Monthly Archives

October 2006

Plógjárn úr sverðum…

By Uncategorized

Um framtíð Keflavíkurflugvallar

Þessi grein séra Halldórs Reynissonar birtist í Morgunblaðinu 3. október og er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.

halldor reynissonNú er á enda yfir hálfrar aldar nærvera hers á Íslandi. Bandaríski herínn á Keflavíkurflugvelli er hefur slíðrað hertygi sin og er á förum Íslendingum til misjafnrar ánægju. Og hvað skal gera við herfangið sem eftir verður? Um það hafa menn skeggrætt frá vordögum þegar Bandaríkjamönnum þóknaðist að segja okkur að þeir væru á förum.

Á Miðnesheiði stendur nú eftir heil draugabyggð sem hýst gæri þúsundir manna og heilan her stofnanna. Draugabyggð sem eitt sinn var aðgangur okkar Íslendinga að Ameríku, með öllum þeim gæðum sem okkur dreymdi um í bernsku, okkur sem nú erum á miðjum aldri. Draumurinn er orðinn að eyðibyggð með blóðrauðu sólarlagi.

Heyrst hefur að gera byggðina að miðstöð öryggismála. Ekki skal það lastað. Lítil dúfa með ólífuviðarblað í goggi hvíslaði því hins vegar að mér að best væri að breyta herstöðinni miklu í ratsjárstöð friðarins. Hvernig setjum við niður deilur? Hvernig lægjum við öldur haturs og óvildar? Hvernig stuðlum við að sáttum og friði í heimi sem tærist af vígaferlum, djöfulgangi og heimsku? Hvað með að stofna alþjóðlegt friðarsetur, akademíu friðarrannsókna, vígi þeirra sem vilja tryggja frið og farsæld jarðarbúa?

Íslendingar hafa kjörið tækifæri til að láta gott af sér leiða á tímum sem einkennast af óöryggi og ófriði. Það eitt að við erum fyrrverandi nýlenda, fyrrum fátækt þróunarland og afskaplega lítil þjóð gerir okkur fýsilega sáttarsemjara. Svo eigum við efnin nóg. Og við erum vön að láta verkin tala.

Hvað með að þróa útrás til friðar og mannúðar? Hvernig væri að geta sér orðstír sem friðelskandi þjóð sem er reiðubúin að leggja fé, kalda skynsemi og heita velvild í því að gera heiminn öruggari?

Ýmsar spurningar vakna reyndar um framlag okkar til heimsfriðarins. Var rétt að ljá lið vafasamri herför vesturheimskra hauka til landa sem fóstruðu siðmenninguna í bernsku hennar? Er rétt að afhenda ungum mönnum sem gaman hafa af því að munda byssur friðarvörslu? Eigum við ekki að byggja upp friðinn frekar en að verja hann í herbúningum? Norðmenn hafa lagt áherslu á „peacebuilding“ frekar en „peacekeeping“. Ef þeir geta það þá ennfrekar Íslendingar. Við erum enn minni ógn við heimsfriðinn en fjórar milljónir Norðmanna með sinn her og olíu.

Sé sverð þitt stutt þá gakk feti framar, sagði hernaðarþjóðinn Spartverjar. Hvernig væri að ganga fetir framar og fram fyrir skjöldu sem friðarstillar. Nota herstöðina fyrrverandi sem „basa“ fyrir slíkt?

Það er svosem ekkert nýtt við þessa hugmynd. Hún er tæplega þrjú þúsund ára gömul. Hebreski þjóðfélagsrýnirinn Jesaja dreymdi í riti sínu um samskipti þjóðanna: „Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum“. Kannski getur þessi forni draumur ræst í herstöðinni á Miðnesheiði.

Höfundur er prestur og fyrrverandi forsetaritari.

Sagan öll

By Uncategorized

GBBDO6CRMiðvikudagskvöldið 4. október, kl. 20 mun sagnfræðingurinn Vigfús Geirdal flytja í Friðarhúsi óformlegt erindi um ýmsa þætti er varða sögu herstöðvarinnar á Miðnesheiði og herstöðvamálið. Erindið ber titilinn Sagan öll.

Í framhaldinu verða almennar umræður. Fundarstjóri er Stefán Pálsson formaður miðnefndar SHA.

