Monthly Archives

May 2007

Alþjóðleg ráðstefna í Prag gegn hervæðingu Evrópu

By Uncategorized

Síðastliðinn laugardag, 5. maí, var haldin í Prag alþjóðleg ráðstefna gegn hervæðingu Evrópu. Tékkneskir hernaðarandstæðingar höfðu frumkvæði að þessari ráðstefnu en tilefnið var áform um að setja upp aðstöðu fyrir gagneldflaugakerfi á vegum Bandaríkjanna í Tékklandi og Póllandi. Þessi áform hafa verið nokkuð í fréttum að undanförnu og m.a. var í fréttum Ríkissútvarpsins spurt hvort í aðsigi væru nýtt kalt stríð og vísað til viðbragða ríkisstjórnar Rússslands við þessum áformum, viðbrögðum sem birtast í yfirlýsingu um að afvopnunarsamningur um hefðbundinn herafla í Evrópu frá 1990 sé úr gildi fallinn. Um þetta var fjallað hér á Friðarvefnum 3.maí sl.

Við birtum hér að neðan yfirlýsingu ráðstefnunnar í lauslegri þýðingu. Frumtextann má nálgast hér: Prag declaration.

Sjá einnig www.prague-declaration.org

Prag-yfirlýsingin

gerð af þátttakendum á alþjóðlegri ráðstefnu gegn hervæðingu Evrópu

Friðurinn þarfnast ekki nýrra eldflauga – við höfnum gagnflaugakerfi í Evrópu

Andspænis nýjum hernaðaráætlunum Bandaríkjanna um að hefja viðræður við ríkisstjórnir Tékklands og Póllands þann 10. maí lýsum við undirrituð yfir:

Við mótmælum áætlunum ríkisstjórnar Bush um að setja niður „staðbundið gagnflaugakerfi“ fyrir Bandaríkin innan landamæra Tékkneska lýðveldisins og Póllands. Meirihluti íbúa Tékklands og Póllands sem og annarra landa Evrópu hafna áætlunum um að hýsa þetta kerfi. Við höfnum opinberum röksemdafærslum sem gefnar eru fyrir þessu gjöreyðingavopnaverkefni sem einskærum fyrirslætti.

Öryggi verður ekki tryggara þótt þessar áætlanir verði að veruleika. Þvert á móti – þær munu valda nýjum hættum og öryggisleysi.

Þótt þær séu sagðar vera í „varnarskyni“ munu þær í raun auðvelda Bandaríkjunum að ráðast á önnur lönd án þess að þurfa að óttast að verða svarað í sömu mynt. Þær munu einnig setja „gisti“löndin í framlínu í framtíðarstyrjöldum Bandaríkjanna.

Ríkisstjórnir Póllands og Tékklands skeyta því engu að með þessu skapa þær hættu á nýju vígbúnaðarkapphlaupi með því að setja í uppnám alþjóðlega sáttmála um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna og um eftirlit með hefðbundnum vopnum um allan heim, en sérstaklega í Evrópu.

Það sem við virkilega þörfnumst nú er afvopnun til að búa í haginn fyrir friði og raunverulegu öryggi mannkyns. Gagnvart yfirvofandi hættuástandi í umhverfismálum þörfnumst við alþjóðlegrar samvinnu og trausts, ekki ögrunar og átaka.

Friðarsinnar, baráttumenn fyrir lýðræði og frelsi, kvennahreyfingar, umhverfishreyfingar, verkalýðsfélög og baráttumenn með trúarlegan bakgrunn verða að taka höndum saman í andspyrnu sinni gegn þessari viðleitni til að setja Evrópulöndin hvert upp á móti öðru. Við lítum á mótmæli okkar sem hluta af alþjóðlegri hreyfingu gegn erlendum herstöðvum og öðrum búnaði til notkunar í árásarstríði. Þetta er framlag til að skapa frið í Evrópu og um allan heim og til að styðja samfélagið í sínum smæstu einingum við að sýna samstöðu og verja rétt sinn og tryggja opinbert hlutverk sitt.

Evrópusambandið og NATO mega ekki taka þátt í þessu nýja hernaðarævintýri Bush-stjórnarinnar. Friður er okkar mikilvægasta verkefni.

Við krefjumst þess af þeim sem ábyrgir eru í Evrópusambandinu, sérstaklega Klaus forseta og Kaczynski forseta, að hlusta á vilja almennings í Evrópusambandinu. Við krefjumst þess að þeir hegði sér lýðræðislega og leyfi bindandi almenna atkvæðagreiðslu um þróun gjöreyðingarvopna í löndum sínum.

