Monthly Archives

October 2006

Bandarískt herskip væntanlegt á fimmtudag kl. 19

By Uncategorized

USS Wasp Fimmtudaginn 12. október er áætlað að bandaríska herskipið USS Wasp komi til Reykjavíkur og leggist að Skarfabakka, vestasta hafnarbakka Sundahafnar, kl. 19.

Skv. fréttatilkynningu bandaríska sendiráðsins (http://reykjavik.usembassy.gov/) kemur skipið í heimsókn í tilefni af nýgerðu samkomulagi íslenskra og bandarískra stjórnvalda. Meðan á dvöl skipsins stendur er ætlunin að áhöfnin vinni með landhelgisgæslunni og lögreglunni við að undirbúa framtíðar þjálfun og æfingar „í samræmi við öryggisumhverfi 21. aldarinnar“, eins og það er orðað í fréttatilkynningunni.

Þá er sagt að konur og karlar úr áhöfn USS Wasp muni njóta frelsis í Reykjavík og íslenskri landsbyggð. Því miður, segir í fréttatilkynningunni, verður skipið ekki opið almenningi en tekið verður á móti gestum bandaríska sendiráðsins.

Wasp er sagt 40 þúsund tonna skip, það er svokallað „amphibious ship“, en það mun þýða að því sé ætlað að gera árásir af hafi. Í frétt í Morgunblaðinu á þriðjudaginn er fengið af vef bandaríska sjóhersins að skipum í sama flokki og USS Wasp sé ætlað lykilhlutverk í áætlunum flotans um innrás af hafi. Frá þeim sé hægt að senda árásarþyrlur og Harrier-þotur og einnig lendingarpramma sem geta borið skriðdreka, fallbyssur og önnur stríðstól auk hermanna og birgða.

Á vef Faxaflóahafna er að finna svofellda tilkynningu frá Landhelgisgæslu Íslands:

„Vegna komu bandaríska herskipsins Wasp til Reykjavíkur sem mun leggjast að bryggju við Skarfabakka mun svæðið umhverfis bryggjuna verða lokað fyrir skipa- og bátaumferð frá miðvikudeginum 11. október fram til brottfarar skipsins. Varðbáturinn Baldur mun verða með gæslu á lokunarsvæðinu. Stjórnendur skipa og báta sem leið eiga um Viðeyjarsund er bent á að Landhelgisgæslan verður með hlustvörslu á rás 12 VHF um borð í Baldri.“

Vert er að minna á eftirfarandi samþykkt sem borgarstjórn Reykjavíkur gerði 21. mars 2002:

„Borgarstjórn samþykkir að bönnuð verði í borgarlandinu umferð og geymsla kjarnorku- efna- og sýklavopna.“

Þess er því að vænta að leitað verði svara við því hvort kjarnorkuvopn séu um borð í skipinu.

MFÍK: Fundur um Palestínu í Friðarhúsi miðvikudag kl. 19

By Uncategorized

Frá MFÍK

Opinn félagsfundur miðvikudaginn 11.október
kl. 19 í Friðarhúsi (á horni Njálsgötu og Snorrabrautar).

Fyrsti fundur vetrarins er helgaður ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs:
Amal Tamimi talar um Palestínu, ástandið á Gaza og Vesturbakkanum og segir frá daglegu lífi íbúa á svæðinu.

Seldur verður léttur kvöldverður m.a. palestínsk ADAS-súpa og fleiri Miðjarðarhafsréttir – ágóði verður sendur til Palestínu.

Fjölmennum og tökum með okkur gesti.

————————————-

Hjálparbeiðni frá líbönskum konum vegna uppbyggingar í Líbanon.

Fjáröflun til stuðnings uppbyggingu í Líbanon.

Menningar- og friðarsamtökunum MFÍK hefur borist hjálparbeiðni frá líbönskum konum. Við ætlum að bregðast við þessari beiðni og leitum eftir samstarfi við önnur félög, stofnanir, samtök og einstaklinga sem vilja leggja þeim lið. Fénu verður varið til enduruppbyggingar skólastarfs og heilsugæslu barna.

