Ályktun frá landsfundi SHA, 26. nóvember 2006 um uppsögn herstöðvasamningsins:
Engum sem fylgst hefur með fréttum af hinum nýja „varnarsamningi“ sem koma á í stað hins alræmda samnings frá 1951 getur dulist að hér er ekki verið að semja um sambærilega aðstöðu Bandaríkjanna á Íslandi eða hernaðarsamstarf á sama grunni. Þeim mun meiri ástæða var fyrir ríkisstjórn Íslands að stíga skrefið til fulls og hverfa endanlega frá ofsóknarbrjálsaðri heimsmynd kaldastríðsáranna. Ríkisstjórn Íslands kaus þann kost sem var einna verstur, áframhaldandi samstarf við Bandaríkin að nafninu til þótt allt sé á huldu um eðli þess og inntak. SHA mótmæla fyrirætlunum um viðamiklar héræfingar hér á landi.
SHA mótmæla því að ekki sé notað tækifæri til að friðlýsa Ísland fyrir gereyðingarvopnum og hafna öllu hernaðarsamstarfi við ríki og hernaðarbandalög sem byggja tilvist sína á notkun slíkra vopna eða hótun um hana. Í því samhengi minna SHA á hið sjálfsagða baráttumál sitt, Ísland úr NATO.
Við hvetjum alla stjórnmálaflokka til þess að setja uppsögn hins nýja samkomulags, sem eins og áður gengur undir rangnefninu „varnarsamningur“ að grundvelli utanríkisstefnu sinnar fyrir alþingiskosningar 2007.