Þórarinn Hjartarson á Akureyri, félagsmaður í SHA, sendi Friðarvefnum þessa samantekt á því hvernig óttinn við hryðjuverk hefur verið notaður með markvissum hætti til réttlætingar stríða og íhlutana. Aðsendar greinar á Friðarvefnum eru að sjálfsögðu verk höfunda sinna og þurfa ekki endilega að endurspegla stefnu vefritsins eða Samtaka hernaðarandstæðinga.
Við erum kafafærð í fréttum af hryðjuverkum og hryðjuverkasamtökum. Það sem af er árinu 2015 hafa fjölmiðlar verið bólgnir af skelfingarsögum af Íslamska ríkinu í Arabalöndum, samtökum sem ku ógna vestrænni siðmenningu; einnig bólgnuðu þeir vegna morðanna á ritstjórnarskrifstofu Charlie Hebdo í París. Bræðurnir Kouachi voru nýkomnir úr stríðinu í Sýrlandi og ekki langsótt að tengja þá við Íslamska ríkið. Mikið kastljós beindist í framhaldinu að varðstöðu vestrænna leiðtoga um tjáningarfrelsið og hertan lofthernað þeirra gegn hryðjuverkamönnunum í Sýrlandi og Írak. Þegar þessi grein er send til birtingar berst fréttir af hryðjuverki í Kaupmannahöfn, fréttir segja það líklega undir áhrifum frá morðunum í París. Alls staðar eru íslamskir hryðjuverkamenn strax hafðir fyrir sök. Á Íslandi er ein afleiðing þessa umræðan um ”forvirkar rannsóknarheimildir” á borgurunum og stofnun íslenskrar leyniþjónsutu er í kortunum.
Vestrænir heimsvaldasinnar valda mestu um styrjaldir okkar daga. Þetta sem ég nefni vestræna heimsvaldasinna mætti eins kalla „hnattræna elítu“ ef menn frekar vilja, eða „ránskerfi hnattræns fáveldis“. Umrædd elíta er þröngur hópur og þjappast stöðugt saman, 1%, 0,1%, 0.01% íbúa í viðkomandi ríkjum…. Lögmál „frjálsrar samkeppni“ krefjast stöðugrar útþenslu, og arðránskerfi þessarar elítu teygist um heim allan. Hún berst stöðugt fyrir heimsyfirráðum. Til þess þarf mikla valdbeitingu – og tilefni til valdbeitingar. Kosnar ríkisstjórnir þurfa ákveðið samþykki frá almenningi, og helst virkan stuðning, til að heyja styrjöld, og það er flóknara að tryggja stuðning almennings þegar stríðin snúast ekki um landvarnir heldur hernað í fjarlægum heimshornum. Vestrænir heimsvaldasinnar geta ekki með góðu móti rekið ránsstyrjaldir sínar í krafti kynþáttahyggju eigin landsmanna líkt og var á 19. öld þegar þeir undirokuðu „villtar“, „heiðnar“ eða „óæðri“ þjóðir. Eftir seinni heimsstyrjöld barðist vestræn heimsvaldastefna, undir bandarískri forustu, einkum gegn grýlu kommúnismans um heim allan og þróaði til þess hernaðarkerfi sem enn er við lýði þó kommúnisminn sem slíkur sé ekki fyrir hendi. Til að tryggja arðránskerfið með valdi eftir það þurfti nýjar réttlætingar og meiri hyggindi.
Það er grundvallaratriði í hernaðarlist – til að auka stuðning almennings og baráttuanda hermanna – að búa til grýlu úr andstæðingi sínum. Vestrænir heimsvaldasinnar þróuðu þá list á hátt stig í kalda stríðinu. En eftir ósigur sósíalismans á síðasta fjórðungi 20. aldar var ekki hægt að halda þeirri grýlu víð og mikill vandi á höndum. NATO-veldin mátu það svo að nauðsynlegt væri að viðhalda hernaðarkerfinu, þ.á.m. hinu mikla herstöðvaneti Bandaríkjanna, og viðhalda samstöðu Vesturlanda. Til þess þurfti nýjan óvin og það tók nokkur ár að framkalla hann. Óvinamyndin sem smám saman var teiknuð upp eftir fall Múrsins var og er einkum tvíþætt. a) annars vegar er það íslamisminn, nánar tiltekið „herskáir íslamistar“ og nátengd þeim hryðjuverkaógnin (íslamska ógnin er sérstaklega gagnleg af því hún er hæfilega ójós og óstaðbundin og einnig af því lönd múslima eiga um 60% af olíuauð heimsins) b) hins vegar eru það „þorpararíki/skúrkaríki“ (rogue states). Ríki í Miðausturlöndum sem andsnúin eru USA og Ísrael eru þar í sérflokki.
