Monthly Archives

September 2006

Sáttaferli á átakasvæðum heimsins – ráðstefna í safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju 22. september

By Uncategorized

Frá Hafnarfjarðarkirkju

Dr. Rodney Petersen forstöðumaður Guðfræðistofnunarinnar í Boston, Boston theological Institute og dr. Raymond Helmick S. J. Jesúitaprestur og alþjóðlegur sáttasemjari til fjölda ára hafa þróað og beitt árangursríkum aðferðum til sáttaumleitana á átakasvæðum m.a. á Balkanskaga, Norður-Írlandi og í Landinu helga. Föstudaginn 22. september n.k. munu þeir flytja röð fyrirlestra á ráðstefnu sem Kjalarnessprófastsdæmi og Hafnarfjarðarkirkja standa að um friðarstarf og sáttaferli í safnaðarheimilinu Strandbergi. Ráðstefnan hefst kl.09:45 með stuttri helgistund í Hafnarfjarðarkirkju en heldur svo áfram kl.10:00 í Hásölum Strandbergs. Fyrst verður kynning á félagslegu sáttaferli (social healing) en síðan verður fjallað um fjögur lykilhugtök í félagslegu sáttaferli í máli og myndum, erindum og umræðum: FYRIRGEFNINGU, SÁTTARGJÖRÐ, RÉTTLÆTI og SAMFÉLAG. Auk þess verður horft á ákveðið tilvik, a case study, í friðarferli. Ráðstefnan stendur yfir fram eftir degi en boðið verður upp á hádegismat í Ljósbroti Strandbergs. Ráðstefnan fer fram á ensku en stuttur úrdráttur á íslensku verður fluttur eftir hvern fyrirlestur. Ráðstefnan er haldin í boði prófastsdæmisins og er öllum opin sem láta sig varða málefni hennar.. Óskað er eftir því að þátttaka sé tilkynnt til kirkjuþjóna í síma 555-1295, eða presta í síma 555-4166 eða 862-5877.

Fyrrahaust heimsóttu prestar úr Kjalarnessprófastsdæmi Guðfræðistofnuna í Boston, Boston theological Institute og kynntu sér starfsemi hennar. Ráðstefnan í Strandbergi er ávöxtur af góðu samstarfi sem myndast hefur við stofunina.

www.hafnarfjardarkirkja.is

NATO og Ísrael

By Uncategorized

NATO-Ã?srael Að undanförnu hafa tengsl milli NATO og Ísraels verið að styrkjast. Nánast engin tengsl voru þarna á milli þar til samráðshópnum við Miðjarðarhafið var komið á 1994 og Ísrael tók ekki þátt í sameiginlegum heræfingum NATO heldur aðeins með NATO-ríkjunum Tyrklandi og Bandaríkjunum, en milli þessara þriggja ríkja hefur í reynd verið þríhliða bandalag síðan á stjórnarárum Clintons. En árið 2001 varð Ísrael fyrst ríkja Miðjarðarhafssamráðsins til að undirrita samkomulag um öryggismál við NATO. Í febrúar 2005 heimsótti framkvæmdastjóri NATO, Jaap de Hoop Scheffer, Ísrael. Þar tók hann skýrt fram að aðild Ísraels að NATO væri ekki á dagskrá. En í mars sama ár fór fyrsta sameiginlega heræfing Ísrael og NATO fram á hafinu undan ströndum Ísraels, í maí fékk Ísrael aðild að þingmannasamkomu NATO og í júní tóku ísraelskar hersveitir þátt í heræfingum NATO bæði á Miðjarðarhafinu og í Úkraínu. (Sjá NATO-fréttir, vetur 2005, og BBC, 24. feb. 2005.)

