Stríð um heimsyfirráð: Hnattræn auðvaldselíta þolir ekki sjálfstæð ríki

By 24/05/2016 Uncategorized

Þórarinn Hjartarson á Akureyri, félagsmaður í SHA, sendi Friðarvefnum þennan pistil um alþjóða- og efnahagsmál. Aðsendar greinar á Friðarvefnum eru að sjálfsögðu verk höfunda sinna og þurfa ekki endilega að endurspegla stefnu vefritsins eða Samtaka hernaðarandstæðinga.

„Það er alheimsstríð, það er allsherjar tríð og það er eyðilegging. Það á sín rök, það er hluti hnattræns kapítalisma. Á núverandi stigi er þetta þó ekki barátta gegn sósíalisma, en það er barátta gegn þjóðlegum kapítalisma. Með öðrum orðum, það eru hinar hnattrænu auðvaldselítur – aðallega ensk-amerískar þar sem hinar miklu fjármálamiðstöðvar Wall Street og London ráða för – gegn kapítalískum keppinautum, sem vel má nefna: Rússland og Kína – Kína er ekki kommúnískt land, Kína er kapítalískt land, í raun mjög þróað kapítalískt land, og eins er um Íran.“

Það er kanadíski samfélagsrýnirinn Michael Chossudovsky sem segir þetta. Í eftirfarandi grein tek ég undir þessa greiningu, helstu hernaðarátök nútímans taka á sig þessa mynd, heimselítan berst gegn þjóðlegum kapítalisma og sjálfstæði þjóða. Í framhaldinu spyr ég: Hvers vegna er það svo?

Eitt einkenni kapítalismans er hneigð auðmagnsins til að hlaðast upp, samruni, yfirtökur, stór gleypir lítinn, samruni útyfir landamæri þjóðríkja og sístækkandi efnahagseiningar. Risaauðhingar skipta með sér heimsmarkaðnum. Á pólitíska sviðinu ríkir samþjöppun í vaxandi valdablokkir. Heimskapítalisminn hefur frá 1945 einkennst af drottnunarstöðu eins ríkis, Bandaríkjanna. Um skeið var þó einnig fyrir hendi sterk blokk kennd við kommúnisma. En eftir lok kalda stríðsins og brotthvarf Austurblokkarinnar um 1990 varð heimurinn „einpóla“ með mikilli drottnunarstöðu Vesturblokkar, Bandaríkjanna ásamt bandamönnum.

Í upphafi var hugveitan

Hnattræn stjórnlist (strategía) bandarískrar/vestrænnar elítu er ekki mótuð á neinu þjóðþingi né í stofnunum SÞ. Hún er einkum mótuð í nokkrum hugveitum eða klúbbum þar sem saman koma fulltrúar bandarískrar og vestrænnar toppelítu – alls ekki þjóðkjörnir. Lýðræðið þvælist ekki mikið fyrir hinum raunverulegu valdhöfum heimsins. Af áhrifaríkustu hugveitum innan Bandaríkjanna ber að nefna Brookings Institution (stofnuð 1916), Hoover Institution (1921) og Council of Foreign Relations (1921) og Center for Strategic and International Studies (1962). Tvær þær síðastnefndu hafa öðrum fremur mótað utanríkisstefnu USA, en allir hafa þó klúbbarnir haft mikil og afgerandi áhrif á utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Á alþjóðavettvangi starfa Bilderberg Group (stofnuð 1954 til að treysta samband N-Ameríku og V-Evrópu og „atlanticism“), Aspen Institute (stofnað 1950), Trilateral Commission (stofnað af David Rockefeller 1973 til að rækta og móta samband Norður Ameríku, Vestur Evrópu og Japans). Síðarnefndu klúbbarnir þrír eru hugveitur fyrir Vesturlönd en að uppruna og öllum grundvelli eru þeir bandarískir eins og hinir sem fyrr voru nefndir. Loks ber að nefna stofnunina The World Economic Forum, eins konar heimsþing vestræns einokurarauðvalds, hagsmunasamtök ca. 1000 voldugustu auðhringa á hnettinum, sem hittist árlega í Davos í Sviss og hefur mjög bein völd og setur pólitík á dagskrá vítt um hinn vestræna heim.