Miklar áróðursmaskínur, tengdar yfirstéttum allra landa, þurfti til að hlú að og næra án afláts grýlu kommúnismans á sinni tíð, og leggja allar gerðir kommúnista út á versta veg. Til að skapa og viðhalda grýlu „herskárra íslamsita“ þurfti samt meira. Kommúnisminn var til sem hreyfing og mikið samfélagsafl (andstæðingar hans stimluðu reyndar margfalt fleiri sem „kommúnista“ en þá sem töldu sig vera það sjálfir), Sovétríkin voru til sem öflugt herveldi, Kína var til og herbúðir sósíalismans voru til (að vísu klofnar og ósamstæðar eftir ca. 1960), nokkuð sem varla var hægt að segja um herskáa íslamista. Herskáir jíhadistar á 10. áratugnum voru að vísu til en sem ósköp smáir hópar og sundraðir á landfræðilega mjög afmörkuðu svæði. Til þess að sú litla grýla gæti á nokkurn hátt fyllt skarð hinnar miklu kommúnistagrýlu var óhjákvæmilegt að blása hana upp og búa hana til að mestu leyti.
Það að „teikna“ grýlu nógu herfilega er ekki nægilegt eitt og sér. Til að almenningur styðji það að senda syni sína í stríð í fjarlægum löndum þarf að vekja hjá honum bæði reiði, hneykslun og ótta. Í ljósi þess hafa bandarískir heimsvaldasinnar og nánustu bandamenn þeirra (Bretar, Ísrael, NATO) lengi stundað þá list að sviðsetja hryðjuverk; að framkvæma eða laða fram voðaverk, og koma sökinni á valda andstæðinga sína, setja fram opinbera skýringu og láta ríkjandi fjölmiðla útbásúna hana. Tilgangurinn er oftar en ekki að steypa stjórnvöldum í viðkomandi landi eða koma af stað styrjöld við þau. Þetta er áhrifarík og rökrétt hernaðaraferð í kerfi miðstýrðrar fjölmiðlunar og þarf enga sérstaka samsærishugsun til að sjá það. Fyrirbærið er alls ekki nýtt, eins og nú verður sagt, en það hefur verið meira notað eftir fall „Múrsins“ en nokkurn tíma áður.
1941 Hawai
Eitt frægasta voðaverk af þessari tegund er árás Japana á Pearl Harabor 1941. Það hefur komið skýrt fram í sagnfræði seinni ára að Roosevelt ögraði Japönum meðvitað og framkallaði árás þeirra með víðtækum refsiaðgerðum gegn Japan og með óbeinni þátttöku í stríðinu. Hitt hefur komið enn skýrar fram að bandarísk leyniþjónusta og hermálayfirvöld vissu nákvæmlega hvenær árásarinnar var von. Þeim upplýsingum var kerfisbundið haldið frá herstjórninni í Pearl Harbor, hún var algjörlega óundirbúin – sem kostaði nærri 3000 Bandaríkjamenn lífið. Roosevelt þurfti að breyta friðelskandi afstöðu landa sinna. Þessi hamfaraatburður – sem að þessu leyti var „hannaður“ – varð gríðarlega áhrifamikill og almenningsálitið breyttist. Roosevelt fékk sitt stríð við Japan sem varð m.a. inngangurinn að drottnun Bandaríkjanna á Kyrrahafssvæðinu og strategistar bandarískrar heimsvaldastefnu varðveittu lærdóminn í huga sér.
1964 Vietnam
Í ágúst árið 1964 skiptust tveir bandarískir tundurspillar á nokkrum skotum við tvö víetnömsk varðskip nálægt landi í Tonkinflóa við Víetnam. Daginn eftir gengu Johnson forseti og McNamara varnarmálaráðherra ásamt herforingjum sjóhers og flota fyrir Bandaríkjaþing og lýstu atburðunum sem tilefnislausum árásum Norður-Víetnama á bandarísk skip á siglingu. Öryggisstofnunin bandaríska létti árið 2005 leynd af skjölum sem sýndu að engar slíkar árásir höfðu átt sér stað. En þetta dugði til að Þingið í Washington samþykkti nær samhljóða að senda innrásarher sem innan skamms taldi 500 000 manns til Víetnam. Stríðið breyttist þar með úr hernaðarstuðningi við leppstjórn í formlegt umfangsmikið innrásarstríð um allt Indó-Kína. Sum hryðjuverk eru sem sagt bara sett á svið í fjölmiðlum án þess að vera til í raunveruleikanum.
1969 Vestur-Evrópa
Í desember 1969 varð mannskæð sprenging í ítalska Búnaðarbankanum í Mílanó. Sautján fórust og fjöldi særðist. Það var nokkurs konar upphaf að seríu hryðjuverka sem framin voru í Vestur-Evrópu næsta hálfan annan áratug og tengdust innbyrðis, í Ítalíu, Belgíu, V-Þýskalandi og víðar. Nær alltaf fengu ofurróttækir vinstrimenn ( m.a. ítölsku „Rauðu herdeildirnar“) sökina í fyrstu, þó málin væru dimmri þoku slungin. Fyrir tilstilli sjálfstæðra rannsóknaraðila beindist sökin þó með tímanum oftar en ekki að öfgahægrihópum og nokkrir nýfasistar fengu dóma. Sumir þessara fasista höfðu óljósa vitnskju um voldugri bakmenn en rannsókn á þeim þráðum hafði afar sterka tilhneigingu til að gufa upp í kerfinu.