Þótt de Hoop Scheffer hafi aftekið það í Tel Aviv í febrúar 2005 að aðild Ísraels að NATO væri á dagskrá, þá er sú hugsun ekki fjarri ýmsum áhrifamönnum innan NATO. Í skýrslu sem José Maria Aznar, fyrrum forsætisráðherra Spánar, lagði fram í október 2005, NATO: An Alliance for Freedom, og var til umræðu á árlegri öryggisráðstefnu NATO í München í febrúar 2006, er lagt til að Ísrael, Japan og Ástralíu verði boðin aðild og tekið upp náið samstarf við Kólumbíu og Indland (bls. 14).

Í umfjöllun um þróunina, sem orðið hefur á stefnu NATO gagnvart Miðjarðarhafssvæðinu og Mið-Austurlöndum, í NATO-fréttum veturinn 2005 er komist svo að orði: „Þó að deilan milli Ísraels- og Palestínumanna sé ekki um þessar mundir á dagskrá NATO, og bandalagið eigi ekki hlutdeild í friðarferlinu í Mið-Austurlöndum, hefur hugsanlegt hlutverk NATO í því að leysa þessa langvarandi deilu verið í deiglunni bæði meðal stjórnmála- og fræðimanna. Raunar hafa álitsgjafar og sérfræðingar bæði lagt til að NATO veiti Ísrael öryggistryggingu og að bandalagið gegni hlutverki í friðargæslu milli fullvalda palestínsks ríkis og Ísrael.“

Það virðist vera meðvitaður ásetningur í hinni nýju stefnu NATO að líta framhjá mótsögninni sem felst í því að taka að sér friðargæsluhlutverk á svæði þar sem bandalagið er í beinu bandalagi við annan aðila átakanna ef ekki sjálft beinlínis annar aðilinn, sbr. Kósóvó og Afganistan.

Mynd: www.worldsecuritynetwork.com

Herinn að fara – Björgunarskóli á Suðurnesjum?

By Uncategorized

Í eftirfarandi grein, sem Ólafur Þór Gunnarsson læknir birti á vefsíðu sinni 16. mars 2006, veltir hann fyrir sér þeim möguleika að stofnaður verði á Suðurneskum „Björgunarskóli Sameinuðu þjóðanna“ þegar herinn er farinn:

Fyrir tveimur og hálfu ári síðan birti ég grein í Morgunblaðinu undir nafninu, „Björgunarskóli Sameinuðu Þjóðanna“, þar sem ég reifaði hugmynd mína um slíkan skóla, sem mætti reka í Keflavík, enda óvíða betri aðstæður til þess en einmitt á Íslandi. Ekki urðu mikil viðbrögð við henni þá, fáir trúðu því þá í alvöru, nema kannski við vinstri græn, að herinn myndi raunverulega fara þegar honum sýndist. Ég leyfi mér að birta aftur þessa grein hér, en í raun á hún afar vel við um þessar mundir, og efnið á ekki síður erindi nú en þá.

Björgunarskóli Sameinuðu Þjóðanna

Undanfarnar vikur og mánuði hafa Íslendingar verið að átta sig á því hversu varhugavert það getur verið að reiða sig í miklum mæli á erlenda þjóð, hversu vinveitt sem hún kann að vera, í björgunarmálum. Í sumar þurftu þyrlur Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli að hverfa til annarra starfa tímabundið, og á meðan máttum við Íslendingar sætta okkur við “skert” öryggi hvað þennan þátt björgunarmála varðar. Í sumar komu einnig upp háværar raddir vestan hafs sem vildu afleggja allan flugflota BNA í Keflavík. Miklar líkur eru á að þær raddir séu ekki meira en í dvala um stund, og munu vafalítið koma upp aftur fyrr en síðar.