Staksteinar: Í minningu Samtaka herstöðvarandstæðinga

By Uncategorized

Í Staksteinum Morgunblaðsins 2. október voru birt minningarorð um Samtök herstöðvaandstæðinga. Þessi minningarorð eru svo hjartnæm og bera vott um slíka tryggð að við megum til að birta þau hér á Friðarvefnum um leið og við óskum Staksteinum langra lífdaga og að þeir megi skemmta okkur áfram. Þó má segja að um ofrausn sé að ræða þar eð samtökin eru í fullu fjöri og hafa því miður meira en nóg að gera. Rétt er að leiðrétta það að í nafni samtakanna er orðið herstöðvar í fleirtölu. Enn er ofgnótt herstöðva á vegum Bandaríkjanna víðsvegar um heim.

Í minningu Samtaka herstöðvarandstæðinga

Hlutverki Samtaka herstöðvaandstæðinga er lokið. Því lauk í fyrradag.

Það var markmið Samtaka herstöðvaandstæðinga að koma bandaríska varnarliðinu úr landi. Til þess að ná því marki gengu herstöðvaandstæðingar frá Keflavík.

Þeir gengu í þágu kommúnismans, sem hrundi með Berlínarmúrnum.

Þeir gengu í þágu Stalíns og eftirmanna hans en Stalín var einn helzti fjöldamorðingi 20. aldarinnar.

Þeir gengu í þágu þeirra, sem hnepptu aðrar þjóðir í þrælkun.

Þeir gengu í þágu þeirra, sem myrtu verkamenn á götum úti í Berlín 17. júní 1953.

Þeir gengu í þágu þeirra, sem sendu skriðdrekana inn í Búdapest til þess að drepa saklaust fólk á götunum þar.

Þeir gengu í þágu þeirra, sem kæfðu Vorið í Prag í fæðingu.

Þeir gengu í þágu þeirra, sem drápu 10 milljónir manna í Úkraínu með hungursneyð af manna völdum.

Þetta voru hugsjónir herstöðvaandstæðinga. Svona þjóðfélag vildu þeir skapa á Íslandi.

Þeir vildu koma Íslandi undir hæl kommúnismans.

Minning Samtaka herstöðvaandstæðinga verður ekki í heiðri höfð.

Bandaríska varnarliðið var á Íslandi í 55 ár. Það fór að eigin ósk.

Undirlægjuhættinum linni

By Uncategorized

Erindi flutt á fundi herstöðvaandstæðinga á Ísafirði, sem haldinn var til að fagna brottför bandaríska hersins frá Íslandi.

Auðvitað er ástæða til að fagna brottför hersins eftir sex áratuga veru hér á landi. En þó er okkur efst í huga hvað það er lítil reisn yfir þessari brottför af hálfu íslenskra ráðamanna. Við hefðum viljað sjá, og það fyrir löngu, íslenska þjóð kasta frá sér kotungshættinum og segja upp varnarsamningnum með stolti og lýsa yfir ævarandi her- og hlutleysi þjóðarinnar, sem þá gæti tekið að sér að verða leiðtogi í friðarmálum heimsins. Þá hefði verið gaman að lifa, í stað þess að sjá enn og aftur undirlægjuháttinn sem fær mann til að skammast sín. Enn og aftur skríðum við fyrir Bandaríkjamönnum og samþykkjum áframhaldandi heræfingar hér á landi og þrífum upp óhroðann eftir þá. Enn og aftur vælum við utan í þeim þegar þeir sjá ekki lengur hag sinn í lengri hersetu hér á landi. Enn og aftur flöðrum við upp um þá eins og lúbarðir rakkar og skiljum ekki hvers vegna þeir vilja ekki gæta okkar lengur fyrir vondu körlunum. Eins og við höfum nú stutt þá dyggilega í allri þeirra yfirgangsstefnu og fyrirlitningu á öðrum þjóðum.

Erindinu lauk með lestri á ljóði Jakobínu Sigurðardóttur, Svikarinn. Ljóðið á jafnvel betur við í dag en þegar það var samið.

    Aumingja íslenzki hundur,
    sem áttir að reka úr túninu
    illan, óboðinn gest,
    hvað hefur orðið af þér?
    Ertu hættur að gelta?
    Illa ferst þér um flest.

