Monthly Archives

April 2008

Per Warming

By Uncategorized

Danski tónlistar- og fræðimaðurinn Per Warming fjallar um tónlist og stjórnmál í Friðarhúsi

Söngvaskáld í Friðarhúsi & Kaírófundur

By Uncategorized

Nýverið kom út vegleg söngbók með norrænum baráttuljóðum, en undirbúningur útgáfunnar hefur staðið í mörg ár. Söngbók þessi var kynnt með glæsilegri dagskrá í Norræna húsinu og víðar.

Danski tónlistarmaðurinn Per Warming var meðal þátttakenda í kynningunni, en auk þess að vera kunnur fyrir tónsmíðar sínar er hann vinsæll fyrirlesari um sögu og þróun róttækra baráttusöngva.

Samið hefur verið um að Per Warming muni koma fram í Friðarhúsi n.k. þriðjudagskvöld, 22. apríl kl. 20 í boði SHA. Þar mun hann falla um baráttusöngva í máli og tónum. Þessu má enginn áhugamaður um tónlist og pólitík missa af!

* * *

Miðvikudagskvöldið 23. apríl kl. 20
munu Rósa Eyvindardóttir og Vésteinn Valgarðsson segja frá ferð sinni á alþjóðlega friðarráðstefnu í Kaíró á opnum félagsfundi SHA. Spurningar og umræður verða að erindi loknu.

Um Kaíró-ráðstefnurnar, sjá: https://fridur.is/antiwar/kairo
5. ráðstefnan 29. mars – 1. apríl 2007
Yfirlýsing 5. ráðstefnunnar

Miðjarðarhafsmatur í Friðarhúsi, 25. ap.

By Uncategorized

Hinn mánaðarlegi fjáröflunarmálsverður Friðarhúss verður haldinn föstudagskvöldið 25. apríl. Matseldin verður að þessu sinni í höndum Systu og er matseðillinn sem hér segir:

* spönsk paella
* tortilla (spönsk karöflueggjakaka)
* brauð með hinu víðfræga gríska taramossalati

Borðhald hefst kl. 19 en húsið verður opnað hálftíma fyrr. Verð kr. 1.500.

Deilt og drottnað í Darfúr og Tíbet

By Uncategorized

eftir Þórarin Hjartarson

„Declare independance“, hrópar Björk í Kína og í Serbíu. Vestrænar fréttastofur hafa hafið mikla herferð til stuðnings við tvær hreyfingar aðskilnaðarsinna: í Tíbet og Darfúr. Þegar stóru fréttastofurnar leggjast í frelsisbaráttu fyrir hönd kúgaðra þjóða er ástæða til að skoða málið nánar og huga að því hvort mjölið sé hreint.

Íhlutanir af „mannúðarástæðum“

Þjóðernisleg barátta, barátta fyrir aukinni sjálfsstjórn eða sjálfstæði er sterkt afl í nútímanum. Víða er um að ræða réttmæta og mikilvæga baráttu frá sjónarmiði þjóðréttar og mannréttinda, stundum forsendu fyrir framförum. Gallinn er sá að ekki nægir að skoða samskipti milli stjórnvalda viðkomandi lands og þeirra þegna sem veita viðnám. Það þarf að skoða afskipti heimsvaldasinna áður en hægt er að taka afstöðu. Á nokkrum undangengnum árum hafa vestrænir heimsvaldasinnar lagst á sveif með vissum þjóðum/þjóðabrotum og kröfum þeirra um aukna sjálfsstjórn og mannréttindi jafnvel aðskilnað og sjáfstæði. Það á við um Serbíu/Kosovo 1999, Afganistan 2001 og Írak 2003. Í öllum tilfellum reyndist þetta vera forleikur innrásar (af „mannúðarástæðum“). Nú eru Tíbet og Darfúr í fókus, og vestrænir fjölmiðlar eru bólgnir af hneykslan yfir meðferð á þessu fólki. Kallað er á hunsun Ólymíuleika í Peking, íhlutun SÞ eða NATO í Darfúr o.s.frv. Hreyfingin „Save Darfur“ á upptök í Bandaríkjunum. Ég réttlæti ekki barsmíðar á mótmælendum í Lasha og ekki réttlæti ég fjödamorð í Dafúr. Ástandið í mannréttindamálum í Afganistan og Írak var líka slæmt – en það batnaði sannarlega ekki með blóðugu árásarstríði.

