Monthly Archives

November 2007

Ályktun um utanríkis- og öryggismál

By Uncategorized

Friðarvefnum hefur borist eftirfarandi ályktun frá Kjördæmisráði Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi:

Aðalfundur Kjördæmisráðs Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi haldinn 17.11.07 leggur áherslu á að Íslandi marki sér sjálfstæða utanríkisstefnu og því aðeins eigi landið erindi inn í Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna að það notfæri sér möguleika sína til frumkvæðis í friðar- og afvopnunarmálum.

Möguleikar okkar hvíla á sögulegum, menningarlegum og landfræðilegum grunni.

Fundurinn lýsir fullum stuðningi við lýðræðislegt samstarf allra ríkja, sem liggja að Norður-Íshafi á þeim grunni, sem Norðurlandaráð er að móta.

Fundurinn hafnar því að hægt sé að tryggja heimsfrið með hervaldi og hótunum og bendir á að fjárráðstöfun í Íraksstríðið, sem ekki sér fyrir endann á og háð er með samþykki fyrrum ríkisstjórnar Íslands, er margfalt meiri en öll aðstoð sömu þjóða til þróunaraðstoðar.

Fundurinn telur einu raunhæfu leiðina til að sporna gegn útbreiðslu gereyðingarvopna að allar þjóðir, sem yfir þeim ráða geri heiminum (Sameinuðu Þjóðunum) grein fyrir sínum birgðum og leggi fram áætlun um eyðingu þeirra undir gagnkvæmu eftirliti.

Fundurinn harmar að núverandi utanríkisráðherra Íslands skuli hafa gert þjóðinni þá smán að semja um aukin hernaðarumsvif á Íslandi frá mörgum grannríkjum okkar þegar létt hafði verið af landinu óværu bandarísks hers. Þeim fjármunum sem verja á í tilgangslausar og varasamar hernaðaræfingar hér á landi væri betur varið í að efla borgaralega björgunarstarfsemi, almannavarnir, styrkja björgunarsveitir, efla varnir gegn mögulegum mengunarslysum á hafinu og þar fram eftir götunum. Með uppsögn herverndarsamningsins svokallaða og úrsögn úr NATÓ jukust stórlega möguleikar Íslands til forystu í friðarmálum á heimsvísu.

Loks krefst fundurinn þess að liðsafli Íslendinga verði kallaður heim frá Afganistan og þátttaka Íslands í friðargæsluverkefnum verði endur skipulögð og byggi eftirleiðis alfarið á borgaralegum grunni án nokkurra tengsla við hernaðarstarfsemi.

Hver eru grunngildin?

By Uncategorized

ReykjavíkurAkademían blæs til umræðufundar þriðjudaginn 20. nóvember kl. 17-19.

Umræðuefnið er „grundvallargildi samfélagsins“ í ljósi þess að lögreglan óskaði eftir að Miriam Rose, sem hefur tekið þátt í mótmælaaðgerðum Saving Iceland hópsins, yrði vísað úr landi. Röksemd lögreglunnar var að hún hefði brotið gegn grundvallargildum samfélagsins.

Framsögu hefur Miriam Rose og mun hún lýsa málinu frá sinni hlið og greina frá hver hún telur íslensk grunngildi vera.

Á eftir framsögu hennar verða pallborðsumræður. Þar verða Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Viðar Þorsteinsson heimspekingur.

Nánari upplýsingar um fundinn veitir Viðar Hreinsson, framkvæmdastjóri ReykjavíkurAkademíunnar í síma 562 8565 / 844 8645

ReykjavíkurAkademían er til húsa í JL-húsinu, Hringbraut 121, 4. hæð.

http://www.akademia.is/frett.aspx?fid=398

Félagsfundur MFÍK, 14. nóv.

By Uncategorized

dufaOpinn félagsfundur MFÍK miðvikudaginn 14. nóvember kl. 19

Alfífa Ketilsdóttir og Halla Gunnarsdóttir tala um Íran en þær eru nýlega komnar þaðan.