Klúbbar þessir hafa verið mjög samstíga í efnahagsstefnu og pólitík. Það helgast einfaldlega af því að þarna eru saman komnir fulltrúar vestrænnar toppelítu og voldugustu einokunarauðhringanna. Harðasti og voldugasti kjarninn er fáveldi bandarískra fjármálarisa og risaauðhringa, ekki síst í hergagnaiðnaðinum (hergagnaframleiðsla plús einkafyrirtæki í stríðsrekstri, military-industrial complex kallaði Eisenhower það). Mikil krosseignatengsl þar á bæ gerir kjarnan gríðarlega samþjappaðan, og krosstengsl einkenna líka klúbbana, margar sömu persónur rokka á milli þeirra og sitja í stjórnum eins klúbbs á eftir öðrum.

Hugveituklúbbarnir hafa verið leiðandi í strúktúrbreytingum sem orðið hafa í heimskapítalisma seinni áratuga. Þegar ríkjandi efnahagsstefna á Vesturlöndum breyttist á 8. og 9 áratug frá keynesisma til herskárrar nýfrjálshyggju Chicago-skólans undir forustu Reagans og Tatcher hafði sú stefna áður verið tekin í þessum klúbbum. Eins var um hina miklu hnattvæðingarþróun á 10. áratugnum, hnattvæðingu auðhringanna í „einpóla“ heimi. Stefna vestrænna hnattvæðingarsinna var og er að gera allan heiminn að opnu, frjálsu fjárfestingarsvæði fyrir vestræna fjölþjóðlega auðhringa. Þar var og er World Economic Forum (WEF) í fararbroddi og má vel kallast „Alþjóðaefnahagsstofnun hnattvæðingarsinna“. http://steigan.no/2015/12/30/vi-er- noen-fordomte- amatorer/ Ekki síður en í efnahagspólitík hafa allir klúbbarnir mikil og afgerandi áhrif á utanríkisstefnu og hnattræna hagsmuni risaveldisins USA.

Frumkvæðið að evrópska samrunanum kom frá Ameríku

Framantaldar hugveitur hafa lengi verið mjög gíraðar á samvinnu N-Ameríku og V-Evrópu. Wikileaks birti 2009 fundargerðir frá Bilderberg-fundi 1955 þar sem eitt helsta umfjöllunarefnið var „sameining Evrópu“: „Að ná á sem skemmstum tíma hæsta stigi sameiningar, og byrja á sameiginlegum evrópskum markaði.“ Á sama fundi var m.a.s. talað um að stefna bæri að „sameiginlegum gjaldmiðli“ sem líka myndi „nauðsynlega útheimta stofnun pólitísks miðstjórnarvalds.“ Þetta var tveimur árum áður en Efnahagsbandalag Evrópu var stofnað. Bandarískt frumkvæði að evrópskum samruna var samt komið fram enn fyrr. Í september 2000 skrifaði Ambrose Evans-Pritchard í London Telegraph: „Nýbirt leyniskjöl Bandaríkjastjórnar sýna að bandarísk leyniþjónusta rak herferð á sjötta og sjöunda áratugnum til að fá aukinn gang í það að byggja upp sameinaða Evrópu. Þeir stofnuðu og stýrðu evrópskri samrunahreyfingu… Minnisblað dagsett 26 júlí 1950 útlistar herferð til að koma á fullgildu evrópsku þingi. Það er undirritað af William J Donovan hershöfðingja, yfirmanni Office of Strategic Services sem var undanfari CIA.“