Sjálfstæðir rannsóknaraðilar hafa þó haldið leitinni áfram og skýrt línur og tengt málin saman. Hlekkir fundust sem tengdu þessi mál við leynilega heri á vegum NATO í V-Evrópu, sem m.a. útveguðu sprengiefnið. Leyniherir þessir störfuðu í fjölmörgum Evrópulöndum og börðust gegn kommúnismanum með óhefðbundum aðferðum. Á ensku nefndust þeir „Stay behind“ en á ítölsku „Gladio“ (sem þýðir „sverðið“). Árið 1990 viðurkenndi ítalski forsætisráðherrann, Andreotti, í ræðu á ítalska þinginu að Gladio hefði starfað á Ítalíu allt frá 1958, með samþykki ítalskra stjórnvalda (http://en.wikipedia.org/wiki/Operation_Gladio). Í framhaldi af viðurkenningu Andreottis kom yfirlýsing frá Evrópuþinginu um málið þar sem sagði að „til hafa verið í 40 ár leynileg samtök um samhliða hernaðar- og leyniþjónustuaðgerðir í nokkrum aðildarlöndum sambandsins, […] stjórnað af leyniþjónustum viðkomandi landa í samvinnu við NATO [og sem] tóku þátt í alvarlegum hermdaraðgerðum og glæpum eins og komið hefur fram í ýmsum réttarrannsóknum.“ (European Parliament resolution on Gladio, nr. C324 /201, November 22, 1990).
Á seinni árum hafa komið upp nokkur dómsmál tengd þessum gömlu hryðjuverkum þar sem saksóknarljósið strandaði ekki við fasistahópana, og tengingar voðaverkanna við leyniheri NATO og leyniþjónustur urðu ljósari en áður. Árið 1980 flýði fyrrum yfirmaður gagnnjósnadeildar ítölsku leyniþjónustunnar, Gianadelio Maletti, til Suður-Afríku undan málaferlum út af sprengingunni í Búnaðarbankanum í Mílano. Hann hefur samt, fyrst árið 2001 og aftur síðar, vitnað um þessi tengsl fyrir rétti. Hann segir að heilinn bak við aðgerirnar hafi verið hjá CIA sem hafi fengið til samstarfs öfgahægrimenn, m.a. ítölsku fasistasamtökin Ordine Nuovo og einnig mafíukreðsa á Sikiley. Grein Guardian um vitnisburð Maletti má sjá hér: http://www.theguardian.com/world/2001/mar/26/terrorism Árið 2004 sendi Center for Security Studies í Zürich frá sér skýrslu um leyniheri NATO sem má sjá hér: http://www.php.isn.ethz.ch/collections/coll_gladio/synopsis.cfm?navinfo=15301
Felice Casson er ítalskur dómari sem öðrum fremur náði að upplýsa um tilveru Gladio gegnum málaferli á 8. áratugnum. Hann bendir á að fasistahóparnir og leyniþjónustan hafi átt sameiginlegan óvin, nefnilega sterk samtök ítalskra kommúnista og alþýðuhreyfingar, en ólíkt takmark. Öfgahægrimenn vildu grafa undan lýðræðinu, valda öngþveiti með aðgerðum sínum, með valdarán í huga. En valdamennirnir á bak við leyniþjónustu og leyniheri hugsuðu: Óvinur óvinar míns er minn vinur. Öfgahóparnir foru því fyrst og fremst verkfæri voldugri aðila sem notfærðu sér þá til þess að valda usla, en tilgangurinn var að styrkja lög og reglu (destabillize the public order to stabilize the political order). Casson segir að munstrið sem einkenndi hryðjuverkin hafi verið eftirfarandi: Valda skyldi miklum dauða og eyðileggingu í sprengingunum og koma síðan sökinni á róttæka vinstri menn. Sköpuð var tilfinning fyrir ógnun við þjóðskipulagið sem myndi framkalla aukinn stuðning almennings við valdastofnanir samfélagsins og valdakerfið allt. Þetta hefur verið nefnt spennu-hernaðarlist, „strategy of tension“,. Sjá gott Youtube-myndband sem byggir talsvert á viðtölum við Felice Casso: https://www.youtube.com/watch?v=k83L3I6Z35w. Aðferðir NATO, CIA, MI6 & co frá þessum árum eru mjög athyglisverðar m.t.t. síðari tíma hryðjuverka undir fölsku flaggi, og sérstaklega þessi samvinna vestrænnar leyniþjónustu við pólitíska ofbeldissinna sem eiga með henni sameiginlegan óvin.