Við höfnum af fullri alvöru hverskyns viðleitni til að ljá áætlunum Bandaríkjanna lögmæti gegnum bak dyr ákvarðanatöku á vettvangi NATO og Evrópusambandsins. Af mismunandi þjóðerni og með fjölbreyttan bakgrunn áköllum við ykkur: Tökum höndum saman til að gera allt sem í okkar valdi stendur til að forða Evrópu frá því að verða svið nýs vígbúnaðarkapphlaups og ófriðarstefnu.

Við heitum á alla að taka þátt í mótmælaaðgerðum og tala við eða skrifa kjörnum fulltrúum sínum, ráðherrum og þjóðhöfðingjum og segja þeim að við viljum ekki nýja ófriðarstefnu og að þetta verði munað við kjörkassann.

Þáttakendur í Alþjóðlegri ráðstefnu gegn hervæðingu Evrópu,

Prag, 5. maí 2007

(sjá undirskriftir í frumtexta)

Undirskriftasöfnun til að enda martröðina

By Uncategorized

Eftir innrás Bandaríkjanna og fleiri ríkja í Írak 2003 var settur upp dómstóll í anda Russell-dómstólsins sem heimspekingurinn Bertrand Russell hafði frumkvæði að árið 1967 til að rannsaka stríðsglæpi Bandaríkjanna í Víetnam. Í kringum Íraks-dómstólinn voru mynduð samtök með aðsetur í Brussel og kölluð BRussell dómstóllinn (Sjá nánar BRussells Tribunal).

BRussell-dómstóllinn hefur hafið söfnun undirskrifta undir áskorun til bandarískra og breskra stjórnvalda. Í áskoruninni er bent á það hörmungarástand sem ríkir í Írak og að innrásin hafi brotið í bága við alþjóðalög og nauðsynlegt sé að það sé rannsakað. Settar eru fram tvær kröfur:

Semjið við andstöðuna!
Refsið fyrir glæpina!

Fyrst til að skrifa undir áskorunina voru Denis Halliday og Hans von Sponeck fyrrum aðstoðarmenn framkvæmdarstjóra Sameinuðu þjóðanna í Írak og Margarita Papandreou fyrrum forsetafrú í Grikklandi.

Nánari upplýsingar og form til að setja sig á undirskirftalistann er hér.

Pétur Pétursson. Kveðja frá SHA

By Uncategorized

Samtök hernaðarandstæðinga minnast með virðingu Péturs Péturssonar sem borinn var til hinstu hvílu í dag og senda aðstandendum hans samúðarkveðjur. Pétur var alla tíð heitur andstæðingur erlendrar hersetu á Íslandi og meðal þeirra sem hófu baráttuna gegn herstöðvum Bandaríkjamanna hér. Með honum er nú genginn hinn síðasti af þeim sem skrifuðu undir „Ávarp um þjóðareiningu gegn her á Íslandi“ árið 1953. Pétur kom á landsráðstefnu SHA árið 2003 og rifjaði þetta upp.

Í ávarpinu var lögð áhersla á:

Að skipuleggja samstarf allra þeirra landsmanna sem hafa lýst sig andvíga her í landi.

Að blása lífi í allsherjar þjóðernisvakningu, sem hafi á stefnuskrá sinni endurheimt réttinda úr höndum hersins og íslenzkra forsvarsmanna hans.

Að ræða eftirgreind atriði:

a) lagalegt gildi herverndarsamningsins.

b) þjóðhættulega afleiðing þess, að Ísland gerðist aðili Atlantshafssáttmálans.

c) árekstra milli hermanna og Íslendinga.

Að gagnrýna alla þá, sem eru eða gerast kunna forsvarsmenn hers á Íslandi.

Að kynna þjóðinni þá hættu, sem sjálfstæði Íslands stafar af hernaðarlegum samningum, sem Ísland gerist aðili að.

Að kynna þjóðinni réttleysi Íslands til skaðabóta ef andstæðingar Bandaríkjanna sigra í styrjöld, sem háð kann að verða umhverfis Ísland eða í landinu.

Að krefjast þess, að forystumenn þjóðarinnar haldi Íslandi utan við hernaðarleg átök stórveldanna, hver sem í hlut á.

Við væntum þess að allir Íslendingar sameinist í þessu mikilvæga þjóðernismáli.

Þetta var undirritað:

Með vinsemd, Reykjavík, 8. apríl 1953.