Heimselítunni er ekkert um lýðræði eða sjálfsákvörðunarrétt þjóða gefið gefið, og frá sjónarhólnum í Washington er augljóslega auðveldara og praktískara að hafa stjórn á einni ríkisstjórn í Vestur-Evrópu, ESB, en mörgum ólíkum evrópskum ríkisstjórnum. Evrópa hefur nú þróast í kjarna og fátækan jaðar. Þegar kreppa sverfur að tekur skrifræðisleg miðstjórn völdin, sú elíta er ekki þjóðkjörin, hún er fulltrúi fjölþjóðlegs fjármálavalds. „Þríeykið“ – Framkvæmdastjórn ESB, Evrópski seðlabankinn og AGS – setur sig hiklaust ofar þingi og ríkisstjórnum í þeim löndum Evrópu þar sem kreppan kemur harðast niður. Það brást heldur ekki að ESB varð einn nánasti og mikilvægasti bandamaður Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi. Eftir lok kalda stríðsins verður þetta æ skýrara. Í Íraksstríðinu frá 2003 hikstaði samstarfið pínulítið en helstu stríðsátök síðustu ára – í Afganistan, Líbíu, refsiaðgerðirnar gegn Rússlandi (og Sýrlandsstríðið líka þótt það sé flóknara dæmi, diplómatískt og í framkvæmd) – hafa í praksís verið samstilltar aðgerðir bandamannanna stóru, USA og ESB (með Ísrael og fylgiríkin í Miðausturlöndum sem mikilvæga meðspilara).

Heimsríkisstjórn

Ekki þarf að koma á óvart að í hugveituklúbbunum umræddu er oft rætt um heimsríkisstjórn. Segja má að hnattræn ríkisstjórn sé á vissan hátt rökrétt lokamark í samþjöppunar- og hnattvæðingarþróun kapítalismans. Heimsríkisstjórn tilheyrir mjög langt genginni hnattvæðingarþróun í einpóla heimi. Á hinn bóginn er skiljanlegt að slíkt stefnumið sé ekki mjög áberandi í opinberum málflutningi og yfirlýsingum.

Bilderberg Group er kannski voldugasti hugveituklúbbur Vesturblokkarinnar. Á fundi hans árið 1991 –

árið sem Sovétríkin leystust upp – var David Rockefeller mættur og horfði nú fram á veginn: „Við erum þakklát Washington Post, New York Times, Time Magazine og öðrum þýðingarmiklum útgáfum, en stjórnendur þeirra hafa tekið þátt í samkomum okkar í nærri 40 ár og samt varðveitt leynd þeirra… Það hefði verið ómögulegt fyrir okkur að þróa áform okkar um heiminn ef við hefðum orðið að búa við umfjöllun fjölmiðlanna þessi ár. En heimurinn er nú háþróaðri og tilbúnari til að ganga í átt að heimsríkisstjórn (world government). Hið yfirþjóðlega vald (supernational sovereignty) menntaelítu og alþjóðlegara bankamanna er vissulega æskilegra en sú þjóðlega sjálfsstjórn sem hefur verið við lýði undanfarnar aldir.“

Nú var David Rockefeller ekki einhver Jón Jónsson frekar en faðir hans eða afi. Rockefellarnir eru mesta og elsta ættarveldi bandarísks efnahagslífis. Ekki bara það. James Wolfenssohn, sem sjálfur var bæði fyrrverandi forseti Alþjóðabankans og stjórnarmaður hjá Bilderberg Group og Council of Foreign Relations (CFR), lét svo um mælt á fundi í CFR 2005 að David Rockefeller væri „sú persóna sem hafði kannski mest áhrif á líf mitt og starf… Í raun má með sanni segja að eingin einstök fjölskylda hafi haft meirri áhrif á málefnið „hnattvæðing“ en Rockefellarnir.