2001 New York
Atburðirnir 11. september í New York urðu bókstaflega startskot nýrrar vestrænnar hernaðarútrásar. Aðeins klukkustundum eftir árásina á Tvíburaturnana slógu bandarísk hermálayfirvöld því föstu að þetta væri verk Al Kaída. Og ríkisstjórn Afganistan væri meðsek með því að ”hýsa hryðjuverkamenn” (”harbor terrorists”) þótt aldrei hafi verið lagðar fram neinar sannanir fyrir aðild hennar að málinu. Ekki bara það, sama dag mæltist Rumsfeld varnarmálaráðherra til þess við herforingja sína að þeir undirbyggju hernaðaraðgerðir gegn Írak. Einnig sama dag, 11. sesptember, hélt Bush forseti ræðu og talaði um nýja óvini Bandaríkjanna, íslamistana: ”Þeir hata frelsi okkar!” sagði hann . ”Með hverri kynslóð hefur heimurinn skapað óvini mannlegs frelsis. Þeir hafa ráðist á Bandaríkin af þvi við erum heimili og vörn frelsisins… Söguleg ábyrgð okkar er ljós: að svara þessum árásum og losa heiminn við mikið böl.” CBS-News skýrði frá að forsetinn hefði skrifað í dagbók sína áður en hann gekk til svefns: ”Pearl Harbor 21. aldar átti sér stað í dag.” Og daginn eftir, 12. september, höfðu ekki aðeins Bandaríkin heldur einnig NATO lýst yfir ”stríði gegn hryðjuverkum” á grunni 5 gr. stofnsáttmála NATO um að árás á eitt aðildarríki jafngildi árás á þau öll. Baráttan stóð um ”vestræn gildi”. Á næstu mánuðum gerðu stjórnvöld í Washington lista yfir ”öxulveldi hins illa” sem innihélt Írak, Íran, Sýrland, Súdan, Líbíu, Norður-Kóreu. Ný vestræn hernaðarútrás var hafin.
Í hugveitunni Project for the New American Century frá 1997 lögðu nýhægrimenn kringum Bush og Cheney fram framtíðarsýn sína: Þar sagði að Bandaríkin yrðu að snúa frá afvopnunarþróun 10. áratugarins og treysta að nýju á hernaðaryfirburði sína til hnattrænna yfirráða. Tveir punktar voru mjög áberandi í skýrslunni: a) Efla þarf hernaðarþátt hagkerfisins enn meir og hagnýta helstu tækninýjungar á því sviði. b) Tryggja þarf yfirráð yfir helstu olíusvæðum heimsins. Talað var um olíusvæðinsunnan til við Kaspíahaf og olíuríkin í Miðausturlöndum og við Persaflóa. En fram kom að innra ástand og hugarfar landsmanna væri veikur hlekkur. Bandarískir kjósendur voru uppteknir af efnahags- og innanlandsmálefnum, ekki hernaði utanlands: „Að breyta bandaríska hernum herfræðilega í heimsvaldasinnaðan kraft hnattrænna yfirráða útheimtir geysilega aukningu á útgjöldum til varnarmála… Umbreytingin mun líklega taka langan tíma nema til komi hamfaraatburður sem virkar sem hvati (catastrophic and catalyzing event), líkt og nýtt Pearl Harbor.“http://en.wikipedia.org/wiki/Project_for_the_New_American_Century#.22New_Pearl_Harbor.22
Hryðjuverkið sjálft er sem kunnugt er hulið þoku hinnar opinberu skýringar. Að hrekja hana er mikið mál sem ég flyt ekki hér. Umgjörð hryðjuverkisns tegist öðru efni sem er tengsl vestrænnar (einkum bandarískrar) leyniþjónustu við íslamista og herská samtök þeirra. Það gagnkvæma samband hefur verið mikilvægt a.m.k. allt frá stríðinu gegn Sovétmönnum í Afganistan. Í því stríði varð fyrirbærið al-Kaída til í náinni samvinnu við CIA og einnig leyniþjónustu Pakistans. Stríðsmenn Osama bin Laden fengu þá peninga- og vopnastuðning frá Bandaríkjunum og Sádi Arabíu. http://www.globalresearch.ca/al-qaeda-friend-or-foe-the-us-cannot-have-it-both-ways/5376508 Eftir að því stríði lauk beitti CIA jíhadistum þaðan – nú atvinnulausum – leynilega fyrir sinn málstað í borgarastríðum í Bosníu, Tétsníu, Kosovo, Sómalíu… Í öllum þessum átökum barðist þessi hreyfing í sama liði og Vesturveldin/vestræn leyniþjónusta sem er sérkennilegt af því að opinberlega var og er Al-Kaída í stríði við Vesturlönd, en það var fyrirboði um þátt jíhadista í stríðunum i Líbíu og Sýrlandi síðar. En eftir aldamótin 2000 (einkum eftir 11. september) varð al-Kaída meira notað sem ógn eða sem flokkur dularfullra illmenna til að réttlæta afskipti Bandaríkjanna og NATO víða um Miðausturlönd, Afríku og Asíu – hvarvetna þar sem til þessara skuggalegu samtaka spurðist.
Í hreyfingunni „Sannleikurinn um 11. september“ (Truth 9/11) er eitt umræðuefnið einmitt hvernig samvinnu vestrænnar leyniþjónustu við „gerendur“ í hryðjuverkum er háttað. Þar er a.m.k. tvennt til varðandi þátttöku leyniþjónustunnar í hryðjuverkunum. Ein aðferð er að leyniþjónustan framkvæmi eða stjórni hryðjuverki beint. Önnur leið er að „greiða götuna“ fyrir væntanlega hryðjuverkamenn, hvetja þá þá, lokka þá og blekkja, og umfam allt þegja um alla vitneskju sína um komandi hryðjuverk. Sambland þessara þátta er örugglega misjafnt frá einu hryðjuverki til annars, sem og þátttaka milligöngumanna frá leyniþjónustum íslamskra fylgiríkja Vesturveldanna, s.s. Pakistan, Sádi Arabíu o.fl. En einhvers konar þátttaka öfgahópa, oft róttækra íslamista, er æskileg, jafnvel nauðsynleg, svo nota megi þá a.m.k. sem blóraböggla.
