaggi“, sá fræum ófriðar eins og hægt er milli trúarhópa og vinna skipulega að uppskiptingu Íraks. Ennfremur að leigja út hermennskuna, fá hermannaleigur til aðstoðar, fá snauða Afríkumenn til að berjast upp á kaup o.s. frv. En hið slaka hernaðarlega gengi, og dvínandi pólitísk áhrif, er auðvitað áhyggjuefni öllum heilvita mönnum í BNA, stjórnmálamönnum sem öðrum, og almenningur hefur síst af öllu áhuga á þriðja stríðinu.

Enn einn þátt er alveg nauðsynlegt að nefna. Hizbolla. Ísrael er ætlað meginhlutverk í áformaðri árás heimsvaldasinna á Íran. En nú blasir það æ betur við að Ísrael getur ekki farið sínu fram líkt og áður. Leiftursókn Ísraels inn í Líbanon til að brjóta aftur Hizbolla í júlí 2006 mistókst vegna harðvítugrar og afar vel skipulagðrar mótspyrnu samtakanna. Og tilraun líbanskra stjórnvalda í maí sl. til að beygja undir sig Hizbolla endaði með fullum sigri samtakanna svo nú er viðurkennt að þau eru langsamlega sterkasta stjórnmálaaflið í landinu, ekki aðeins hernaðarlega. Fróðir menn búast ekki við því að Hizbolla muni horfa aðgerðarlaus á Ísrael ráðst með kjarnorkuvopnum á Íran. Nærtækt svar frá Hizbolla væri að ráðast með sprengjuvörpum á Tel Aviv. Í áratugi hafa Ísraelar ráðist ótal sinnum á granna sína, allra oftast á Líbanon, og getað gert það áhyggjulítið, en nú er sú staða breytt. Það er kannski þyngsta lóðið á vogarskálina gegn nýju stórstríði nú um stundir. (Sjá greinina „Why Hezbollah’s Victory may lead to peace in the Middle East“.

Þórarinn Hjartarson