Þórarinn Hjartarson, liðsmaður SHA um árabil og forystumaður Norðurlandsdeildar, flutti eftirfarandi erindi á félagsfundi MFÍK þann 17. maí. Friðarvefurinn fékk erindið til birtingar.
Heitustu stríðsátök undanfarinna tveggja ára eru í Sýrlandi. Talið er að 100 þúsund manns séu dauðir í Sýrlandsstríðinu og 1-3 milljónir á flótta. Ásakanir eru nú settar fram um beitingu efnavopna í landinu auk sprengjutilræða og hermdaraðgerða, og áður hefur Obama sagt að einmitt beiting efnavopna sé það „rauða strik“ sem – ef farið væri yfir – geti réttlætt íhlutun sk. „alþjóðasamfélags“ í landið.
Jafnhliða á sér stað mikill vígbúnaður kringum Íran, viðskiptabann og stríðshótanir í garð íranskra stjórnvalda. Það er réttlætt með kjarnorkuáætlun Írana. Ísrael talar einmitt um „rautt strik“ sem Íran sé nálægt að fara yfir og megi þá búast við að verða fyrir árás.
Fréttaflutningurinn af efnavopnum í Sýrlandi og kjarnorkuvopnin í Íran gefur sterka „dejavu“tilfinningu. Við höfum heyrt mjög líkar fréttir áður. Þarna eru Vestrænar fréttastofur og vestrænir þjóðarleiðtogar komnir af stað með sama yfirvarp og það sem réttlætti innrásina á Írak árið 2003, en reyndist vera upplýsingar og fréttir framleiddar hjá vestrænum hermálayfirvöldum og leyniþjónustum.
Svíinn Hans Blix fór þá fyrir vopnaeftirliti SÞ og bað alltaf um lengri frest til að kanna málið, en var svo alveg hundsaður. Hann segir nú hiklaust að innrásin hafi byggst á fölsuðum forsendum og verið brot gegn þjóðarrétti.
Nú er starfandi á vegum Mannréttindanefndar SÞ rannsóknarnefnd um stríðsglæpi í Sýrlandsstríðinu. Ein leiðandi kona í nefndinni er hin svissneska Carla del Ponte. Fyrir 10 dögum sagði hún eftirfarandi við blaðið The Independent, „það eru sterkar vísbendingar um að upreisnarmenn hafi notað efnavopn, en það eru ekki vísbendingar um að stjórnvöld hafi notað slík vopn.“ (The Independent 6. Maí 2013).
Ef vel er leitað í fréttum má finna upplýsingar um meginatriði eins og þetta, en fréttaflutningur í þveröfuga átt er hins vegar miklu fyrirferðarmeiri og háværari. Sá fréttaflutngingur lýsir átökunum í Sýrlandi sem hluta af „arabíska vorinu“ þar sem friðsamir mótmælendur mæta þungvopnuðum her landsins og lögreglu. Það rímar hins vegar illa við þá staðreynd – sem líka heyrist stöku sinnum – að uppreisnaröflin hafa drepið þúsundir, jafnvel tugþúsundir sýrlenskra hermanna.
Spurning: Hverjir BERA UPPI UPPREISNINA Í SÝRLANDI? Það hefur lengi verið kunnugt að kjarninn í hersveitum uppreisnaraflanna, bæði herskáustu og árangursríkustu sveitirnar, tilheyra hinum íslamísku samtökunum al Nusra.
Ein mikilvæg staðreynd í málinu sem hefur lengi heyrst á litlum hliðarfjölmiðlum birtist svo í apríl sl. í ýmsum meginstraumsfjölmiðlum, nefnilega að þessi samtök, AL NUSRA, ERU HLUTI AF AL KAÍDA. Ég nefni í því sambandi einn helsta sérfræðing CNN í málefnum Miðausturlanda, Peter Bergen og einnig franska blaðið Le Monde sem er ein mikilvægasta málpípa frönsku ríkisstjórnarinnar.