Það er óhugguleg staðreynd að skoðunum fólks um heim allan er stýrt gengum fjölmiðlakerfi sem er miðstýrðara en dæmi eru um áður í sögunni og ástundar moldviðrisfréttaflutning sem samræmist vestrænum heimsvaldahagsmunum. Og það er ákveðið kerfi í þessu moldviðri. Eitt af því sem fjölmiðlar auðhringanna stunda er að skapa þá goðsögn að styrjaldir nútímans stafi af átökum trúarhópa, öfgamanna og svo dularfullra hryðjuverkamanna. Það er rangt. Langflest átökin má rekja til skipulegra íhlutana heimsvaldasinna sem koma ár sinni fyrir borð gegnum ófriðinn og „friðarumleitanir“.

Heimsvaldakerfið

Heimsvaldastefnan er kapítalismi á stigi fjármagnsútflutnings og arðráns á alþjóðavettvangi. Frá 1991 hefur kerfi heimsvaldastefnunnar verið einpóla; eitt heimsvaldaríki ber höfuð og herðar yfir önnur, einkanlega á hernaðarsviðinu. Síðan þá hefur ekki leyfst mótþrói og meiri hernaði er beitt gegn honum en áður. Risaveldið eina tekur að sér að tryggja arðránskerfi heimsvaldasinna á heimsvísu. Vegna sameiginlegra grundvallarhagsmuna beygja aðrir heimsvaldasinnar sig undir þennan herskjöld og hlýða stóra bróður. Þeir gera það þó misviljugir, og þetta táknar ekki að eining ríki í heimsvaldakerfinu. Fjarri fer því, það er andstætt eðli þess. Nokkur önnur heimsvaldaríki – þau helstu eru ESB (er að verða sambandsríki), Japan og Kína – veita nú Bandaríkjunum mikla efnahagslega samkeppni, og síðastnefnda landið rís nú upp sem helsti keppinautur Bandaríkjanna, og í vaxandi mæli andstæðingur þeirra.

Heimsvaldastefnan er ekki bara stríðsrekstur. Á seinni áratugum hefur hið fjölþjóðlega auðhringavald búið sér til alþjóðlegar stofnanir, sáttmála og reglur sem þvinga fram frelsi fjármagnsins til að flæða yfir öll landamæri í gróðasókninni: Heimsviðskiptastofnunin (WTO), Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gegna lykilhlutverki í því kerfi. Það er hið svokallaða „vestræna frelsi“. ESB er staðbundin auðvaldsblökk, byggð utan um sama fjármagnsfrelsi.

Heimsvaldasinnar hafa fá prinsipp önnur en það að hámarka gróða sinn. Afstaða þeirra í öðrum málum fer eftir því hvað hentar hverju sinni, til dæmis í afstöðu til lýðræðis, afstöðu til mannréttinda, friðar eða til sjálfstæðisbaráttu þjóða. Kaldhæðnin er altæk.

Spilað á sundrungu

Íhlutanir Bandaríkjanna eftir fall Sovétríkjanna hafa beinst að því að veikja og helst sundurlima og lama sjálfstæð ríki sem ekki ganga í takt við bandarískan tónsprota.

Sjálfstæð stefna ríkja gagnvart heimsvaldakerfinu líðst ekki og risaveldið eina lemur slíkt niður. Markmiðið er að breyta mótþróafullum fullvalda ríkjum í „opin svæði“ og koma þar á opnum markaði, „frjálsu flæði“ fyrir auðhringana. Íhlutanirnar og inrásir eftir 1991 hafa alveg sérstaklega þjónað þeirri viðleitni Bandaríkjanna að ná tökum á olíuauðævum heimsins og hafa þess vegna orðið á stöðum sem svara til bandarískra olíuhagsmuna (og breskra sem eru þeim samofnir). Til að veikja viðkomandi ríki – og jafnvel skapa grundvöll fyrir innrás og sundurlimun – er mjög sterkur leikur að auka sundrungu og styrkja aðskilnaðarsinna á svæðinu. „Mótþróafullu“ ríkin sem um ræðir geta einnig verið önnur heimsvaldasinnuð ríki, ríki sem risaveldið vill veikja, svo sem Rússland (gegnum Tétsníu) og Kína (gegnum Tíbet). Tökum helstu dæmin.

1) Bandaríkin og NATO réðust á Júgóslavíu árið 1999 og studdust við aðskilnaðaröflin í Kosovo. Kosovo er nú laust frá Serbíu en er jafnframt er landið orðið að miðstöð evrópskra og bandarískra olíuflutninga auk þess að leggja til land undir Camp Bondsteel, líklega stærstu herstöð Bandaríkjamanna í Evrópu. Sjálfstætt verður landið ekki á næstunni.