Léttur kvöldverður seldur í upphafi fundar
– listakokkurinn Veróníka S.K. Palaniandy (Rúbý) eldar.

Félagar í Samtökum kvenna af erlendum uppruna (WOMEN) eru sérstaklega boðnar velkomnar á fundinn.
Fundurinn er öllum opinn

Alþingi: munnleg skýrsla utanríkisráðherra og fyrirspurn um friðargæsluna

By Uncategorized

Fimmtudaginn 8. nóvember flutti utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, munnlega skýrslu á Alþingi og í kjölfarið voru umræður um hana. Skýrsluna og umræðurnar má nálgast á vef Alþingis: www.althingi.is/altext/135/11/l08103008.sgml
Skýrsluna er líka að finna á vef utanríkisráðuneytisins.

Miðvikudaginn 7. nóvember voru umræður á Alþingi um fyrirspurn þingmannanna Steingríms J. Sigfússonar og Ögmundar Jónassonar um íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í starfsemi NATO, m.a. í Afganistan. Fyrirspurnina og umræður um hana má nálgast á vef Alþingis: www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=135&mnr=74

Vígvæðing í fjárlögum?

By Uncategorized

katrinjakobsdottir eftir Katrínu Jakobsdóttur alþingismann

Eftirfarandi grein birtist í 24 stundum 9. nóvember

Í gær var umræða um utanríkismál á Alþingi. Utanríkisumræða á Íslandi hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum – ekki síst eftir að bandaríski herinn hvarf úr landi en hann hefur veirð eins konar tákngervingur hernaðarhyggju í heiminum. Staðreyndin er hins vegar sú að brotthvarf hersins hafði ekki í för með sér neina stefnubreytingu í átt til friðar. Þvert á móti er ætlunin nú að auka útgjöld og umsvif Íslendinga á hernaðarsviðinu.

Í nýju frumvarpi til fjárlaga í kafla um utanríkismál er að finna nýjan útgjaldalið undir yfirskriftinni Varnarmál. Þessi liður er upp á rúman hálfan milljarð – eða 533,8 milljónir króna. Þessir peningar eiga að fara í heræfingar á Íslandi, kostnað við slíkar æfingar og uppihald hermanna sem hingað koma. Fyrir þessa fjárhæð mætti fimmfalda fjárframlög til fullorðinsfræðslu í símenntunarmiðstöðvum landsins og öll myndi fjárhæðin duga til að greiða fyrir allt háskólanám í Listaháskóla Íslands, svo handahófskennd dæmi séu tekin úr fjárlagafrumvarpinu. Ef við viljum nýta þessa fjármuni til utanríkismála er auðvelt að finna uppbyggilegri verkefni. Þannig mætti enn bæta fjármunum við til Þróunarsamvinnustofnunar en þessi fjárhæð nemur um þriðjungi af framlaginu til hennar.

Þá er vandséð hvaða tilgangi þessar æfingar þjóna en þær eru réttlættar með því að þannig uppfyllum við skyldur við veru okkar í Atlantshafsbandalaginu. Að auki kostar sjálf NATÓ-aðildin rúmlega 65 milljónir króna. Við þetta er því að bæta að í fjáraukalagafrumvarpi fyrir 2007 er líka óskað eftir 152 milljónum króna fyrir öryggissvæði við Keflavíkurvöll og 200 milljónum króna í loftflutninga fyrir Atlantshafsbandalagið án þess að gerð sé frekari grein fyrir því. En er ekki réttast að setja spurningamerki við veru okkar í Atlantshafsbandalaginu? Er ástæða fyrir Ísland til að taka þátt í hernaðarbandalagi – sem hefur þanist út á undanförnum árum og sýnir í meira hernaðarlegt frumkvæði í stað þess að sinna vörnum eingöngu?

