Monthly Archives

January 2009

Fjárlög 2009: 1,4 milljarður í hernaðarmál

By Uncategorized

18. desember sl. var hér á Friðarvefnum farið yfir tillögur fjárlagafrumvarpsins fyrir 2009 um útgjöld til varnarmála. Niðurstaðan var þessi:

• Varnarmálastofnun: 1.409,4 milljónir króna
• NATO: 70,8 milljónir króna
• Fastanefnd Íslands hjá NATO: 123,9 milljónir króna
Samtals: 1604,1 milljónir króna

Fjárlögin voru afgreidd í þinginu 22. desember og þegar endanleg niðustaða er skoðuð hafa orðið nokkrar breytingar.

Útgjöld til Varnarmálastofnunar hafa lækkað nokkuð og eru 1.227 milljónir króna (bls. 58) en bein útgjöld vegna aðildarinnar að NATO hafa hinsvegar hækkað og eru 87,6 milljónir króna (bls. 60). Ekki kemur fram í lögunum sjálfum kostnaður við Fastanefnd Íslands hjá NATO en heildarkostnaður vegna sendiráða (fastanefndin er undir þeim lið) er hins vegar heldur hærri (9,3 milljónir) í lögunum en gert var ráð fyrir í frumvarpinu og má því ætla að ekki hafi verið dregið úr kostnaði við fastanefndina, sem er þá 123,9 milljónir króna. Ef það er rétt, þá er heildarkostnaðurinn 1438,5 millljónir króna.

Þessi útgjöld eru að verulegu leyti gagnslaus og reyndar til ills eins. Þó má vera að Ratsjárstofnun, sem var sett undir Varnarmálstofnun við stofnun hennar í fyrra, sé til einhvers gagns. Útgjöld vegna Ratsjárstofnunar samkvæmt fjárlögum 2008 voru 822,3 milljónir króna en í frumvarpinu fyrir 2009 kemur engin sundurliðun fram. Ef við reiknum með svipuðum útgjöldum 2009, þá er annar kostnaður við Varnarmálstofnun 404,7 milljónir króna, sem er þarflaus. Samtals mætti því spara að minnsta kosti 616,2 milljónir króna og sennilega miklu meira.

Til samanburðar þessum tölum má geta þess að með þeim tillögum sem heilbrigðisráðherra kynnti nú í vikunni um skiplagsbreytingar í heilbrigðiskerfinu á að spara 1300 milljónir og sértekjur heilbrigðisstofnana af komugjaldi vegna innlagnar á sjúkrahús eru áætlaðar um 360 milljónir á næsta ári.

Friðarvefurinn 18. des. 2008: Fjárlagafrumvarpið: 1,6 milljarður í hernaðarmál
Fjárlög fyrir árið 2009 (pdf-skjal)
Fréttablaðið 8. jan. 2009: Stofnunum verður fækkað og skorið niður um 1300 milljónir
Visir.is 23. des. 2008: Ný gjöld og hækkun í heilbrigðisþjónustu

Ályktun frá SHA v. fjöldamorða á Gaza

By Uncategorized

Gaza2009 04Samtök hernaðarandstæðinga fordæma grimmdarverk Ísraelshers á Gaza-svæðinu, sem heimurinn hefur orðið vitni að undanfarna daga. Ljóst er að aðgerðirnar hafa kallað ólýsanlegar þjáningar yfir íbúa svæðisins og þverbrjóta alþjóðalög og mannréttindasáttmála. Samtökin taka undir kröfu félagsins Íslands-Palestínu þess efnis að íslenska ríkisstjórnin slíti stjórnmálasamstarfi við Ísraelsríki vegna fjöldamorðanna.

Íslendingar bera sína ábyrgð á stöðu mála vegna aðildar landsins að hernaðarbandalaginu Nató. Á undanliðnum árum hefur Nató átt í margvíslegum hernaðarsamskiptum við Ísrael og á leiðtogafundi bandalagsins í Búkarest á síðasta ári var sérstaklega ályktað að þróa bæri tengsl Nató og Ísraels enn frekar. Er það en nein sönnun þess að Ísland væri betur komið utan hernaðarbandalaga.

Jafnframt krefjast Samtök hernaðarandstæðinga þess að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir því á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að sett verði alþjóðlegt vopnasölubann á Ísrael.

Friðarhreyfingin og borgaraleg óhlýðni

By Uncategorized

civil disobedienceBorgaraleg óhlýðni hefur verið talsvert til umræðu upp á síðkastið, ekki hvað síst í tengslum við beinar aðgerðir ýmissa mótmælenda sem hafa látið skoðanir sínar í ljós á ýmsum málum tengdum hruni bankanna. Ýmsir hafa talið sig kenna breytingar á mótmælahegðun Íslendinga í þessu samhengi.

Samtök hernaðarandstæðinga hafa raunar fylgst grannt með þessari þróun um alllangt skeið. Fyrir nokkrum misserum var Dagfari, tímarit SHA, að mestu helgað umfjöllun um mótmæli, mótmælatækni og hugmyndafræði mótmæla. Varðandi borgaralega óhlýðni sérstaklega, hefur margoft verið fjallað um þessa baráttuaðferð erlendra friðarsinna í blöðum samtakanna og á þessari síðu. Má þar nefna Ploughshares-hreyfinguna, sem tileinkar sér þá baráttuaðferð að ráðast inn í herstöðvar og valda tjóni á kjarnorkuvígbúnaði. Félagar í hreyfingunni bíða undantekningarlaust handtöku að skemmdarverkunum loknum, láta handtaka sig en bera við neyðarrétti.

Um árið komu Samtök hernaðarandstæðinga að námskeiði sem haldið var í Reykjavík, þar sem breski róttæklingurinn Milan Rai og kona hans Emily Jones kenndu borgaralega óhlýðni og settu hana í sögulegt samhengi. Segja má að þetta námskeið marki viss tímamót í sögu þessarar tegundar pólitískra mótmæla hér á landi.

peace newsNýverið skrifaði Milan Rai grein í breska tímaritið Peace News, þar sem farið var yfir atburði ársins 2008 á sviði róttækrar baráttu friðarsinna. Greinina má lesa hér.

Þar er meðal annars fjallað um tímamótadóm sem féll í Bretlandi á síðasta ári, þar sem hópur mótmælenda á Norður-Írlandi var sýknaður af kæru fyrir að hafa brotið og bramlað á skrifstofu vopnaframleiðanda. Dómstóllinn féllst í stuttu máli á að neyðarréttur hefði átt við í þessu tilviki og að fólkinu hefði verið heimilt að grípa til þessara aðgerða til að afstýra öðrum og verri glæpum. Um þetta má og önnur þau sem Milan Rai nefnir í grein sinni má fræðast með einfaldri leit á netinu, s.s. á alfræðisíðunni Wikipediu.

Stefán Pálsson