Þetta hljómar ólíkindalega í eyru sem lengi hafa verið fóðruð á því að Bandaríkin og NATO hafi farið í sitt heimsstríð, stríðið gegn hryðjuverkum, með samtökin Al Kaída sem helsta skotmark. Það að Al Kaída skuli bera uppi uppreisnina gegn Assad á samt ekki að koma alveg á óvart þeim sem hafa fylgst sæmilega með átökum við Miðjarðarhaf undafarið. Það rifjar upp Líbíustríðið. Einnig þar voru það íslamistar, og m.a. hópar tengdir Al Kaída, sem báru uppi uppreisnina gegn Gaddafí og fengu vopnastuðning frá helstu fylgiríkjum Vesturveldanna meðal araba, Saudi Arabíu og Qatar og síðan þann stuðning úr lofti frá NATO sem reið baggamuninn.
Þetta er sem sagt sú uppreisn í Sýrlandi sem lýst er í fréttum sem uppreisn lýðræðissinna en eru skærur og hermdarverk íslamskra trúarhópa sem eru tilbúnir að beita vopnum fyrir málstað sinn. Þetta er uppreisn innan gæsalappa. Taka verður fram að mjög mikilvægur þáttur í þessari sk. uppreisn er útlendingar. Það kemur fram á ýmsum fréttastofum að þúsundir erlendra jihadista munu vera í Sýrlandi til að berjast við Assad-stjórnina, flestir frá Mið-Austurlöndum og Norður Afríku en einnig eru nokkur hundruð frá Evrópu.
Önnur spurning: Hverjir STANDA Á BAK VIÐ uppreisnaröflin í Sýrlandi? Það er á allra vitorði að uppreisnaröflin eru vopnuð af traustustu fylgiríkjum Bandaríkjanna meðal araba, Qatar og Saudi Arabíu, rétt eins og var í Líbíustríðinu. Uppreisnarsveitirnar eiga sér ennfremur bækistöðvar og aðstöðu í eina fullgilda NATO-landinu við landamæri Sýrlands, Tyrklandi. Þann 19. mars mátti lesa eftirfarandi á CBS-news.
„[Stavridis] yfirmaður bandarísku herstjórnarinnar í Evrópu sagði að NATO stæði að áætlun um mögulega hernaðaraðgerð í Sýrlandi og að bandarískar hersveitir væru undirbúnar ef kall kæmi frá SÞ og aðildarlöndum NATO… og ennfremur að mögulegar leiðir til að styðja andspyrnuöflin í Sýrlandi, leiðir sem gætu bundið enda á þráteflið í landinu væru nú kannaðar af aðildarríkjum.“
Bakhjarl uppreisnarinnar er sem sagt tvíeykið Bandaríkin og NATO. Þriðji aðilinn er Ísrael sem hefur nú um hríð gert beinar loftárásir á Sýrland. Af þessu samanlögðu sést að það er meira en hæpið að tala um stríðið í Sýrlandi sem uppreisn eða borgarastríð. Þetta er ein tegund innrásarstríðs, stríð vestrænna stórvelda gegn fátæku þjóðríki, innrás sem ennþá er aðallega háð gegnum leiguhermenn og staðgengla.
Eftir lok kalda stríðsins er aðeins eitt risaveldi í heiminum, risaveldi sem fyrir vikið fer mjög sínu fram. Bandaríkin og NATO hafa farið með æðsta vald í alþjóðastjórmálum. Þetta er enn fremur sú tvíeining sem staðið hefur á bak við öll helstu stríðsátök í verölinni eftir lok kalda stríðsins, ég endurtek, ÖLL HELSTU STRÍÐSÁTÖK í veröldinni. Og í Mið-Austurlöndum er svo óhætt að bæta við þriðja aðilanum, Ísrael, svo úr verður æðstráðandi þríeining í málefnum þessa svæðis: USA NATO og Ísrael.
