Friðarvefurinn hefur birt grein Flosa Eiríkssonar úr tímaritinu Herðubreið, þar sem Flosi finnur að einu og öðru varðandi baráttuaðferðir og málflutning Samtaka hernaðarandstæðinga. Stefán Pálsson, formaður SHA, svarar hér einu og öðru úr grein Flosa.
Jóhannes úr Kötlum flutti eftirminnilega ræðu á útifundi Samtaka hernámsandstæðinga fyrir margt löngu, þar hann sem lagði út frá því að þótt einungis “ein lítil kona í rauðri regnkápu” myndi mæta til að hlusta, skyldi hann ekki skorast undan því að tala máli friðar og afvopnunar. Skáldið vissi sem var að hvort heldur sem fundarmenn væru taldir í tugum eða tugþúsundum hefði það eitt og sér ekki áhrif á réttmæti málstaðarins og breytti því ekki hvort boðskapurinn væri réttur eða rangur.
Fáir menn unnu jafnötulega að framgangi herstöðvaandstöðunnar og Jóhannes úr Kötlum. Stofnun Samtaka herstöðvaandstæðinga árið 1972, á grunni Samtaka hernámsandstæðinga sem þá lágu í dvala, var að hluta til í minningarskyni við skáldið sem lést þetta sama ár. Jóhannes þekkti því mætavel gagnrýni andstæðinga hreyfingarinnar, sem reyndu að draga upp þá mynd að hún væri fáliðuð, áhrifalaus og einkum skipuð óraunsæjum öfgamönnum af vinstri vængnum.
Íslenskir hernaðarsinnar og stuðningsmenn NATO-aðildarinnar hafa alla tíð reynt að afgreiða friðarsinna og samtök þeirra með þessum hætti. Að því leyti hefur orðræðan ekkert breyst frá lokum síðari heimsstryjaldarinnar til dagsins í dag.
Gagnrýni er alltaf góð
Flosi Eiríksson, gamall og góður félagi í Samtökum hernaðarandstæðinga, er á nokkuð öðru máli. Hann telur friðarhreyfinguna í kreppu, meðal annars vegna þess að hún eigi við heimatilbúinn ímyndarvanda að etja. Í nýlegri grein í tímaritinu Herðubreið, sem nú hefur verið birt hér á Friðarvefnum, freistar Flosi þess að greina í hverju vandi SHA felist.
Ég fagna því að Flosi skuli hafa gefið sér tíma til að skrifa þessa grein og búa hana til birtingar. Pólitísk hreyfing sem enginn nennir að hafa skoðun á er ekki í góðri stöðu. Öll samtök hljóta að hafa gott af stöðugri umræðu um hversu vel þeim gengur í baráttu sinni og hvort hún skili tilætluðum árangri. Jafnframt deili ég þeirri skoðun með Flosa að friðarhreyfingin þyrfti að vera miklu sterkari en raun ber vitni – það væri raunar skringilegur formaður félagasamtaka sem ekki vildi málstað félags síns sem mestan.
Samtök hernaðarandstæðinga hafa aldrei verið hrædd við gagnrýna umræðu um starfsemi sína. Til marks um það má nefna greinar sem birtust hér á Friðarvefnum í tengslum við nafnbreytingu SHA árið 2006, þar sem 2-3 ágætir félagar gagnrýndu eitt og annað í starfinu og stefnunni – en þau skrif eru raunar einhver veigamesta heimildin í umræddri grein Flosa.
Upphaflega var hér um að ræða tölvuskeyti viðkomandi félaga til þess er hér skrifar og Einars Ólafssonar, ritstjóra Friðarvefsins. Við Einar töldum hins vegar rétt að sem flestir gætu lesið skrifin og báðum því um leyfi til birtingar.
Beinskeytt skrif í Dagfara
Enn hvassari gagnrýni á baráttuaðferðir SHA hafa birst í sjálfu málgagni félagsins, Dagfara – jafnvel í ritstjórnargreinum. Fyrir nokkrum misserum var t.a.m. “mótmælamenning” meginstefið í einu tölublaði Dagfara, þar sem íslenskum mótmælendum (þar með talið SHA) var sagt til syndanna af ungum anarkista fyrir að vera alltof settleg – og Haukur Már Helgason amaðist við þjóðernissöngvum og hvatti til þess að “hinni langdregnu líkfylgd Maístjörnunnar” yrði slitið hið fyrsta.
Enn má nefna Dagfarann þar sem SHA var skammað úr ólíkum áttum í greinum sem birtust hlið við hlið – af sósíalistanum Þórarni Hjartarsyni á Akureyri sem hvatti til beins stuðnings við andspyrnusveitir í Írak og af f.v. formanni Heimdallar, Björgvini Guðmundssyni sem átaldi herstöðvaandstæðinga fyrir að berjast ekki fyrir frjálsri verslun.