Aðalbjörg Sigurðardóttir, frú
Einar Gunnar Einarsson, lögfræðingur.
Guðjón Halldórsson, bankaritari.
Gísli Ásmundsson, kennari.
Gunnar J. Cortes, læknir.
Gunnar M. Magnúss, rithöfundur.
Jón Þórðarson frá Borgarholti.
Marinó J. Erlendsson, afgreiðslumaður.
Ólafur Jóh. Sigurðsson, rithöfundur.
Pétur Pétursson, útvarpsþulur.
Sigríður Eiríksdóttir, hjúkrunarkona.
Skarhéðinn Njálsson, verkamaður.
Þórarinn Guðnason, læknir.
Þorsteinn Björnsson, fríkirkjuprestur.
Þórunn Elfa Magnúsdóttir, rithöfundur.

Opinn félagsfundur MFÍK

By Uncategorized

Fundurinn hefst með sameiginlegu borðhaldi.
Listakokkurinn Ruby (Veróníka S.K. Palaniandy) mun sjá um matseldina ásamt Ragnhildi Kjeld.
Að borðhaldi loknu mun María S. Gunnarsdóttir segja frá þátttöku MFÍK í Ráðstefnu Alþjóðasamtaka lýðræðissinnaðra kvenna sem haldin var í Caracas í Venesúela í apríl.
Allir friðarsinnar velkomnir.

Hverju svara stjórnmálaflokkarnir? – II. hluti, Ísland og NATO

By Uncategorized

no natoÍ aðdraganda Alþingiskosninga 2007 sendi miðnefnd SHA spurningalista til íslensku stjórnmálaflokkanna, þar sem þeir voru inntir eftir afstöðu sinni til öryggis- og friðarmála. Ekki bárust svör frá Sjálfstæðisflokki og Frjálslyndum.

1. Spurning
Hver er afstaða framboðsins til veru Íslands í Nató eða öðrum hernaðarbandalögum? Er framboðið hlynnt eða andvígt úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu?

Svar Framsóknarflokksins (Sæunn Stefánsdóttir, ritari Framsóknar, svaraði fyrir hönd flokksins):

Framsóknarflokkurinn er hlynntur veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu. Bandalagið hefur stækkað ört á síðustu árum og tekið að sér verkefni sem stuðla að friði og öryggi. Framsóknarflokkurinn vill efla þátttöku Íslands í borgaralegum verkefnum á vegum bandalagsins, sem eru síst viðaminni en þau hernaðarlegu.

Svar Íslandshreyfingarinnar:
Íslandshreyfingin – lifandi land er andvígt úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu. Aðild að alþjóðasamtökum sem tryggja frið og öryggi fyrir aðildarlönd er nauðsynleg smáríkjum. Aðild að Atlantshafsbandalaginu tryggir líkt og varnarsamningurinn við Bandaríkin öryggi landsins og gerir Íslandi kleyft að hafa rödd í varnarsamstarfi þjóða við norðanvert Atlantshaf. Þó er nauðsynlegt að Ísland sem aðildarríki sé í fararbroddi þeirra ríkja innan NATO sem vilja fara varlega í friðargæslu bandalagsins utan Evrópu og má þar nefna friðargæslu þess í Afganistan sem gæti reynst því skeinuhætt.

Svar Samfylkingarinnar:

Við erum hlynnt veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu.

Svar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs:

Vinstrihreyfingin – grænt framboð er eindregið fylgjandi úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu (NATO) og hefur það á stefnuskrá sinni að Íslandi standi utan hvers kyns hernaðarbandalaga. Það er grundvallaratriði í hugmyndafræði Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs að hernaðarbandalög ýti frekar undir ófrið og átök en að sporna gegn slíku. Mannkynssagan er vörðuð dæmum um slík bandalög sem mögnuðu upp spennu, leiddu til baráttu um áhrif utan bandalagsríkjanna sjálfra og ýttu undir vígbúnaðarkapphlaup af einhverjum toga. Þær kröfur sem NATO gerir nú til nýrra aðildarríkja í Mið- og Austur-Evrópu um útgjöld til vígvæðingar eru áhyggjuefni, bæði vegna áhrifanna á alþjóðastjórnmál og lífskjör íbúanna, sem glíma í sívaxandi mæli við fátækt og hafa víða ekki aðgang að grundvallarþjónustu í heilbrigðismálum.

Þá verður ekki litið framhjá þeirri óheillavænlegu breytingu sem orðið hefur á eðli NATO frá því á dögum ógnarjafnvægisins sem ríkti fram um 1990. Það hefur í seinni tíð gengið fram sem árásargjarnt hernaðarbandalag, fyrst á Balkanskaga og síðan í Afganistan, þar sem það tók beinlínis við ábyrgð á hernaðinum af Bandaríkjastjórn.