En hvernig geta þá stjórnvöld brugðist við þessum vanda. Skoðum það mál nánar. Ísland er um margt sérstætt land, bæði hvað varðar landið sjálft, og þjóðina sem byggir það. Hér verða náttúruhamfarir í einhverjum mæli með óþægilega reglubundnum hætti, og því hefur orðið til á löngum tíma víðtæk þekking í landinu í margskonar björgunarmálum. Þetta á við um björgun úr sjávarháska, af hamfarasvæðum, viðbrögð við eldgosum, snjóflóðum, jarðskjálftum, ofsaveðrum og svo mætti lengi telja. Við Íslendingar erum kannski ekki með mestu þekkinguna á mörgum þessara sviða, en reynsla af flestum þáttum björgunarmála er víðtæk. Þetta á bæði við um opinbera aðila og frjáls félagasamtök. Þegar eru til stofnanir innanlands eins og Björgunarskóli Landsbjargar og Slysavarnarskóli Sjómanna auk þjálfunarbúða Landsbjargar á Gufuskálum að ótöldum þeim opinberu stofnunum sem að björgunarmálum koma.

Íslendingar ættu að leggja það til við Sameinuðu Þjóðirnar að hér verði settur á stofn Björgunarskóli Sameinuðu Þjóðanna. Þegar er komin ágæt reynsla af deildum tengdum háskóla SÞ í jarðhitafræðum og fiskiðnaði, og full ástæða til að ætla að við gætum staðið myndarlega á bak við stofnun af þessu tagi. Með vaxandi rannsóknarstarfsemi á sviði björgunarmála mætti jafnvel hugsa sér beina tengingu við Háskóla SÞ á svipaðan hátt og hinar deildirnar. Náttúrlegar aðstæður allar hér á landi gætu nýst afar vel, og þegar er mikill mannauður til staðar í landinu sem myndi þarna fá tækifæri til að vaxa. Vissulega væri kostnaður þessu samfara, en nú um stundir er einmitt rætt um að Íslendingar þurfi að taka sig á og leggja meira af mörkum til alþjóða samfélagsins, og því ekki vanþörf á að finna nýjar og jákvæðar leiðir til þess. Ávinningur okkar gæti falist í því að búnaður sem fylgdi slíkum skóla gæti nýst okkur við björgun innanlands þegar á þyrfti að halda.

Stofnanir eins og Landhelgisgæslan, almannavarna þáttur Ríkislögreglustjóra, Veðurstofan, sjúkrahúsin og háskólastofnanir auk Landsbjargar og sjómannasamtakanna gætu komið að undirbúningi og skipulagningu slíks skóla. Með stofnun og rekstri Björgunarskóla SÞ gætu Íslendingar stigið spor fram á við sem eftir yrði tekið á alþjóðavettvangi.

Meginmál þessarar greinar birtist í Morgunblaðinu 28.10.03

Rannsóknarstöð í jarðvísindum reist á rústum herstöðvar

By Uncategorized

Eftirfarandi hugmynd var birt á vefsíðu Ögmundar Jónassonar, ogmundur.is, 8. september síðastliðinn:

    Hugmynd um Keflavíkurflugvöll; Í gær sótti ég málþing um eldfjallagarð á Reykjanesi og kom þar upp hugmynd um að nýta byggingarnar á herstöð Keflavíkur til þess að byggja upp háskólasamfélag sem ætlað væri að laða að fólk erlendis frá í rannsóknir og nám í jarðfræðunum öllum, bæði BA, Master og Doktorsnám. Þar væru nemar og vísindafólk í næsta nágrenni við plötuskil og eldfjallagarðinn sem gengur inn á land þarna við Atlantshafið. Hvernig væri að kanna hvort slík hugmynd væri framkvæmanleg og vænleg áður en VG kemst í meirihluta og ríkisstjórn á næsta ári?
    Andrea

Fleiri hugmyndir hafa komið um menntasetur á Suðurnesjum þegar herinn er farinn. Hér á Friðarvefnum hefur verið verið varpað fram hugmynd um að friðarrannsóknarstofnun verði sett þar upp á vegum Háskóla Íslands og Ólafur Þór Gunnarsson læknir hefur viðrað hugmynd um „Björgunarskóla Sameinuðu þjóðanna“.

