Þórarinn Hjartarson á Akureyri, félagsmaður í SHA, sendi Friðarvefnum þennan pistil um „stríðið gegn hryðjuverkum“. Aðsendar greinar á Friðarvefnum eru að sjálfsögðu verk höfunda sinna og þurfa ekki endilega að endurspegla stefnu vefritsins eða Samtaka hernaðarandstæðinga.
Vestræn herveldi ráðast nú hvert af öðru inn í Sýrland til að „berjast við ISIS“. Nú er endurvakið það „stríð gegn hryðjuverkum“ sem Bandaríkin og NATO skrifuðu á stríðsfána sína eftir 11. september 2001 og réðust í framhaldinu á Afganistan og Írak. Margt er líkt. Fyrirbærið ISIS er einmitt af sama meiði og fyrirbærið Al Kaída: Islömsk hryðjuverkasamtök af stofni Súnnía. ISIS hétu upphaflega Al Kaída í Írak. Líkt og Al Kaída láta þau nú til sín taka í mörgum löndum í Asíu og Afríku.
Þessi hernaður vestrænna ríkja í Sýrlandi er í óþökk ríkisstjórnar landsins, vestrænir leiðtogar og bandamenn þeirra taka mjög skýrt fram að þeir muni ekki vinna með því afli sem öðrum fremur hefur þó sýnt árangur í að uppræta ISIS á svæðinu, þ.e. Sýrlandsher.
Vestrænar íhlutanir og hryðjuverk hanga saman
Jafnvel í vestrænni fréttaveitu er sú staðreynd nokkuð viðurkennd að íslamskir hryðjuverkahópar og jíhadistar – bæði Al Kaída, ISIS og fleiri slíkir – hafi einkum sprottið og gróið úr innrásum og íhlutunum vestursins á hinu íslamska svæði frá Mið-Asíu til Norður-Afríku eftir að „stríð gegn hryðjuverkum“ hófst. Þetta má staðfesta með því að ganga á röðina.
Írak: Fyrir innrás „hinna viljugu“ 2003 var Al Kaída ekkert afl í Írak. Upp úr innrásinni og hernáminu uxu samtökin úr grasi, hétu fyrst Al Kaída í Írak, svo ISI. Hlutverk þeirra í stríðinu varð að vekja trúarbragðadeilur innan Írak og veikja þar með samstöðuna og viðnámið gegn hinni vestrænu innrás. Hryðjuverkasamtökin fluttu svo meginstarfsemi sína 2011 yfir landamærin til Sýrlands þegar vestrænt studd uppreisn hófst þar, uxu þá eins og arfi á mykjuhaug og urðu smám saman höfuðaflið í þeirri uppreisn. Árið 2014 voru þau orðinn stór, ríkulega útbúinn her og kölluðu sig ISIS/ISIL. Líbía: Al Qaeda var ekki neitt neitt í Líbíu fyrr en með hinni vestrænt studdu uppreisn og lofthernaði NATO gegn landinu 2011. En eftir íhlutunina er landið orðið að miðstöð íslamskra hryðjuverkahópa alls konar sem sendir vopn og vígamenn í allar áttir. Framantalin dæmi gefa skýra mynd: Eftir vestrænar íhlutanir standa viðkomandi lönd í upplausn, sundurtætt af trúardeilum þar sem íslamskir vígamenn gera sig gildandi umfram aðra. Hryðjuverkahóparnir gréru og blómstruðu við þær aðstæður sem ihlutanirnar skópu. Þetta vitum við og þurfum ekki að deila um. Afganistan er aðeins flóknara dæmi. Sjálfur utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Hillary Clinton , viðurkenndi (2009) berum orðum hinn stóra þátt bandarískra strategista í því að skapa Al Kaída og slíka íslamska hryðjuverkahópa þegar hún sagði: „þeir sem við berjumst við núna kostuðum við fyrir 20 árum“ til að berjast við Sovétherinn í Afganistan. https://www.youtube.com/watch?feature=player_embedded&v=xd0fLAbV1cA Í því stríði gegndu þessir íslömsku hryðjuverkahópar mikilvægu staðgengilshlutverki fyrir vestræna heimsvaldastefnu, fjármagnaðir og vígbúnir einkum annars vegar af CIA og hins vegar af Sádi-Arabíu. Í seinna Afganistanstríðinu hafði Al Kaída hins vegar aðeins það hlutverk að réttlæta innrás USA og NATO-veldanna í landið, svo var því hlutverki lokið og þau hurfu að mestu úr sögunni. Í viðtali nýlega viðurkenndi Hamid Karzai – sem var yfirverkfæri Bandaríkjanna og NATO eftir innrásina – að Al Kaída sé kannski mýta og hann, forseti landsins 2004-2014, hafi a.m.k. aldrei séð neinar sannanir fyrir tilvist þeirra í Afganistan. http://www.theguardian.com/us-news/2015/sep/10/hamid-karzai-al-qaida-myth-september-11-afghanistan
