Öflug baráttukona fyrir friði fallin frá

Guðrún Valgerður Bóasdóttir

Guðrún Valgerður Bóasdóttir, betur þekkt sem Systa, er fallin frá 67 ára að aldri. Hún varð starfsmaður Samtaka herstöðvaandstæðinga um miðjan níunda áratuginn, á miklum umsvifatímum í sögu friðarhreyfingarinnar í miðju Köldu stríði og kjarnorkukapphlaupi stjórnveldanna. Systa tók meðal annars virkan þátt í alþjóðastarfi samtakanna og átti stærstan þátt í að SHA tóku virkan þátt í Græna netinu svokallaða í árdaga internetsins.

Baráttan gegn stríði og ofbeldi átti huga Systu alla tíð. Hún var drifkraftur í starfsemi Samstarfshóps friðarhreyfinga um áratuga skeið, sem skipulagt hafa kertafleytingar gegn kjarnorkuvopnum og friðargöngur á Þorláksmessu. Eftir að samtökin komu sér upp eigin félagsmiðstöð, Friðarhúsi, árið 2005 tók hún ástfóstri við verkefnið og á hvað stærstan þátt í þróun Friðarhúss í gegnum árin.

Samtök hernaðarandstæðinga votta fjölskyldu og vinum Guðrúnar Valgerðar Bóasdóttur innilega samúð. Hennar verður sárt saknað í friðarhreyfingunni.

Þeim sem vilja minnast hennar er bent á reikning Friðarhúss:
Kt. 600404-2530
Rn. 0130-26-002530