Tengsl MFÍK við Líbanon hafa einkum verið í gegnum Alþjóðasamtök lýðræðissinnaðra kvenna. Í desember 2002 fóru María S. Gunnarsdóttir og Jóhanna Bogadóttir til Beirút á alþjóðlega kvennaráðstefnu og kynntust gestrisni Líbana er þær gistu hjá líbanskri fjölskyldu. Þótti þátttakendum héðan nóg um hvað fólk á svæðinu hafði þá þegar mátt þola en dáðust að æðruleysi og dugnaði íbúa.
Eftir síðustu atburði hefur stjórn MFÍK á ný verið í sambandi við líbönsku kvennasamtökin Ligue des droits de la femme libanaise og fregnað að vinkonur okkar séu heilar á húfi eða jafn heilar og hægt er miðað við aðstæður. Margvíslegrar aðstoðar er þörf og mikil uppbygging er fyrir höndum í landinu.

Þær konur sem MFÍK er í beinu sambandi við ábyrgjast að fénu verði komið til bæjarfélaga þar sem þörfin er brýnust. Þær munu senda staðfestingu bæjarfélaganna á móttöku fjárins.

Fólk sem vill leggja eitthvað af mörkum hafi samband við undirritaðar eða leggi inn á reikning 526 – 26 – 484394
kennit. 610174 – 4189, merkt Líbanon.

Með friðarkveðju,

María S. Gunnarsdóttir Guðrún Hannesdóttir
maria@seltjarnarnes.is gudrunha@mmedia.is
s. 5510586 / 5959258 5536037 / 6986037

Tilraunaprengingar Norður-Kóreu, CTBT-samningurinn og hin kjarnorkuvopnaríkin

By Uncategorized

No Nukes CTBT-samningurinn
Samningurinn um allsherjarbann við tilraunum með kjarnorkuvopn (CTBT-samningurinn) var gerður árið 1996. Samkvæmt CTBTO (Undirbúningsnefnd að bandalagi um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn)
hafa 176 ríki nú undirritað hann af 194 ríkjum í heiminum. 18 ríki hafa ekki undirritað hann. Meðal þeirra eru: Kúba, Norður-Kórea, Indland, Írak, Pakistan, Sádi Arabía og Sýrland. En það er ekki allt fengið með undirrituninni, því að stjórnvöld í hverju ríki þurfa að staðfesta hana og hafa 135 ríki nú gert það. Alls hafa því 59 ríki ekki staðfest sáttmálann. Auk þeirra sem ekki hafa undirritað hann má þar nefna: Kína, Kólumbíu, Egyptaland, Indónesíu, Íran, Ísrael, Líbanon og Bandaríkin.

Tvö ríki, sem eru viðurkennd kjarnorkuvopnaríki samkvæmt NPT-sáttmálanum um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna, hafa sem sagt ekki staðfest CTBT-sáttmálann, Bandaríkin og Kína, og auk þess fjögur ríki sem sannanlega eiga kjarnorkuvopn, Norður-Kórea, Indland, Pakistan og Ísrael. Þá hefur Íran ekki staðfest hann.

Formlega hefur CTBT-sáttmálinn ekki enn öðlast gildi þar sem tiltekin 44 ríki þurfa að staðfesta hann til að hann taki gildi, en af þeim hafa 10 ríki ekki enn staðfest hann: Kína, Kólumbía, Norður-Kórea, Egyptaland, Indland, Indónesía, Íran, Ísrael, Pakistan og Bandaríkin.

