Í frétt hér á Friðarvefnum 4. desember um aðalfund Norðurlandsdeildar SHA, sem var haldinn 30. nóvember, var þess getið að á fundinum hefði komið fram óánægja með hið nýja nafn samtakanna, Samtök hernaðarandstæðinga, sem mönnum þótti bera í sér pasifíska afstöðu, og jafnframt var þess getið að leiðari síðasta Dagfara hafi verið skrifaður undir sömu merkjum.
Nú er kannski rétt að staldra við orðið „pasifískur“. Með því er væntanlega átt við þá afstöðu að leggja allan hernað og valdbeitingu að jöfnu án tillits til ástæðna þess sem valdinu beitir. Öll áhersla sé þá lögð á að andæfa hernaðinum en litið framhjá orsökunum eða í það minnsta hinum pólitísku orsökum. Þannig sé valdbeiting hinna kúguðu gegn kúgurum sínum lögð að jöfnu við valdbeitingu kúgarans.
Leiðari Dagfara
Þegar ég lít til leiðarans sem ritstjórar síðasta Dagfara skrifuðu, þá get ég tekið undir ýmislegt í honum, en ekki allt. Þar er meðal annars varað við að menn festist í gömlum aðstæðum, svo sem kalda stríðinu og tvíhyggju þess, sem afvegaleiði umræðuna um veruleika nútímans.
„Mannkynssagan er ekki föst stærð heldur margbreytilegt, pólitískt afl,“ segir í leiðaranum og eru orð að sönnu. Í þessu margbreytilega afli er samhengi og þannig var kalda stríðið til dæmis ekki afmarkað fyrirbæri, hvorki í samtímanum né hinu sögulega samhengi. Kalda stríðið fólst ekki bara í andstæðunum Bandaríkin (eða vesturlönd) andspænis Sovétríkjunum (eða kommúnísku ríkjunum). Umhverfi þess var kapítalismi andspænis sósíalisma, borgarstétt andspænis verkalýðsstétt, arðræningjar andspænis hinum arðrændu, vestrænir heimsvaldasinnar og heimsvaldaríki ásamt harðstjórum og einræðisherrum í þróunarlöndum studdum af Bandaríkjunum andspænis fátækri alþýðu og þjóðfrelsishreyfingum þróunarlandanna, sem stundum nutu stuðnings Sovétríkjanna eða Kína.
Heimsvaldastefna er mikilvægt hugtak þótt orðið sé ekki mikið notað nú vegna vaxandi feimni á undanförnum tveimur áratugum eða svo við beinskeytta orðanotkun í samfélagslegri umræðu. Heimsvaldastefna er sú tilhneiging ríkja, stundum í bland við önnur samfélagsleg og efnahagsleg öfl, svo sem stórfyrirtæki, að seilast til áhrifa utan landamæra sinna í hagnaðarskyni. Heimsvaldastefna hefur birst í ýmsum myndum frá heimsveldum fornaldarinnar og nýlendustefnunni til heimsvaldastefnu Bandaríkjanna á síðustu öld og allt til yfirgangstefnu þeirra í Mið-Austurlöndum nú og hinnar kapítalísku hnattvæðingar nútímans. Heimvaldastefna felur alltaf í sér kúgun og arðrán.
Á árum kalda stríðsins, meðan stórveldin hlóðu upp kjarnorkuvopnum sínum, geisuðu fjölmörg heit stríð þar sem vopnum var beitt og blóð rann. Þessi stríð voru yfirleitt nátengd kalda stríðinu. Mest þeirra var Víetnamstríðið, þar sem Bandaríkjamenn börðust árum saman við her Norður Víetnam og þjóðfrelsishreyfinguna í Suður Víetnam. Það voru frelsisstríðið og byltingin á Kúbu, uppreisn alþýðu í Mið-Ameríku sem og í nýlendum Portúgala í Afríku, það var stríð Pinochets og arðránsstéttar Chile gegn alþýðu Chile eftir valdaránið þar, svo fátt eitt sé nefnt. Í öllum þessum stríðum komu Bandaríkin við sögu, einnig í nýlendum Portúgal, sem, vel að merkja, var í NATO á þessum tíma þegar landið var fasískt nýlenduveldi. Á tímum kalda stríðsins var andstæðan ekki bara Bandaríkin andspænis Sovétríkjunum heldur Bandaríkin og yfirstétt heimins andspænis Sovétríkjunum og alþýðu heimsins. Þannig var það, þrátt fyrir kúgunina í Sovétríkjunum og öðrum kommúnískum ríkjum. Eftir lok kalda stríðsins er meginandstæðan áfram Bandaríkin og yfirstétt heimsins andspænis alþýðu heimsins. Árið 1989 fól vissulega í sér tímamót en það var bara einn þáttur sem rofnaði í samtvinnuðum þræði sögunnar og allir eru þættir sögunnar meira og minna samgrónir þannig að enginn þáttur rofnar algerlega á einni nóttu.
Hættum að syngja Nallann?