2) Bandaríkjamenn studdu fyrst Talíbana til valda í Afganistan en sú stjórn reyndist þeim ekki nógu eftirlát. Landið hafði veikt miðstjórnarvald og voru ýmsir möguleikar á að notfæra sér innri sundrungu þess. Með innrás og hernámi Afganistans 2001 voru tryggðar lindir og flutningsleiðir fyrir olíuna frá svæðunum austan- og sunnanvert við Kaspíahaf til Indlafshafs gegnum Túrkmenistan, Afganistan og Pakistan (gegnum „Evrasíu-ganginn“). Undir yfirskini „stríðs gegn hryðjuverkum“ hafa Bandaríkin komið sér upp nýjum langtímaherstöðvum meðfram væntanlegum olíuleiðslum í Afganistan, Pakistan, Kirgistan og Úsbekistan.

3) Innrásin í Írak gengur vissulega ekki andskotalaust. En með sínar feikilegu ríkisskuldir hafa Bandaríkin illa ráð á að kaupa olíu. Tilgangurinn með að ráðst á Írak var bæði að komast yfir olíuna og lama og sundurlima ríki sem ekki gekk eftir bandarískum takti. Þessi markmið hafa náðst að verulegu leyti. Innrásaraðilinn hefur kappkostað að egna trúarhópum og þjóðarbrotum saman, t.d. með því að veita Kúrdum viss forréttindi, sprengja Gullnu moskuna í Samarra og koma sök á súnnía, gjörnýta blekkingarnar kringum Al-Qaeda o.s.frv. Þessi markmið innrásaraðilans nást þó aðeins með því móti að hernámið verði til frambúðar. Bandaríkin hafa tekið þá stefnu að reka stríðið í auknum mæli með leiguherjum, ekki síst Afríkubúum, til að draga úr óvinsældum þess heima fyrir. Árangur heimsvaldasinna er því vel viðunanlegur. Hvað um Íraka? Talið er að u.þ.b. helmingur Íraka séu nú ýmist særðir, dauðir, flóttamenn eða fólk í hrenni neyð.

d) Hvað er að gerast í Súdan/Darfúr? Þjóðarmorð, segja vestrænar fréttastofur. Aldrei þessu vant er mikill áhugi á baráttu fátæks héraðs fyrir sjálfssforræði. Varðandi Darfúr má benda á að á tíma átakanna þar hafa 10-20 sinnum fleiri fallið á átökum í Kongó án þess að það hafi vakið neina teljandi athygli á vestrænum fréttastofum. Súdan er stærsta land Afríku, þar hefur fundist mikil olía, ekki síst í Darfúr, sem að litlu leyti eru enn nýttar. Landið á auk þess landamæri að olíuríkum löndum Líbýu, Tsjad og svo Rauðahafinu. Hins vegar er það megingalli að vestrænu olíurisarnir, Exxon, Chevron og British Petroleum hafa akki aðgang að olíulindum Súdans. Það eru Kínverjar, helstu viðskiptaaðilar við Súdan, sem stjórna því olíunámi. Olían fór að finnast á 8. áratugnum og eftir að stjórnin í Kartoum fór í samkrull við Kínverja hafa Bandaríkin mokað vopnum í uppreisnaröfl í Súdan og fóðrað borgarastríðið þar. Landið er vissulega sundurleitt og margs konar grundvöllur fyrir átökum, m.a. um vatn, og slíkt kunna heimsvaldasinnar að nota.

Hreyfingin „Save Darfur“ er stjörnum prýdd og hefur að nokkru leyti á sér yfirbragð grasrótarhreyfingar. En frumkvæði hennar kemur samt frá hægriöflunum kringum Bush og hún nýtur alls þess fjárstuðnings sem hún þarf og hún ríður á öldu íslamófóbíu. Og bandarísk stjórnvöld hafa við endurtekin tækifæri lagst gegn friðarviðræðum aðilja borgarastríðsins í Súdan. Sem sagt: hreyfingin „Save Darfur“ hefur margt til að bera að vera undirbúningur undir enn eitt olíustríð heimsvaldasinna.