Það var George W Bush sem kom með heitið „öxulveldi hins illa“ í framhaldi af atburðunum 11. September, og nefndi Írak, Íran og N-Kóreu. Hann sagði orðrétt: „States like these constitute an axis of evil“. Sendiherra hans hjá SÞ, John Bolton, bætti skömmu síðar við þremur ríkjum til viðbótar á listann: Kúbu, Líbíu og Sýrlandi. Í þessum 6 landa hópi eru sem sagt 4 lönd í M-Austurlöndum: Írak, Íran, Líbía og Sýrland. Hvernig svo sem atburðirnir 11. september eru til komnir skópu þeir ný skilyrði í alþjóðastjórnmálum. Með þeim bjuggu Bandaríkin sér til aðstæður sem gerðu mögulega stóraukna hörku í viðskiptum við þessi „illu öxulveldi“ og öll óhlýðin ríki.
Tveimur mánuðum eða svo eftir 11. september, þegar innrás í Afganistan var nýhafin, var Wesley Clark – sem hafði verið yfirhershöfðingi NATO í Kosovo-stríðinu – staddur í hermálaráðuneytinu í Washington. Hann skrifaði nokkrum árum síðar:
„…í Pentagon í nóvember 2001 hafði einn af yfirhershöfðingjunum tíma fyrir spjall. Undirbúningur fyrir innrás í Írak var í fullum gangi, sagði hann. En það var fleira í gangi en hún. Hún var rædd, sagði hann, sem liður í fimm ára hernaðaráætlun, og alls var um sjö lönd að ræða, fyrst Írak, síðan Sýrland, Líbanon, Líbíu, Íran, Sómalíu og Súdan.“ (Wesley Clark, Winning Modern Wars, bls. 130)
Wesley Clark áleit að með 11. september hefði átt sér stað valdarán í Bandaríkjunum sem og þetta valdarán snéri herforingjanum fyrrverandi til ákveðinnar andstöðu við Bush-stjórnina. Í ræðu í október 2007 sagði hann um þessa áætlun að markmið hennar væri að SKAPA UPPLAUSNARÁSTAND (destabilize) í umræddum löndum og gegnum það ætlaði risaveldið að ná þar yfirráðastöðu.
Hvort sem hér var um valdarán að ræða eða ekki er ljóst að Obamastjórnin hefur haldið áfram á þeirri braut sem mörkuð var undir Bush. Munurinn var einkum sá að Obama tókst betur – m.a. í Afganistan og Líbíu – að fylkja Vesturveldunum á bak við sig en Bush hafði tekist. Í stjórnatíð Obama hefur samstaða Bandaríkjanna og ESB-veldanna styrkst og hlutverk NATO í stríðsrekstrinum aukist mjög á kostnað einhliða aðgerða Bandaríkjanna.
Stjórnlistin sem NATO fylgir er einfaldlega sú að viðhalda og styrkja hnattræna stöðu Bandaríkjanna og Vesturveldanna. Baráttan fer fram í öllum heimshlutum, og hún minnkaði ekki heldur harðnaði mikið eftir fall Sovétríkjanna og lok kalda stríðsins. Eftir kalda stríðið hefur ákveðin brennipunktur þessara átaka verið í Miðausturlöndum, að hluta til er það vegna hinna miklu olíuauðæva þess svæðis. Önnur ástæða er sú að þetta var svæði þar sem áhrif gömlu Sovétríkjanna voru veruleg, og við brottfall þeirra skapaðist þar valdatóm og ný færi sóknar fyrir Vesturveldin.
Málið er afskaplega einfalt á tikniborðinu, búinn er til listi og krossað yfir nöfn þeirra ríkja þar sem ekki sitja ásættanlegar ríkisstjórnir að áliti Vesturveldanna. Krossinn þýðir „valdaskipti nauðsynleg“, valdaskipti með illu eða góðu. Þegar Clark heimsótti Pentagaon 2001 var krossin yfir 7 ríkjum. Framkvæmdin er auðvitað flóknari. Hún hefur falist í því að þjarma að þessum ríkjum jafnt og þétt – með diplómatískri einangrun, með viðskiptaþvingunum, með því að kynda undir innri ólgu – ekki síst með því að beita trúardeilutrompinu svokallaða – og loks með beinum innrásum í löndin.