Tilraunasprengingar 1945-1998
Bandaríkin hafa samkvæmt opinberum tölum framkvæmt samtals 1054 tilraunasprengingar síðan 1945. Síðustu tilraunirnar fólust í röð 8 sprenginga í Nevada-eyðimörkinni á árunum 1991 og 1992. Sovétríkin gerðu sína síðustu tilraun árið 1990 en Rússland hefur ekki gert neinar tilraunir síðan Sovétríkin leystust upp. Síðasta tilraun Breta var 1990, Kína 1996 en Frakkar voru með tilraunir í Kyrrahafinu á árunum 1995 og 1996 sem vöktu mótmælaöldu víða um heim. En síðustu tilraunasprengingar fram til þessa voru á vegum Indlands og Pakistan árið 1998. (Sjá Bulletin of Atomic Scientics)

Tilraunir með kjarnorkuvopn eftir 1998: „Subcritical“ tilraunir og tölvulíkön
Þetta er samt ekki alveg rétt. Tilraunum með kjarnorkuvopn hefur verið haldið áfram. Bæði Bandaríkin og Rússland hafa gert svokallaðar „subcritical“ tilraunir. Bandaríkin hófu þessar tilraunir árið 1997 og hafa gert þær 23 sinnum, síðast í lok ágúst síðastliðinn. Bandarísk stjórnvöld telja þessar tilraunir nauðsynlegar til að fylgjast með kjarnorkusprengjum sínum eftir því sem þær eldast. Tilgangurinn með þeim er að fylgjast með hvort lykilefni í sprengjunum, svo sem úran og plúton, geti valdið vandamálum eftir því sem þau eldast. Tilraunirnar eru kallaðar „subcritical“ af því að massi efnisins sem notað er nær ekki því marki að viðhalda keðjuhvörfum. Sá massi sem þarf til þess er kallaður markmassi eða á ensku „critical mass“. Yfirleitt telja andstæðingar kjarnorkuvopna þessar tilraunir brjóta gegn CTBT-sáttmálanum. Stjórnvöld í Bandaríkjunum svara því til að hér sé ekki um kjarnorkusprengingu að ræða þar sem engin efnahvörf verða.

Frá því í október 1999 hafa einungis tvö ríki viðurkennt að hafa gert tilraunir af þessu tagi, Bandaríkin og Rússland. En Bretar hafa tekið þátt í þessum tilraunum. Þá hafa Bandaríkin og fleiri ríki gert eftirlíkingartilraunir í tölvum (computer simulated nuclear explosions). Þótt deila megi um hvort þessar tilraunir séu beinlínis brot á CTBT-sáttmálanum þar sem ekki er um beinar kjarnorkusprengingar að ræða, þá gegna þær sama tilgangi og ganga tvímælalaust gegn andanum í bæði NPT- og CTBT-sáttmálanum. (Sjá Nuclearfiles.org, vefsíðu Los Alamos National Laboratory og Nevada Desert Experience).

Tvær tilraunir Bandaríkjamanna með kjarnorkuvopn 2006
Eins og fyrr segir hafa Bandaríkjamenn gert 23 „subcritical“ tilraunir með kjarnorkuvopn síðan 1997 sem bætast þá við þær 1054 tilraunir sem voru gerðar frá 1945 til 1992. Síðasta tilraunin var gerð 30. ágúst síðastliðinn og þar áður var gerð tilraun 23. febrúar og var hún gerð í samvinnu við Bretland. Þessar tilraunir sem og þær tilraunir sem gerðar eru með tölvulíkönum eru gerðar í því skyni að viðhalda núverandi kjarnorkuvopnaforða og þróa ný vopn, og þá fyrst og fremst svokallaðar „mini-nukes“ eða litlar kjarnorkusprengjur sem henta betur nútímaaðstæðum. Þannig eru kjarnorkuvopnaríkin með Bandaríkin í broddi fylkingar nú að vinna gegn markmiðum NPT-sáttmálans og ýta undir það kjarnorkuvopnakapphlaup sem margir óttast að nú sé í uppsiglingu.

Málsvörn N-Kóreu
Stjórn Norður-Kóreu gaf út yfirlýsingu í aðdraganda tilraunasprengingarinnar 9. október og hefur útdráttur úr henni verið birtur á vef breska ríkisútvarpsins, BBC. Í yfirlýsingunni vísar stjórn Norður-Kóreu til vígvæðingar Bandaríkjanna og hótana gagnvart Norður-Kóreu og kveðst hafa neyðst til að segja upp aðild sinni að NPT-sáttmálanum árið 2003 eftir að Bandaríkin hefðu haustið 2002 rofið samkomulag sem gert var milli Bandaríkjanna og Kóreu í október 1994. Reyndar hafa verið færð rök fyrir því að Bush-stjórnin hafi klúðrað þeim árgangri sem náðst hafði í samskiptum Bandaríkjanna og Norður-Kóreu í stjórnartíð Clintons (sjá BA-ritgerð Atla Más Sigurðssonar við HÍ, júní 2006, „Utanríkisstefna Bill Clintons og George W. Bush – Samanburður“).