Lokaorð Dagfara-leiðarans eru þessi: „Gefum Che Guevara-bolina til Hjálpræðishersins. Málum yfir hamarinn og sigðina. Hættum að syngja Nallann. Elskum friðinn.“
Hernaður og styrjaldir stafa oftar en ekki af yfirráðastefnu, heimsvaldahagsmunumog arðránshagsmunum. Heimsveldum hefur lostið saman, heimsveldi hafa undirokað aðrar þjóðir og arðránsstétt, oft með fulltingi heimsveldis, hefur kúgað og arðænt alþýðu eigin lands. Af því hafa sprottið uppreisnir, blóðug átök, hernaður. Því hefur oft farið saman friðarbarátta og andheimsvaldasinnuð barátta sem felur í sér stuðning við hina kúguðu og hefur því tengst bæði verkalýðsbaráttu í þróuðum löndum og uppreisn alþýðu og þjóðfrelsishreyfinga í þróunarlöndum. Þannig hafa menn í senn barist fyrir friði og stutt vopnaða uppreisn kúgaðrar alþýðu. Af því að frelsi og jafnrétti er forsenda friðar.
Myndir af Che Guevara, hamar og sigð og Internasjónalinn eru tákn fyrir verkalýðsbaráttuna og uppreisn alþýðunnar. Og þeirri baráttu, þeirri réttmætu uppreisn, er alls ekki lokið þótt kalda stríðinu sé lokið og kommúnísku ríkin flest liðin undir lok. Það er líka óbreytt, að arðráns- og heimsvaldastefna er helsta orsök hernaðar og styrjalda.
Táknum verkalýðsbaráttu og uppreisnar alþýðu hefur oft verið misbeitt af örgustu kúgurum, einkum hamrinum og sigðinni, sem upphaflega táknuðu bandalag verkamanna og smábænda, bandalag sem enn er í fullu gildi á heimsvísu andspænis hnattvæðingu kapítalismans, heimsvaldastefnu nútímans. Enn hefur Che skírskotun til kúgaðrar alþýðu víða um heim, ekki síst í Rómönsku Ameríku, og enn er Nallinn sunginn 1. maí og við fleiri tilefni á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar og verkalýðsflokka. Internasjónalinn er söngur verkalýðshreyfingarinnar og þegar við syngjum hann í morgunkaffi SHA 1. maí erum við að lýsa yfir samstöðu með verkalýðsstéttinni á baráttudegi hennar. Með því leggjum við áherslu á að friðarbarátta og kjara- og frelsisbarátta alþýðu fara saman. Í þessum táknum felst sú samfella sögunnar, sögu stéttabaráttu, sögu frelsisbaráttu og þar með sögu friðarbaráttu, sem við megum ekki gleyma. Ef við gleymum henni, ef við horfum framhjá kúguninni, arðráninu og heimsvaldastefnunni sem helstu orsökum ófriðar, og ef við viðurkennum ekki rétt hinna kúguðu til uppreisnar þannig að þeir geti lifað frjálsu og friðsömu lífi, þá verður friðarbarátta okkar bitlaus. Þá er það innantómt tal að segjast elska friðinn.
Gagnrýni norðlendinga
Í fréttinni af aðalfundi Norðurlandsdeildarinnar segir: „Óánægja kom fram með nafnið Samtök hernaðarandstæðinga sem mönnum þykir bera í sér pasifíska afstöðu. Leiðari síðasta Dagfara er skrifaður undir sömu merkjum. Mælist þetta illa fyrir þegar framganga heimsvaldastefnunnar nú um stundir er eins og raun ber vitni sem gefur ástæðu til að skerpa frekar pólitískan (ekki flokkspólitískan) prófíl baráttunnar gegn yfirgangs- og hernaðaröflum okkar daga.“
Svo virðist vera að ástæða nafnbreytingarinnar hafi ekki komist nógu vel til skila. Ástæðan var einfaldlega sú að herstöðvar eru ekki lengur neinar á Íslandi sem standa undir nafni. Að vísu er hernaðarlegt svæði undir yfirráðum Bandaríkjanna kringum radarstöðina við Grindavík og allstórt svæði á Miðnesheiði er skilgreint sem hernaðarlegt svæði, eins og Stefán Pálsson, formaður SHA, lýsti í ávarpi sínu í síðasta Dagfara, ávarpi sem kannski hefði mátt líta til ekki síður en leiðara ritstjóranna. Mörgum virkum félögum í Samtökum herstöðvaandstæðinga þótti nafnið farið að virka heldur illa og fannst að vart væri tekið mark á samtökunum undir þessu nafni, litið væri á þau sem úrelt, og mátu það svo að nafnið virkaði hamlandi á starfsemina. Auðvitað er hægt að deila um þetta mat en meirihlutinn á landsfundinum var samt sammála því.
Nafnið Samtök hernaðarandstæðinga varð fyrir valinu meðal annars af því að það líkist gamla nafninu og býður upp á sömu skammstöfun. Með þessu vali var sem sagt verið að halda í samfelluna í sögu og baráttu samtakanna. Eftir því sem mér hefur skilist var nafni eins og Friðarsamtökum Íslands hafnað fyrst og fremst af því að það hljómað svo „pasifískt“ og með því hefði mátt skilja að um meiri háttar stefnubreytingu væri að ræða.