Ályktunin af þessu verður: Vestrænar íhlutanir og hryðjuverkastarfsemi hanga náið saman. Næsta spurning er: Hvernig er orsakasamhengið? Er vöxtur hryðjuverkastarfsemi óhjákvæmileg aukaverkun hernaðarílutana, afleiðing einhverra mistaka eða er hún kannski það sem að var stefnt? Hvað með þá skýringu sem bandarísk stjórnvöld gefa, sbr. áðurnefnd orð frú Clinton, um þjóninn sem reis gegn húsbónda sínum („blowback“): Við fjármögnuðum þessa menn í Afganistan á sínum tíma, sagði hún, en svo snérust þeir gegn okkur svo nú þurfum við aftur að mæta á svæðið aftur og uppræta þá! Þessi kenning var m.a. mjög viðhöfð í kjölfar 11. sept. til að réttlæta innrásina í Afganistan. En hún stenst illa skoðun því svo sérkennilega hefur viljað til að Al Kaída hefur nánast alltaf mætt á svæðið í þeim styrjöldum sem Bandaríkin hafa haft afskipti af síðustu áratugi, hvort sem það eru stríðin í gömlu Júgóslavíu, Tétsníustríðið eða styrjaldir í Miðausturlöndum og Norður-Afríku. Og Al Kaídaliðar hafa alla jafna barist gegn sömu stjórnvöldum og vestrænir íhlutunaraðilar eru að reyna að koma frá völdum, hafa sem sagt verið með USA og bandamönnum í liði.
Óbeinar innrásir – íhlutanir í dulargerfi
Innrásarstríð vestrænna ríkja í Afganistan frá 2001 og í Írak 2003-2011 voru afar dýr og gengu illa. Á grundvelli þeirrar reynslu sagði Robert Gates, sem var varnarmálaráðherra Bandaríkjanna undir bæði Bush og Obama, eftirfarandi árið 2011: „Að mínum skilningi ætti hver sá utanríkisráðherra sem ráðleggur forsetanum að senda stóran bandarískan landher inn í Asíu eða Miðausturlönd eða Afríku að láta athuga á sér höfuðið.“ Bandarískir strategistar og hugveitur höfðu m.ö.o. lært af mistökunum. Þeir tóku nú þá stefnu að dulbúa komandi innrásir, hafa þær „óbeinar“ í staðinn fyrir „beinar“ og leitast við að taka vígin „innan frá“.
Af því umrædd stríð hafa orðið í múslimalöndum þýddi þetta í framkvæmd að styðja ákveðnar fylkingar herskárra íslamista (af súnní-meiði) til uppreisnar og heilags stríðs (jíhad) gegn hinum óæskilegu stjórnvöldum. Og af því að hjá helstu andstæðingum Vestursins í Miðausturlöndum – Íran, Sýrlandi og Hizbolla í Líbanon – er sjíatrú ríkjandi (líkt og einnig í Írak eftir 2003) hafa Vesturveldin tekið þá stefnu að kynda undir trúarbragðastríði súnnía gegn sjía, til að koma á „valdaskiptum“ í viðkomandi löndum.
Annar þáttur í hinni nýju hernaðaraðferð vestrænna heimsvaldasinna, sem kalla má „íhlutun í dulargerfi“, var að treysta meira á þátt svæðisbundinna bandamanna en á bein eigin hernaðarafskipti. Í stríðunum í Líbíu og Sýrlandi og síðasta Íraksstríðinu blasir þetta við. Í stærstum hlutverkum eru annars vegar olíuríkin við Persaflóa – með Sádi-Arabíu fremst í flokki – og hins vegar NATO-ríkið Tyrkland. Og þarna eru tengsl Persaflóaríkjanna og Tyrklands við íslamska hryðjuverkahópa eins og ISIS afgerandi atriði.
Við sem ekki erum beinlínis treggáfuð vitum að hinar vestrænu íhlutanir eru ekki komnar til af ást á „lýðræði“ eða „vörn um mannréttindi“ sem er hin opinbera skýring. Auðvitað er baráttan um olíulindirnar og flutningsleiðir olíu afgerandi, og jafnframt eru þessar styrjaldir þættir í baráttu Bandaríkjanna og Vesturveldanna um full yfirráð í Miðausturlöndum sem er hluti af valdataflinu við keppinautana, einkum Rússland og Kína. Bandamennirnir, Persaflóaríkin og Tyrkland, væru líka undarlega valdir m.t.t. þess að útbreiða „lýðræði“. Löndin sem hafa orðið fyrir hinum hatrömmu árásum hafa annað hvort unnið það til að saka að reka sjálfstæða utanríkisstefnu eða eru í „vitlausu liði“.
Hlutverk Sádi-Arabíu og Tyrklands
Ef stríðið í Sýrlandi er skoðað sérstaklega hafa mál þróast þannig að Tyrkland leggur íslömskum uppreisnarmönnum til aðflutningsleiðir og aðdrætti en Persaflóaríkin sjá mjög um fjármögnunina og Sádi-Arabía leggur þeim auk þess til hugmyndafræðina. Við skulum skoða lítillega þessa þætti, annars vegar hlutdeild Sádi-Arabíu og hins vegar Tyrklands í þessu verkefni.
Sádi-Arabía: ISIS eru grundvölluð á wahhabisma/salafisma sem á uppruna sinn í Sádi-Arabíu. Wahhabisminn/salafaisminn er afar afturhaldssinnuð og óumburðarlynd gerð íslams sem vill hverfa aftur til 7. aldar, trúir stíft á strangar refsingar gegn trúvillu, með sérstakt dálæti á háshöggi og lítur á konur sem 3. flokks borgara. Wahhabisminn var mótaður undir handarjaðri Breta á 18. og 19. öld og byggður kringum vald ákveðinnar konungsfjölskyldu sem síðan hefur verið nátengd Bretum og eftir það Bandaríkjamönnum. Sádi-Arabía er útþenslusinnað ríki, eins og fleiri oliufurstadæmi, rekur ákafan fjármagnsútflutning og reynir jafnframt að útbreiða sína wahhabísku gerð íslams í krafti hins gífurlega olíuauðs og til að styrkja efnahagsstöðuna enn frekar, með því að byggja moskur, prenta bækur og fjármagna trúarhópa grundvallaða á salafisma/wahhabisma. „Talið er að Sádi-Arabía hafi kostað 90% af wahhabismatrú á heimsvísu. Þar sem þeir ráða tveimur heilögustu borgum íslams hefur það gert Sádum/wahhabistum kleift að smeygja hugmyndum sínum inn í það sem virðist vera meginstraums-íslam, og þannig eitrað huga ungmenna vítt um heim“ skrifar Daniels Sneddon í góðri grein um þróun wahhabismans síðustu tvær aldir.
Í Huffington Post rekur Yousaf Butt skilmerkilega „Hvernig sádískur wahhabismi er meginuppspretta íslamskra hryðjuverka.“ Þar kemur m.a. fram að „ISIS er afurð sádískra hugmynda, sádískra peninga, og sádísks skipulagslegs stuðnings, þó svo að Sádar þykist nú vera mikið á móti ISIS.“
Tyrkland: Can Dündar, ritstjóri Cumhuriyet, eins útbreiddasta dagblaðs Tyrklands, situr í einangrunarklefa í Istambúl og með líkur á tvöföldum lífstíðardómi. Sök hans er að benda á stuðning Erdogans við ISIS. Frá upphafi Sýrlandsstríðs hefur Erdógan og stjórn hans kallað opinskátt eftir valdaskiptum í nágrannalandinu Sýrlandi og hefur síðan smám saman getið sér sérstakt orðspor fyrir stuðning við alla mögulega hryðjuverkahópa sem vinna að því marki. Foringjar jíadista í Sýrlandi koma gjarnan frá Tyrklandi eða búa þar og hóparnir eiga þar öryggisbúðir. Í gegnum Tyrkland koma flest vopn ISIS og annarra hryðjuverkahópa, og fjárstraumurinn til vopnakaupa. Svo er olíustraumurinn margfægi í hina áttina frá ISIS yfir til Tyrklands. Í rannsóknarskýrslu frá Columbia University í N.Y. hefur David L. Philips farið gegnum alþjóðlegar heimildir um samband Tyrklands og ISIS. Í grein í Huffington Post tilfærir hann 43 dæmi. Skv. Philips er stuðningur Tyrkja svo víðtækur að ISIS kemur fram líkast útsendri áhlaupasveit frá Tyrklandsher. http://www.huffingtonpost.com/…/research-paper-isis…
Hlutverk Tyrkja og Sáda og fleiri sem staðgenglar vestrænna heimsvaldasinna þýðir ekki að þá beri eingöngu að skoða sem aðstoðarmenn og handlangara: Þeir reka nefnilega eigin erindi og ala líka með sér eigin stórveldisdrauma. En það er greinilegt að USA og NATO telja það henta sér vel að þessir mikilvægustu bandamenn þeirra í heimshlutanum reki útþenslustefnu gagnvart svæðisbundnum keppinautum og séu herskáir. Enda er hlutverk þeirra fyrst og fremst hernaðarlegt í því að steypa stjórnvöldum sem hinir voldugu bakmenn vilja losna við. Og gleymum því aldrei að einmitt Sádar og Tyrkir (auk Ísraels) hafa lengi verið mikilvægustu bandamenn Vestursins á svæðinu (og Tyrkland er í NATO).