Auðvitað hafa greinar sem þessar stundum farið fyrir brjóstið á almennum félagsmönnum – sem jafnvel hafa hótað úrsögnum eða hringt í okkur úr miðnefndinni og skammast hraustlega. Sjálfur hef ég hins vegar alltaf verið stoltur af því að vera hluti af félagi sem hikar ekki við að draga fram sem ólíkust sjónarmið og óvægna sjálfsgagnrýni. Af lestri greinar Flosa virðist mér hann vera á öðru máli. Mér virðist hann telja það veikleikamerki að á vettvangi félagsins birtist gagnrýnin skrif manna sem ekki eru sáttir við starfið og stefnuna. Sé sá skilningur minn réttur, verðum við Flosi að vera ósammála í þessu efni.
Ólík sjónarmið
Félagar í SHA hafa ólíkar skoðanir og áherslur. Sumir aðhyllast harða friðarstefnu (pacifisma), aðrir ganga talsvert langt í að fallast á valdbeitingu til að koma á réttlæti. Þannig segist Ólafur Jónsson (Óli kommi) “vera á móti öllum her – nema Rauðum her”, meðan Framsóknarþingmaðurinn Bjarni Harðarson leggur á það áherslu að herstöðvaandstaða hans hafi alla tíð byggst á þjóðernislegum forsendum, þar sem erlendur her eigi hér ekki að vera.
Sumir félagsmenn byggja afstöðu sína að miklu leyti á andstöðu við það sem þeir telja heimsvaldastefnu Bandaríkjanna og þá trú að stjórnin í Washington sé helsta ógnin við frið í heiminum nú um stundir. Það er því kannski ekki að undra þótt þessi hópur hafi ekki látið mikið til sín taka þegar SHA hafa mótmælt komu herskipa frá öðrum ríkjum en BNA, s.s. frá Þýskalandi, Frakklandi og Rússlandi. Þeir eru til í röðum félaga okkar sem sjá litla ástæðu til að amast við heræfingum hér á landi þar sem engir bandarískir hermenn taka þátt. Þannig virðist mér Flosi Eiríksson vera ósáttur við það að samtökin mótmæli heræfingum Norðmanna og Dana.
En þótt skoðanir og áherslur einstakra félagsmanna kunni að vera skiptar, er stefna sjálfra samtakanna skýr – og hún hlýtur jú að vera mælikvarðinn. Stefnuskráin, sem síðast var endurskoðuð haustið 2005 er afdráttarlaus. SHA berjast fyrir því að alþjóðleg deilumál verði leyst án ofbeldis. Þau hafna heimsvaldastefnu og öllum tilraunum til að kúga þjóðir með hervaldi. Þátttaka Íslendinga í hernaði og hernaðarbandalögum má aldrei líðast.
Þótt stefnuskrá SHA sé innan við þriggja ára gömul, hefði hún allt eins getað verið samin fyrir tíu árum, tuttugu árum eða hálfri öld – það er af því að baráttumálin eru sígild. Við hernaðarandstæðingar teljum sjónarmið okkar eiga jafn vel við nú og fyrir hundrað árum, á sama hátt og frjálshyggjumaðurinn eða jafnaðarmaðurinn telja væntanlega báðir að hin klassísku gildi þeirra hafi staðist tímans tönn.
Þetta sjónarmið – að stefnumál og gildismat okkar friðarsinna okkar í dag væri hið sama og frumherjanna fyrir mörgum áratugum – reyndi ég að reifa í skoðanaskiptunum sem urðu í tengslum við breytinguna á nafni samtakanna árið 2006 og sem Flosi vísar talsvert í. Líklega hefur mér ekki tekist nægilega vel að koma hugsun minni vel í orð – í það minnsta leggur Flosi allt annan skilning í skrif mín en til var ætlast.
Hvað á barnið að heita?
Til að setja skrifin haustið 2006 í samhengi, er rétt að rifja upp að miðnefnd SHA hafði þá lagt til að nafni Samtaka herstöðvaandstæðinga yrði breytt í Samtök hernaðarandstæðinga. Tilefnið var augljóslega sú breytta staða sem upp var komin vegna brottfarar bandaríska hersins af Miðnesheiði. Nýja nafnið mæltist vel fyrir hjá þorra félagsmanna og var samþykkt furðumótbárulítið ef haft er í huga hversu miklar tilfinningar geta verið bundnar við gamalgróin nöfn.
Í aðdraganda aðalfundarins gerðu samt nokkrir félagar ágreining um þessa breytingu og töldu hana til marks um að samtökin hefðu fjarlægst fyrri stefnu sína og markmið. Að þeirra mati voru samtökin í seinni tíð farin að reka almenna og innihaldsrýra friðarstefnu, sem væri í raun til þess fallin að verja ríkjandi ástand og væri því vatn á myllu valdastétta. Þá var það sjónarmið reifað að friðarhreyfingin hefði aldrei neinu skilað og engum árangri náð.