    Hættur að gjamma, greyið –
    og hvað er nú þetta!
    Flaðrar þú upp um óþokkann,
    afmánin þín?
    Svei þér! Og svei þér aftur!
    Sízt skal þér verða
    þægileg þóknun mín.

    Þú áttir þó eittsinn að heita
    íslenzkur hundur.
    Íslenzk er á þér rófan,
    íslenzkt þitt gula trýn.
    Ekki vissi ég annað!
    Og íslenzk var móðir þín.

    En hún hefði glefsað, greyið,
    ef geltið hefði ekki dugað,
    þó hún væri tík og hreinlega aldrei
    til hundsmennta sett.
    Um hitt fer ég heldur að efast
    að hún hafi feðrað þig rétt.

    Að flaðra upp um fjanda þann
    og flangsa, dillandi rófunni.
    Nei, það hefði hún aldrei um eilífð gert,
    það er örugg sannfæring mín.
    Því segi ég: Svei þér aftur!
    Svei þér – og skammastu þín.

Af Suðurnesjaferð herstöðvaandstæðinga

By Uncategorized

Í dag, sunnudaginn 1. október, fór hópur herstöðvaandstæðinga um Suðurnes til að sannreyna að bandaríski herinn væri farinn. Áður hafði verið kannað hvort einhverjar hömlur yrðu lagðar á aðgengi hópsins að herstöðvarsvæðinu og kom þá í ljós að hafa þyrfti samband við yfirvöld. Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður tók það að sér og hófust þá bréfaskipti milli hans og yfirvalda, fyrst embættis lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli og síðan utanríkisráðuneytisins og varð úr þessu allmikill skjalabunki, en leyfið fékkst, þó þannig að hópurinn færi í lögreglufylgd og ekki yrði dreginn fáni að hún enda væri svæðið undir stjórn opinbers yfirvalds og í þess verkahrings eins að draga fána að húni.

PA010025 Hópurinn fór í rútu og var fyrst ekið inn í Reykjanesbæ og undir góðri leiðsögn farið hjá mengunarsvæðum, svo sem Nikklesvæðinu svokallaða, en síðan var ekið að herstöðinni þar sem lögregla beið hópsins við hliðið. Var síðan ekið um mannlausa herstöðina í fylgd kurteisra lögreglumanna og farið út úr rútunni og bornir fánar og spjöld, en allt mun það hafa verið innan þeirra reglna sem raktar voru í skjölum yfirvalda. Varð ekki annað séð en allt herlið væri farið. Ekki var gengið úr skugga um hvort öll hergögn væru farin enda ekki litið inn í flugskýli og geymslur, en ein þota er þar þó enn, en sú mun vera safngripur.

grindavik Síðan ver ekið hjá Höfnum suður á Reykjanes og þaðan til Grindavíkur, en þar hafa Bandaríkjamenn enn afmarkað svæði til afnota skv. 5. grein hins nýgerða samnings: „Bandaríkin skulu halda fjarskiptastöðinni við Grindavík sem varnarsvæði og bera ábyrgð á áframhaldandi viðhaldi og rekstri hennar.“ Rammleg girðing er kringum fjarskiptastöðina en engu að síður varð eftir innan girðingarinnar sjald með hinu gamla kjörorði herstöðvaandstæðinga, „Ísland úr NATO – herinn burt“, sem og lítill íslenskur fáni, hvernig svo sem það gat nú gerst.

Herstöðvaandstæðingar munu að sjálfsögðu halda áfram að andæfa bandarískri hersetu meðan þetta svo kallaða varnarsvæði er þarna. Kannski má segja að landið sé herlaust, en herstöðvalaust er það ekki enn. Rétt er líka að minna á að í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem fylgir samningnum segir: „Jafnframt verður skilgreint sérstakt svæði á flugvellinum, undir yfirstjórn utanríkisráðherra, sem verður til afnota vegna æfinga á vegum Bandaríkjamanna og annarra ríkja Atlantshafsbandalagsins eða annarra hernðarþarfa.“ (8. liður). Fleiri atriði í þessum samningi og samkomulagi honum tengdu er mjög gagnrýniverð.

För herstöðvaandstæðinga lauk þar sem hún hófst, í Friðarhúsinu, og var þar mættur Hröður Torfason sem spilaði og söng fyrir ferðalangana. Og veðurguðirnir skörtuðu sínu fegursta og var mál manna að sólin sjálf kættist nú yfir herlausu landi.