Monthly Archives

April 2006

Keflavíkurflugvöllur – brottför hersins, viðbrögð og möguleikar

By Uncategorized

f4 Í dag, 26. apríl, setjast fulltrúar íslensku ríkisstjórnarinnar aftur niður með fulltrúum frá Bandaríkjunum til að ræða þá stöðu sem upp er komin vegna fyrirhugaðrar brottfarar herliðsins af Keflavíkurflugvelli. Það er reyndar varla lengur hægt að tala um hana sem „fyrirhugaða“ þar sem vinna við að pakka búslóðum hermanna og annarra bandarískra starfsmanna er í fullum gangi og brottflutningur liðsins mun hefjast strax í næsta mánuði.

Það er með ólíkindum að íslensk stjórnvöld skuli láta þetta koma sér í opna skjöldu og að þau hafi ekkert gert til að búa sig undir þessa stöðu. Þetta ótrúlega ábyrgðarleysi snýr ekki síst að þeim íslensku starfmönnum sem nú hefur verið sagt upp. Það verður þó ekki sagt að ríkisstjórnin hafi ekki verið minnt á þetta eins og fram kemur í erindi Jóhanns Geirdal, bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ, á herkveðjuhátíð í Keflavík síðastliðinn laugardag, sem birtist hér á síðunni í fyrradag, en þar segir hann frá því að þegar árið 1996 samþykktu verkalýðsfélög á Suðurnesjum áætlun vegna hugsanlegrar brottfarar hersins og afhentu stjórnvöldum. Það er fyrst núna sem skipaður er starfshópur til að sinna þessum vanda.

Friðarvefurinn hefur nú fengið til birtingar fróðlegan greinaflokk sem Jóhann skrifaði fyrir tveimur árum og birtist þá á vefritinu politik.is. Þar rekur hann aðdraganda þessa máls frá árinu 1993 og bendir á hvaða viðbragða sé þörf og hvaða möguleikar eru fyrir hendi. Sjá hér.

Við munum jafnframt safna saman ýmsum greinum og heimildum varðandi brottför hersins á undirsíðunni Herstöðin og NATO, sjá hér til hægri á síðunni.

Ritstjóri

Á döfinni

By Uncategorized

427175377EUHtYW phÞað er margt á seyði hjá SHA næstu vikuna, þótt sumarið sé komið smkv. dagatalinu.

Miðvikudagskvöldið 26. apríl verður opinn fundur í Friðarhúsi þar sem velt verður upp hugmyndum um hvaða aðgerðum SHA eigi að standa fyrir í haust í tengslum við boðaða brottför hersins. Fundurinn hefst kl. 20 og koma þar vonandi fram ferskar og fjölbreyttar uppástungur.

* * *

KokkurFöstudagskvöldið 28. apríl verður fjáröflunarmálsverður í Friðarhúsi þar sem Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi sér um eldamennsku. Borðhald hefst kl. 19 og kostar maturinn litlar 1.000 krónur.

Á matseðlinum eru suðræn fiskisúpa a la Björk & vistvæn brauð frá Brauðhúsinu.

Menningardagskrá kvöldsins verður kynnt síðar.

* * *

gangaAð morgni mánudagsins 1. maí verður að venju morgunkaffi SHA. Það hefst kl. 11 í Friðarhúsi. Ómissandi upphitun fyrir kröfugönguna!

Að kvöldi 1. maí verður opið í Friðarhúsi, þar sem gestir og gangandi geta rekið inn nefið og spjallað yfir kaffibolla.

Herinn fer, fögnum nýjum tækifærum

By Uncategorized

Erindi Jóhanns Geirdal á herkveðjuhátíð í RÁNNI Keflavík 22. apríl 2006

Komið þið sæl og gleðilega hátíð.

Kalda stríðinu lauk fyrir einum og hálfum áratug og eftir það hafa Bandaríkjamenn engan áhuga haft á að reka hér tilgangslausa kaldastríðsherstöð.

JohannGeirdal3Í maí 1993 var stórfrétt á forsíðu Morgunblaðsins um að herinn væri að fara. Bandarísk sendinefnd kom hingað í ágúst 1993. Viðræðunum lauk með nýrri bókun við hinn svokallaða Varnarsamning sem undirrituð var af vara-varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, dr. William J. Perry og Jóni Baldvin Hannibalssyni, utanríkisráðherra, 4. janúar 1994. Þar kom fram að orrustuþotum, sem staðsettar voru á Keflavíkurflugvelli, yrði fækkað úr 12 í 4; viðhalda átti þeirri aðstöðu sem fyrir hendi var til að halda úti orrustuþotum, þar á meðal björgunarsveitinni og flotaflugstöðin yrði áfram starfrækt.

Samkvæmt upplýsingum sem Agnes Bragadóttir hafði aflað sér í varnarmála- og utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna voru meginatriði tillaga Bandaríkjamanna hins vegar þessi:

  • 12 F-15 orrustuþotur Flughers Bandaríkjanna hyrfu á brott frá Íslandi, strax 1. janúar 1994.
  • Fjarskiptakerfi bandaríska sjóhersins, SOS-US-System, hætti starfrækslu í áföngum á árunum 1994 til 1997. Þar yrði um tæknilega úreldingu að ræða, þar sem í stað þessa njósnakerfis yrði notast við gervihnattakerfi.
  • Þyrluflugbjörgunarsveitin yrði á brott, en þó mun sú afstaða bandarískra stjórnvalda ekki hafa verið jafn ófrávíkjanleg og afstaðan með brottflutning orrustuflugsveitarinnar.

Upphafsorð bókunarinnar er þó það sem er athyglisverðast við hana. Þau eru á þessa leið: „Með hliðsjón af grundvallarbreytingum sem orðið hafa á öryggisumhverfinu í Evrópu og á Norður-Atlantshafinu í kjölfar endaloka kalda stríðsins…”

Á blaðamannafundi sem ráðherrarnir héldu eftir undirritunina kom fram „að dr. Perry telur að varnarþörfin á Norður-Atlantshafi, miðað við núverandi aðstæður í heiminum, sé ekki mjög mikil, né heldur telur hann að hún verði ýkja mikil í náinni framtíð. … Á þessu augnabliki sjáum við enga hernaðarlega ógn sem stafar að neinu NATO-ríki, þar með talin Ísland og Bandaríkin. En það er erfitt að segja til um hvað framtíðin felur í skauti sér.“ Þannig reyndu menn að hanga í þeirri von að e.t.v. væri friðurinn ekki alveg brostinn á. Tekið var fram að í sameiningu yrði unnið að því að draga úr kostnaði við rekstur stöðvarinnar, en slíkur samdráttur felur fyrst og fremst í sér niðurskurð hjá verktökum og lækkun launa íslensks launafólks. Samningstími var tvö ár.

9. apríl 1996 undirrituðu, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra nýtt samkomulag, það var til 5 ára. Við upphaf þeirra viðræðna sagði Halldór á blaðamannafundi: ,,Við hljótum að skilja það á þessum aðhaldstímum á Vesturlöndum að við þurfum að verða við slíkum málaleitunum. Við teljum það þess vegna vera hagsmunamál okkar og þeirra að lækka kostnað við rekstur stöðvarinnar, þannig að hún geti skilað sömu markmiðum og áður fyrir minna fé og það verði jafnframt til þess að tryggja nauðsynlega viðveru þessa liðs hér á landi.” (Mbl. 26. mars 1996). Í því fólst að áfram hélt aðhaldið og niðurskurður á launum þess fólks sem vann hjá hernum.

Þó það sé gleðiefni fyrir okkur að ástandið í okkar nágrenni sé þannig og hafi verið í a.m.k. einn og hálfan áratug að jafnvel Bandaríkjamenn telji ekki þörf á að hafa herinn hér og því um leið gleðiefni að hann skuli nú vera að fara, þá má aldrei gleyma því að vera hans hér hefur haft veruleg áhrif á líf fjölda fólks. Fjölmörg heimili byggja sína afkomu á hernum og hver sem vinnan er þá er sárt að missa hana. Við sem ábyrgir herstöðvaandstæðingar þurfum því alltaf að hafa þá hlið málsins líka í huga. En það gerðu fleiri.