Á sama tíma og vaxandi fjármunum er eytt í heræfingar ber sífellt meira á vígvæðingu borgaralegra verkefna. Nægir þar að nefna íslensku friðargæsluna sem ætlunin er að gegni borgaralegum verkefnum en er eigi að síður á átakasvæðum Afganistan og liðsmenn hennar bera hefðbundna hertitla. Að sama skapi er stöðugt verið að tengja einstakar deildir lögreglunnar og björgunarsveita við hernaðaraðgerðir, t.d. með þátttöku þeirra í heræfingum. Þessi þróun er varhugaverð, sérstaklega í ljósi þess að ýmis færi eru á að taka aðra stefnu í utanríkis- og varnarmálum.

Ekki tel ég að neinn einn beri ábyrgð á þessari vígvæðingu. Kerfi á borð við utanríkisþjónustuna hafa tilhneigingu til að þenjast út á sjálfvirkan hátt. Þess vegna þarf að taka markvissa ákvörðun um stefnubreytingu. Stjórnmálamenn þurfa að sýna kjark og þor til að hugsa út fyrir ramma kerfisins.

Ef sömu fjármunir væru lagðir til friðar í heiminum og lagðir eru í stríðsrekstur væri líklega gott að lifa. Ef sama framboð væri á menntun í friðarfræðum og menntun í hernaðarfræðum væri það framfaraskref fyrir heiminn. Því miður er friður ekki jafn arðvænleg vara og stríð – það sést á þeim mikla vopnasölumarkaði sem blómstrar í heiminum. Vopnasalar á borð við þá sem heimsóttu Ísland á dögunum eru fyrirtæki sem ekki aðeins hagnast á eymd annarra heldur kynda beinlínis undir ófriði í heiminum til að ýta undir eftirspurn eftir framleiðsluvöru sinni. Þess vegna þarf að berjast gegn vopnasölu og braski um allan heim.

Ísland hefur einstakt tækifæri til að taka sér stöðu með friðelskandi þjóðum þessa heims, vinna markvisst gegn vopnabraski, heræfingum og stríðsleikjum – og taka um leið frumkvæði í að efla frið í heiminum.

Borgarstjórnarflokkur Vinstri grænna ályktar um heimsókn vopnasala

By Uncategorized

Vegna frétta undanfarinna daga um fund æðstu yfirmanna vopnaframleiðslufyrirtækisins BAE Systems vill borgarstjórnarflokkur Vinstri grænna koma því á framfæri að hann harmar að Reykjavík sé með þessum hætti gert að vettvangi fundarhalda stjórnenda í þessum ógeðfellda iðnaði. Minnt er á að BAE Systems er stærsti vopnaframleiðandi Evrópu og einn sá stærsti í heimi. Fyrirtækið er þekkt fyrir að selja vopn til ríkja þar sem takmörkuð virðing er borin fyrir lýðræði og mannréttindum og má þar einna helst nefna Sádi-Arabíu og Indónesíu. Fyrirtækið hefur sömuleiðis setið undir ásökunum um stórfelldar mútugreiðslur til stjórnmálamanna og einræðisherra víða um lönd í tengslum við vopnasölusamninga.

Borgaryfirvöld hafa á síðustu misserum viljað kynna Reykjavík sem miðstöð friðar og má í því sambandi nefna Friðarsúlu Yoko Ono sem sett var upp í Viðey á dögunum. Fundir og kaupstefnur vopnaframleiðenda geta ekki samrýmst því markmiði og sömu sögu má raunar segja um ráðstefnur á borð við þá sem hernaðarbandalagið NATO hélt hér nýverið.

Borgarstjórnarflokkur VG minnir sömuleiðis á andstöðu Vinstri grænna við heræfingar í borgarlandinu og “kurteisisheimsóknir” herskipa í hafnir Reykjavíkur.

Sjá www.vg.is

Landsráðstefna SHA – 24. nóv.

By Uncategorized

Ákveðið hefur verið að halda landsráðstefnu SHA laugardaginn 24. nóvember í Friðarhúsi. Dagskráin verður kynnt síðar, en friðarsinnar hvattir til að taka daginn frá.