Taflið um heimsyfirráð
„Hernaðarstefnan er tímaskekkja, leifar af kaldastríðshugsun“ er nokkuð sem friðarsinnar segja oft. Það er mikill og hættulegur misskilningur. Hernaðarstefnan er grundvallarþáttur í keppni heimsveldanna um áhrifasvæði, hún er grundvallarþáttur kapítalískra stjórnmála.
Eftir lok kalda stríðsins hafa USA og NATO eignast nýja andstæðinga. Eftir aldamótin hefur það orðið æ skýrara að strategískur höfuðandstæðingur Bandaríkjanna og NATO er hið nýja efnahagsveldi, Kína. Kína á sér nokkra mikilvæga bandamenn. Sá mikilvægasti er Rússland og Íran er líklega númer tvö. Bandarísk herstjórnarlist beinist að því að einangra og veikja þessa andstæðinga. Bandaríkin og bandamenn þeirra leggja slíka megináherslu á að kyrkja stjórn Assads í Sýrlandi af því sú stjórn er nú orðið eini bandamaður Írana (og þar með Kínverja) í Miðausturlöndum. Til að einangra Íran og koma þar á valdaskiptum er nauðsynlegt að losa sig við Sýrland fyrst.
Herskáasti gerandi á vettvangi alþjóðastjórnmála nútímans er NATO-blokkin, sem er jafnframt langsterkasta hernaðarblokk okkar daga. Ástæða árásarhneigðarinnar er einkum sú að þessi blokk er efnahagslega á undanhaldi. Hernaðarlegir yfirburðir eru þess vegna hennar helsta tromp. Stríðin í Írak, Afganistan og Líbíu og umsátrið um Íran snúast ekki um lýðræði og harðstjórn. Þau snúast um olíu. Ekki bara það, einnig um að tryggja vestræn yfirtök á mikilvægum svæðum og halda andstæðingunum frá. Stærsti olíuseljandi til Kína er Íran. Og í Líbíu hafði fjöldi kínverskra fyrirtækja fjárfest, ekki síst í gjöfulum olíuiðnaði landsins. NATO gerði innrás og þar með urðu Kínverjarnir að draga sig út úr því landi. Kína er orðinn særsti viðskiptaaðili Afríku á meðan markaðsaðild vestrænna auðhringa dregst þar saman. Kína fjárfestir þar líka meira en nokkurt annað heimsveldi. Svarið við því er AFRICOM, sem er skammstöfun fyrir Afríkuherstjórn Bandaríkjahers. Obama ætlar að senda 3000 hermenn til Afríku á þessu ári og áformar að senda herlið inn í 35 Afríkulönd á næstu árum. Sem sagt eins og ég sagði: efnahagslegt undanhald er vegið upp með hernaðarlegri sókn.
En heimsvaldastefnan fer óhjákvæmilega fram undir FÖLSKU FLAGGI. Hún getur ómögulega sagt opinskátt að hún heyi stríð vegna olíuhagsmuna og til að tryggja aðgang að auðlindum vítt um lönd eða að berjist um markaði og áhrifasvæði við Kína og önnur heimsveldi. Ekki er heldur hægt með góðu móti að segja að andstæðingurinn sé af óæðri kynstofni eins og í nýlenduhernaði 19. aldar.
Á 20. öld var kommúnisminn hið stóra skálkaskjól. Hann var gerður var að grýlu sem réttlætti íhlutanir heimsvaldasinna um allan heim. Í upphafi 21. aldar var kommúnisminn nær horfinn um sinn og nú varð að tilreiða boðskap heimsvaldastefnunnar öðru vísi.