Ef grannt er skoðað, þá er ljóst að Bandaríkin bera allnokkra ábyrgð á þeirri stöðu sem nú er komin upp. Það gerir stjórn Norður-Kóreu samt ekki ábyrgðarlausa, þótt skiljanlegt sé að henni sé móti skapi að beygja sig fyrir árásar- og heimsvaldastefnu Bandaríkjanna. Friðarsinnar hljóta að krefjast þess að gereyðingarvopn verði alfarið bönnuð, hvort sem það er í höndum lögbrjóta í vestri eða í austri.


Sjá einnig á Friðarvefnum:
NPT-samningurinn og kjarnorkuafvopnun
Baráttan gegn kjarnorkuvopnum og ábyrgð Bandaríkjanna
Bandaríkin og NATO brjóta gegn NPT-sáttmálanum
Vígvæðing NATO: Bandaríkjamenn koma gagneldflaugum fyrir í Póllandi og Tékklandi
Ótíðindi frá Kóreuskaga

Nánari upplýsingar og tilvísanir, sjá:
http://en.wikipedia.org/wiki/CTBT
http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_nuclear_tests

Varðandi framleiðslu „mini-nukes“, sjá grein Michel Chossudovski, „The Dangers of a Middle East Nuclear War“, á GlobalReserach.org

Mynd: Anti-atom-aktuell.de

Einar Ólafsson

Friðarfundur Húmanistahreyfingarinnar á Ingólfstorgi laugardaginn 14. október kl. 15.00

By Uncategorized

Stop War Húmanistahreyfingin beitir sér fyrir friðarfundi á Ingólfstorgi laugardaginn 14. október n.k. kl. 15.00. Þetta er liður í alþjóðlegu átaki húmanista um allan heim fyrir afvopnun. Víst er ærið tilefni núna til að krefjast afvopnunar, sbr. grein Stefáns Pálssonar hér að neðan. Samtök herstöðvaandstæðinga hvetja því alla til að fjölmenna á fund Húmanistahreyfingarinnar á laugardaginn.

Ótíðindi frá Kóreuskaga

By Uncategorized

top korea specialÞað eru ill tíðindi sem berast nú frá Kóreu. Stjórnvöld í Norður-Kóreu sprengdu í nótt kjarnorkusprengju í tilraunaskyni. Er þetta formleg staðfesting á kjarnorkuvopnaeign ráðamanna þar í landi. Tíðindin eru svo sem ekki óvænt, en nokkur misseri eru frá því að stjórnin í Norður-Kóreu sagðist fyrst hafa yfir þessum skelfilegu vopnum að búa.

Langt er síðan friðarsinnar tóku að vara við hættunni á ríki á borð við Norður-Kóreu gætu komið höndum yfir kjarnorkuvopn. Fyrir 20-30 árum hefði slíkt verið óhugsandi, enda krafðist gerð slíkra vopna þá tæknikunnáttu sem ekki var á færi annarra en stórvelda eða vellauðugra ríkja.

Öllum mátti þó vera ljóst að með áframhaldandi þróunarvinnu kjarnorkuvopna, yrði sú tækni sem þarf til að framleiða “einföld” kjarnorkuvopn bæði auðveldari og ódýrari. Jafnframt var margoft bent á að umfangsmiklar kjarnorkuáætlanir risaveldanna hefðu það í för með sér að sífellt fjölgaði þeim vísindamönnum sem réðu yfir þekkingu á smíði þessara vopna og að með tímanum yrði stöðugt erfiðara með að hafa eftirlit með störfum þeirra fyrir erlendar ríkisstjórnir eða einkaaðila.