Hvað um það, hamfaraatburðurinn (ný Pearl Harbor) sem nýhægrimennirnir í Project for the New American Century höfðu bak við eyrað kom eins og kallaður. Og var kyrfilega notaður frá fyrstu mínútu. Frá sjónahóli strategistanna var landslagið nú breytt. Tvö meir háttar stríð – gegn Afganistan og Írak – voru ákveðin samdægurs. Og Bandaríkin og NATO gátu hafið ”stríð gegn hryðjuverkum” um allan heim í framhaldinu. Lítil útibú frá al-Kaída spruttu upp eins og gorkúlur víða um lönd og hvarvetna varð það grundvöllur til vestrænna íhlutana í einhverri mynd.
2005 London
Í almenningsálitinu dró 11. september stríðsvagninn lengi vel. Hann dugði altént vel til innrásarinnar í Afganistan. Í Írak dugði hann hins vegar illa. M.a. af því að mjög illa gekk að tengja Saddam Hussein á nokkurn hátt við atburðina 11. sept. Sjálf innrásin gekk illa og andstaðan í Írak vað miklu öflugri en menn bjuggsut við svo mannfallið varð verulegt í innrásarherjunum. Við bættist að mótmælahreyfingin gegn stríðinu varð mjög öflug á heimsvísu – og vann eiginlega áróðursstríðið. Bush og Blair stóðu uppi sem ærulausir stríðsglæpamenn sem höfðu fabríkerað gögnin um „gjöreyðingarvopn Saddams“ og voru einfaldlega í ræningjaleiðangri. Mikilvægt í þessu samhengi varð svo ákveðið minnisblað, „The Downing Street Memo“ frá ríkisstjórnarfundi hjá Blairstjórninni 23. júlí 2002 að viðstöddum fulltrúa frá leyniþjónustunni MI6 nýkomnum frá CIA, segjandi að Bush-stjórnin hefði ákveðið að ráðast á Saddam: „..through military action, justified by the conjunction of terrorism and WMD. But the intelligence and facts were being fixed around the policy.” Þessu minnisblaðið var lekið út í bresku pressuna (Michael Smith, The Sunday. Times, 1. Maí 2005). Þetta varð stóráfall og vondur málstaðurinn versnaði enn að mun. Ekki aðeins var stríðið í Írak í húfi. Allt stríðið gegn hryðjuverkum sömu leiðis, íhlutanir í Miðaustulöndum, Afríku, Asíu, allt það sem 11. september átti að réttlæta.
Tveimur vikum eftir lekann kom annar hamfaraatburður sem segja má að breska stjórnin hefði þörf fyrir. Seríusprengingar í London 7. júlí. 52 almennir borgarar dauðir og 700 særðir. Viðbrögð stjórnvalda voru afskaplega lík og í New York fjórum árum fyrr. Nokkrum klst. eftir sprengjurnar (áður en nokkur rannsókn hafði farið fram) hélt Tony Blair ræðu í sjónvarp og sagði, líkt og vopnabróðir hans áður, að þetta væri árás á Vestrið og á allt sem við „höldum heilagt“. Og á bak við þetta stæði óvinur númer eitt, al-Kaída. Blair sór og sárt við lagði að „our determination to defend our values and our way of life is greater than their determination to cause death and destruction to innocent people in a desire to impose extremism on the world… Whatever they do it is our determination that they will never succeed in destroying what we hold dear in this country and in other civilised nations throughout the world.“ (The Telegraph, 7/7 2005). Líkt og Bush svaraði Blair sem sagt með stríðsæsingaræðu, í því stríði stæðu heittrúaðir múslimar gegn „okkur“ og okkar vestrænu gildum. „Stríðið gegn hryðjuverkum“ hafði fengið nýja réttlætingu.