Yfirskriftir hernaðaraðgerða Bandaríkjanna og NATO hafa undanfarna tvo áratugi einkum verið tvenns konar. Annars vegar sk. „stríð gegn hryðjuverkjum“. Hins vegar eitthvað sem kallast „mannúðarinnrásir“ í einstök þjóðríki undir yfirskyni „skyldunnar til að vernda“ borgara þess ríkis. Í tengslum við þetta beitir heimsvaldastefnan fólknum aðferðum til að vinna jarðveginn fyrir innrásir. Ég ætla að nefna þrennt í því sambandi 1) sívaxandi hlutverk vestræns leyniþjónustunets, 2) beiting sk. „hryðjuverkaógnar“ sem er skipulega notuð og skipulega ræktuð af heimsvaldasinnum 3) trúardeilutrompið sem hefur reynst árangursríkt gagnvart því markmiði sem Wesley Clark nefndi að skapa upplausnarástand í ríkjum sem eru í ónáð, 4) hin mikla spunavél ráðandi vestrænna fréttastofa sem heimsvaldasinnar hafa full yfirráð yfir og býr hún til þá heimsmynd sem réttlætir hernaðarstefnuna.
Ekki er tóm til að fara skipulega í þessi atriði. Ég vil þó staldra aðeins við fyrirbærið Al Kaída. Þetta er dularfullur og herskár flokkur íslamista, nánar tiltekið hreyfing af grein salafista á meginstofni sunnímúslima. Flokkur þessi varð til í leynilegum en afgerandi tengslum við bandaríska leyniþjónustu í stríði Afgana við Sovétmenn á 9. áratugnum. Síðan þá hafa samtök þeirra verið gegnumsmogin af vestrænum flugumönnum og komið afar víða við.
Al Kaída hafa í sannleika reynst fjölnota verkfæri fyrir heimsvaldastefnuna, hálfgert undratæki. Það er ýmist þannig að starfsemi þessara vígahópa – skærur þeirra og hermdarverk – skapa heimsvaldasinnum tilefni og YFIRVARP TIL VOPNAÐRAR ÍHLUTUNAR í ákveðnu landi eða þá að vígahóparnir eru þvert á móti STAÐGENGLAR OG HANDLANGARAR vestrænna heimsvaldasinna í því að skapa upplausn og grafa undan stjórnvöldum í ákveðnu landi sem heimsvaldasinnar hafa siktað út til „valdaskipta“. Hryðjuverkamaður Al Kaída er sem sagt ýmist skotmaður heimsvaldasinna eða skotmark þeirra – og jafn nytsamlegur í báðum hlutverkjum.
Í framhaldi af 11. september var fyrri útgáfan mest notuð, innrás gerð í lönd til að uppræta hryðjuverkastarfsemi. Dæmi um það voru Afganistan og að nokkru leyti Írak. Í Afríku er þessi útgáfa t.d. notuð í Sómalíu og nú síðast í Malí. Seinni árin hefur þó hin útgáfan verið stöðugt meira notuð, þar sem hinir herskáu jihadistar vinna sjálft verkið fyrir heimsvaldasinna sem þurfa bara að sjá þeim fyrir vopnum og e.t.v. aðstoða þá úr lofti. Þannig var það í Líbíu þar sem íslamistar, m.a. Al Kaída, báru uppi landhernaðinn og voru óspart studdir af NATO-ríkjunum. Eldra dæmi er úr Kosovostríðinu þar sem hryðjuverkaher íslamista, sk. Frelsisher Kosovó, var í svipuðu hlutverki sem framlengdur armur CIA og NATO.
Í Sýrlandi stendur sterkt arabísk þjóðernis- og þjóðfrelsishyggja gegn heimsvaldastefnunni. Samt eru aðstæður þar að sumu leyti heppilegar fyrir utanaðkomandi heimsveldi sem vilja skapa upplausnarástand. Konungsfjölskyldan er af trúarhópi alavíta sem standa nær síamúslimum en sunní og eru auk þess í bandalagi við síamúslimana í Íran, á meðan meirihluti þjóðarinnar er sunnímúslimar sem á margan hátt hafa verið kúgaðir. Við þessi skilyrði er rökrétt aðferð heimsvaldasinna að beita TRÚARDEILUTROMPINU eins og mögulegt er. Það er hluti af nýjum áherslum heimsvaldasinna og sést m.a. á óvæntum en greinilegum vinskap Bandaríkjanna og Múslimabandalagsins í Egyptalandi. Múslimabandalagið hefur t.d. beðið NATO og „alþjóðasamfélagið“ um íhlutun í Sýrlandi.