Snautleg brottför

By Uncategorized

Yankee go home Á vefritinu Múrnum 11. september fjallaði Ármann Jakobsson um snautlega brottför bandaríska hersins og tilgangsleysi hans alla tíð: „Orustuþoturnar eru löngu farnar. Ekkert hefur enn gerst. Ekkert mun gerast. Íslendingar þörfnuðust bandaríska hersins aldrei og hann gerði hér lítið sem ekkert gagn, nema kannski að flýta fyrir íslensku sjónvarpi. Annars er vera hans hér ein sorgarsaga. En þökk sé þeim sem tóku að sér aumasta hlutverkið í þessari sögu blasir hinn snautlegi endir hennar við öllum sem sjá vilja.“ Sjá hér.

Mynd: www.lewrockwell.com

11. september: ein öld liðin frá því að hreyfing Gandhis varð til

By Uncategorized

Í dag eru fjölmiðlar uppteknir af atburðunum í Bandaríkjunum fyrir 5 árum, sem vonlegt er. Inn á milli frétta og greina um þá má einhvers staðar lesa litla frétt um árlegar mótmælaaðgerðir í Chile, en þar minnast menn þess að 11. september 1973 framdi herinn valdarán undir forystu Augusto Pinochets og með aðstoð bandarísku leyniþjónustunnnar, CIA. Á næstu árum voru a.m.k. 3000 manns drepnir eða hurfu, tugir þúsunda voru fangelsaðir og máttu fjölmargir þeirra þola pyntingar, 30 þúsund flúðu land. Herforingjastjórnin tók síðan þátt í fjölþjóðlegu samstarfi um ríkisstyrkt hryðjuverk undir forystu Bandaríkjanna, Kondór-áætluninni svokölluðu.

Þessir tveir atburðir tengja mánaðardaginn 11. september við ofbeldi og skelfingu. En dagurinn á sér einnig bjartari sögu. Fyrir einni öld, 11. september 1906, gerðist það í Jóhannesarborg í Suður-Afríku að Indverjinn Mahatma Gandhi boðaði til fundar gegn nýjum kynþáttalögum sem beindust gegn Indverjum, Tyrkjum og Aröbum. Á fundinum reis upp gamall múslími, Sheth Habib að nafni, og lýsti því yfir í guðs nafni að hann mundi aldrei hlýða þessum lögum. Gandhi hafði þá um margra ára skeið andæft óréttlætinu með aðferðum friðsamlegrar óhlýðni. Á þessum fundi varð til hin friðsamlega indverska andófshreyfing, sem kennd var við Satyagraha.

Viðbrögð Bandaríkjastjórnar við hryðjuverkunum í Bandaríkjunum (hver sem nú að þeim stóð) var að hefja Heimsstríð gegn hryðjuverkum (Global War on Terrorism, skammstafað GWOT), stríð sem hefur valdið dauða tugþúsunda manna, skert mannréttidi og magnað upp hryðjuverkahættuna. Sú hreyfing sem varð til fyrir tilhlutan Mahatma Gandhis og Sheth Habibs í Jóhannesarborg 11. september 1906 hefur hins vegar haft áhrif á fjölmarga baráttumenn sem hafa haft mikil áhrif til góðs án ofbeldis og bjargað lífi eða aukið lífsgæði ótal manna, þótt sumir, svo sem Martin Luther King, hafi sjálfir orðið ofbeldinu að bráð.

Nú, í þessum orðum skrifuðum, í hádeginu 11. september, berast fréttir af því að ýmsir ætli að minnast fórnarlamba hryðjuverkanna fyrir 5 árum með einnar mínútu þögn. Gott og vel, en væri ekki ástæða til að minnast allra þeirra sem hafa orðið fórnarlömb ofbeldis, hvort sem það var í New York fyrir fimm árum, í Líbanon nú í sumar, í Írak og Darfur á hverjum degi, eða hvar sem er annars staðar, því að öll mannslíf eru jafn dýrmæt. Það getur hver og einn þagað út af fyrir sig og hugleitt á meðan hvernig megi útrýma ofbeldinu og óréttlætinu, til dæmis með því að fylgja fordæmi Gandhis, Habibs og Kings frekar en Bush og Blairs.