Margt er gruggugt í kringustæðum þessara hryðjuverka. Þau voru sögð framin af fjórum ungum breskum múslimum, þremur þeirra kringum tvítugt. Þrír þeirra voru af pakistönsku foreldri af annarri kynslóð innflytjenda. Eitt hið dularfyllsta í málinu er það að enginn þeirra var kunnur að því að hafa tengsl við öfgatrúarhópa í Bretlandi eða sækja slíkar samkomur. Fjölskyldur þeirra og vinir vissu ekki af neinu þvílíku og hafa ekki fengið sennilegar upplýsingar um slíkt eftir á heldur. Sá elsti þeirra Mohammed Sidique Khan (þrítugur), sem í fjölmiðlum eftir á var kallaður „foringi hringsins“, hafði fá einkenni sjálsmorðssprengjumanns. Hann var félagslyndur og veraldlega sinnaður, skólaliði og kennari að starfi, hugsjónamaður í stuðningsstarfi meðal unglinga og var fáum mánuðum fyrir sprengingarnar boðinn í heimsókn í breska Þinghúsið í viðurkenningarskyni fyrir kennslu sína og árangursríkt unglingastarf. Elías Davíðsson hefur gert merkilega rannsókn á London-sprengingunum, hinni opinberu skýringu og einkum réttarrannsókninni eða skorti á slíkri. http://aldeilis.net/bpb/london/
Eftir sprengingarnar varð til hreyfing í London tengd vandamönnum fórnarlambanna sem nefnir sig J7: The July 7th Truth Campaign. Krafa hennar hefur frá upphafi verið um opinber réttarhöld í málinu á meðan hin opinbera skýring atburðanna byggði frá byrjun á skipulegum „lekum“ frá breskri lögreglu og einkum leyniþjónustu. Kröfunni um opin réttarhöld hefur alltaf verið hafnað. Á vefsíðu hreyfingarinnar stendur meðal annars: „ekki eitt sönnunargagn hefur verið birt almenningi, sem hægt væri með lögmætum hætti að nota til að dæma einhvern fyrir rétti fyrir það sem gerðist.“ http://julyseventh.co.uk/ Ný grein með ítarlegri úttekt á réttarrannsókninni, byggð mikið á gögnum sem The July 7th Truth Campaign hefur safnað gegnum árin, gefur ekki ósvipaða mynd og Elias, sjá hér: http://www.globalresearch.ca/the-77-london-bombings-and-mi5s-stepford-four-operation-how-the-2005-london-bombings-turned-every-muslim-into-a-terror-suspect/5341948
Annað gruggugt mál er vitnisburður um æfingar gegn hryðjuverkum á vegum einkafyrirtækis, tengdu lögreglunni, nánast á sama tíma og voðaverkið var framið 7. júlí, nánar tiltekið á sama klukkutíma, viðbrögð við sprengingum nauðalíkum þeim sem urðu í raunveruleikanum, nánar tiltekið fjórum sprengingum á þeim sömu lestarstöðum sem urðu fyrir sprengingum. Um þetta hafa ýmsir skrifað, nægir að vísa í Elías Davíðsson, kaflann „Extraordinary coincidences“. Frekari vitnisburður um fyrirfram vitneskju lögreglunnar um voðaverkin er það að Scotland Yard sendi ísraelska sendiráðinu viðvörun fyrirfram (Benjamin Netanyahu var í London á G8 fundi).
2007 Miðausturlönd
„Stríðið gegn hryðjuverkum“ virðist næsta ómarkvisst. Í fyrsta lagi: Hryðjuverkamennirnir 11. september voru sagðir koma frá Sádi-Arabíu, Egyptalandi og Líbanon og í refsingarskyni var ráðist á Afganistan og Írak! Í öðru lagi: Hvaðan koma íslamskir stríðsmenn í dag? Hvaða lönd koma fyrst upp í hugann? Jú, Afganistan, Írak, Líbía, Sýrland. Einmitt þau lönd sem orðið hafa fyrir grófustu innrásum og íhlutunum af hálfu Vesturblokkarinnar. Þessi lönd hafa orðið útungunarstöðvar herskárra íslamista, og sjálf hafa löndin orðið vígvöllur innbyrðis trúardeilna en, vel að merkja, það gerðist eftir að Vestuveldin hófu að tæta þau í sundur með íhlutunum sínum. Þetta er afleiðing af þeim íhlutunum en ekki orsök þeirra og er lýsandi sönnun þess að „stríð gegn hryðjuverkum“ er ein risavaxin blekking.
Árið 2007 skrifaði bandaríski Pulitzer-verðlaunahöfundurinn Samuel Hersh grein í The Newyorker um stefnubreytingu heimsvaldasinna í hernaðinum í Miðausturlöndum, um það hvernig Bush-stjórnin veðjaði á „trúardeilutrompið“ (sectarian card) til að snúa málum sér í hag í ófriðinum austur þar. Stefnubreytingin fólst ekki í nýjum markmiðum heimsvaldasinna heldur nýrri taktík: „Til að grafa undan Íran, sem er í meginatriðum sjía-land, hefur Bushstjórnin ákveðið að endurstilla áherslur sínar í Miðausturlöndum… Bandaríkin taka þátt í leynilegum aðgerðum gegn Íran og bandamanni þeirra, Sýrlandi. Hliðarafurð þeirrar starfsemi er að styrkja hópa öfgasinnaðra súnnía sem hafa herskáa trúarafstöðu, eru fjandsamlegir Bandaríkjunum og hliðhollir Al-Kaída.” http://www.newyorker.com/magazine/2007/03/05/the-redirection?currentPage=all
Þegar leið frá aldamótum fékk liðsöfnunin gegn Íran (og þar með Sýrlandi) aukinn forgang, enda Íran mikilvægur bandamaður Rússa og Kínverja, hinna rísandi keppinauta Vesturvelda í heimsveldataflinu. Strategistar heimsvaldasinna höfðu þá séð að „balkanísering“ Íraks hafði reynst þeim vel, trúardeilutrompið hafði gagnast þeim í því að „deila og drottna“, að auka fjandskap milli trúarhópa líkt og milli þjóðernahópa í gömlu Júgóslavíu. Greining Hersh á stefnubreytingunni er eins og spádómsorð um það sem gerst hefur síðan. Vesturveldin hafa stutt og vopnað trúarvígamenn súnnía til að grafa undan stjórnvöldum sem ekki hlýðnast Vestrinu. Þessi aðferð var notuð í stríðinu í Líbíu 2011 og framan af stríðinu í Sýrlandi. Það segir sig þó sjálft að stuðningurinn við þessa hópa verður að vera eins dulinn og kostur er. Þess vegna er líka ein afleiðing af stefnubreytingunni sú að fylgiríki Vesturveldanna af súnní-meiði, Sádi-Arabía, Katar, Jórdanía, hafa fengið mjög stórt hlutverk sem milligönguaðilar í því að styrkja þessa vígahópa. Súnní-landið og NATO-landið Tyrkland sömu leiðis.