Þessum sjónarmiðum andmælti ég og hélt því fram að hugmyndafræðilegi grundvöllur hernaðarandstöðunnar í dag væri sá sami og fyrir hálfri öld. Eftir að hafa lesið mér rækilega til um sögu friðarhreyfingarinnar hér á landi er ég sannfærður um að fáar ef nokkrar pólitískar hreyfingar á Íslandi hafa verið jafn alþjóðlegar og friðarhreyfingin. Þótt andstæðingar okkar hafi oft viljað líta á hreyfingu herstöðvaandstæðinga sem séríslenskt fyrirbæri er líklega erfitt að gera sér í hugarlund nokkuð sem er jafn ó-séríslenskt og einmitt friðarhreyfingin.
Því miður fór þessi boðskapur gjörsamlega framhjá Flosa, sem kaus að túlka orð mín um að baráttumál friðarhreyfingarinnar væru klassísk á þann hátt að hreyfingin sjálf ætti engum breytingum að taka og að best væri að gera alla hluti eins og þeir voru framkvæmdir árið 1975.
Úr ýmsum áttum
Reyndar finnst mér fleira í gagnrýni Flosa bera það með sér að hann hafi í flýti gripið niður hér og þar í starfsemi félagsins og tínt til málsgreinar eða setningar sem kunni að orka tvímælis ef samhengið vantar. Þannig gremst Flosa að í lok langrar ályktunar um herfingar Norðmanna á Íslandi komi sagnfræðileg vísun í sjóhetjuna Tordenskjold og Einar Þveræing – engu að síður viðurkennir hann að í meginmáli ályktunarinnar komi fram meginröksemdir samtakanna gegn heræfingum almennt. Sagnfræðilegu kjúríosítetin í lokin, sem öðrum þræði voru sett inn í þeirri vitneskju að fjölmiðlar birta síður þurrar ályktanir, eru hins vegar fleinn í holdi Flosa sem telur þau stórskaða málstað friðarsinna.
Leiðinlegra þykir mér að lesa dylgjur Flosa um að ég hafi í þessari grein á Friðarvefnum gefið undir fótinn kenningum um CIA-samsæri að baki hryðjuverkunum 11. september 2001. Hvað er það við setninguna: “Sá er þetta ritar, leggur ekki trú á þessar kenningar”, sem vefst fyrir höfundi? Dylgjur af þessu tagi eru enn bagalegri í ljósi þess að Flosi hirðir ekki um að birta tilvísanir með grein sinni í Herðubreið – með þeim afleiðingum að lesendur tímaritsins hafa ekki möguleika á að kanna sjálfir hvað hæft sé í ályktunum hans.
Eins er skringilegt að lesa umfjöllun um að Pútíns-dýrkun ráði miklu um afstöðu einstakra félaga í mikilsverðum málum. SHA hafa vissulega staðið gegn uppbyggingu gagneldflaugakerfis í Evrópu, sem margir telja að miklu leyti beint gegn Rússlandi. Á sama hátt hafa samtökin varað við öllu því sem stuðlað gæti að nýju vígbúnaðarkapphlaupi milli Rússlands og Vesturveldanna – en í því felst vitaskuld ekki neinn stuðningur við ríkisstjórn Rússlands, á sama hátt og andstaðan við vígvæðingu NATO-þjóða á tímum kalda stríðsins var ekki stuðningsyfirlýsing við stjórnvöld í Moskvu.
Hvers vegna íslenskir friðarsinnar ættu líka að finna til sérstakrar samkendar með mönnum á borð við Pútín, sem hefur blóði drifnar hendur eftir stríðið í Téténíu, er mér sömuleiðis hulin ráðgáta. Á tímum kalda stríðsins vildu sumir trúa því að SHA væri skálkaskjól fyrir fimmtu herdeild kommúnista – enn langsóttari er þó hugmyndin um að þar hafi verið um að ræða fimmtu herdeild Rússasinna – alveg óháð stjórnmálaástandi í Rússlandi.
Höfum við gengið til góðs?
Til hvers er okkar starf? – Hversu oft höfum við öll ekki spurt okkur þessarar spurningar? Að andæfa herveldum veraldar með baráttusöngva og skilti með hnitmiðuðum slagorðum að vopni, kann að virðast ójafnasta glíma sem hugsast getur. Ef sagan er könnuð kemur þó í ljós að samstaða fólksins hefur ýmsu áorkað.
Líklega var það evrópska friðarhreyfingin sem bjargaði veröldinni frá yfirvofandi gereyðingarstríði þegar kjarnorkukapphlaupið stóð sem hæst. Þegar risaveldin kepptust við að setja upp skamm- og meðaldræg kjarnorkuvopn á meginlandi Evrópu – þá voru það ekki firrtu risaeðlurnar Reagan og Brésneff sem tóku í taumana. Það var samtakamáttur fjöldans – milljóna manna um álfuna alla sem afstýrði geggjuninni.
Friðarhreyfingin hefur glæsta sögu og getur sýnt fram á fjöldamörg afrek. En jafnvel þótt engum slíkum væri til að dreifa – jafnvel þótt eini áheyrandinn öll þessi ár, væri ein lítil kona í rauðri regnkápu – þá gæti hún samt borið höfuðið hátt.
Stefán Pálsson
– höfundur er formaður SHA