Einar Ólafsson

Sjá einnig:
Chilean coup of 1973 – Wikipedia
Kondóráætlunin – Múrinn
Remembering the Nonviolent September 11 – Transnational.org

Kók framleitt að nýju í Afganistan

By Uncategorized

Eftirfarandi frétt birtist í Fréttablaðinu og á visir.is í dag, 11. september:

Fréttablaðið, 11. September 2006 01:00

Forseti Afganistans fagnar nýjum áfanga:

Kók framleitt að nýju í Afganistan

Hamid Karzaí, forseti Afganistans, tók þátt í hátíðlegri athöfn þegar ný verksmiðja Coca Cola-fyrirtækisins var opnuð í höfuðborginni Kabúl í gær. Meira en tíu ár eru síðan gamla verksmiðjan eyðilagðist í borgarastyrjöldinni, sem geisaði í landinu á árunum 1992 til 1996 og varð meira en fimmtíu þúsund manns að bana í höfuðborginni.

Karzai bar lof á Habibullah Guizar, sem hafði frumkvæði að því að verksmiðjan yrði reist. Guizar fjárfesti í verksmiðjunni fyrir 25 milljónir dala, eða sem svarar nærri 1,8 milljörðum króna.

Verksmiðjan getur framleitt árlega 350 milljón flöskur með gosdrykknum vinsæla og geta 350 manns haft þar af fasta atvinnu.

„Þetta er enn eitt skrefið áfram í áttina að auknum hagvexti, sjálfbærum efnahag og betri lífskjörum í Afganistan,” sagði Karzaí í opnunarræðu sem hann hélt í gær.

Þessa dagana geisa í suðurhluta landsins hörðustu bardagarnir sem þar hafa átt sér stað síðan talibanastjórnin féll fyrir nærri fimm árum. Núna um helgina segjast hersveitir Nató og heimamanna hafa fellt 94 talibana í loftárásum og árásum á jörðu niðri.

NATO: hernámslið í Afganistan

By Uncategorized

Stop NATO Fáir virðast sakna bandaríska hersins nú þegar hann er næstum farinn nema fáeinir staðnaðir kaldastríðsmenn úr framlínu stjórnarflokkanna. Þær raddir heyrast allvíða að við eigum að vera fegin að vera laus úr félagsskapnum við Bandaríkin, enda sé hann ekki félegur nú þegar Bush og hans nótar ráða þar ríkjum. Hins vegar segja margir að við þurfum einhverjar varnir samt, en aðildin að NATO tryggi þær.

En mörgum sést yfir að NATO er að vissu leyti tæki í þjónustu Bandaríkjanna. Kannski ekki að öllu leyti, Bandaríkin ráða ekki öllu, en ansi miklu og það er almennt viðurkennt að Bandaríkin séu forysturíki NATO, eða eins og Vigfús Geirdal komst að orði í grein sem birtist í Morgunblaðinu og svo hér á Frðarvefnum í júlí: „NATO er ekki sjálfstæð stofnun sem getur sett Bandaríkjunum stólinn fyrir dyrnar sem eins konar yfirþjóðlegt vald. Bandaríkin ráða þar þvert á móti nokkurn veginn því sem þau vilja. NATO er bandalag Bandaríkjanna og fylgiríkja þeirra. Bandaríkin leggja til bæði hernaðarmáttinn og fjármagnið að langmestu leyti. Jafnvel það fé til styrktar hernaðarframkvæmdum einstakra aðildarríkja (t.d. Bandaríkjahers hér á landi) sem sagt er koma úr svokölluðum mannvirkjasjóði NATO er að stærstum hluta bandarískt fjármagn.“ Og það er ekki aðeins svo að yfirhershöfðingjar helstu herstjórna bandalagsins séu bandarískir heldur eru bandarískir herforingjar settir yfir foringja hinna aðildarríkjanna á öllum lægri stjórnunarstigum.