Stefnubreytingin sem Hersh lýsir er ákveðin breyting á hlutverki hinna herskáu íslamista í hernaðarlegri útrás Vestursins, frá því að vera grýla sem réttlætir íhlutanir Vestursins yfir í það vera liðsmenn/fótgönguliðar sama Vesturs. Það má nefna hið fyrra taktík A og hið seinna taktík B. Að Vestrið tæki upp taktík A þýddi þó ekki að það legði af taktík B, eins og brátt kom í ljós.
2014 Sýrland og Írak
Menn hafa sett fram þá skoðun að tilkoma samtakanna Íslamska ríkið í Sýrlandi og Írak sé eitt risavaxið sviðsett hryðjuverk. Íslamska ríkið er fyrst og fremst vaxið upp úr borgarastríðinu í Sýrlandi. Vettvangur samtakanna er einkum Sýrland og Írak. Sýrland hefur gegnum tíðina veitt vestrænum heimsvaldasinnum og Ísrael langvarandi andstöðu, (m.a. í bandalagi við Rússa) enda átti það fast pláss á lista yfir „öxulveldi hins illa“. Í „arabíska vorinu“ hófst blóðug styrjöld í Sýrlandi sem frá fyrsta degi var vopnuð og fjármögnuð af Vesturveldunum og fylgiríkjum þeirra í Arabaheimi, einkum Sádi-Arabíu og Katar, og þeim var fengin aðstaða til að herja frá Tyrklandi. Um þetta fjalla ég í annarri grein: http://eldmessa.blogspot.com/2014/11/miausturlond-eyilegging-samkvmt-atlun.htmlUppistaða uppreisnarherjanna voru frá byrjun öfgasinnaðir trúarhópar salafista (af súnní-meiði), framan af einkum samtökin Al-Nusra sem tengd eru Al-Kaída. Stefnan var sú að koma á loftárásum „alþjóðasamfélagsins“ á Sýrland til stuðnings við uppreisnaröflin – eins og tekist hafði svo vel í Líbíu. Ákaft var reynt að koma því í kring á grundvelli stórfelldrar eiturgasárásar við Damaskus í ágúst 2013, árásar sem bar mörg kunnugleg merki sviðsstetts hryðjuverks. En þetta ráðabrugg mistókst sem kunnug er; vegna framgöngu Rússa og Kínverja gegn því; vegna neitunar breska þingsins og af fleiri ástæðum. Á hernaðarsviðinu stóðu uppreisnaröflin ekki vel heldur, allt árið 2013 fóru þau halloka fyrir sýrlenska stjórnarhernum og voru upprætt í einu héraði af öðru.
Snúum þá til Íraks: Stjórn al-Malíkis í Írak var upphaflega leppstjórn sem komið var á fót af USA & co. En í júlí 2014 knúðu Bandaríkjamenn hana frá völdum. Opinber ástæða var einkum hernaðarleg sókn Íslamska ríkisins innan Íraks. En raunverulegaqr ástæður voru margar: 1. Íraksstríðið mistókst að því leyti að upp kom í Írak þjóðernissinnuð stjórn sem hætti að fylgja handriti yfirboðara sinna 2. Al-Maliki snérist gegn hernaðarlegri nærveru USA í Írak og lokaði m.a.s herstöðvum þeirra 3. Hann studdi Assad í borgarastríðinu í Sýrlandi. 4. Stjórn al-Malikis var sjía-sinnuð og vingaðist smám saman meir og meir við Íran. Valdaskiptin urðu því knýjandi frá sjónarhóli Vesturvelda eftir að liðssafnaðurinn gegn Íran fékk forgang. Niðurstaðan var sú að það varð brýnt fyrir Bandaríkin og NATO-veldin að losa sig við al-Malíkistjórnina eins og stjórn Assads í Sýrlandi.