Kjarnorkusprenging Norður-Kóreumanna í nótt er því rökrétt afleiðing þeirrar gegndarlausu þróunarvinnu á kjarnorkuvopnum sem átt hefur sér stað á undanliðnum árum og áratugum. Þar er ábyrgð tveggja ríkja mest: Bandaríkjanna og Rússlands.

Sáttmálinn um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna var á sínum tíma einn markverðasti afvopnunarsamningur sögunnar. Honum var einmitt ætlað að hindra að ný ríki fengju kjarnorkuopn í hendur. Höfundar sáttmálans gerðu sér fyllilega grein fyrir því að áframhaldandi útbreiðsla væri óhjákvæmileg, ef kjarnorkuveldin ynnu ekki kerfisbundið að minnkun vopnabúra sinna og drægju úr þróunarstarfi. Þann hluta sáttmálans hafa risaveldin hins vegar aldrei séð ástæðu til að virða.

Skömm stjórnarinnar í Norður-Kóreu er mikil. En atburður þessi er sömuleiðis áminning til ríkisstjórna heimsins um að þá aðeins getum við vænst árangurs í baráttunni við kjarnorkuvopn að núverandi kjarnorkuveldi láti af tilraunum sínum og vinni þess í stað að afvopnun.

Stefán Pálsson

Herinn farinn

By Uncategorized

Steinar Harðarson skrifar á Morgunpósti VG 3. október:

morgunposturÍ sumar gerði ég þá ánægjulegu uppgötvun að næsta 17. júní verður væntanlega haldið uppá sjálfsæði þjóðarinnar í herlausu landi. Það er í raun ótrúlegt að í heil 55 ár hefur erlendur her setið í landinu. Í fyrsta sinn í 55 ár, fimmtíuogfimm ár, getur þjóðin fagnað fullveldi án erlendrar hersetu. Heil kynslóð hefur alist upp í landinu með erlendan her sem sjálfsagðan hlut. Og nú er hann loksins farinn.
meira

Leynd og lausir endar

By Uncategorized

Þórunn Sveinbjarnardóttir alþingismaður skrifar á heimasíðu sinni 2. október:

ThorunnHerinn er farinn. 55 ára sögu Keflavíkurherstöðvarinnar er lokið, a.m.k. í þeirri mynd sem við þekkjum. Það er ástæða til þess að gleðjast yfir því. Margboðuð brottför bandaríska hersins hefði ekki átt að koma nokkrum manni sem fylgst hefur með þróun heimsmála eða með samskiptum Íslands og Bandaríkjanna á óvart. En samt létu ráðamenn sem tilkynningin um brotthvarf hersins 15. mars sl. hefði komið þeim í opna skjöldu. Stundum býr fólk sér til hjúp afneitunar til þess að þurfa ekki að fást við óþægileg og aðkallandi verkefni. Það á jafnt við um stjórnmálamenn sem aðra. Það virðist hafa verið tilfellið með ráðherra í ríkisstjórn Íslands sl. áratug eða svo.
meira

Jón Baldvin: Hverfum frá Bandaríkjunum til Evrópu

By Uncategorized

thjodarhreyfinginÞjóðarhreyfingin hélt fund 1. október síðastliðinn til að fagna brottför hersins. Á fundinum voru ræðumenn þeir Pétur Gunnarsson rithöfundur og Jón Baldvin Hannibalssion fyrrverandi utanríkisráðherra.