Bandaríkjamenn notuðu NATO til að gera innrás í Júgóslavíu vorið 1999 og með því varð NATO virkt árásarbandalag. Af ýmsum ástæðum treystu Bandaríkjamenn ekki á NATO við innrásirnar í Afganistan 2001 og Írak 2003, en hins vegar gripu þeir til NATO í kjölfar innrásarinnar í Afganistan. NATO tók þá að sér einhvers konar friðargæsluhlutverk í umboði Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Þessa dagana er að koma mjög greinilega í ljós hvaða hlutverki NATO gegnir í raun og veru í Afganistan. Hvaða álit sem menn hafa á Talibana-stjórninni sálugu í Afganistan, þá er það staðreynd að henni var vikið úr sessi með innrás Bandaríkjanna sem settu aðra stjórn í staðinn, stjórn sem aldrei hefur náð að ráða landinu, hún ræður nánast bara Kabúl og næsta nágrenni. Sú stjórn nýtur bersýnilega ekki mikils stuðnings í landinu. Hlutverk NATO núna er ekki að gæta friðar í landinu heldur að halda áfram því sem Bandaríkjunum tókst aldrei að klára með innrásinni 2001. Þannig er NATO ekkert annað en blóðugt verkfæri Bandaríkjanna og hvort sem mönnum líka betur eða verr eru íslensku „friðargæsluliðarnir“ hluti af þessu hernámsliði.

Ef við reynum að skilja samhengi hlutanna, þá er það augljóst að úrsögn úr NATO er eina rökrétta framhaldið af brotthvarfi hersins.

Mynd: stopnato.org.uk

Við hvað erum við hrædd?

By Uncategorized

eftir Sigurð Eyberg Jóhannesson

Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu 3. september 2006

Þú og ættbálkur þinn standið í deilum við nágranna ykkar. Áður en til átaka kemur er ákveðið að reyna að leita sátta. Hvor ættbálkur á að velja fulltrúa úr sínum röðum til að tala sínu máli við fulltrúa hinna. Þú stingur upp á kunningja þínum í þetta starf. Hann er ekki mikill bardagamaður og hleypur ekki hratt en þykir ágætur í að miðla málum manna í millum. Af þessum sökum er uppástungan samþykkt. Fulltrúinn hittir fulltrúa nágranna og saman ræða þeir góða stund. Að fundi loknum ert þú og aðrir í ættbálknum að vonum forvitnir að heyra hvað fram fór og bíðið spenntir eftir ýtarlegri skýrslu fulltrúans. En sú skýrsla er ekki gefin. Þess í stað segir fulltrúinn að málin séu á svo viðkvæmu stigi að hann geti einfaldlega, stöðu sinnar vegna, ekki tjáð sig um málið að svo stöddu. Þetta kemur þér og öllum gersamlega í opna skjöldu. Hvernig getur þessi kunningi þinn sett sig á svo háan hest? Þið völduð hann til starfans því ekki hefði mikið miðað á fundinum ef allir hefðu mætt en nú lætur hann eins og það sé eitthvað í þessu máli sem þið megið ekki vita. Er hann kannski genginn nágrönnunum á hönd? Þið veljið nýjan fulltrúa til að fara með málið.