e) Hvað um mannréttindin í Tíbet? Bandarískir heimsvaldasinnar eru ekki heimskir og þeir vita að Kína stefnir nú fram úr þeim sem iðnveldi. En því sem Bandaríkin hafa tapað á mörkuðum heimsins reyna þeir að ná aftur með því að herða harnaðarlega steinbítstakið sem þeir hafa á þjóðum heimsins. Þau hafa nú sem næst umkringt Kína hernaðarlega. Við vesturlandamærin eru bandarískar herstöðvar í Pakistan, Afganistan, Úsbekistan og Kirgistan. Sunnan og austan við er bandaríski flotinn grár fyrir járnum á Suður-Kínahafi, og Japanshafi og Kóreu og með náið hernaðarsamstarf við Japan. Ef Tíbet losnaði frá Kína gæfi það mikla möguleika.

Hvar sem ólympíukyndillinn fer um blása nú vestrænar fréttastofur á glæður mótmæla gegn óréttlætinu í Tíbet. Margir mótmæla af góðum hug en aðrir, og öflugri, hafa það markmið helst að nota Tíbet-trompið til að veikja Kína. Og það hrífur. Líklega er heilmikil óánægja í Tíbet með mannréttindi og stöðu landsins í kínverska ríkinu. Það vita vestrænir heimsvaldasinnar afar vel, og hvað gera þeir þá? Andspyrnuöflin í Tíbet hafa lengi verið innvikluð í undirróðursbrölt CIA og vestrænna leyniþjónusta. Margt bendir líka til að þessi afmörkuðu mótmæli í Lasha í miðjum mars hafi verið vel skipulögð sýning fremur en grasrótarhreyfing.

Kína er hreint ekki til fyrirmyndar í mannréttindamálum. En það eru Bandaríki Norður-Ameríku ekki heldur. Og þau eru nú árásarhneigðasta ríki heims, og óveðursskýin hrannast upp. Auk þess hafa bandarískir heimsvaldasinnar töglin og hagldirnar í vestrænni fréttamiðlun. Þess vegna skulum við vanda okkur mjög þegar við tökum afstöðu til vestrænna herferða undir yfirskyni mannúðar og réttlætis.

Sjá um Darfúrmálið:
http://www.globalresearch.ca/index.php?context=va&aid=7594

Sjá um Tíbet:
http://www.globalresearch.ca/index.php?context=va&aid=8673
http://www.eggin.is/index.php?option=com_content&task=view&id=762&Itemid=9

Miðjarðarhafsmatur í Friðarhúsi, 25. ap.

By Uncategorized

Hinn mánaðarlegi fjáröflunarmálsverður Friðarhúss verður haldinn föstudagskvöldið 25. apríl. Matseldin verður að þessu sinni í höndum Systu og er matseðillinn sem hér segir:

* spönsk paella
* tortilla (spönsk karöflueggjakaka)
* brauð með hinu víðfræga gríska taramossalati

Borðhald hefst kl. 19 en húsið verður opnað hálftíma fyrr. Verð kr. 1.500.

Varnarmálalög samþykkt – hernaðarhyggjan lögfest

By Uncategorized

f 16 Í gær, 16. apríl, var frumvarp utanríkisráðherra um varnarmálalög samþykkt. Samtök hernaðarandstæðinga sendu utanríkismálanefnd Alþingis ítarlegar athugasemdir við frumvarpið, sjá Friðarvefinn 3. mars.

Í athugasemdum við frumvarpið var sagt að með því væri settur skýr lagarammi um verkefni íslenskra stjórnvalda á sviði öryggis- og varnarmála og aðskilnað þeirra frá öðrum verkefnum stjórnvalda sem eru borgaraleg í eðli sínu, svo sem löggæsla og almannavarnir. SHA og fleiri gagnrýndu frumvarpið fyrir það að með því væri verið að lögfesta hernaðarhyggju og ýmis hernaðarleg verkefni íslenska ríkisins, í því fælist lokaskref til fullrar aðildar Íslands að NATO, í því væri gert ráð fyrir setu Íslands í hermálaráði NATO, reglulegum heræfingum og varnarmálastofnun sem mundi kalla á aukin verkefni til að réttlæta tilveru sína. Þá hefur verið gagnrýndur sá kostnaður sem gert er ráð fyrir. Heildarkostnaður Varnarmálastofnunar fyrir árið 2008 áætlaður í kringum 1.350 m.kr., en samtals er kostnaðurinn vegna þessa málaflokks 1.550 milljónir króna.

Sjá lagafrumvarpið, umræður á Alþingi og nýsamþykkt lög:
http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=135&mnr=331