Hitt hefur því miður ekki breyst að NATO áskilur sér enn þann dag í dag rétt til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði í átökum, og sýnir það kannski betur en flest annað hversu úrelt, óþarft og beinlínis hættulegt þetta hernaðarbandalag er – bæði sjálfu sér og öðrum.

Rússar og NATO í nýtt kalt stríð?

By Uncategorized

natoexpansion Rússar og NATO í nýtt kalt stríð? Þetta er fyrirsögn á fréttasíðum Textavarps Ríkisútvarpsins í dag. Tilefnið er að Rússlandsstjórn sagðist í dag ekki ætla að tilkynna aðildarríkjum NATO né öðrum ríkjum um herflutninga innan eigin landamæra, eins og kveðið er á um í afvopnunarsamningi um hefðbundinn herafla í Evrópu frá 1990, og Pútin, forseti Rússlands, hefur tilkynnt að afvopnunarsamningurinn sé úr gildi fallinn.

Þetta er svar við ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að koma fyrir gagnflaugakerfi í Tékklandi og Póllandi. Pútín segir flaugarnar vera beina ógn við þjóðaröryggi Rússlands en Bandaríkjastjórn segir tilganginn að verjast hryðjuverkamönnum og ríkjum eins og Íran.

Þetta gerist á sama tíma og Rússar gagnrýna eistnesk stjórnvöld harðlega og hafa stöðvað útflutning á olíu og kolum til Eistlands umdeilds vegna flutnings á minnismerki í Tallín um sovéska hermenn í seinni heimstyrjöldinni.

Rússum ögrað
Það er auðvitað stóralvarlegt mál ef Rússar tilkynna það að afvopnunarsamningurinn frá 1990 sé fallin úr gildi. En eins og fram kemur í frétt RÚV hefur þetta sinn aðdraganda. Í rauninni hafa Rússar mátt sætt sig við ótrúlega ögrun af hendi Bandaríkjanna og NATO undanfarinn áratug. NATO hefur stækkað til austurs, frá því 1999 hafa tíu fyrrverandi austantjaldslönd gengið í NATO, þar á meðal þrjú fyrrverandi Sovétlýðveldi, og þrjú eru í inngönguferli. Tvö fyrrum Sovétlýðveldi, Úkraína og Georgía, eru í ferli sem miðar að inngöngu í NATO, þótt ekki sé enn um beinar aðildarviðræður að ræða, og önnur fjögur, Aserbaídsjan, Armenía, Kasakstan og Móldóva, hafa samstarf við NATO sem er þróað áfram með formlegum hætti.

Þá hafa Bandaríkin margvíslegt hernaðarlegt samstarf við þessi ríki, þar á meðal herstöðvar eða aðra hernaðarlega aðstöðu. Hér er auðvitað gífurleg breyting frá tímum kalda stríðsins þegar öll Austur-Evrópa var milli NATO og Sovétríkjanna. Nú er NATO komið upp að landamærum Rússlands norðan við Hvíta-Rússland og með náið samstarf við nágrannaríki Rússlands þar fyrir sunnan og austan, í sumum tilvikum með stefnu þeirra á aðild. Rússland hefur dregið allt herlið sitt út úr gömlu austantjaldsríkjunum og mörgum fyrrum Sovétlýðveldum og er að draga það út úr öðrum, en um leið og jafnvel áður koma NATO og Bandaríkin með sitt herlið eða hernðarráðgjafa í staðinn.

Árið 2002 sögðu Bandaríkin einhliða upp ABM-samningnum frá 1972 um takmörkun gagnflaugakerfa, samning sem þótti mjög mikilvægur í afvopnunarviðleitninni, og síðan hafa Bandaríkin verið að byggja upp gagnflaugakerfi í samráði við NATO og eru m.a. að koma upp aðstöðu fyrir gagnflaugar í Póllandi og Tékklandi.

En það er ekki nóg með að NATO hafi stækkað upp að landamærum Rússlands, NATO er líka farið að starfa utan síns svæðis, sem það gerði ekki á tímum kalda stríðsins, fyrst á Balkanskaganum á tíunda áratugnum, gerði síðan innrás í Júgóslavíu gegn vilja Rússa 1999 og stendur svo í hernaði í Afganistan og Írak auk ýmiskonar annarrar starfsemi.

