Monthly Archives

January 2009

Óréttlætanlegar handtökur við mótmæli gegn NATO

By Uncategorized

Eins og fram hefur komið hér á Friðarvefnum, með tilvísunum í fjölmiðla, voru sex manns handteknir við mótmæli vegna málþings NATO á Hilton-hótelinu í Reykjavík á miðvikudagskvöldið. Talið var að einn þeirra hefði verið handtekinn fyrir að kveikja í fána NATO.

Samkvæmt frétt Fréttablaðsins í dag, 30. janúar, segir lögreglan hins vegar að þeir hafi verið handteknir vegna óhlýðni.

Í fréttinni segir að ekki sé ólöglegt að kveikja í fána NATO, miðað við almenn hegningarlög, einungis megi sekta þá sem opinberlega smána fána erlendrar þjóðar, fána Sameinuðu þjóðanna eða fána Evrópuráðs.

Blaðið hafði samband við Snorra Pál Jónsson Úlfhildarson, sem segist hafa borið fánann eftir að kveikt var í honum, en hann var ekki verið handtekinn.

„Þetta var nælonfáni sem brennur upp á fjórum sekúndum. Löggan sá þetta þegar hann var kominn í tætlur. Þá hlupu þeir að mér og tóku fánann,” segir Snorri. Hinir handteknu hafi hins vegar reynt að hrifsa fánastöngina af lögreglu.

Haft er eftir Ragnari Aðalsteinssyni hæstaréttarlögmanni að ef ákært væri út af slíku yrði líklega beitt sömu rökum og í Bandaríkjunum 1989. Þá var ákært fyrir flaggbrennu sem fór fram í pólitískum tilgangi. Hinn ákærði var sýknaður þar sem hann nyti tjáningarfrelsis. Slík ákæra yrði skemmtilegt álitaefni hér á landi, segir Ragnar.

Sú viðbára lögreglu, að hinir handteknu hafi verið handteknir vegna óhlýðni vekur upp spurningar. Sá, sem þetta skrifar, var á vettvangi og þykist geta fullyrt að viðbrögð lögreglu gagnvart fánabrunanum hafi verið fullkomlega óeðlileg, sérstaklega ef fánabruninn var í sjálfu sér ekki ólöglegur, og því stenst ekki að hægt hafi verið að handtaka nokkurn í sambandi við hann fyrir óhlýðni við lögreglu.

Án þess hér hafi verið kannað hvort aðrar handtökur standist lögfræðilega, þá virðist vera samkvæmt þeim frásögnum sjónarvotta, sem fram hafa komið, að lítil ástæða hafi verið til að handtaka þá miðað við aðstæður. Ekki kom til umtalsverðra átaka, í mesta lagi virðist vera að einhverjir í hópi mótmælenda hafi sýnt mótþróa eða „óhlýðni“ í kjölfar óeðlilegra viðbragða lögreglu við umræddri fánabrennu. Fátt bendir til að aðstæður hafi kallað á handtökur eða beitingu þess harkalega vopns sem piparúði óneitanlega er.

Sú spurning vaknar hvort það hafi þrýst á lögregluna að beita þessum harkalegu aðgerðum, að þarna var um að ræða fund sem NATO átti aðild að, ásamt íslenskum stjórnvöldum. Þarf NATO einhverja sérstaka vernd gagnvart íslenskum þegnum sem kallar á viðbrögð lögreglu, sem eru vafasöm, ef ekki í ströngum lagalegum skilningi, þá út frá eðlilegum skilningi á þegnrétti til tjáningar og mótmæla?

– eó

Sjá frétt Fréttablaðsins

Föstudagsmálsverður & fimmtudagsmótmæli

By Uncategorized

hnetupottÚtlit er fyrir að Ísland sé að fá nýja ríkisstjórn. Því munu væntanlega ýmsir félagsmenn í SHA fagna. Þá er ekki úr vegi að líta í Friðarhús á föstudagskvöld. Þar verður ekki á boðstólum súr þorramatur heldur:

* Kjöt í karrý, hrísgrjón, brauð og salat (kokkur: Björk Vilhelmsdóttir)

og

* Grænmetispottréttur (kokkur: Guðrún Bóasdóttir, Systa)

Rithöfundurinn Ármann Jakobsson mætir og les úr bók sinni Vonarstræti.

Borðhald hefst kl. 19:00. Verð kr. 1.500.

# # #

Lesendur Friðarvefsins eru hvattir til að kynna sér færslu hér að neðan um mótmæli gegn Nató-forkólfum í Reykjavík. Í niðurlagsorðum segir: En á morgun, fimmtudag, eftir að málþingi NATO líkur, verður móttaka fyrir þátttakendur í seinna málþinginu, og hefst hún klukkan sex. Kannski einhverjir mæti þá aftur fyrir utan hótelið með trumbur og potta og pönnur.

NATO-ráðstefnu mótmælt

By Uncategorized

Nokkur hópur fólks mætti við Hilton Reykjavik Nordica Hotel við Suðurlandsbraut um klukkan hálfsjö í kvöld, miðvikudagskvöld, en þar hófst klukkan sjö móttaka fyrir þátttakendur í málstofu NATO og íslenskra stjórnvalda um öryggishorfur á norðurslóðum, en hún fer fram á sama stað á morgun, fimmtudaginn 29. janúar.