 

Hugsun Rockefellers um heimsríkisstjórn hefur ekki efnisgert sig í einu stjórnarráði á heimsvísu. En auðvelt er að benda á WTO, AGS, Alþjóðabankann, ESB, komandi TISA og TTIP-samninga og svo hernaðararminn, NATO, sem þenur sig út án enda. Allt eru þetta einingar og sprotar í því framkvæmdavaldi sem setur sig ofar ríkisstjórnum, kallar sig „alþjóðasamfélagið“ og meir og meir virkar sem heimsríkisstjórn. Valdamiðjan er í Washington og nærsveitum og heilastarfsemin fer mjög fram í áðurnefndum hugveituklúbbum. Stjórnmálafræðingurinn og bandaríski heimsvaldasinninn Samuel P. Huntington vísaði til World Economic Forum þegar hann talaði um heimselítuna og bjó til hugtakið „Devos-maðurinn“: Þessir elítumenn „hafa litla þörf fyrir þjóðarhollustu, líta á landamæri ríkja sem hindranir sem til allrar hamingju séu hverfandi og líta á ríkisstjórnir sem leifar úr fortíðinni sem hafa þann eina tilgang að greiða fyrir aðgerðum hinnar hnattrænu elítu.“

Hugveituklúbbarnir umræddu eru ekki neinar „óháðar klakstöðvar hugmynda“ heldur eru þeir umræðuklúbbar þeirra allra auðugustu í Vestrinu eins og ég nefndi. Við það má bæta: Auðmagnið, frjálsa framtakið og markaðsöflin flæða ekki bara um löndin af sjálfsdáðum. Thomas Friedman sem skrifar vikulega um alþjóðamál, efnahagsmál og hnattvæðingu í New York Times segir: „Til að hnattvæðingin virki mega Bandaríkin ekki hika við að koma fram sem það allsráðandi risaveldi sem þau eru… Hulin hönd markaðarins getur ekki virkað án hins hulda hnefa. McDonalds getur ekki blómstrað án McDonnel Douglas sem hannaði F-15 fyrir Flugher Bandaríkjanna. Og sá huldi hnefi sem leyfir tækni Silicon Valley að blómstra í öruggum heimi heitir landher, flugher og floti Bandaríkjanna.“

Miðflóttaöflin

En það eru fleiri hneigðir að verki í kapítalismanum en endalaus samþjöppun auðs og valds. Kapítalískt hagkerfi samanstendur jú af innbyrðis keppandi auðmagnseiningum. Og einstök kapítalísk hagkerfi þróast ójafnt. Sumar einingar og sum hagkerfi sækja á meðan önnur staðna. Ein afleiðing þess er bilkvæmar styrjaldir milli heimsvelda, eins og heimsstyrjaldirnar tvær. Og enn gerir sú hneigð sig gildandi. Efnahagsþróunin skóp þess vegna smám saman bresti í hina gullnu mynd sem áðan var nefnd, myndin af heimi með „hnattvæðingu auðhringanna í einpóla heimi“ tók að brotna upp. Ný efnahagsveldi sigldu upp að hlið Bandaríkjanna í kepninni um heimsmarkaðinn og tóku að verja eigin hagsmuni í stað þess að þjóna hinni vestrænu hnattvæðingu – og síðan í vaxandi mæli að skáka vestrænum auðhringum á heimsmarkaðnum. Þessi efnahagsveldi tóku að reka það sem Chossudovsky í upphafstilvitnuninni nefnir „þjóðlegan kapítalisma“. Hin helstu þessara ríkja eru skammstöfuð BRICS – Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður-Afríka. Þegar þau koma saman mynda þau öflugan valdapól, mótpól við Vestrið. Vladimir Pútín er gott dæmi um „þjóðlegan kapítalista“ sem þjónar nú rússneskum kapítalisma, ekki vestrænum auðhringum og vestrænni hnattvæðingu líkt og fyrirrennarinn Jeltsín gerði. Öflugasta nýja efnahagsveldið, Kína, er fyrir nokkru orðið mesti iðanaðarútflytjandi heims og samkvæmt útreikningum AGS fór Kína árið 2014 fram úr Bandaríkjunum sem stærsta hagkerfi heims. Dollarinn sem haft hefur stöðu sem allsherjargjaldmiðill allra alþjóðaviðskipta – sem var grundvöllur undir „dollaraimperíalismanum“ – er að missa þá stöðu.