Þróunin í báðum þessum löndum hafði sem sagt verið heimsvaldasinnum óhagstæð. Við þessar aðstæður kom skrýmslið Íslamska ríkið (IS) fram. Til að sjá spratt það skyndilega, á árunum 2013 og 2014 upp úr eyðimörkinni. IS-menn óðu í peningum og keyrðu í júní 2014 frá Sýrlandi inn í Írak, afskaplega ríkulega vopnaðir í löngum röðum af hvítum Toyota SUV og hernaðarlega vel þjálfaðir svo íraski herinn lét sig hverfa þar sem til þeirra sást. Þessi tilkoma Íslamska ríkisins gaf USA & co yfirvarp til að knýja fram valdaskiptin í Írak – og einnig yfirvarp til að endurnýja hernaðarnærveru sína í landinu. Vestræn pressa lýsir hinu nýja stríði sem svo æðisgenginni villimennsku að auðvelt reyndist að fá samþykki fyrir íhlutun frá „alþjóðasamfélaginu“. Þar með gat Vestrið farið að kasta sprengjum yfir Sýrland líka. Kaldhæðnin er auðvitað sú að megnið af vopnabúnaði sínum fá íslamistarnir eftir krókaleiðum frá þeim sömu sem kasta á þá sprengjum, frá fylgiríkjum Vesturveldanna í Arabaheimi og frá Vesturveldunum sjálfum, gegnum Tyrkland, Jórdaníu, Króatíu… Ég tilfæri tvær góðar greinar úr meginstraumsblöðum sem sýna þetta. Sú fyrri eftir Chivers og Schmitt hjá New York Times: http://www.nytimes.com/2013/03/25/world/middleeast/arms-airlift-to-syrian-rebels-expands-with-cia-aid.html?pagewanted=all&_r=0. Sú seinni eftir Robert Fisk hjá Independent. http://www.independent.co.uk/news/world/middle-east/war-with-isis-if-the-saudis-arent-fuelling-the-militant-inferno-who-is-10024324.html
Af þessu má sjá að bardagaaðferð heimsvaldasinna í Sýrlandi og Írak er orðin harla flókin. Eftir að hafa um árabil beitt taktík B þar sem íslamistarnir eru fótgönguliðar Vestursins er taktík A tekin upp í stórum stíl þar sem Íslamska ríkið er í hlutverki grýlunnar ógurlegu sem réttlætir lofthernað Vestursins og bandamanna þess, og væntanlega bráðum einnig landhernað.
Niðurstöður
Sviðsett hryðjuverk eru ein meginaðferð vestrænna heimsvaldasinna til að viðhalda hernaðar- og valdakerfi sínu og alveg sérstaklega til að stofna til árásarstyrjalda gegn útvöldum andstæðingum sínum. Frá og með árinu 2001 þegar Bandaríkin og NATO lýstu yfir ”hnattrænu stríði gegn hryðjuverkum” hafa sviðsett hryðjuverk verið tíðari en áður. Það er skiljanlegt í ljósi þess að forsendan fyrir ”stríði gegn hryðjuverkum” var og er hugmyndin um sínálæga allsherjarógn af ( helst íslamískum) hryðjuverkamönnum nánast hvar sem væri á hnettinum. Þessi óvinamynd er útfyllt og ”fóðruð” með tíðum hryðjuverkum sem framkalla það andrúmsloft sem nauðsynlegt er til að almenningsálitið styðji þann stríðsrekstur sem um ræðir.
Aðferðin er einföld: Látum vígamenn framkvæma hryðjuverk eða greiðum þeim götu til þess. Komum sökinni á valda andstæðinga okkar, búum til opinbera skýringu og látum meginstraumspressuna endurtaka lygina nógu oft. Þessi aðferð heimsvaldasinna virkar í krafti þess að þeir hafa örugg tök á hinum stóru fréttastofum Vesturlanda, sem svo fóðra minni fréttastofurnar…
Í þessu ljósi skilst að hin eiginlega orsök átakanna er ekki trúarbragðadeilurnar eða ”clash of civilisations”. Íslamistarnir og trúarbragðadeilurnar sem slíkar eru fyrst og fremst verkfæri stórvelda, á svipaðan hátt og fasistarnir í Ítalíu og Þýskalandi og víðar á 8. árataugnum voru verkfæri fyrir leyniheri NATO. Orsök helstu átaka samtímans liggur fyrst og fremst í gróðaknúinni heimsvaldastefnu og streði hennar eftir heimsyfirráðum.
Eins og á 8. áratugnum er þessi dulda ógn jafnframt notuð til að styrkja lögregluríkið. Eftir 11. september hefur svonefnd Patriotic Act verið gildandi lög í Bandaríkjunum. Eftir 7/7 voru ný og afar ströng lög um persónuskilríki tekin upp í Bretlandi. Borgaraleg réttindi eru skert á Vesturlöndum, lögreglueftirlitið er styrkt jafnt og þétt, lögreglan vopnast meira og meira, persónunjósnir þrútna út. Hugmynd íslenska innanríkisráðherrans um ”forvirkar rannsóknarheimildir” er aðeins nýjasta teiknið um þetta hér á skerinu okkar, ráðherrann vísar í hættuna af ”skipulagðri glæpastarfsemi og hryðjuverkum” og hugmyndin er sett fram í skýru samhengi við nýjustu afrek Íslamska ríkisins.
Samkvæmt fjölmiðlum heimsvaldasinna, hinum stóru vestrænu fréttastofum, berjast Vesturveldin án afláts fyrir friði en skotmörk þeirra (Rússland, Kína, Íran, Sýrland) eru ógnin við friðinn. Sannleikurinn er þveröfugur og eins og ég sagði í upphafi: Vestrænir heimsvaldasinnar valda mestu um styrjaldir okkar daga. Eitt verkfæri þeirra er sviðsett hryðjuverk. En viðhorf eins og þetta er afgreitt af ríkjandi fjölmiðlum sem ”samsæriskenning”. Og ”samsæriskenning”, segja þeir, er viðhorf sem alls ekki má ræða í alvöru heldur er til að hlæja að. Veruleikinn bak við ”samsæriskenningarnar” er hins vegar allt annað en hlægilegur.
Þórarinn Hjartarson