Staksteinar: Í minningu Samtaka herstöðvarandstæðinga

By 03/10/2006 Uncategorized

Í Staksteinum Morgunblaðsins 2. október voru birt minningarorð um Samtök herstöðvaandstæðinga. Þessi minningarorð eru svo hjartnæm og bera vott um slíka tryggð að við megum til að birta þau hér á Friðarvefnum um leið og við óskum Staksteinum langra lífdaga og að þeir megi skemmta okkur áfram. Þó má segja að um ofrausn sé að ræða þar eð samtökin eru í fullu fjöri og hafa því miður meira en nóg að gera. Rétt er að leiðrétta það að í nafni samtakanna er orðið herstöðvar í fleirtölu. Enn er ofgnótt herstöðva á vegum Bandaríkjanna víðsvegar um heim.

Í minningu Samtaka herstöðvarandstæðinga

Hlutverki Samtaka herstöðvaandstæðinga er lokið. Því lauk í fyrradag.

Það var markmið Samtaka herstöðvaandstæðinga að koma bandaríska varnarliðinu úr landi. Til þess að ná því marki gengu herstöðvaandstæðingar frá Keflavík.

Þeir gengu í þágu kommúnismans, sem hrundi með Berlínarmúrnum.

Þeir gengu í þágu Stalíns og eftirmanna hans en Stalín var einn helzti fjöldamorðingi 20. aldarinnar.

Þeir gengu í þágu þeirra, sem hnepptu aðrar þjóðir í þrælkun.

Þeir gengu í þágu þeirra, sem myrtu verkamenn á götum úti í Berlín 17. júní 1953.

Þeir gengu í þágu þeirra, sem sendu skriðdrekana inn í Búdapest til þess að drepa saklaust fólk á götunum þar.

Þeir gengu í þágu þeirra, sem kæfðu Vorið í Prag í fæðingu.

Þeir gengu í þágu þeirra, sem drápu 10 milljónir manna í Úkraínu með hungursneyð af manna völdum.

Þetta voru hugsjónir herstöðvaandstæðinga. Svona þjóðfélag vildu þeir skapa á Íslandi.

Þeir vildu koma Íslandi undir hæl kommúnismans.

Minning Samtaka herstöðvaandstæðinga verður ekki í heiðri höfð.

Bandaríska varnarliðið var á Íslandi í 55 ár. Það fór að eigin ósk.