 

En þessi efnahagsþóun frá einpóla heimi til fjölpóla heims fær ekki að fara sínu fram á forsendum efnahagslífsins. Strategistarnir í Washington líta svona á málið: Að óbreyttu tapa Bandaríkin í efnahagsstríðinu og bandarísk heimsyfirráð eru í stórkostlegri hættu. Til að mæta hinni óhagstæðu þróun í keppninni um heimsmarkaðinn þarf að styrkja pólitísk og hernaðarleg yfirráð Vestursins, enda liggja yfirburðir þess fyrst og fremst á hernaðarsviðinu, og þá yfirburði verður að nota. Viðbrögðin sýna sambland af miklum ótta og miklum hroka, sem er stórhættuleg blanda.

Stríð okkar tíma snúast einmitt um þetta, heimsyfirráð. Þegar við skoðum hvert heimsvaldasinnar beina hernaðarskeytum sínum og leitum orsaka helstu styrjalda og átaka á 21 öldinni – Írak, Afganistan, Líbía, Úkraína, Sýrland, Íran, Jemen – verðum við því öðru fremur að íhuga hernaðarlegt mikilvægi viðkomandi landa.

Alla þessa öld hafa Bandaríkin hagað sér eins og eins og gamall mannýgur híðisbjörn vakinn af dvala sem uppgötvar að keppinautar eru komnir á óðal hans. 11. september 2001 var notaður til að koma endurnýjaðri hernaðarstefnu á, þegar Bandaríkin og NATO lýstu yfir hnattrænu „stríði gegn hryðjuverkum“. Síðan þá hefur Vesturblokkin óumdeilanlega verið „stríðsblokkin“. Bandaríkin og NATO líða nú engu ríki að sýna snefil af sjálfstæði. Bandaríkin með bandamönnum beita yfirburðum sínum og valdi til að einangra alla sem ekki hlýða, til að deila og drottna, grafa undan stöðugleika slíkra ríkja (destabilize) og koma á „valdaskiptum“.

Hvaða lönd eru dæmd til „valdaskipta“? John Pilger orðar það svo og talar þá fyrir munn Vestursins: „Nafn óvina „okkar“ hefur breyst gegnum árin, frá kommúnisma til íslamisma, en almennt er það sérhvert samfélag sem er óháð vestrænu valdi og er á hernaðarlega mikilvægu og auðlindaríku svæði, eða einfaldlega býður upp á valkost við vestræna drottnun.“

Glundroðaveldið

Af að horfa á aðferðir gamla risaveldisins, Bandaríkjanna, á 21. öldinni hefur hinn virti brasilíski höfundur og samfélagsrýnir Pepe Escobar kallað þau „glundroðaveldið“ og hefur gefið út bók með því nafni (Empire of Chaos, 2014). Nafngiftin skýrist í fyrsta lagi af því að risaveldið (ásamt bandamönnum) er svo miklu betra í því að rífa niður og eyðileggja en að byggja upp og í öðru lagi af því að risaveldið (ásamt bandamönnum) kýs glundroðann með eftirfarandi rökum: Ef við getum ekki drottnað yfir alþjóðakerfi byggðu á reglum hnattvæðingar munum við drottna yfir alþjóðakerfi byggðu á glundroða. Hugtak Escobars hefur af ærnum ástæðum fengið víða úbreiðslu og á sama hátt tala menn nú t.d. um hina herskáu Hillary Clinton sem „Queen of Chaos“ o.s.frv.