Þegar viðræðurnar áttu sér stað 1996 samþykkti stjórn Samtaka launafólks á Suðurnesjum áætlun um viðbrögð vegna brottfarar hersins. Ég og Kristján Gunnarsson fengum það hlutverk að kynna hana fyrir ráðamönnum flokkanna. Í þeirri ályktun sagði m.a.: „Það er alrangt af Íslendingum að vera með einhverja „íslenska hersérfræðinga“ í viðræðum við Bandaríkjamenn, því Bandaríkjamenn munu ekki leita ráða hjá okkur í þeim efnum. Það er hins vegar mjög mikilvægt að allar upplýsingar um þann samdrátt sem Bandaríkjamenn hugsa sér, liggi fyrir sem fyrst, svo fólki og ráðamönnum gefist sem best ráðrúm til að bregðast við breyttum aðstæðum.“

Með öðrum orðum „látið okkur vita hvernig og hvenær þið fækkið, svo skulum við semja um viðskilnaðinn.“

Eðlileg viðbrögð af okkar hálfu eru, þegar upplýsingar liggja fyrir um hver samdrátturinn verður, að ganga til samninga um eftirtalin atriði:

I. VIÐBRÖGÐ TIL SKAMMS TÍMA

Þarna var m.a. fjallað um tímabundnar áherslur í starfsmannahaldi á vellinum.

II. VIÐBRÖGÐ TIL LENGRI TÍMA SEMJA ÞARF UM

1) Fólkið: Hvernig verður gengið frá viðskilnaði við það fólk sem starfað hefur hjá hernum og kemur til með að missa vinnuna.

Það þarf:

a. að athuga hvernig hægt er að koma á eftirlaunum fyrir fólk sem komið er á háan aldur og hefur starfað lengi hjá hernum,

b. að halda námskeið fyrir fólk sem kemur til með að breyta um vinnu og að öllum líkindum að fara í gerólík störf,

c. að veita aðstoð við uppbyggingu atvinnu sem gæti falist í útvegun húsnæðis á svæðinu og með annarri aðstoð við að koma á laggirnar nýrri atvinnu (hér er átt við minni fyrirtæki),

d. að leita leiða til virkrar nýsköpunar.

2) Landið: Ganga þarf frá því hvernig hreinsun á jarðvegi verði háttað og eyðingu á ýmsum úrgangi sem fylgir þeirri starfsemi sem þarna hefur átt sér stað.

3) Mannvirki: Hvaða mannvirki verða tekin úr notkun? Hvernig á að ganga frá þeim mannvikjum sem hætt verður að nota og verða ónothæf? Okkar krafa ætti að sjálfsögðu að vera sú að ónothæf mannvirki verði fjarlægð, hús rifin, sökklar fjarlægðir og gróðursett í sárið. Önnur mannvirki,sem gætu nýst okkur við endurreisn atvinnulífsins yrðu yfirtekin af Íslendingum og þess gætt að þau verði rýmd í nothæfum einingum.

Síðar sagði í þessari ályktun SLS fyrir 10 árum:

Ef tekið verður á þessum vanda af festu og í líkingu við það sem hér er lýst eru verulegar líkur á að draga megi úr áhrifum fækkunar í herliðinu á atvinnulíf hér á Suðurnesjum.

Það er skemmst frá því að segja að undirtektir voru misjafnar. Sjálfstæðisforystan veitti okkur ekki áheyrn. Forystumenn Alþýðuflokks og Alþýðubandalags hlustuðu og sýndu málinu áhuga og voru hinir kurteisustu. Þegar við kynntum þetta fyrir Halldóri Ásgrímssyni, sem þá var orðinn utanríkisráðherra, var Róbert Trausti Árnason með honum, en Róbert var þá ambassador á Keflavíkurflugvelli og yfirmaður Varnarmáladeildarinnar svokölluðu. Þegar við höfðum farið yfir textann voru helstu viðbrögð þau að Róbert sagði, „Ég heyri að þetta er texti sem Jóhann hefur samið, það er aldrei talað um varnarliðið heldur alltaf herinn“.

Ekki varð mikið um önnur viðbrögð eins sorglegt og það nú er.

Við annað tækifæri rifjaði Róbert það upp með mér að hann hafði áður verið sem ungur maður, nánast krakki, nokkurs konar sendill hjá Samtökum herstöðvarandstæðinga, það þótti mér merkilegt þar sem hann starfaði þegar þetta var sem sendill utanríkisráðuneytisins í hermálum. Hann sagði mér líka að þá hefðu tvær manneskjur starfað í hlutastörfum fyrir Samtök herstöðvarandstæðinga, það voru Jón Baldvin Hannibalsson, sem starfaði eftir hádegi því hann átti svo erfitt með að vakna, og Vigdís nokkur Finnbogadóttir, sem starfaði fyrir hádegi. Þetta er merkilegt í ljósi þess að síðar voru á sama tíma Vigdís forseti, Jón Baldvin utanríkisráðherra og hann Róbert ambassador á Vellinum. Allt fyrrum starfsmenn herstöðvaandstæðinga. Þessi staðreynd breytti þó ekki afstöðu ráðamanna til veru hersins.

Eftir að samningurinn sem Halldór gerði til 5 ára rann út 2001 hafa Bandaríkjamenn ekki séð ástæðu til að gera nýjan. Þeir átta sig ekkert á því að jafnvel nú 15 árum eftir lok kalda stríðsins skuli Íslendingar ekki enn skilja að herinn er tímaskekkja. Bandaríkjamenn mega þó eiga það að þeir hafa reynt á kurteisan hátt að koma íslenskum ráðamönnum í skilning um að það á að loka stöðinni. Íslendingarnir skilja einfaldlega ekki mælt mál. Þrautalending Bandaríkjamanna nú, eftir að hafa sagt upp öllu starfsfólki á Vellinum, er að gefa „Bókaþjóðinni“ 200 bækur svo þeir geti þó lesið sig til um þessi mál. Á meðan halda íslenskir ráðamenn að þeir hafi keypt sér frest, enn ríki óvissa um framtíð stöðvarinnar. Óvissan er engin, það er búið að segja fólkinu upp og hjá því ríkir engin óvissa um framtíð stöðvarinnar. Íslenskir ráðamenn neita bara að horfast í augu við staðreyndir. Þeir verða því hjákátlegri með hverri vikunni sem líður og um leið eru þeir að bregðast því fólki sem á í vanda, þeir eru að bregðast því landsvæði sem mest hefur orðið fyrir barðinu á veru hersins.

Nú þegar búið er að taka frá þeim glæpinn (herinn) þá standa þeir eins og glópar og tala um að það þurfi samt að tryggja varnir. Vegna þess að herinn hefur verið kallaður Varnarlið eru þeir fastir í því að það sé um einhverjar varnir að ræða.
Þegar þeir eru spurðir: varnir gegn hverju? er fátt um svör, þeir hafa þó reynt að telja upp ýmis atriði sem innihalda orðið varnir og tengja það svo hugtakinu Varnarlið svo sem:

  1. varnir gegn alþjóðlegum glæpahringjum,
  2. varnir landhelginnar og siglingarleiða um N-Atlantshafið,
  3. varnir gegn eiturlyfjum,
  4. varnir gegn hryðjuverkum,
  5. ég hef að vísu ekki enn heyrt neinn ganga svo langt að nefna getnaðarvarnir í þessu sambandi en það gæti allt eins komið fljótlega.

Menn kalla þetta ýmsum nöfnum, svo sem „mjúkar varnir“ eða „borgaralegar varnir“ en skoðum þessar hugmyndir aðeins nánar.

  1. Varnir gegn alþjóðlegum glæpahringjum. Vissulega þurfum við að vera á varðbergi gagnvart alþjóðlegri glæpastarfsemi, en ætlum við að gera það með fjórum herþotum og bandarískum landher? Ekki sé ég hvernig það á að gerast, hins vegar er ekki vanþörf á að efla baráttu gegn innlendum og erlendum glæpamönnum, ofbeldi og eiturlyf og allskyns svikastarfsemi setja stöðugt meiri svip á samfélagið, baráttan gegn þessum óværum þarf að eflast, en vera hers hér kemur þeirri baráttu bara ekkert við.
  2. Varnir landhelginnar og siglingarleiða um Atlantshafið. Munum í því sambandi tillögur Bandaríkjamanna frá 1993 um að SOS-US kerfið hætti starfrækslu þar sem í stað þessa njósnakerfis yrði notast við gervihnattakerfi. Það þarf því ekki fjórar herþotur og bandarískan landher til þess.
  3. Varnir gegn eiturlyfjum hafa líka verið nefndar. Til að vinna gegn innflutningi þeirra þarf að efla tollgæslu og sjá til þess að hún hafi mannafla og tæki til að skanna allan innflutning til landsins. Öðru vísi næst ekki árangur í þeirri baráttu, en það vinnst ekki með fjórum herþotum og bandarískum landher.
  4. Varnir gegn hryðjuverkum eru nú mikið tískufyrirbrigði þó menn ræði aldrei þá hættu sem bandarískur her setur okkur í þegar hryðjuverk eru annars vegar. Skoðum samt hvernig brugðist hefur verið við þegar hryðjuverk hafa átt sér stað hér. Já þau hafa átt sér stað hér. Ég er þó ekki að tala um hryðjuverk gegn landinu sem því miður eru alltof mörg, – heldur þá atburði þegar flugvélar hafa þurft að lenda hér vegna sprengjuhótana um borð. Það er að sjálfsögðu meðhöndlað sem alvöru hryðjuverk þar til annað hefur komið í ljós. Sem betur fer hefur enn sem komið er bara verið um gabb að ræða en eins og é segi þá eru viðbrögðin til öryggis eins og fúlasta alvara sé á ferð. Það hefur sýnt sig að fjórar herþotur sem auk þess eru sjaldnast á landinu gera lítið í slíkum tilvikum, hvað ættu þær að gera, skjóta vélina niður? Það væri þá hryðjuverk! Vélarnar eru að sjálfsögðu látnar lenda og stöðvaðar á ákveðnum stað. Lögreglan og Víkingasveitin er kölluð á staðinn, sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar, björgunarsveitir og slökkvilið eru líka kölluð til. Heilbrigðiskerfinu er gert viðvart ef illa færi, en bandarískur landher hefur ekki komið þar við sögu.
  5. Ég ætla hins vegar ekki að fara að ræða við ykkur um getnaðarvarnir hér, þó ég eigi fullt eins von á að þær geti tengist þessari umræðu hjá ráðvilltum ráðamönnum, bara af því að orðið varnir koma þar fyrir og þannig reynt að sannfæra Bandaríkjamenn um að hér þurfi að vera 4 herþotur og landher.

Góðir hátíðargestir!
Ég hef reynt að draga fram hve mikil tímaskekkja herstöðin hefur verið undanfarin 15 ár. Þó e.t.v. einhverjir hafi trúað því á sínum tíma að vera hersins gæti veitt einhverja vörn hef ég alltaf verið í þeim hópi sem hefur talið meiri hættu fylgja stöðinni en vörn. Herstöð er skotmark ef til átaka kemur. Undanfarin 15 ár hefur þó legið fyrir að jafnvel Bandaríkjamenn hafa talið óþarft að hafa herstöð hér vegna breyttra aðstæðna í Evrópu við lok kalda stríðsins.

Íslenskir ráðamenn hafa því brugðist þessu svæði, þeir hafa enn frekar brugðist því fólki sem hér býr, einkum því fólki sem þarna hefur unnið. Þeir hafa gefið því falskar vonir um framtíðarstörf. Þeirra sök er því mikil. Við skulum ekki veita þeim neina sakaruppgjöf því þeirra ábyrgð er mikil.

Við skulum hins vegar láta það eftir okkur að gleðjast hér í dag yfir því að herinn sé nú loksins að fara.

Við skulum líka varast allar hugmyndir um að annar her eigi að leysa þennan her af hólmi.

Endurvekjum heldur ímynd Íslands sem herlaust og fullvalda ríki.

Um orðið varnarlið

By Uncategorized

Erindi Árna Björnssonar á herkveðjuhátíð í RÁNNI Keflavík 22. apríl 2006

arniÞað kom fólki nokkuð í opna skjöldu, þegar bandaríski herinn kom hingað í annað sinn fyrir rúmlega hálfri öld, að hann var af opinberri hálfu ævinlega nefndur „varnarlið“. Gamli herinn hafði jafnan verið nefndur „setulið“ eða bara herinn.

Þetta var augljóslega sálræn herkænska. Það átti að innræta þjóðinni smám saman, að hér væri um varnarlið að ræða. Þess var stranglega gætt, að yfirvöld notuðu ekki annað orð, til dæmis ekki í útvarpinu. Bílar hersins voru einnig merktir VL.

Ég veit ekki til, að á því hafi verið gerð nein könnun, en ég hygg samt að sálfræðihernaðurinn hafi skilað þeim árangri, að meginhluti þjóðarinnar hafi vanist þessu orði og kveinki sér ekkert við að nota það.

Þetta viðhorf hefur líka birst glöggt með öðrum hætti á síðari árum og sérstaklega á seinustu vikum, eftir að stjórn Bandaríkjanna ákvað að draga herliðið burtu að mestu. Engan þarf að undra þótt meirihluti ríkistjórnarinnar vilji halda dauðahaldi í Kanann og þær tekjur, sem nokkur góð fyrirtæki gætu enn haft af honum. Engan þarf heldur að undra þótt þeir sem vilja koma okkur inn í Evrópusambandið, skammi nú Kanann einsog hund og vilji nota tækifærið til að útvega okkur evrópskan her í staðinn.

Það sem vekur undrun, er að sumir þeirra, sem að öðru leyti bregðast skynsamlega við og telja, að ekki þurfi neinn erlendan her, í staðinn mætti til dæmis efla lögregluna og óska eftir tryggingaryfirlýsingum frá nágrannalöndum og stórveldum, – sumir þeirra rökstyðja þetta viðhorf með því, að nú séu breyttir tímar, kalda stríðinu sé lokið, Sovétríkin úr sögunni, og því væri rétt að breyta um stefnu. – Með þessu er gefið í skyn, að það hafi fyrir rúmum 50 árum verið einhver þörf á varnarliði.

Við vitum mætavel, að svo var ekki. Ekki af því að ráðamenn Sovétríkjanna væru einhver gæðablóð. Öðru nær, þeir voru bölvaðir fantar. Heldur blátt áfram af því, að þeir voru samt ekki nein fífl, að minnsta kosti ekki á hernaðarsviðinu. Þeir hljóta að hafa vitað allan tímann, að þeir höfðu ekkert að gera hernaðarlega í Vesturveldin eða Bandaríkjamenn, þótt þeir hefðu kannski getað varist af hörku, ef á þá yrði ráðist. Þeir áttu líka fullt í fangi með að hafa hemil á þeim þjóðum og löndum, sem þeir fengu úthlutað sem áhrifasvæðum í lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Og þeim tókst það reyndar ekki nema í einn mannsaldur.

budapest2 optVesturveldin reyndu heldur aldrei að skerast í leikinn á áhrifasvæði Sovétríkjanna, þrátt fyrir blóðugt ofbeldi í Berlín 1953, Ungverjalandi 1956 og Tékklandi 1968. Það var látið nægja að harma þessa atburði og mótmæla í orði. Hinsvegar urðu þessi grimmdarverk kærkomið tækifæri til að ráðast á verkalýðsflokka heima fyrir, hvar sem var.

Eina dæmið um hernaðaríhlutun Sovétríkjanna utan þessa áhrifasvæðis var í Afganistan árið 1980, sem varð reyndar einn af þeirra banabitum. En Afganistan var ekki heldur partur af samkomulagi sigurvegaranna í lok heimsstyrjaldarinnar.

Við vitum þetta núna, en það má vel vera, að margir stjórnmálamenn á Vesturlöndum, þar á meðal Íslandi, hafi á þeim tíma ekki vitað um þennan hernaðarlega vanmátt Sovétríkjanna, enda gerðu þeir allt sem þeir gátu til að halda honum leyndum. Annarsvegar með allt að því geðveikislegu öryggiskerfi, og hinsvegar með hinum árlegu ógnvekjandi hersýningum 1. maí og 7. nóvember. Samt má ótrúlegt þykja, ef bandaríska leyniþjónustan hefur ekki vitað nokkurnveginn, að þeim gat ekki stafað nein árásarhætta af Rauða hernum.

En það hefur sjálfsagt verið auðvelt að telja óbreyttum íslenskum ráðherrum og alþingismönnum trú um, að hætta stafaði af Rússum, rétt einsog þeir gleyptu við því á lokuðum hálftíma fundi í bandaríska sendiráðinu fyrir þrem árum, að sannanir væru fyrir því að Saddam Hussein réði yfir kjarnorkuvopnum. En þá töldu þeir Davíð og Halldór líka, að það væri brýnt hagsmunamál vegna herstöðvarinnar hér á Miðnesheiði að kokgleypa allt sem Kaninn hélt fram hverju sinni.

Og nokkuð svipuðu máli gegndi einmitt, þegar gengið var í NATÓ 1949 og herinn samþykktur inn í landið 1951. Óttinn við Rússa hefði varla einn og sér dugað til að meiri hluti þingmanna færi að ljá samþykki sitt við svo umdeildum ákvörðunum. Það var annar og mun þyngri straumur, sem rak á eftir: sjálft Atvinnulífið með stórum staf.

Það er mikið til í því, sem hinn alþekkti en fámáli bandaríski „Deep Throat“ á að hafa sagt við rannsóknarblaðamenn Washington Post, þegar þeir vildu fá frekari vísbendingar um, hvar þeir ættu að leita að sönnunargögnum í Watergate–málinu fyrir aldarþriðjungi. Hann sagði: „Follow the Money“ – Gáið að, hvar hagsmunirnir liggja.

Íslenskir athafnamenn, eða gróðapungar, ef við viljum vera dónaleg, þeir höfðu komist rækilega á bragðið á hernámsárunum. Aldrei áður hafði „litli athafnamaðurinn“ komist í aðrar eins kræsingar. Fjöldi þessara útsjónarsömu harkara missti drjúgan spón úr aski sínum, þegar gamli herinn fór, þótt fáeinir fengju svolitlar sporslur hjá bandaríska flugfélaginu, sem rak Keflavíkurflugvöll frá 1946. Þessar sporslur sýndu þó, hvaða framtíðarmöguleikar væru í stöðunni, ef þangað kæmi alvöru herstöð. Það var augljós og glæsileg hagnaðarvon fyrir ótalda íslenska verktaka fólgin í draumsýninni um nýja hersetu. Og þetta fólk, fólkið sem vill koma sér áfram, þetta voru upp til hópa kjósendur og stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins. Það væri vanmat á þessu fólki að reikna ekki með, að það hefði viðrað sjónarmið sín við einhverja þá sem áttu innangengt hjá forystu flokkanna.

Það væri þó ósannlegt að nefna einungis svonefnda athafnamenn sem þrýstihóp til að bregðast vel við málaleitunum Bandaríkjanna um herstöðvar. Atvinnuleysi varð töluvert fyrstu árin eftir að gamla herliðið fór burt, þótt það yrði aldrei neitt líkt því sem verið hafði á kreppuárunum fyrir stríð. En nú voru íslenskir verkamenn orðnir betra vanir en áður. Í hálfan áratug hafði atvinnuleysi varla þekkst. Ekkert er voðalegra en atvinnuleysi, segja þeir sem reynt hafa. Flestir vilja hafa atvinnu, hvaðan sem hún kemur.

hriflaÉg man eftir frænda mínum í vegavinnunni, sem var bóndi á veturna og vörubílstjóri á sumrin. Hann var ekki í vafa um að við ættum að fara að ráðum Jónasar frá Hriflu og láta Kanann fá land undir herstöðvar og reyna að græða á því. Þeir voru þó fáir, sem voru svona hreinskilnir. Flestum fannst þægilegra að vísa í hugsanlega árásarhættu. Því er ekki heldur að leyna, að verkalýðshreyfingin sem heild var allan tímann heldur lin í andstöðunni við herinn, þótt einstakir forystumenn gætu verið einarðir. En verkafólk var áreiðanlega með annað en árásarhættu bak við eyrað.

Stórefling verktakastarfsemi var einmitt það sem gerðist, fljótlega eftir að herinn kom. Fjöldi sjálfstæðra iðnaðarmanna, smiða, múrara, málmiðnaðarmanna og rafvirkja auk ýmissa spekúlanta bast samtökum í fyrirtæki, sem hét Sameinaðir verktakar og tóku brátt að sér margvíslegar framkvæmdir fyrir herinn. Auk þess kom að kökunni Reginn, sem var fyrirtæki á vegum Sambands íslenskra samvinnufélaga, og þar með hafði Framsókn hlotið sinn skerf. Loks kom sjálft ríkið í spilið, og úr öllu þessu urðu til Íslenskir aðalverktakar sem fengu innan skamms einkaleyfi til framkvæmda fyrir herinn.

Íslensku iðnaðarmennir í Sameinuðum verktökum höfðu fram til þessa flestir verið rétt sæmilega bjargálna, áttu kannski eigin íbúð og lítinn bíl, en ekki mikið fram yfir það. Þetta voru yfirleitt ágætis menn og höfðu alltaf verið bráðduglegir og vinnusamir. Með uppgripunum fyrir herinn urðu margir þeirra sterkefnaðir á nokkrum árum, og þeim eiginlega sjálfum að óvörum. Þeir hafa látið að sér kveða á ýmsum sviðum atvinnulífsins og ekki endilega til óþurftar. Og því má vissulega segja, að herinn hafi ekki verið hér alveg til einskis.

Við höfum hinsvegar oft fengið að heyra það, að barátta okkar herstöðvaandstæðinga hafi verið til einskis, úr því að herinn fór aldrei, fyrr en þá kannski núna, og þá ekki fyrir okkar tilverknað. Þetta er mikill misskilningur. Í fyrsta lagi hefði Kaninn aldrei látið reka sig. Ef það ólíklega hefði gerst, að stjórnvöld hefðu sagt herstöðvasamningnum upp, þá hefði án efa verið sviðsett einhver uppreisn hryðjuverkamanna eða hver veit hvað, og herinn hefði gripið inn í. Alþjóðasamfélagið hefði yppt öxlum.

Í öðru lagi er óhætt að segja, að einmitt hin þrauseiga barátta herstöðvaandstæðinga í ýmsum samtökum hafi orðið þess valdandi, að herinn varð smám saman nánast áhrifalaus í íslensku menningarlífi. Sagnfræðingar hafa nýverið sýnt framá, að einu skiptin sem bandarísk yfirvöld tóku nokkurt mark á máttlitlu andófi íslenskra stjórnvalda gegn ágengni þeirra – eða til að kría út meiri peninga –, var ef þeim tókst að koma þeirri flugu í höfuð viðsemjendanna, að framferði þeirra gæti ella orðið „vatn á myllu kommúnista“.

Það bar nokkuð mikið á Kanaútvarpinu fyrstu árin eftir að hann kom og síðan Kanasjónvarpinu um og uppúr 1960. En eftir að þeirri stöð var lokað hafa bein áhrif hersins verið hverfandi. Sá ameríkanismi, sem mikið er talað um og vissulega getur verið nokkuð yfirþyrmandi, hann er kominn eftir öðrum leiðum, og hann er raunar sá sami um allan heim. Maður finnur hann hvar sem komið er, hvort sem þar hefur verið bandarísk herseta eða ekki, jafnvel austur í Kína.

En snúum okkur aftur að orðinu „varnarlið“ og þeim breyttu tímum sem menn eru að tala um. Vissulega eru breyttir tímar, en öllum ætti samt að vera ljóst, að orðið varnarlið var ævinlega algert rangnefni, ef átt var við varnir Íslands. Spurningin er frekar, hvort stjórnendur Bandaríkjanna héldu virkilega að þeir væru að verja sjálfa sig með öllu því herstöðvakerfi, sem þeir komu sér upp um allan heiminn. Sérstaklega ef leyniþjónustu þeirra var kunnugt um hernaðarlegan vanmátt Sovétríkjanna til árásar. Hver var þá ástæðan?

dollarsÞetta er alltof langt og flókið mál til að brjóta til mergjar hér og nú. En við, sem ekki erum herfræðingar, mættum samt hugsa aftur um ráðleggingu „Deep Throat“: Follow the Money. Gáið að því hvar hagsmunirnir liggja. Annars vegar hafði nefnilega það sama gerst í Bandaríkjunum og á Íslandi við stríðslokin, aðeins í þúsundfalt stærri stíl. Framleiðsla þeirra, sem höfðu skaffað hernum vopn og vistir í stríðinu, hún tók að dragast óbærilega saman. Það þurfti nýja stríðshættu til að almenningur féllist á nýja skattheimtu til hernaðaþarfa, svo að þessi risavaxna framleiðsla gæti aftur farið í gang. Og það hefði blátt áfram ekki verið hagkvæmt að ljóstra upp um hernaðarlegan vanmátt Sovétríkjanna.

Hinsvegar gat víða verið þörf fyrir bandarískar herstöðvar til að gæta raunverulegra eða bara hugsanlegra hagsmuna bandarískra fyrirtækja, sem eðli málsins samkvæmt hljóta hvarvetna að reyna að ná fótfestu. Hinir breyttu tímar felast í því að, að hagsmunir bandarískra fyrirtækja í Mið–Austurlöndum sitja nú um stundir í algjöru fyrirrúmi.

Um samskipti hersins og Íslendinga fyrstu áratugina og málflutning herstöðvasinna finnst mér við hæfi að fara með eitt af háðkvæðum Böðvars Guðmundssonar: Þessvegna er þjóðin mín sæl. Ég ætla ekki að reyna að syngja það, bara lesa það:

    Þegar allt var svo yfirtak snautt
    og íslenska þjóðlífið dautt,
    jafnt lúðan á miði sem leikari á sviði
    og lífsbjörgin eina var skömmtunarmiði,
    þá kom amríski herinn og skreið uppá skerin
    á ská yfir landgrunnið blautt.

    Og þeir báðu okkur bústaðar milt
    og þeir blessuðu stúlku og pilt
    svo þjóðin mín hokin með þyrkingsleg kokin
    hún þreif af í skyndingu húfupottlokin
    og reiddi þeim hvílu. – En rússneskri Grýlu
    var réttlega helvíti bilt.

    Nokkrir kotungar suður með sjó
    höfðu sífellt af baslinu nóg.
    Þeir bjuggu í gjótum með blöðrur á fótum
    og bátarnir láku og týndist úr nótum.
    Og allt var að fara til andskotans bara
    og eldur í hlóðunum dó.

    Þessir kotungar blésu í kaun
    og þeir keifuðu vegalaus hraun,
    höfðu ekkert að fela og engu að stela
    og örbirgðin lagði að hjörtunum þela.
    En kvöld nokkurt brá þeim því Kaninn stóð hjá þeim
    og karlarnir skildu ekki baun.

    Þessir kotungar suður með sjó
    hafa síðan af lífsgæðum nóg.
    Með gleði í taugum og glampa í augum
    þeir grafa og róta í verndarans haugum.
    Og hamingjudaga þeir heim til sín draga
    af haugunum sokk eða skó.

    Þar sem áður var lambagraslaut
    er nú lífvænleg flugvélarbraut.
    Þar sem stígur var tregur er steinsteypuvegur
    og standardinn er ekki óbjörgulegur
    því amrískir hemenn og íslenskir vermenn
    eta nú samskonar graut.

Og loks er viðlagið, sem ekki er víst að allir skilji lengur:

    Þeir hugguðu harma og væl
    með morðinu í Dallas og manndómi Calleys,
    með friðarást Dulles og framboði Wallace,
    með stefnuskrá Nixons og stjörnuspá Dixons
    – og þessvegna er þjóðin mín sæl.

Gott ár hjá Njarðvíkingum

By Uncategorized

umfnlogoÁ velheppnaðri herkveðjuhátíð Vinstri grænna á Suðurnesjum sem haldin var á Ránni í Keflavík í gær var boðið upp á fjölbreytta dagskrá. Margir þeirra sem fram komu teljast gamalkunnir gestir á samkomum herstöðvaandstæðinga, það gildir þó ekki um Kristján Pálsson fv. þingmann Sjálfstæðisflokksins sem flutti fróðlegt erindi á sögulegum nótum.

Kristján leggur um þessar mundir stund á nám í sagnfræði við Háskóla Íslands og er að skrifa lokaritgerð um viðbrögð Suðurnesjamanna við komu hersins 1951 og næstu ár þar á eftir.

Meðal þess sem fram kom í máli Kristjáns var að Ungmennafélag Njarðvíkur var iðið við að álykta gegn hersetunni og reyndi að fá önnur félög innan ungmennahreyfingarinnar til að taka málið upp. Ályktanir Ungmennafélagsins og raunar einnig Kvennfélags Njarðvíkur rötuðu á síður Þjóðviljans, sem hældi félögunum á hvert reipi fyrir að standa í lappirnar í baráttunni gegn hinum ameríska her.

Í ljósi þessarar forsögu er óhætt að kalla árið 2006 sigurár fyrir Ungmennafélag Njarðvíkur. Ekki aðeins tryggði karlalið félagsins sér sigur í Íslandsmótinu í körfubolta, heldur virðist hið gamla baráttumál félagsins um brottför hersins ætla að ná fram að ganga.

Til hamingju Njarðvíkingar!

Velheppnuð herkveðjuhátíð í Keflavík

By Uncategorized

Húsfyllir var á veitingahúsinu Ránni í Keflavík laugardaginn 22. apríl þegar herstöðvaandstæðingar á Suðurnesjum héldu þar herkveðjuhátíð. Fróðleg erindi voru flutt um ýmsar hliðar hersetunnar, baráttuna gegn henni og stöðuna nú þegar útlit er fyrir að herinn hverfi á brott. Það var þó mál manna að ekki væri ástæða fyrir herstöðvaandstæðinga að hætta baráttu sinni, ekki væri útlit fyrir að herstöðin yrði lögð niður og enn væri eftir að koma Íslandi úr Nató að ógleymdri alþjóðlegri friðarbaráttu. Flutt var brot úr Sóleyjarkvæði og fleiri tónlistarmenn fluttu efni af ýmsu tagi.

Væntanlega mun eitthvað af þeim erindum sem flutt voru birtast hér á Friðavefnum innan tíðar.

P4220049
Húsfyllir var í Ránni

P4220056
Rúnar Júlíusson sagði frá nábýlinu við herinn og söng

P4220058
Gunnar Guttormsson sagði frá frumflutningi Sóleyjarkvæðis

Keflavíkurflugvöllur – brottför hersins, viðbrögð og möguleikar

By Uncategorized

eftir Jóhann Geirdal

Eftirfarandi greinaflokkur eftir Jóhann Geirdal, bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ, birtist á vefritinu politik.is í febrúar og mars 2004

1. hluti – Brottför hersins

Brottför hersins
Nú eru liðin rúm 10 ár síðan Bandaríkjamenn vildu fara héðan með stóran hluta herafla síns og allan flugherinn. Síðan þá hefur verið ljóst að þeir sáu ekki lengur tilgang í því að halda úti herstöð á Keflavíkurflugvelli a.m.k. ekki út frá hernaðarlegu sjónarmiði. Íslensk stjórnvöld gátu þá kríað út tveggja ára frestun á því að flugherinn færi, þó fækkaði hann flugvélum úr 12 í 4 svo hægt væri að tala um það sem samningsaðilar kölluðu ,,trúverðugar varnir”.

6. maí 1993 birti Morgunblaðið á forsíðu stóra frétt um að herinn væri að fara. Viðræður bandarískra og íslenskra ráðamanna fóru af stað og kom bandarísk sendinefnd hingað þann 6. ágúst 1993. Samkvæmt upplýsingum sem Agnes Bragadóttir hafði aflað sér í varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, og utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna voru meginatriði tillagna Bandaríkjamanna þessi:

  1. 12 F-15 orrustuþotur Flughers Bandaríkjanna hyrfu á brott frá Íslandi, frá og með 1. janúar 1994.
  2. Fjarskiptakerfi Bandaríska sjóhersins öðru nafni: SOS-US-System, hætti starfrækslu í áföngum á árunum 1994 til 1997. Þar yrði um tæknilega úreldingu að ræða, þar sem í stað þessa njósnakerfis yrði notast við gervihnattakerfi.
  3. Þyrluflugbjörgunarsveitin yrði sömuleiðis á brott, en þó mun sú afstaða bandarískra stjórnvalda ekki hafa verið jafn ófrávíkjanleg og afstaðan með brottflutning orrustuflugsveitarinnar.

Tillögur Bandaríkjamanna um brottflutning orrustuþotnanna 12 hefðu falið það í sér að 554 starfsmenn bandaríska flughersins hefðu farið héðan og um það bil 250 starfsmenn sjóhersins. Auk þess hefði þessi ráðstöfun með algjöru brotthvarfi F-15 flugsveitarinnar frá Keflavík haft það í för með sér að allir starfsmenn þyrluflugbjörgunar- sveitarinnar, 100 talsins, hefðu farið líka. Samtals hefði því fækkað um rétt liðlega 900 hermenn á Keflavíkurflugvelli, við það að hrinda tillögum Bandaríkjamanna í framkvæmd, sem hefði jafngilt um 25% niðurskurði herafla á Keflavíkurflugvelli. (Baksíða Mbl. 6. janúar 1994)

Þessum kröfum Bandaríkjamanna mættu íslensk stjórnvöld með gagnkröfum, þar var krafist í nafni Íslendinga að hér yrðu ,,trúverðugar loftvarnir áfram tryggðar á grundvelli skuldbindinga varnarsamningsins.” Hvað svo sem ,,trúverðugar loftvarnir” eru.

Knúðu fram minni niðurskurð
Niðurstaða viðræðnanna, sem lauk með undirskrift vararvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, dr. Williams J. Perry og Jóns Baldvins Hannibalssonar, utanríkisráðherra, 4. janúar 1994 fól í sér að orrustuþotum, sem staðsettar voru á Keflavíkurflugvelli, yrði fækkað úr 12 í 4; viðhalda átti þeirri aðstöðu sem fyrir hendi var, til að halda úti orrustuþotum; og flotaflugstöðin yrði áfram starfrækt.

Kaldastríðinu var lokið
Á blaðamannafundi sem ráðherrarnir héldu eftir undirritunina kom fram „að dr. Perry telur að varnarþörfin á Norður-Atlantshafi, miðað við núverandi aðstæður í heiminum, sé ekki mjög mikil, né heldur telur hann að hún verði ýkja mikil í náinni framtíð. … Á þessu augnabliki sjáum við enga hernaðarlega ógn sem stafar að neinu NATO-ríki, þar með talin Ísland og Bandaríkin. En það er erfitt að segja til um hvað framtíðin felur í skauti sér.” Jafnframt kemur fram í inngangi samningsins að hann sé gerður m.t.t. til breyttra aðstæðna í öryggismálum Evrópu vegna loka kalda stríðsins. Tekið var fram að í sameiningu yrði unnið að því að draga úr kostnaði við rekstur stöðvarinnar, sem fól fyrst og fremst í sér niðurskurð hjá verktökum og lækkun launa íslensks launafólks. Samningstími var tvö ár.

Næsti frestur, áframhaldandi niðurskurður
9. apríl 1996 undirrituðu, eftir þónokkrar viðræður, Walter B. Slocombe, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra nýtt samkomulag, nú til 5 ára. Þegar drög að þeim samningi voru tilbúin sagði utanríkisráðherra á blaðamannafundi: ,,Við hljótum að skilja það á þessum aðhaldstímum á Vesturlöndum að við þurfum að verða við slíkum málaleitunum. Við teljum það þess vegna vera hagsmunamál okkar og þeirra að lækka kostnað við rekstur stöðvarinnar, þannig að hún geti skilað sömu markmiðum og áður fyrir minna fé og það verði jafnframt til þess að tryggja nauðsynlega viðveru þessa liðs hér á landi.” (Mbl. 26. mars 1996)

Í því fólst að einkaréttur verktaka yrði afnuminn í þrepum fram til 2004 og áfram hélt aðhaldið og niðurskurður á launum þess fólks sem vann hjá hernum.

Íslenskir ráðamenn lítillækkaðir
Gildistími þessa samkomulags var til 2001, síðan þá hefur ekki tekist að endurnýja samkomulag og staðfesta Bandaríkjamanna að skera niður á Miðnesheiðinni verður stöðugt meiri. Á meðan íslenskir ráðamenn þykjast ekki sjá hvert stefnir þarf starfsfólk hjá hernum að lifa í stöðugum ótta um uppsagnir, þ.e. aðrir en þeir sem nú þegar hafa fengið uppsagnarbréfin. Þessi þvermóðska íslenskra stjórnvalda veldur því að það fólk sem nú er að missa atvinnu sína hefur að litlu að hverfa.

Það kemur æ betur í ljós að Bandaríkjamenn eru farnir að ögra íslenskum stjórnvöldum m.a. með því að endurnýja ekki samning við íslensk stjórnvöld um áframhaldandi rekstur stöðvarinnar, samningurinn rann út 9. apríl 2001 fyrir næstum þremur árum. Á þeim tíma gera Bandaríkjamenn það sem þeim sýnist. Síðustu fréttir eru að Orion-kafbátaleitarvélar flotans sem að nafninu til hafa verið hér virðast vera farnar. Í Morgunblaðinu 14. febrúar s.l. segir um þetta mál: ,,Síðastliðna sex mánuði hefur hálf flugsveit haft aðsetur hér, a.m.k. tæknilega séð, en vélarnar hafa engu að síður að langmestu leyti verið að störfum annars staðar í Evrópu þar sem þörfin hefur verið talin meiri en komið til Íslands annað slagið, m.a. vegna viðhalds.” Jafnramt segir í sömu frétt Morgunblaðsins: ,,Utanríkisráðuneytið bíður enn eftir skýringum frá Bandaríkjamönnum á því hvort eða hvenær Orion-eftirlitsflugvélar verði sendar til landsins. Orion-vélarnar sem hér voru síðast héldu á brott 5. febrúar en önnur flugsveit hefur ekki verið tilnefnd til þess að koma til landsins. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins liggur ekki fyrir hvort það verður gert eða ekki; mun sú ákvörðun alfarið vera á forræði aðgerðastjórnar Bandaríkjahers sem tekur í því efni væntanlega mið af þörfinni á þessum vélum annars staðar.” Það er ekki mikil reisn yfir íslenskum ráðamönnum við þessar aðstæður.

Á sama tíma hefur sú viðleitni til að lækka kostnað við rekstur stöðvarinnar, sem Halldór skildi svo vel fyrir átta árum leitt til þess að búið er að segja upp fjölda íslenskra starfsmanna og skerða kjör þeirra sem þar eru enn í vinnu. Nú eru þeir jafnvel farnir að neita að taka mark á kjarasamningum og úrskurðum Kaupskrárnefndar sem hingað til hefur þó farið með ákvarðanavald um kaup og kjör á vellinum. Síðustu fréttir herma að lögfræðingar Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis séu að undirbúa að stefna Utanríkisráðherra vegna vanefnda hersins gagnvart launafólki.

Allir sem fylgjast með þessari þróun geta séð í hvert stefnir. Jafnvel þó íslenskum stjórnvöldum takist að kreista út einn frestinn enn, eru litlar líkur miðað við reynsluna að þau noti þann frest til að búa atvinnulíf á Suðurnesjum undir þá breytingu sem óhjákvæmilega verður með brottför hersins. Það er nauðsynlegt að íslenskir ráðamenn taki sig á, horfist í augu við raunveruleikann og setji markið á framtíðaruppbyggingu á þessu svæði í stað þess að sjá starfsemina á vellinum koðna niður án þess að eitthvað komi í staðinn.

Stinga höfðinu í sandinn
Oftast þegar ég hef á undanförnum árum varað við þessari þróun og bent á að það sé nauðsynlegt að takast á við uppbyggingu þessa svæðis með brottför hersins í huga hafa menn ekki verið tilbúnir til að ræða það. Menn hafa látið nægja að hrópa að ég sé herstöðvarandstæðingur og þess vegna vilji ég bara að herinn fari. Þar með hafa þeir líka komið sér undan því að horfast í augu við það sem þeim finnst vera óþægilegt. Vissulega er það rétt að ég hef allaf verið á móti því að hér sé her, en einmitt þess vegna hef ég alltaf haft það í huga að hann kæmi til með að fara. Ég, sem jafnframt er búsettur á Suðurnesjum og hef lengi verið í bæjarstjórn Keflavíkur og svo Reykjanesbæjar, hef eðlilega haft miklar áhyggjur af atvinnuástandinu og sérstaklega sinnuleysi ráðamanna gagnvart þeim breytingum sem nú eiga sér stað. Þeir sem aldrei hafa hætt sér útí þá hugsun að hér geti verið herlaust eða a.m.k. veruleg minnkun á umsvifum hersins, eru hins vegar á engan hátt undir það búnir að takast á við þennan vanda. Þeir eiga erfitt með að eiga frumkvæði að uppbyggingu á annarri starfsemi. Þeirra viðbrögð hafa einfaldlega verið að stinga höfðinu í sandinn og þóst ekki vita neitt um þróunina. Íbúar á Suðurnesjum og þeir sem starfa nú hjá hernum eiga betra skilið.

2. hluti – Eðlileg viðbrögð

Eðlileg viðbrögð við staðföstum ásetningi Bandaríkjamanna eru að viðurkenna það einfaldlega að þeir ákveða sjálfir sína utanríkisstefu. Sjái þeir ekki ástæðu til að halda úti starfsemi sinni hér þá höfum við ekki mikil áhrif þar á. Þó það takist að tefja brottför eða samdrátt þá er sú töf dýrkeypt. Á meðan er þrengt að fólkinu eins og sagan sýnir og tíminn ekki notaður til uppbygginar til framtíðar.

Við eigum að gera þá kröfu að horft sé til framtíðar og krefjast þess að okkur sé gerð grein fyrir áætlunum um breytingar eins fljótt og auðið er svo hægt sé að vinna þær með skipulögðum hætti. Það þarf að semja um viðskilnaðinn við fólkið, landið og mannvirkin.

Fólkið
Það fólk sem unnið hefur hjá hernum og er nú þegar farið að missa sína vinnu hefur ekki að miklu að hverfa. Mikilvægt er að slíkar breytingar eigi sér stað með skipulögðum hætti og eins löngum fyrirvara og unnt er. Æskilegt hefði verið að leita leiða til að auðvelda fólki að aðlagast þessum breytingum, t.d. með starfslokasamningum við þá sem elstir eru. Það er ekki auðvelt fyrir fólk sem lengi hefur unnið á sama stað og er jafnvel komið til ára sinna að finna starf við hæfi. Eðlilegt hefði líka verið að yngra fólkið gæti nýtt hluta af sínum uppsagnarfresti og helst lengri tíma til að sækja námskeið eða að mennta sig á annan hátt til að bæta stöðu sína á almennum vinnumarkaði þegar að starfslokum kemur. Leita þarf leiða til að auðvelda fólki að taka þátt í atvinnusköpun t.d. með því að gefa því kost á að undirbúa slíka uppbyggingu áður en látið er af störfum, aðstoða við útvegun heppilegs húsnæðis og lækkun ýmiss upphafskostnaðar, m.a. með aðstoð atvinnuleysistryggingasjóðs. Þannig hefði verið hægt að að auka líkurnar á að það hefði að einhverju að hverfa þegar að starfslokum kemur. Það er augljóst að því meiri sem aðlögunartíminn er því meiri líkur eru á að árangur náist. Þess vegna er mikilvægt að ráðamenn hætti að gefa rangar upplýsingar. Þeir hafa lengst af haldið því fram um að ekki séu líkur á samdrætti, þrátt fyrir að þeir hafi vitað annað.

Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar í Reykjanesbæ lofuðu oddvitar Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna því að ekki yrði um samdrátt að ræða ef þeir næðu meirihluta. Þeir ættu góða að í ríkisstjórninni sem gætu tryggt hagsmuni þeirra sem vinna hjá hernum. Ungir sjálfstæðismenn stóðu með kröfuspjöld við vallarhliðin þar sem fólki var sagt að ef það kysi ekki Sjálfstæðisflokkinn væri það ávísun á atvinnuleysi, því herinn færi ef þeir yrðu ekki við völd. Sjálfstæðismenn náðu meirihluta í Reykjanesbæ, samt er samdráttur hjá hernum og bæjarstjórinn hefur nú sagt að hann hafi vitað að það yrði um samdrátt að ræða. Það er ljótur leikur að blekkja fólk á þennan hátt. Fólk sem vinnur á Keflavíkurflugvelli býr nú við mikið óöryggi og það vita þeir best sem nú hafa fengið uppsagnarbréfin.

Landið
Strax og ljóst er hver samdrátturinn verður er mikilvægt að farið verði yfir það hvaða land sem nú heyrir undir s.k. varnarsvæði geti losnað. Semja þarf um hvernig hreinsun á því verður háttað og eyðingu á ýmsum úrgangi sem fylgir þeirri starfsemi sem þar hefur átt sér stað. Jafnframt er mikilvægt að hugað sé að því hvernig það landrými geti nýst þörfum Suðurnesjamanna til atvinnu eða íbúabyggðar. Það er t.d. með ólíkindum að það land sem kallað hefur verið Nikkel svæðið sé enn ónýtt og skeri í sundur byggð Njarðvíkur og Keflavíkur, þrátt fyrir að það hafi ekki verið notað af hernum í mörg ár. Í því tilviki er herinn þó búinn að skila landinu en í stað þess að utanríkisráðuneytið leggi áherslu á að það komist í nýtingu, byggðinni til hagsbóta er það upptekið í að finna leiðir til að hafa sem mestar tekjur af sölu þess.

Mannvirkin
Hvaða mannvirki verða tekin úr notkun? Hvernig verða þau rýmd, verður það gert með tilliti til hagsmuna okkar? Hvernig á að ganga frá þeim mannvirkjum sem hætt verður að nota og verða ónothæf? Okkar krafa ætti að sjálfsögðu að vera sú að ónothæf mannvirki verði fjarlægð, hús rifin, sökklar fjarlægðir og gróðursett í sárið. Önnur mannvirki, sem gætu nýst okkur við endurreisn atvinnulífsins þurfa Íslendingar að taka yfir um leið og þess er gætt að þau verði rýmd í nothæfum einingum. Þarna er mikið af húsnæði og nú nokkuð fjölmenn byggð. Passa þarf uppá að það húsnæði sem þarna losnar fari ekki í almenna notkun, því það gæti haft veruleg áhrif á byggingarstarfemi á svæðinu. Það er því mikilvægt að skipulega verði unnið að rýmingu og um leið fundin nýting sem ekki hefur skaðleg á húsnæðismarkað byggðanna í kring. Ef tekið verður á þessu af festu og í líkingu við það sem hér er lýst eru verulegar líkur á að draga megi úr áhrifum fækkunar í herliðinu, eða brottfarar þess, á atvinnulíf á Suðurnesjum.

Í næstu grein verður bent á nokkra af þeim fjölmörgu möguleikum sem skapast við verulegan samdrátt hjá hernum á Keflavíkurflugvelli eða við brottför hans.

3. hluti – Óþrjótandi möguleikar

Óþrjótandi möguleikar
Á Suðurnesin fluttist fjöldi fólks víða að af landinu til að stunda þá atvinnu sem þar var að fá eftir að herinn hóf hér starfsemi sína. Þessi stóri vinnustaður hafði veruleg áhrif á aðra atvinnustarfsemi. Oft hafa Suðurnesin ekki notið sömu fyrirgreiðslu vegna þess að „þar var herinn”.

Nú í samdrættinum þrengir að. Það má ekki loka augunum fyrir því sem er að gerast. Nagandi óvissa um framtíðina og óundirbúinn samdráttur eins og hann kemur nú fram er eins og hægfara dauði. Lítið gerist, menn reyna að hanga í því sem þeir hafa, þora ekki að hugsa annað af ótta við að haldreipið slitni. Það verður því að gefa Suðurnesjamönnum nýja von, benda á aðra möguleika og sýna vilja til að hrinda þeim í framkvæmd. Það eru hagsmunir byggðanna á Suðurnesjum að tekið verði af alvöru á þeim vanda sem vera hersins hefur skapað á svæðinu.

Hér á eftir ætla ég að nefna nokkur dæmi sem skoða þarf af fullri alvöru, einmitt út frá því ástandi sem hér getur skapast.

Innanlandsflug til Keflavíkurflugvallar
Lengi hefur verið rætt um þann möguleika að flytja innanlandsflug til Keflavíkurflugvallar. Margir kostir eru við það. Búast má við að aukinn kostnaður af rekstri flugvallarins lendi á Íslendingum í framtíðin og því enn nauðsynlegra að auka nýtingu hans og losna við kostnað við rekstur annars flugvallar í tæpra 50 km. fjarlægð. Tvöföldun Reykjanesbrautar auðveldar flutning til og frá flugvellinum til höfuðborgarsvæðisins. Jafnframt mætir þetta óskum margra Reykvíkinga um að losa um landið í Vatnsmýrinni.

Landhelgisgæsluna til Suðurnesja
Ein ástæða þess að íslensk stjórnvöld héldu fast í það að flugherinn væri hér með ,,trúverðugar varnir” var sú staðreynd að það kallaði á veru þyrlubjörgunarsveitarinnar hér. Á Keflavíkurflugvelli er aðstaða fyrir þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og hafnaraðstaða t.d. í Keflavíkurhöfn.

Fangelsi
Bent hefur verið á að það gæti falið í sér verulegan sparnað fyrir íslenska ríkið að nýta húsnæði Íslenskra Aðalverktakar undir nýtt ríkisfangelsi. Sé jafnframt tekið tillit til atvinnuástandsins hér og að mikilvægt er að húsnæði sem er að losna vegna minnkandi umsvifa hjá hernum fái nýtt hlutverk, virðist áhugavert að þessi kostur sé skoðaður af mikilli alvöru.

Kvikmyndaver
Nokkuð langt er orðið síðan bent var á möguleika á að nýta hluta af aðstöðunni á Keflavíkurflugvelli undir kvikmyndaver. Þarna eru stór hús sem hægt er að nýta til slíkrar starfsemi. Sumir gerðu góðlátlegt grín að þessari hugmynd þegar hún var fyrst sett fram. Sú gróska sem verið hefur í kvikmyndagerð hér á landi gerir þessa hugmynd þó enn áhugaverðari. Framtíðarmöguleikar okkar á þessu sviði eru miklir og þessi hugmynd því verulega áhugaverð, fáist menn til að vinna í þessu máli af alvöru.

Háskólabær, orkugarðar
Nýlega kom fram að sérstök staðarvalsnefnd vegna Tækniháskólans er nú að skoða sjö hugsanlega staði fyrir nýja byggingu skólans. Búist er við að nefndin skili af sér tillögum til menntamálaráðuneytisins á næstu dögum. Áhugaverð staðsetning fyrir skóla á háskólastigi gæti einmitt verið á Suðurnesjum. Á Keflavíkurflugvelli er mikið húsnæði sem kemur til með að losna, húsnæði sem ekki má fara á almennan markað, en gæti hentað vel sem stúdentagarðar. Þar eru líka margvíslegir aðrir kostir s.s. félagsaðstaða, leikskóli, íþróttahús og þannig mætti áfram telja. Það fólk sem þar býr nú hefur nýtt margvíslega þjónustu í nágrannasveitarfélögunum. Þess vegna má tala um nokkra umframgetu í þjónustu t.d. í Reykjanesbæ. Fjöldi fólks á Suðurnesjum sækir háskólanám til Reykjavíkur. Tvöföldun Reykjanesbrautar og hugsanlegur innanlandsflugvöllur gerir Suðurnesin að tilvöldu svæði fyrir háskóla.

Hugmyndir hafa verið uppi um orkugarða sem tengst gætu því háhitasvæði sem hér er. Hitaveita Suðurnesja er leiðandi aðili í orkunýtingu. Slík aðstaða í tengslum við háskóla gæti skapað gott sambýli.

Heilsutengd ferðaþjónusta
Töluverðir möguleikar geta falist í móttöku ferðamanna sem hingað vilja leita sér til heilsubótar. Bláa Lónið er leiðandi fyrirtæki á því sviði. Margir telja að hægt sé að færa út kvíarnar og bjóða jafnvel uppá margvíslegar læknisaðgerðir. Á Keflavíkurflugvelli er sjúkrahús, við brottför hersins gæti skapast möguleiki á að nýta það í þessum tilgangi.

Styrking ferðaþjónustunnar
Það sem hér hefur verið nefnt mun jafnframt nýtast til að styrkja enn frekar almenna ferðaþjónustu á svæðinu. Möguleikarnir eru miklir og má t.d. nefna safn um landafundina sem gerði grein fyrir siglingum víkinga hingað og héðan til vesturheims. Hér er til staðar skip, Íslendingur, sem er eftirlíking af skipum forfeðra okkar og því hefur verið siglt þá leið sem þeir sigldu forðum. Hér eru miklir möguleikar sem kæmu til með að styrkjast með nýjum áherslum í atvinnuuppbyggingu á svæðinu.

Stjórnvöld hafa brugðist
Því miður hafa stjórnvöld ekki látið hagsmuni Suðurnesjamanna ráða sínum gjörðum. Hagsmunir þeirra sem starfa hjá hernum eru ekki þeir að vera í stöðugri óvissu um framtíðina, að kjör þeirra séu skorin jafn og þétt niður og að þrengt sé að þeim á allan hátt. Þeirra hagsmunir eru fyrst og fremst að hafa trausta og örugga vinnu, ekki endilega að hafa vinnu hjá bandarískum her. Stjórnvöld þurfa því að beita sér á allan hátt til að efla atvinnu til mótvægis við þann samdrátt sem nú á sér stað. Leita þarf allra leiða til uppbyggingar og möguleikarnir eru margvíslegir, mun fleiri en hér hafa verið nefndir. Til að nýta þá þurfa menn hins vegar að vera tilbúnir að horfa til framtíðar og hætta að einblína á hvort þeir vilji af einhverjum ástæðum hafa hér her eða ekki.

Herkveðjuhátíð á Ránni, Keflavík, laugardaginn 22. apríl kl. 13-17

By Uncategorized

keflavikurganga Vinstri græn á Suðurnesjum standa fyrir herkveðjuhátíð á Ránni í Keflavík nk. laugardag kl. 13-17.

Þetta verður hátíð með léttu yfirbragði en alvarlegum undirtóni. Fjölmörg atriði af ýmsu tagi. Bæði litið um öxl og horft fram á veginn. Þúsund blóm blómstra!

  • Sambúð hers og þjóðar í hálfa öld – hvers er að minnast?
  • Fögnuður eða söknuður þegar herinn fer?
  • Segjum upp herstöðvasamningnum og NATO-samningunum?
  • Reynum við að finna annan her í staðinn?
  • Hvernig varnir þurfum við – og gegn hverjum?
  • Árið 1918 hétum við ævarandi hlutleysi. Á að endurreisa hlutleysið?
  • Starfslokasamningar? Hvernig gegnur fólki að fá nýtt starf?
  • Hvernig verður viðskilnaðurinn – hreint land og fagurt land?
  • Getum við rekið flugvöllinn – og janvel nýtt hann betur?
  • Hvað tekur við? Ný tækifæri?

Ávörp m.a.

  • Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG, ávarpar samkomuna.
  • Jóhann Geirdal, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ: Herinn fer, fögnum nýjum tækifærum
  • Kristján Pálsson, sagnfræðinemi: Áhrifin voru líka jákvæð
  • Árni Björnsson, þjóðháttafræðingur: Orðið varnarlið
  • Sveinn Rúnar Hauksson. Sögur úr hersetunni
  • Einar Ólafsson, ritstjóri Friðarvefsins: Um alþjóðlega baráttu gegn herstöðvum.

List og menning m.a.

  • Rúnar Júlíusson, sá eini og sanni, segir frá kynnum sínum af hernum í máli og tónum.
  • Sóleyjarkvæði eftir Jóhannes úr Kötlum og tónlist Péturs Pálssonar var frumflutt 1965. Þrír upphaflegu flytjendanna syngja brot úr verkinu.
  • Hljómsveitir skipaðar ungu fólki af Suðurnesjum og úr Reykjavík: Tokyo Megaplex, Æla, Hellvar, Kapteinn Hafsteinn og Kira Kira.

Kynnir er hinn bráðsnjalli Stefán Pálsson, sagnfræðingur með meiru.

Til sölu:
Veitingar á vegum hússins. Happdrættismiðar, hljómplötur, efni þeirra sem koma fram.

Vinstrihreyfingin grænt framboð á Suðurnesjum

Nánari upplýsingar:

Þorvaldur Örn Árnason, valdurorn@ismennt.is s. 424 6841
Marta Guðrún Jóhannesdóttir, martag@fss.is s. 867 5986

Fjórða evrópska samfélagþingið í Aþenu 4.-7. maí

By Uncategorized

4ða ESF Aþenu enska Evrópskir herstöðvaandstæðingar á samfélagsþinginu í Aþenu

Fjórða Evrópska samfélagsþingið (European Social Forum – ESF) verður haldið í Aþenu dagana 4.-7. maí. Meðal fjölmargra funda á þinginu verður fundur undir yfirskriftinni: Herstöðvar Bandaríkjanna og hervæðing Evrópusambandsins í þjónustu „heimsstríðsins gegn hryðjuverkum“. Eflum baráttu okkar gegn þeim.

Nánari upplýsingar um 4. ESF: http://athens.fse-esf.org