Að hætti búsáhaldabyltingarinnar mætti fólkið með trumbur og potta og pönnur og lét í sér heyra. Að mestu fór þetta friðsamlega fram, en einhver tritringur var þó í lögregluliðinu, sem þarna var sett sem brimbrjótur milli mótmælenda og NATO-liðsins, og að lokum tóku einhverjir lögreglumenn fram vopnið sitt, piparúðann, en vandséð er hver þörf var á því til varnar NATO. Einnig munu sex menn hafa verið handteknir.

Í framhaldi af málþingi NATO og íslenskra stjórnvalda verður svo á föstudaginn málþing undir sama heiti á vegum Varnamálaskóla NATO (NATO Defense College (NDC)) með stuðningi Háskóla Íslands. En á morgun, fimmtudag, eftir að málþingi NATO líkur, verður móttaka fyrir þátttakendur í seinna málþinginu, og hefst hún klukkan sex. Kannski einhverjir mæti þá aftur fyrir utan hótelið með trumbur og potta og pönnur.

Samtök hernaðarandstæðinga hafa sent frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:

    „Fyrr í kvöld buðu íslensk stjórnvöld gestum Nató-ráðstefnunnar, sem stendur fyrir dyrum, til veislu á Hilton Nordica hótelinu við Suðurlandsbraut. Þangað hrökklaðist samkoman af ótta við íslenskan almenning, sem boðað hafði til mótmæla af því tilefni við hinn fyrirhugaða samkomustað, Þjóðmenningarhúsið.

    Ljóst er boðskapur mótmælenda fór ekki framhjá veislugestum, sem hröðuðu sér sneyptir inn um dyr hótelsins. Engir íslenskir ráðamenn voru sjáanlegir á svæðinu.
    Á að giska fjörutíu lögregluþjónar voru viðstaddir mótmælin og var nokkuð um að þeir hyldu andlit sín eða væru íklæddir lambhúshettum.

    Hernaðarandstæðingar lýsa sérstökum vonbrigðum sínum yfir að Háskóli Íslands láti sér sæma að leggja nafn sitt við samkomur af þessu tagi.

    Nató-forkólfar eru engir aufúsugestir hér á landi og sárgrætilegt að íslensk stjórnvöld kjósi að sóa fjármunum skattborgara með slíkum hætti á erfiðum tímum.“

Fréttatilkynning utanríkisráðuneytisins: Málstofa um öryggishorfur á norðurslóðum

NATO news: Security prospects in the High North (dagskrá málþings NATO)

University of the Arctic: Security Prospects in the High North:Geostrategic thaw or freeze? (dagskrá Málþings Varnarmálaskóla NATO)

Globalresearch.ca: The Arctic in NATO’s Crosshairs

Mbl.is: Lögregla beitti piparúða

Visir.is: Mótmælunum lokið – sex handteknir

Ruv.is: Mótmæli við NATÓ fund

Smugan.is: Lögreglan úðar á friðarsinna

Dv.is: Gasaðir fyrir að henda snjóboltum (viðtal við Stefán Pálsson, formann SHA)

ÁRÍÐANDI – Nató-kokteillinn verður á Nordica

By Uncategorized

Eftir mikinn feluleik sem staðið hefur síðasta hálfa sólarhringinn er komið í ljós að móttakan fyrir gesti Nató-þingsins hefur verið flutt úr Þjóðmenningarhúsinu að Hótel Nordica Hilton (gömlu Hótel Esju) við Suðurlandsbraut.

Þangað munu andstæðingar hernaðarbandalagsins mæta kl. 18:30 á eftir og láta vel í sér heyra!

SHA

Nató mótmæli – ÁRÍÐANDI TILKYNNING

By Uncategorized

Fregnirnar af fyrirhuguðum mótmælum hernaðarandstæðinga í tengslum við móttöku þá sem halda á fyrir gesti á Nató-ráðstefnunni á morgun, miðvikudag, hafa skotið hernaðarsinnum skelk í bringu. Samkvæmt nýjustu fregnum hafa stjórnvöld hætt við að halda samkomuna í Þjóðmenningarhúsinu.

Hernaðarandstæðingar hyggjast reka flóttann og er nú unnið að því að grafa upp hina nýju staðsetningu kanakokteilsins.

UM LEIÐ og þær upplýsingar liggja fyrir, verður send út tilkynning á póstlista SHA og upplýsingar um nýja staðsetningu settar inn hér á Friðarvefinn – í síðasta lagi kl. 16.

Fylgist því vel með fréttum af þessu máli. Ekki viljum við að Nató-framkvæmdastjórinn missi af því að hitta íslenska friðarsinna í þessari heimsókn!

Mótmælum Nató-stjóranum

By Uncategorized

Fyrir dyrum stendur ráðstefna á vegum Nató og íslenskra stjórnvalda, sem haldin verður á Hilton hóteli n.k. fimmtudag. Ráðstefna þessi hefur þann megintilgang að leita réttlætinga fyrir áframhaldandi hernaðarumsvifum á Íslandi, s.s. heræfingum Nató-flugsveita og sívaxandi íslenskri Varnarmálastofnun. Vert er að vekja athygli á greinargóðri samantekt á Friðarvefnum, þar sem hernaðarútgjöld ríkissjóðs samkvæmt fjárlögum eru rakin. Hana má lesa hér að neðan.

N.k. miðvikudag kl. 18:30 verður móttaka í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu fyrir gesti Nató-þingsins. SHA hvetja félagsmenn sína sem og aðra friðelskandi Íslendinga til að mæta fyrir framan Þjóðmenningarhúsið á þeim tíma og láta hraustlega í sér heyra.