Á bak við Sáda og Tyrki standa Bandaríkin og NATO
Stuðningur Tyrkja og Persaflóaríkjanna við ISIS og harðlínu-jíhadista er vissulega ekki opinber (sbr. viðbrögð Erdogans gegn blaðamönnum sem afhjúpa þann stuðning) og formlega eru þessi ríki með Vestrinu í „stríði við ISIS“. Hins vegar er stuðningur þeirra við sýrlensku uppreisnina alveg opinskár og það er einnig nokkuð almenn vitneskja að hann rennur einmitt mest til harðlínu-jíhadista, enda er svo víðtækur stuðningur ekki auðfalinn. Vestrænir fjölmiðlar, og stöku sinnum vestrænir ráðamenn, gefa þess vegna stundum þá skýringu að þeir þurfi eiginlega að „neyða“ bandamenn sína til að snúast gegn ISIS, sbr víðkunn orð Joe Bidens varaforseta. Beinn stuðningur Vestuveldanna og NATO við ISIS og aðra harðlínu-jíhadista er miklu meira feimnismál í vestrænni pressu, það er hin forboðna tenging sem flokkast undir „samsæriskenningar“.
Vestrið í „stríði gegn hryðjuverkum“ er hin opinbera mynd, leiktjöldin. Til að glöggva sig á raunveruleikanum bak við tjöldin er gott að skoða opinber skjöl frá bandarísku stofnuninni Department of Intelligence Agency (DIA) frá 2012, stofnun sem heyrir undir bandaríka hermálaráðuneytið. Þar segir berum orðum: „Salafistarnir, Músímska bræðralagið og AQI (Al-Qaeda í Írak) eru aðalöflin i uppreisninni í Sýrlandi.“ Og ennfremur: „…Ef greiðist úr stöðunni er möguleiki að stofna yfirlýst eða óyfirlýst furstadæmi salafista í Austur-Sýrlandi (í Hasaka og Der Zor) og það er einmitt það sem stuðningsveldin við andspyrnuna vilja, til að einangra Sýrlandsstjórn sem líta má á sem hluta af sjía-útþenslunni (Íran og Írak).“ Á öðrum stað í skýrslunni er AQI nefnt „ISI“ og það er alveg ljóst að um er að ræða hið verðandi ISIS. Til að útskýra hverja átt er við með „stuðningsveldin við andspyrnuna“ segir skýrslan: „Vestrið, Persaflóaríkin og Tyrkland styðja uppreisnina á meðan Rússland, Kína og Íran styðja stjórnvöld.“
Pentagon og „stuðningsveldin við andspyrnuna“ bundu sem sagt við það vonir 2012 að salafistarnir (wahhabistarnir) myndu sækja fram og stofna „furstadæmi salafista“ innan Sýrlands. Og það gekk eftir þegar ISIS lýsti yfir stofnun“íslamsks ríkis“ og um leið „kalífats“ á miðju ári 2014. Í meginatriðum gekk allt samkvæmt áætlunum og vonum Pentagon og hinn mikli vöxtur ISIS síðan er það sem að var stefnt! Punktur. Stofnun kalífatsins er nýr þáttur í aldagömlum trúardeilum á þessu svæði, og trúlega hafa trúarleiðtogarnir í Ríad komið þarna að ráðum. Það breytir ekki því að spunameistararnir og arkitektarnir á bak við hinar alvarlegu trúardeilur og upplausnarástand í Sýrlandi, Írak og í Miðausturlöndum á 21. öld númer eitt og tvö eru strategistarnir í Washington og NATO. Þeir sömu og ganga nú fram með helgisvip í krossferð gegn ISIS, krossferð gegn trúarofstæki og rasisma. Þeir sem mestu valda um íslamófóbíu og tortryggni um allan heim halda nú hjartnæmustu ræðurnar um umburðarlyndi, mannkærleika og sátt milli trúarhópa… Helgisvipurinn er gríma, hluti af lyginni miklu, hluti af hernaðarútrás í dulargerfi.
Þórarinn Hjartarson