Trúardeilutrompinu í Sýrlandi er beitt á þann hátt að hópum herskárra sunnímúslima eru fengin vopn og aðrir slíkir eru kallaðir til frá öðrum múslimalöndum. Útkoman er alla vega sú að helsta haldreipi Bandaríkjanna og NATO á vígvöllunum Sýrlands er Al Kaída. Sú nöturlega staðreynd sýnir svo ekki verður um villst að hin vestrænu afskipti snúast ekkert um lýðræði og mannréttindaást. Öll meðul sem stuðla að „valdaskiptum“ eru jafngóð, öll meðul sem þjóna gráðugum vilja heimsvaldasinna eru jafn góð.
Kostnaðurinn af stríðsrekstri Vesturveldanna er ógurlegur svo ekki sé meira sagt. Samt er hann alls engin sigurganga. Stríð þeirra í Afganistan virðist ekki ætla að vinnast þrátt fyrir þátttöku flestra Evrópuríkja í því auk Bandaríkjanna. Og stríðið í Sýrlandi, háð af íslamískum staðgenglum og leiguherjun studdum af Vesturveldunum, hefur sömu leiðis gengið illa upp á síðkastið með dvínandi bjartsýni um skjótan sigur.
Þessi beiting trúardeilutrompsins hefur ennfremur ýmsar ófyrirséðar hliðarverkanir. Dæmi um það er hvernig stríðið í Sýrlandi flæðir nú aftur yfir landamærin til Íraks og veldur leppstjórn Vesturveldanna þar ómældum vandræðum.
Sem sagt: Eins og oft áður er það samkeppni heimsvaldablokka sem veldur stríðsheættunni. Rétt eins og á 4. áratug síðustu aldar er það þó fyrst og fremst ein blokkin sem beitir hernaðarstefnu til að ná markmiðum sínum. Nú er það blokkin USA/NATO.
Ef Assadastjórnin tapar Sýrlandsstríðinu og fellur innan skamms segir öll reynsla okkur að þá verði ekki langt í árás á Íran. Þess vegna er það svo að von friðarins í Miðausturlöndum er nú helst bundin vopnuðum sveitum Assads. Fyrir marga friðarsinna er það of beiskur sannleikur til að kyngja.
Stuðningur Íslands við vestrænan stríðsrekstur
Ísland hefur almennt enga eigin stefnu í málefnum stríðs og friðar, aða en þá að fylgja NATO. Stefna NATO hefur hins vegar tekið afgerandi breytingum hin síðari ár. NATO er nú hnattrænt bandalag, mjög árásarhneigt bandalag og miklu umsvifameira en nokkru sinni áður. Það er tilbúið til íhlutana hvar á hnettinum sem er.
En frá sjónarhóli íslenskra stjórnvalda er málið einfalt. Herir NATO eru okkar menn. Íslensk stjórnvöld hafa stutt ÖLL helstu stríð Bandaríkjanna og NATO frá lokum kalda stríðsins: Bosníustríð, Kosovostríð, stríðið í Afganistan, bæði Íraksstríðin, Líbíustríðið og nú stríðið í Sýrlandi. Það hefur engu máli skipt hvaða flokkar sitja í ríkisstjórn Íslands. Auðvitað hefur beint framlag Íslendinga til viðkomandi aðgerða ekki breytt miklu til eða frá. Samt hefur það verið umtalsvert í mannskap og sérfræðistörfum í Kosovo og síðar í Kabúl, m.a. við að annast flugvelli. Það stendur enn, a.m.k. í Kabúl. Mikilvægari er þó pólitíski stuðningurinn.
Þessi lýsing á ósjálfstæði Íslands á hermálasviðinu á reyndar við um miklu fleiri lönd. Hún á m.a. við um ESB-löndin sem nú hafa ÖLL tengst NATO (ýmist með fullri aðild eða aukaaðild). Það kemur fram í Afganistanstríðinu og kom fram í Líbíustríðinu, í báðum tilfellum hefur öll NATO-blokkin komið fram sem ein órofa fylking, sem vissulega er afgerandi breyting frá því sem var kringum innrásina í Írak 2003.