Tryggð fulltrúans
Fyrir þá sem ekki eru búnir að átta sig á þessar hyldjúpu og margslungnu myndlíkingu er hér að sjálfsögðu rætt um herinn og viðskilnað hans við Ísland. Eigum við virkilega ekki rétt á því að okkar kjörnu fulltrúar segi okkur hvað sé að gerast í þessu máli? Er tryggð fulltrúans við viðsemjandann meiri en tryggð hans við okkur? Eða óttast hann að þjóðin sé kannski ekki sammála áherslum hans í samningunum og þar af leiðandi sé öruggara að hún viti ekki neitt þar til búið er að semja og of seint að andmæla? Eru varnir landsins það mikilvægasta í þessu máli? Viljum við vera undir verndarvæng Bandaríkjamanna? Erum við hlynnt stefnu þeirra í utanríkismálum? Eða erum við bara hrædd? Erum við bara hrædd við mesta óþokkann á skólalóðinni? Tilbúin að taka þátt í eineltinu? Bestu vinir aðal? Staðföst þjóð? Eða eru það hryðjuverkamennirnir sem við óttumst? Ameríka verndar okkur gegn þeim. Er það ekki? Verndaði gríðarleg hermaskína Ameríku þá fyrir hryðjuverkunum 11. september? Af hverju fremja menn hryðjuverk? Er ekki nær að spyrja þeirrar spurningar?

Heilög mannslíf
Hvað er hryðjuverkamaður? Maður sem drepur saklaust fólk fyrir málstað sinn? Hversu margir saklausir hafa verið myrtir í Afganistan og Írak og nú síðast í Líbanon (þó Ameríkanar standi ekki fyrir þeim árásum eru þær sannarlega með þeirra samþykki)? Myndu ekki Osama og hinir blikna við hlið Bush? Er hann ekki blóðugastur þeirra allra? Er ekkert nálegt að heyra Bush úthúða hryðjuverkamönnum fyrir að bera ekki virðingu fyrir mannslífum? Eða þegar hann beitir neitunarvaldi sínu í fyrsta sinn til að hindra framgang stofnfrumurannsókna á þeim forsendum að “mannslífið sé heilagt og því megi ekki eyða, jafnvel í sinni frumstæðustu mynd”? Kannski eru þetta ekki mannslíf sem Ameríkanar eyða með sprengjum sínum og skriðdrekum heldur eitthvað frumstæðara en stofnfrumur. Eða kannski eru það bara amerísk mannslíf sem eru heilög. Kannski það séu bara amerískar stofnfrumur sem ekki má eyða. Kannski að íslenskar stofnfrumur geti einhvern tímann orðið jafn heilagar og þær amerísku, ef við sleikjum okkur nógu mikið upp við aðal. Kannski þegar við erum orðnar algjörar gólfmottur. Kannski þá.

Hvar er stoltið?
Hvar er stolt okkar Íslendinga? Hvar er hugrekkið? Þurfum við her? Þurfum við að spyrða okkur saman við verstu bófana? Viljum við vera hluti af stærstu hernaðarmaskínu jarðar? Er þetta ekki gullið tækifæri til að hafna vopnabrölti, hafna stríði og hafna hernaðarbandalögum?
Ættum við ekki frekar að vera að berjast fyrir þessu:

  1. Ísland slíti öllum hernaðarlegum samskiptum við Bandaríkin og segir sig úr Nato (og stígi þannig fram fyrir skjöldu sem herlaus þjóð).
  2. Ráðist verði í ítarlega úttekt á mengun sem orðið hefur af völdum Bandaríkjahers (kostuð af Íslendingum).
  3. Öll svæði sem mengast hafa verði hreinsuð (kostað af Bandaríkjamönnum).
  4. Íslendingar fái mannvirki svæðanna til eigin nota án tafar (flestir eru sammála um þau gríðarlegu tækifæri sem hér liggja til atvinnuuppbyggingar en ef mannvirkin eru látin standa auð og köld þá liggja þau undir skemmdum).

Hvort sem menn eru sammála þessu eða vildu sjá aðrar útfærslur þá hljótum við að gera þá kröfu að okkar kjörnu fulltrúar fari ekki með þetta stóra mál sem eitthvert einkamál þeirra og vina þeirra í Ameríku sem þjóðinni kemur ekki við.