Í ræðu sinni andmælti Jón Baldvin þeirri útbreiddu skoðun að leiðtogar íslenska lýðveldisins hefðu yfirleitt verið Bandaríkjunum helst til leiðitamir og nefndi ýmis dæmi þess að þeir hafi oft tekið sjálfstæða afstöðu jafnvel í andstöðu við vilja og stefnu Bandaríkjamanna. Hinsvegar hafi skipt um með núverandi ríkisstjórn sem hafi öfugt við forvera sína, sem ekki hafi látið segja sér fyrir verkum þegar þjóðarhagsmunir voru annarsvegar, brugðist trausti þjóðarinnar, m.a. með hinni dæmalausu stuðningsyfirlýsingu við ólöglegan stríðsrekstur Bandaríkjamanna í Írak. Hann gagnrýndi samninginn um brottför hersins ekki síst fyrir að enn eigi Íslendingar að reiða sig á vernd Bandaríkjanna, sem hafi breyst í herskátt ríki fámennrar yfirstéttar sem hafi nánast sagt sig úr lögum við alþjóðasamfélagið og jafnvel hafið kalt stríð sem snýst um yfirráð yfir orkulindum og helstu hráefnum jarðarinnar. Í stað þess að reiða sig á Bandaríkin telur Jón Baldvin að nær treysta böndin við Evrópusambandið.

Þess má geta að í ávarpi sem Ragnar Arnalds fyrrverandi menntamálaráðherra hélt á samkomu Samtaka herstöðvaandstæðinga 29. september hélt hann því fram að barátta herstöðvaandstæðinga hefði haft meiri áhrif en oft er talið og m.a. komið í veg fyrir að Bandaríkjamönnum tækist koma sér upp enn meiri herstöðvum en raun varð á og vísaði m.a. annars til vilja þeirra til að koma upp herflugvöllum á Rangárvöllum, í Aðaldal og í Skagafirði og stórri flotastöð í Hvalfirði.

Því miður getum við ekki birt ávarp Ragnars þar sem það var flutt blaðalaust, en ræður Jóns Baldvins og Péturs má finna á heimasíðu Þjóðarhreyfingarinnar:
Ræða Jóns Baldvins Hannibalssonar
Ræða Péturs Gunnarssonar

Ályktun kjördæmisráðs VG í SV-kjördæmi vegna brottfarar hersins

By Uncategorized

Fundur kjördæmisráðs Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Suðvesturkjördæmi, haldinn 28. september 2006, fagnar því að bandaríska herliðið er loksins farið frá Íslandi eftir 55 ára samfellda hersetu.

Fögnuðurinn er þó blandinn þar sem ýmislegt er við samkomulag íslenskra og bandarískra stjórnvalda að athuga.

  • Enn eru atvinnumál margra fyrrverandi starfsmanna bandaríska hersins óleyst.
  • Samkomulag um frágang mengunar af völdum hersins er ófullnægjandi og bandarísk stjórnvöld sleppa ódýrt frá þeim vandamálum.
  • Gert er ráð fyrir nánu samstarfi milli Íslands og Bandaríkjanna um öryggismál sem felur m.a. í sér gagnkvæma upplýsingamiðlun, samstarf Landhelgisgæslunnar við bandarísku strandgæsluna og samstarf íslensku lögreglunnar við bandarísku lögregluna og sérsveitir Bandaríkjahers. Mjög óljóst er hvernig þessari samvinnu verður háttað eða hversu náin hún verður, hætta er á frekari þróun til óljósari skila milli borgaralegrar og hernaðarlegrar starfsemi og einnig er rétt að hafa í huga að bandarísk löggjöf sem þetta snertir verður æ ólýðræðislegri.
  • Gert er ráð fyrir árlegum heræfingum bandarískra hersveita og sérstakt svæði á flugvellinum skilgreint vegna þessara æfinga eða annarra hernaðarþarfa.
  • Bandaríkin halda fjarskiptastöðinni við Grindavík áfram sem „varnarsvæði“.
  • Í þessu samkomulagi og aðdraganda þess hefur íslenska ríkisstjórnin sýnt undirlægjuhátt gagnvart bandarískum stjórnvöldum, sem nú gerast æ herskárri og ófyrirleitnari.

Kjördæmisráðið telur að nú hefði átt að segja upp varnarsamningnum við Bandaríkin og hefja strax undirbúning að næsta skrefi, sem er úrsögn Íslands úr NATO. Ísland á að vera herlaust og herstöðvalaust land utan hernaðarbandalaga og hlutlaust eins og gert var ráð fyrir þegar Ísland varð fullvalda ríki árið 1918. Friðarstefna á að vera grunnstefið í utanríkisstefnu Íslands.