Rússum er boðið upp á ýmiskonar samstarf og samráð, svo sem gegnum Samstarf í þágu friðar (Partnership for Peace – PfP) og fleira, og hafa þegið það. En allt er þetta á forsendum NATO og Bandaríkjanna. Samstarf í þágu friðar þröngvar sér inn á vettvang Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) en í stað þess að allir koma jafnir og á samskonar forsendum að ÖSE er PfP algerlega á forsendum Bandaríkjanna og NATO. Auðvitað er öllum sjálfstæðum ríkjum frjálst að ganga í NATO ef NATO vill taka við þeim. En það breytir því ekki að Rússum er ekki aðeins ögrað heldur eru þeir niðurlægðir og sáttfýsi þeirra og vilja til samvinnu er mætt með útþenslu NATO og auknum vígbúnaði í vestri. Þannig má segja að Bandaríkin og NATO hafi allt frá lokum kalda stríðins verið að búa í haginn fyrir nýtt kalt stríð.

Einar Ólafsson
Mynd: http://germanhistorydocs.ghi-dc.org/map.cfm?map_id=603

Hverju svara stjórnmálaflokkarnir – I.hluti, varnarsamningur Íslands og BNA

By Uncategorized

kosningarÍ aðdraganda Alþingiskosninga 2007 sendi miðnefnd SHA spurningalista til íslensku stjórnmálaflokkanna, þar sem þeir voru inntir eftir afstöðu sinni til öryggis- og friðarmála.

Svör bárust frá fjórum framboðum. Frjálslyndi flokkurinn benti á stefnuskrá sína en sagðist ekki hafa tíma til að svara spurningunum. Engin viðbrögð bárust frá Sjálfstæðisflokki þrátt fyrir ítrekanir. Svörin við spurningalistanum hafa þegar birst í Dagfara, en verða sömuleiðis sett hér á Friðarvefinn á næstu dögum.

1. Spurning
Hver er afstaða framboðsins til varnarsamnings Íslands og BNA? Er framboðið hlynnt því eða andvígt að samningnum verði sagt upp?


Svar Framsóknarflokksins (Sæunn Stefánsdóttir, ritari Framsóknar, svaraði fyrir hönd flokksins):

Framsóknarflokkurinn er andvígur því að varnarsamningi Íslands og
Bandaríkjanna frá árinu 1951 verði sagt upp. Varnarsamningurinn við Bandaríkin hefur þjónað tilgangi sínum í áranna rás og eru varnarskuldbindingar Bandaríkjanna, sem í samningnum felast, sérstaklega mikilvægar herlausri þjóð. Það er frumskylda stjórnvalda að gera ráðstafanir svo verja megi land og borgara þess gegn utanaðkomandi vá. Varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna gegnir þar veigamiklu hlutverki og með undirritun varnarsamkomulags milli ríkjanna í október á síðasta ári var gildi hans enn áréttað.

Svar Íslandshreyfingarinnar:

Íslandshreyfingin Lifandi land er andvíg því að segja upp varnarsamningnum við Bandaríkin. Varnarsamningurinn hefur frá 1951 verið trygging fyrir öryggi Íslands á viðsjárverðum tímum og sannaði gildi sitt með öflugu eftirliti Bandaríkjamanna í lofthelgi Íslands á dögum kalda stríðsins. Gildi varnarsamningsins hefur ekki minnkað þótt að þörfin fyrir veru bandarískra herflugvéla hér á landi hafi lokið eftir fall Sovétríkjanna og lok kalda stríðsins og herstöðinni í Keflavík hafi verið lokað. Það er skylda íslenskra stjórnvalda að tryggja öryggi landsmanna og þótt að í augnablikinu séu ekki til staðar neinar áþreifanlegar ógnir frá hendi annars ríkis þá geta veður skipast fljótt á lofti.

Svar Samfylkingarinnar:

Við höfum ekki lagt til uppsögn varnarsamningsins.

Svar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs:

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafði það frá upphafi á stefnuskrá sinni að Ísland yrði herlaust land og engar herstöðvar skyldu leyfðar í landinu. Nú hefur það góðu heilli gerst að Bandaríkjaher er horfinn af landi brott. Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur rétt að kasta fyrir róða öllum leifum þess úrelta ástands sem grundvallaðist á svokölluðum „varnarsamningi” við Bandaríkin, og þá ekki síst plagginu sjálfu.

Vera hersins á Íslandi jók aldrei á öryggi þess, heldur var hann þvert á móti skotmark, hvort heldur litið er til tímabilsins fyrir eða eftir 1990. Tilraunir ríkisstjórna síðustu 15 ára til að halda í herstöðina á Miðnesheiði og lengja lífdaga áðurnefnds samnings, voru Íslandi ekki til framdráttar og leiddu á endanum til eins dapurlegasta atburðar sem orðið hefur í utanríkismálum landsins frá lýðveldisstofnun, þ.e. stuðnings ríkisstjórnarinnar við innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak.