Monthly Archives

September 2010

Friðarmerki á Klambratúni

By Uncategorized

Laugardaginn 2. október n.k. munu ýmis félagasamtök og friðarhreyfingar efna samkomu á Klambratúni, þar sem þátttakendur bera kyndla og mynda stórt friðarmerki. Samskonar athöfn fór fram í fyrra og tóks mjög vel. En hér má sjá myndskeið frá aðgerðum í ýmsum borgum.

Dagurinn er jafnframt fæðingardagur indverska stjórnmálamannsins og hugsuðarins Gandhis. Sendiherra Indlands á Íslandi flytur ræðu og kyndlar verða seldir á 500 krónur.

Friðarsinnar eru hvattir til að fjölmenna á Klambratún kl. 20, n.k. laugardag.

Fjáröflunarmálsverður, föstudag

By Uncategorized

Fyrsti fjáröflunarmálsverður Friðarhúss á þessu haustmisseri verður haldinn föstudagskvöldið 24. september. Matseðillinn verður á spænskum nótum og geta jafnt kjöt- og grænmetisætur fengið eitthvað við sitt hæfi:

* Spænskur uxahalapottréttur og kúskús
* Spænsk lauksúpa
* Avocado, appelsínu og möndlusalat
* Rauðrófusalat

Yfirkokkar að þessu sinni eru mæðginin Súsanna Svavarsdóttir og Kolbeinn Hólmar Stefánsson.

Að borðhaldi loknu mun Ásgeir H. Ingólfsson ræða um stöðu Roma-fólks í Austur-Evrópu, en málefni þessa hóps hafa talsvert verið umræðunni upp á síðkastið.

Sest verður að snæðingi kl. 19, en húsið verður opnað hálftíma fyrr. Verð kr. 1.500.

Opinn félagsfundur MFÍK á alþjóðlegum degi friðar 21. sept.

By Uncategorized

one eday one goal 2010Sameinuðu þjóðirnar hafa tilnefnt 21. september sem alþjóðlegan dag friðar og er fólk víðsvegar um heim hvatt til að taka þátt eða minnast dagsins á einhvern hátt.

Af þessu tilefni býður MFÍK til opins félagsfundar í Friðarhúsi (á horni Snorrabrautar og Njálsgötu).

Aðili frá Rauða krossinum mun mæta og segja frá starfi samtakanna á átakasvæðum.

Léttur kvöldverður verður seldur í upphafi fundar og eru allir velkomnir.

Húsið opnar kl. 18.30.

Um dag friðar, sjá:
http://www.peaceoneday.org/en/welcome

Þess má geta að knattspyrnuhreyfingin um allan heim tileinkar alla knattspyrnuleiki sem fram fara þennan dag baráttunni fyrir friði í heiminum, í 192 aðildarlöndum Sameinuðu þjóðanna.

Ályktun vegna ECA-umræðu

By Uncategorized

Samtök hernaðarandstæðinga lýsa vonbrigðum sínum með að enn á ný sé hafin umræða um að einkareknum flugher verði leyft að koma sér fyrir á Keflavíkurflugvelli. SHA hafa undanfarið ár ítrekað bent á siðleysi þessara áforma og minnt á ákvæði stjórnarsáttmálans um að Ísland skuli tala máli afvopnunar í heiminum. Einkarekinn málaliðaher getur aldrei samræmst þeirri hugsjón.

Jafnftamt harma samtökin komu bandarískrar orrustuflugsveitar sem hér verður næstu vikurnar undir fána “loftrýmseftirlits”. Það fráleitt – ekki hvað síst nú á niðurskurðartímum – að íslensk stjórnvöld standi í að niðurgreiða æfingarflug NATO-hermanna engum til gagns en fjölda fólks til ama.

Að endingu fagna SHA því að Varnarmálastofnun hafi verið lögð niður í fyrradag.