Íslenska friðarhreyfingin
Nú ætla ég að segja ofurlítið um íslenska friðarsinna. Ég held því fram að íslenskir friðarsinnar hafi haldið vöku sinni, látið óspart í sér heyra og sýnt mikinn styrk í baráttunni kringum Íraksstríðið, en framgöngu þeirra í kringum Líbíustríðið og aftur nú í staðgengilsstríði Vesturveldanna gegn Sýrlandi verður helst lýst sem ærandi þögn.
Lof mér að rifja skjótlega upp mótmælin vegna Íraksstríðsins. Bandaríkin og bandamenn þeirra réðust á Írak 20. mars 2003. Það voru stórir mótmælafundir í Reykjavík í janúar og 14. febrúar og svo á innrásardaginn. Á fundinn 14. febrúar mættu 4000 manns. Einnig voru fundir á Akureyri og Ísafirði. Þá var líka mótmælastaða við bandaríska sendiráðið og síðar við stjórnarráðið á hverjum laugardegi frá janúar og fram í maí. Samhliða þessu voru skrif gegn stríðinu á prenti daglega fyrir augum manna mánuðina fyrir og eftir innrásina.
Svo komu stríðin í Líbíu og í Sýrlandi. Enn hafa engar mótmælaaðgerðir sést vegna þeirra á Íslandi. Skrif og ályktanir SHA vegna Líbíu voru alla vega í lágmarki og engar ályktanir hafa enn birst vegna Sýrlandsstríðsins. Það er freistandi að álykta í þá veru að þetta snerti eitthvað þá staðreynd að á Íslandi hefur setið við völd vinstri stjórn, hvar í eiga sæti nokkrir kunnir herstöðva- og hernaðarandstæðingar. Vinstri stjórnin hefur samt með hefðbundnum hætti íslenskra ríkisstjórna stutt stefnu NATO-veldanna í stríðum þessum. Líklega er óhætt að bæta því á afrekaskrá hennar að hún hafi með samböndum sínum inn í friðarhreyfinguna náð að svæfa hina virku andstríðsbaráttu í landinu.
Rétt er að taka fram að þetta er líka hluti af alþjóðlegu fyrirbæri. Skipuleg andstríðsmótmæli voru gífurleg kringum innrásina í Írak. Í Bandaríkjunum og um gjörvalla Evrópu, og auðvitað víðar. En nú er þessi friðarhreyfing afskaplega veik og víða alveg óvirk. T.d. í Bandaríkjunum veslaðist hún fljótt upp með tilkomu Obama-stjórnarinnar. Hefur þó Obama aukið framlögin til hermála, aukið hernaðarbrölt Bandaríkjanna vítt um heim enn frekar, þó víða sé það gegnum hernaðarráðgjafa og staðgengilsheri frekar en fjölmennt bandarískt herlið.
Af hverju lyppast friðarhreyfingin niður? Skýringin er væntanlega sú að bandaríska auðvaldið setti upp nýtt andlit og nýjan talanda með nýjum forseta. Eftir það tókst því miklu betur en áður að matreiða og bera á borð hernaðarstefnu sína. Nú heita stríðin „mannúðaríhlutanir“. Obama fær friðarverðlaun Nobels fyrir. Eining Vesturlanda að baki honum er órofa, og eftir að ESB-ríkin hafa stóraukið stríðsþáttöku sína innan NATO fær ESB friðarverðlaun líka. En svo er að sjá að þessi lystaukandi framreiðsla stríðanna hafi dugað til að margar friðarhreyfingar ætu hana líka.
Ég slæ því fram í lokin að öll friðarbarátta verður ómarkviss og raunar marklítil ef hún tengist ekki skipulegri og upplýstri andstöðu gegn heimsvaldastefnunni.
Þórarinn Hjartarson