Herskáir íslamistar bera ekki aðeins uppi hryðjuverkaógnina – og gefa með því heimsvaldasinnum tilefni til endalausra íhlutana. Jafnhliða því eru herskáir íslamistar helstu málaliðar Bandaríkjanna og Vestursins í því að grafa undan stöðugleika og koma á „valdaskiptum“ í útvöldum löndum í íslamska heiminum. Þannig eru þeir leynivopn heimsvaldasinna, afar haganlega smíðað vopn. Þegar málum er svona fyrir komið er það efni í endalausan glundroða. Og þegar sá sem berst er sami aðili og sá sem barist er við er það efni í endalaust stríð.

Ég ætla ekki að rekja þennan hernaðrferil Vesturblokkarinnar en get bent á eigin greinar á vefnum t.d. þessa grein hér Lengi komst Vestrið áfram með yfirgang sinn án þess að mæta teljandi andstöðu en á síðustu árum hafa helstu keppinautarnir, einkum Rússland og Kína, í vaxandi mæli myndað skipulega andstöðu gegn þeirri yfirþyrmandi drottnunarstöðu Vestursins. NATO fékk frelsi til að kyrkja Líbíu. Sýrland væri að líkindum farið sömu leið nema af því Rússland og Kína beittu neitunarvaldi í SÞ og af því Sýrland nýtur herverndar frá Rússum (án þess að ég horfi framhjá kröftugri baráttu Sýrlendinga sjálfra gegn féndum sínum). En viðbrögð Vestursins við þessari andstöðu keppinautanna eru afskaplega herská. Um það skrifar John Pilger í nýrri grein sinni, Heimsstyrjöld er byrjuð. Rjúfið þögnina:

„Á undanförnum átján mánuðum hefur mesta uppbygging herstyrks frá síðari heimsstyrjöld – undir forustu Bandaríkjanna – átt sér stað á vesturlandamærum Rússland. Ekki frá því Hitler réðist inn í Sovétríkin hafa erlendir hermenn boðað svo áþreifanlega ógn fyrir Rússland.“ Og enn fremur: „Bandaríkin umkringja Kína með neti herstöðva, með skotflaugum, orustusveitum, kjaranorkuberandi sprengjuvélum. Þessi banvæni hringbogi teygir sig frá Ástralíu til eyjanna í Kyrrahafi, Maríueyja, Marashallseyja og Guam, til Filipseyja, Tælands, Ókinava, Kóreu og yfir Evrasíu til Afganistans og Indlands.“

Rússlandi og Kína er í vestrænni meginstraumspressu stillt upp sem helstu ógnunum við heimsfriðinn, og Hillary Clinton og slíkir líkja Pútín við Hitler. Því til stuðnings er bent á hernám Rússa á Krím 2014 og manngerðar eyjar og flugvelli Kínverja við Spartly eyjar í Suður-Kínahafi frá 2013-14. Filipseyjar hafa – í samráði við Bandaríkin – hafið deilu við Kína um yfirráð á eyjunum. Í grein sinni bendir Pilger á að vestræn meginstraumspressa spyrji aldrei af hverju Rússar hafi ákveðið að hernema Krím og „enginn blaðamaður í vestrænni meginstraumspressu spyr af hverju Kína sé að byggja flugvelli í Suður-Kínahafi.“ Kína hefur gegnum söguna gert tilkall til Spartly eyja rétt eins og Rússland hefur sögulega haft yfirráð á Krím. Þetta er ekkert nýtt. Hið nýja er hið gríðarlega hernaðrbrölt Vesturvelda við landamæri og lögsögu Rússlands og Kína. Gæti það skýrt herská viðbrögð þessara gömlu stórvelda? Vestræn pressa er ein samhangandi áróðursmaskína og þetta er ein þeirra spurninga sem ekki má spyrja.

Þórarinn Hjartarson