Til tals kom nafnið Samtök gegn heimsvaldastefnu. Það hefði hins vegar verið heldur þröngt. Samtök herstöðvaandstæðinga hafa alltaf fyrst og fremst verið samtök gegn herstöðvum, hernaðarbandalögum, einkum NATO, kjarnorkuvopnum og hernaði almennt, en afstaða gegn heimsvaldastefnu hefur ævinlega mótað þá baráttu allt frá því samtökin voru stofnuð árið 1972 þegar baráttan gegn Víetnamstríðnu stóð sem hæst.
Það er ákaflega hæpið að dæma stefnubreytingu í átt til afstöðulauss pasifisma út frá þessari nafnbreytingu einni saman auk einnar greinar í Dagfara, þótt yfirskrift hennar sé „leiðari“. Nær væri að líta til starfsemi og yfirlýsinga samtakanna að undanförnu. Eins og ævinlega hafa samtökin barist gegn bandarísku herstöðvunum á Íslandi og aðild Íslands að NATO. Samtökin hafa staðið fyrir mótmælaaðgerðum gegn hernaði Bandaríkjanna í Írak, Afganistan og þar áður Júgóslavíu og aðild Íslendinga að þessum hernaði. Samtökin hafa líka staðið fyrir mótmælaaðgerðum gegn hernaði Ísraels gegn Palestínu og Líbanon og gegn stuðningi Bandaríkjanna við Ísrael. En engar ályktanir hafa verið gerðar né mótmælaaðgerðir skipulagðar gegn hernaðaraðgerðum Palestínumanna né uppreisnarmönnum eða hryðjuverkamönnum í Írak og Afganistan. Samtökin eru ekki hlynnt sjálfsmorðssprengingum eða öðrum hryðjuverkum sem bitna á almenningi, en áherslan hefur alltaf verið lögð á andóf gegn heimsvaldasinnum, arðræningjum og vopnaframleiðendunum og í því felst að samtökin hafa litið á þessi öfl sem helstu orsök hernaðar og ófriðar.
Vissulega hafa samtökin staðið að aðgerðum sem kalla mætti „pasifískar“, kertafleytingum og friðargöngum á Þorláksmessu, án þess að hljóta gagnrýni fyrir, enda hefur það verið styrkur samtakanna að geta staðið að slíkum aðgerðum þegar það á við og beinskeyttari andheimsvaldasinnuðum aðgerðum þegar svo ber undir.
Nútímaleg friðarbarátta?
Í leiðara Dagfara er mælt með nafninu Samtök hernaðarandstæðinga, enda séu engar herstöðvar lengur í landinu. „Þannig mætti taka skref í áttina að nútímalegri friðarbaráttu.“ En hvað er nútímaleg friðarbarátta?
Á fyrstu árum þessarar aldar efldist hin alþjóðlega friðarhreyfing mjög. Um allan heim starfa fjölmörg friðarsamtök sem sum hver eru áratuga gömul, eiga jafnvel rót að rekja til fyrstu ára síðustu aldar. Í aðdraganda Íraksstríðsins, á árunum 2001 til 2003, reis upp gífurleg alþjóðleg hreyfing sem gjarnan var kölluð „hreyfingin gegn stríði“ (anti-war movement), hreyfing sem Samtök herstöðvaandstæðinga hafa verið hluti af. Þessi hreyfing var að nokkru leyti byrjuð að þróast fyrr í tengslum við innrásina í Júgóslavíu 1999 en byggðist líka talsvert á gömlu friðarhreyfingunum og alþjóðlegu réttlætishreyfingunni eða öðru nafni hreyfingunni gegn hnattvæðingu, sem varð til á seinni hluta 10. áratugarins og kringum aldamótin (sjá „Yfirlit yfir sögu nýju friðarhreyfingarinnar“. Þessi hreyfing er í ríkum mæli andheimsvaldasinnuð og upp úr henni varð til alþjóðleg hreyfing gegn erlendum herstöðvum og þá fyrst og fremst bandarískum, hreyfing sem mun halda alþjóðlega ráðstefnu í Ekvador í mars 2007 þar sem stofnuð verða Alþjóðasamtök herstöðvaandstæðinga. Þessi hreyfing hefur verið kynnt hér á Friðarvefnum (sjá https://fridur.is/nobases) og SHA hafa tilheyrt henni bæði meðan að baki þessari skammstöfun voru Samtök herstöðvaandstæðinga og eftir að þau urðu Samtök hernaðarandstæðinga af praktískum ástæðum hér innan lands.
Í hinni alþjóðlegu friðarhreyfingu fer barátta gegn kjarnorkuvopnum líka vaxandi, barátta sem Samtök herstöðvaandstæðinga hafa löngum lagt áherslu á. Þannig má segja að nútímaleg friðarbarátta sé nokkurn veginn sú barátta sem Samtök herstöðvaandstæðinga hafa alltaf háð og munu heyja áfram undir hvaða nafni sem er.
Einar Ólafsson