Á fundinum verður m.a. kjörin ný miðnefnd og er öllum félagsmönnum heimilt að bjóða sig fram á fundinum, þó eru áhugasamir hvattir til að láta af sér vita í tíma, enda uppstillingarnefnd að störfum. Netfangið er sha@fridur.is

Ungliðar álykta gegn fundi vopnaframleiðenda

By Uncategorized

Ályktun aðalfundar Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði 3. nóvember:

Ungir jafnaðarmenn í Hafnarfirði harma fund stríðsmangaranna í breska vopnaframleiðslufyrirtækinu BAE Systems á Hilton-Nordica-hótelinu. Þetta fyrirtæki hefur hiklaust selt vopn til allra handa einræðis- og kúgunarstjórna. Má þar nefna sölu á svonefndum Hawk-herþotum til Zimbabwe sem notaðar voru í hinu hörmulega borgarastríði í Kongó, sem og sölu á sams konar þotum til Indónesíustjórnar sem beitt var í þjóðarmorðinu á Austur-Tímor. Það er einstaklega óviðeigandi að þessir menn skuli funda hér í ljósi þess að nýlega var sett upp minnismerki í Reykjavík um hinn mikla og einlæga friðarsinna John Lennon. UJH hvetja til þess að framvegis verði komið í veg fyrir allar ráðstefnur vopnaframleiðenda hér á landi með sama hætti og komið var í veg fyrir ráðstefnu klámframleiðenda fyrr á árinu. Þá krefjast UJH sem endranær tafarlausrar úrsagnar úr kjarnorkuvopnabandalaginu NATO.

Sjá www.mir.is

Ályktun stjórnar Ungra vinstri-grænna 1. nóvember:

Ung vinstri-græn lýsa fulltrúa BAE Systems, eins stærsta stríðstólaframleiðanda heims, óvelkomnna hingað til landsins og biðja þá vinsamlegast að hverfa af landi brott og leggja niður iðju sína.

Afkoma BAE og starfsmanna þess ræðst af eftirspurn eftir manndrápum í heiminum enda framleiðir fyrirtækið tól sem eru sérhönnuð til þess að drepa fólk. Með því að framleiða slík tól stuðla BAE og aðrir hergagnaframleiðendur að manndrápum í heiminum, ekki hvað síst á óbreyttum borgurum. Ung vinstri-græn telja því starfsemi slíkra fyrirtækja óréttlætanlega með öllu.

Ung vinstri-græn hvetja lögregluyfirvöld til að fylgjast vel með og rannsaka hvort einhver lögbrot eigi sér stað á ráðstefnunni sem nú stendur yfir. Þá eru allir, sérstaklega eigendur og starfsfólk Hótel Hilton Nordica, hvattir gera sitt til þess að koma í veg fyrir að forsvarsmenn BAE geti stundað þá iðju sína að þróa og selja vopn sem ætluð eru til manndrápa víða um heim.

Ung vinstri-græn minna á að nýlega var afhjúpuð friðarsúla í Viðey og að í því samhengi var rætt um að Reykjavík yrði friðarhöfuðborg heimsins. Á meðan stríðstólaframleiðendur funda óáreittir í Reykjavík er ljóst að allt slíkt tal er hræsni. Ung vinstri-græn telja að réttast væri að slökkva á friðarsúlunni, að minnsta kosti á meðan stríðstólaframleiðsla er skipulögð í borginni.

Sjá: www.vinstri.is

Ályktun frá SHA vegna vopnasalafundar

By Uncategorized

Samtök hernaðarandstæðinga gagnrýna harðlega fund stjórnenda vopnaframleiðslufyrirtækisins BAE Systems í Reykjavík. Vopnaiðnaðurinn er án nokkurs vafa óviðfelldnasta atvinnugrein samtímans. Fyrirtæki á borð við BAE byggja afkomu sína á stríðsreksti og blóðsúthellingum. Hendur þeirra manna sem nú funda á Hilton-hótelinu við Suðurlandsbraut eru litaðar blóði og heimsóknir slíkra manna til Íslands eiga ekki að líðast.

Samtök hernaðarandstæðinga hvetja alla landsmenn til að senda framleiðendum og sölumönnum drápstóla skýr skilaboð: þeir eru ekki og munu ekki verða aufúsugestir hérlendis.